Franz Liszt í 200 ár

Unglingakór og félagar úr Karlakór Hreppamanna á æfingu í SelfosskirkjuLaugardaginn 22. október næstkomandi eru 200 ár liðin frá fæðingu Ungverjans Franz Liszt. Af því tilefni stendur Karlakór Hreppamanna fyrir tónleikaröð til heiðurs þessum ástsæla píanósnillingi og tónskáldi. Kórinn heldur ferna tónleika á næstu vikum og þeir fyrstu verða sannkallaðir afmælistónleikar, á afmælisdaginn sjálfan. Í kjölfarið fylgja tónleikar í Þorlákshöfn, Salnum í Kópavogi og í Selfosskirkju eins og hér segir:

Laugardaginn 22. október 2011, kl. 15.00 í félagsheimilinu á Flúðum
Mánudaginn 24. október 2011, kl. 20.00 í Ráðahúsi Ölfuss í Þorlákshöfn.
Þriðjudaginn 25. október 2011, kl. 20.00 í Salnum í Kópavogi.
Miðvikudaginn 2. nóvember 2011, kl. 20.00 í Selfosskirkju.

Það er stjórnandi Karlakórs Hreppamanna, Edit Molnár, sem hefur veg og vanda af skipulagningunni. Hún hefur verið að búa kórinn undir þennan viðburð síðastliðin tvö ár og á vortónleikum árið 2010 var eitt laga Liszts á söngskránni. Söngárið 2010-2011 bættust fimm lög í sarpinn og fjögur þeirra voru á efnisskránni síðastliðið vor. Á afmælistónleikunum framundan mun kórinn syngja sex verk eftir Liszt.

Hér eru ekki á ferðinni bara hverjir aðrir tónleikar, heldur er um tónlistarviðburð að ræða. Karlakór Hreppamanna er brautryðjandi í flutningi kórverka Liszts hér á landi og hefur frumflutt þau verk sem hér um ræðir. Edit Molnár hefur því með frumkvæði sínu brotið blað í íslenskri tónlistarsögu. Hún hefur ekki aðeins kynnt verkin og kennt kórnum að syngja þau, heldur staðið fyrir því að samin hafa verið við lögin ljóð á íslensku, eða þýskir söngtextar þýddir yfir á hið ástkæra ylhýra.

Meðal laganna sem kórinn syngur er hið þekkta einsöngslag Liebestraum, sem heitir í íslenskri þýðingu þess sem hér skrifar Ó, líf! Örlygur Benediktsson raddsetti lagið sérstaklega fyrir Karlakór Hreppamanna af þessu tilefni.

Og það er ekki bara Karlakór Hreppamanna sem kemur fram á þessum einstæðu tónleikum. Unglingakór Selfosskirkju kemur einnig við sögu, en Edit er einnig stjórnandi hans. Þá leikur annar ungverskur píanósnillingur, Miklos Dalmay eiginmaður Editar, nokkur einleiksverk, ásamt því að leika undir hjá karlakórnum.

Síðast en ekki síst mun Ágúst Ólafsson barítón syngja við undirleik Miklósar. Ágúst er án vafa einn fremsti söngvari Íslendinga um þessar mundir. Hann hefur tvisvar verið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna; í flokknum Rödd ársins árið 2009 og fyrir störf sín á árinu 2008 var hann tilnefndur sem Flytjandi ársins í sígildri/samtímatónlist. Hann hlaut Grímuna árið 2010 fyrir hlutverk sitt í Ástardrykknum í Íslensku óperunni hastið 2009. Ágúst hefur komið víða fram á ljóðatónleikum og sungið þekkt hlutverk í ýmsum óperum.

Ágúst mun syngja á tvennum tónleikum í tónleikaröðinni, í Salnum 25. október og í Selfosskirkju 2. nóvember. Hann er annars upptekinn í hlutverki sínu í Töfraflautunni, sem frumsýnd verður í Hörpu næstkomandi laugardag.

Enginn tónlistarunnandi má láta þessa tónleika framhjá sér fara. Hér er um einstakan viðburð að ræða.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *