Skóli í fangelsum 40 ára

Í haust eru 40 ár síðan formlegt skólahald hófst í fangelsum á Íslandi. Við stofnun Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 1981 var kennsla í fangelsinu á Litlahrauni eitt af því sem fylgdi með Iðnskólanum á Selfossi inn í hina nýju stofnun. Allt frá 1970 höfðu fangar notið leiðsagnar velviljaðra á Eyrarbakka í föndri og trésmíði en þegar Helgi Gunnarsson tók við sem forstöðumaður vinnuhælisins árið 1973 fóru hjólin að snúast. Árið eftir fékk hann kennara við barnaskólann á staðnum til kennslu en hafði samt háleitari áform; að fangar gætu lokið iðnnámi, og hugsanlega öðru námi, meðan þeir afplánuðu dóma. 

Árið 1978 hófst kennsla í log- og rafsuðu sem var fljótlega færð undir iðnskólann. Þann 26. nóvember þá um haustið tók iðnskóladeildin á Litlahrauni formlega til starfa. Í kjölfarið kom ríkisvaldið að málum með samningi og ráðinn var fastur kennari í bóklegum greinum.

Fyrsta haustið, fyrir 40 árum, innrituðust 14 nemendur í iðnskóladeildina á Litlahrauni, 10 árum síðar voru þeir 20 og lengi síðan innrituðust milli 20 og 30 nemendur á önn. Eftir að námsráðgjafi tók til starfa tók aðsókn í skólann mikinn kipp og hafa frá 2010 um og yfir 60 nemendur skráð sig til náms. Á vorönn 2018 voru 89 nöfn á nemendalista kennslustjóra.

Fyrstu árin var aðstaða til skólahalds bágborin en hefur hægt og bítandi farið batnandi. Árið 1990 var tekið í notkun nýtt kennsluhúsnæði sem gerbreytti öllum aðstæðum, 1996 fékk skólinn verkstæðisaðstöðu til kennslu í málmiðngreinum og aðstöðu til íþróttakennslu í leikfimisal. Síðan hefur lítið gerst í húsnæðismálum, þó stigin hafi verið smærri skref fram á við varðandi aðbúnað, tækjakostur er fábreyttur, gamall og úr sér genginn. 

Námsárangur í fangelsum hefur eðli máls samkvæmt verið upp og ofan. Margir glíma við athyglisbrest, lestrarörðugleika, fíkn og aðrar hindranir. Flestir ljúka áföngum fyrir rest, þó það geti tekið nokkrar annir. Einnig eru dæmi um afbuðraárangur. Á 10. áratug síðustu aldar lauk nemandi t.d. 40 einingum á önn, og annar 37, þegar meðalnemandi í dagskóla lauk 13 einingum. Á síðustu önn lauk einn nemandi á Litlahrauni 45 fein. eða 9 námsáföngum, þó hann hæfi nám í febrúar og væri farinn í apríl, og annar fékk fullt hús, 10,0, í fjórum námskeiðum á framhaldsskólastigi.

Þjónusta FSu hefur ekki einskorðast við Litlahraun. Sérkennari aðstoðaði vistmenn á réttargeðdeildinni í Sogni og skólaárið 2009-2010 hófst kennsla í fangelsinu í Bitru. Eftir að réttargeðdeildin var flutt á Klepp færðist starfsemin í Bitru að Sogni og þar hefur síðan verið reglulegt skólastarf. Námsráðgjafi FSu í fangelsum hefur undanfarin ár að auki þjónustað fangelsin á Kvíabryggju og Akureyri og aðstoðað nemendur þar, m.a. við fjarnámsskráningar.

Þegar fangelsið á Hólmsheiði var tekið í notkun var ekki búið að hugsa til enda hvernig námi og kennslu yrði háttað þar. Ljóst var þó að ekki stóð til að reka þar hefðbundið skólastarf heldur bjóða upp á fjarnám. Sá böggull fylgir skammrifi að nemendur í fangelsum eiga margir erfitt með nám af ýmsum orsökum og setjast ekki svo glatt niður við tölvu og fara hjálparlaust á flug í fjarnámi. Auk þess er á Hólmsheiði kvennafangelsið, langtímavistaðar konur sem hafa sama rétt til náms og aðrir fangar.

Haustið 2016 gerðu kennslustjóri og námsráðgjafi tilraun með þjónustu við fanga á Hólmsheiði. Hvort um sig fór þangað einu sinni í viku til að aðstoða nemendur. Námsráðgjafi hefur allar götur síðan sinnt Hólmsheiði eftir efnum og ástæðum, enda þörfin brýn. Á yfirstandandi skólaári bættist sérkennari við í föstu stöðugildi og sinnir hann Litlahrauni, Sogni og Hólmsheiði. Ekki þarf að fjölyrða um þörfina fyrir þessa þjónustu. En meira þarf til.

Þó margt hafi áunnist, nám og kennsla smám saman vaxið að umfangi og fjölbreytni, fangelsum fjölgað og starfið þróast í samræmi við það, þá má fullyrða að menntun fanga og skólastarf í fangeslum er að stórum hluta til ósáinn akur. Ótal möguleikar eru enn vannýttir.

Ekki væri annað meira viðeigandi en að fagna fjörutíu ára afmæli skólahalds í íslenskum fangelsum með bættri aðstöðu og tækjakosti, auknum stöðugildum og opinberri stefnumótun, byggða á skýrri framtíðarsýn um menntun sem besta mögulega betrunarúrræðið.

Skrifað í maí 2018

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *