Samræður bannaðar

Þórólfur Matthíasson vogaði sér að leggja fram opinberlega nokkrar spurningar, eftir að hafa kynnt sér ársreikninga Bændasamtaka Íslands. Þetta sýndust vera nokkuð kurteislegar spurningar og ekki óeðlilegar – jafnvel hægt að færa að því rök að þær, og svörin ef einhver bærust, skiptu máli.

En ekki mátti þetta. Upphófust nú draugar ýmsir með venjubundar svívirðingar á hendur hagfræðingnum, sem mun ekki hafa „æskilegar skoðanir“ fyrir starfsmann Háskóla íslands og ef marka má  orð t.d. helstu hugmyndafræðinga Framsóknarflokksins má búast við því að Þórólfur verði rekinn úr starfi sínu ef flokkurinn kemst aftur til valda. Nú er sökin sem sagt ekki óæskileg, úrkynjuð og óþjóðleg list heldur skoðanir. Líkur eru á því að þá fái fleiri að fjúka.

En lykilatriðið er þetta: Ekki spyrja Bændasamtökin um neitt, nema þau semji sjálf spurningarnar. Engar umræður, takk, um það hvernig Bændasamtökin fara með þá fjármuni sem skattgreiðendur láta þeim í té.

Þetta viðhorf er uppi víðar – of langt mál væri að telja það allt. Alls ekki má ræða við Evrópusambandið, alls ekki heldur um breytingar á stjórnarskránni og kvótakerfinu, svo nokkur af hinum stærri málum séu nefnd.

Og stjórnarandstaðan niðri á þingi kappkostar að koma í veg fyrir allar samræður. Þingmenn úr því liði eyða klukkustund eftir klukkustund, heilu sólarhringunum, í það að fjasa sín í milli um það að alls ekki sé nægur tími gefinn til að ræða þetta eða hitt málið, í stað þess að nýta tímann til að ræða þau skipulega og markvisst með rökum.

Getur verið að við eigum það skilið að sitja undir þessu?

Ekki spyrja um það má,
einn skal kyrja sönginn,
sannleik yrja; senn mun þá
sálar byrja þröngin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *