Spillingarsaga IV – Landssíminn  spillingarvæddur

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023).

Landssími Íslands, síðar Landssíminn, réði um miðjan 10. áratug 20. aldar yfir miklum auði og þekkingu í skjóli einokunar á símaþjónustu, m.a. ljósleiðaranetinu. Að honum sneri Eimreiðarelítan græðgisglyrnum sínum, eftir stöðugar ófarir við að koma á fót einkarekinni sjónvarpsstöð (Stöð 3), í valdafíkn sinni yfir fjölmiðlun í landinu.

Fyrsta skrefið var að h/f – væða ríkisfyrirtækið til að komast undan upplýsingalögum, opinberu aðhaldi og lýðræðislega nauðsynlegu gegnsæi.  Pósti og síma, sem réð yfir Breiðbandinu, var skipt upp og Landssíminn síðan h/f – væddur 1997. Davíð setti kosningastjóra sinn og fyrrum framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Friðrik Friðriksson, auðvitað yfir fyrirtækið. Spurður um ráðninguna sagði Friðrik efnislega að það kæmi engum við, hann væri að taka við stjórnun einkafyrirtækis. Skipti þá víst engu máli að fjármálaráðherra íslenska ríkisins færi með eina hlutabréfið. Reyndar vildi svo „heppilega“ til að sá var Friðrik Sophusson, og stuttu síðar Geir H. Haarde, sem fyrir tilviljun voru báðir í Sjálfstæðisflokknum. Þetta var einmitt ráðandi viðhorf fram að hruni (og er víst enn). H/f – uð ríkisfyrirtæki kæmu almenningi ekkert við, jafnvel þó ekki væri búið að selja þau á markaði, heldur væru að öllu leyti enn í eigu ríkisins, almennings.

Eimreiðarelítan ætlaði sem sagt að bjóða, í gegn um Breiðbandið, heimilum landsins upp á fjöldann allan af erlendum sjónvarpsstöðvum, nota einokunarríkisfyrirtækið í beina samkeppni við einkafyrirtæki sem þurftu að byggja sjálf á eigin kostnað upp sitt dreifingarkerfi, koma þeim fyrir kattarnef og sitja síðan ein að veislukostunum (sem reyndust vera peningahirslur ríkisbankanna). Segja má að þetta komi ekki á óvart því það var við Jón Ólafsson að etja, manninn sem hélt vöku fyrir Davíð Oddssyni næturnar langar árum saman, og gerir kannski enn.

Frjáls samkeppni er hér í sinni fegurstu mynd!!! Sannkallaðir hugsjónamenn á ferð!!!

Eigendur Frjálsrar fjölmiðlunar kærðu þetta umsvifalaust og málið fór fyrir Útvarpsréttarnefnd, sem hafnaði kærunni. Hverjir skyldu hafa setið í útvarpsréttarnefnd? Jú, rétt til getið lesandi góður: Næstaðal úr Eimreiðarhópnum, Kjartan Gunnarsson, var formaður og myndaði ósigrandi meirihluta í þriggja manna nefnd með Bessý Jóhannesdóttur, sem var þingmaður Sjálfstæðisflokksins um skeið (bls. 221-224).

En það var ekki nóg að hlutafélagavæða Landssímann. Stefnan var að einka(vina)væða hann, koma eina hlutabréfinu úr eigu almennings, búta það eitthvað upp, og í hendur (réttra) einstaklinga, enda fyrirtækið með yfirburðastöðu á símkerfum, gagna- og efnisveitum sem voru að taka yfir hlutverk gervihnattamiðlunar.

Nýja ríkissjónvarpið, Breiðbandið, var undir dyggri stjórn fyrnefnds Friðriks Friðrikssonar, en lenti enn í vandræðum með Jón Ólafsson sem stofnaði Tal hf. og rakaði til sín viðskiptavinum á farsímamarkaði, m.a. með slagorðinu heilaga: „frelsi“, „Tal-frelsi“, sem hefur sviðið. Því lá á að einkavæða Landssímann, ekki seinna en strax. Það gat tafist af ýmsum ástæðum, m.a. vegna landsbyggðarþingmanna sem voru með væl um jafnan aðgang allra landsmanna að neti og síma og óttuðust að einkaaðilar myndu þjónusta illa fámenn og ógróðavænleg svæði.

Nú voru góð ráð dýr, og Halldór Blöndal, samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem hafði með fjarskiptamál að gera, stofnaði nefnd! Þeir eru nefnilega alveg æstir í nefndir og nefndastörf, félagarnir í þeim flokki. Nefndin átti að skoða framtíðarfjarskipti og meðal útvalinna nefndarmanna var Eyþór nokkur Arnalds.

Þetta var vel til fundið því Eyþór var þá starfsmaður hátæknifyrirtækisins OZ, sem komst á flug skömmu fyrir aldamót, í gegnum ævintýralegt hlutabréfabrask, var kjaftað upp í hæstu hæðir með hjálp fjölmiðla, forsætisráðherrans Davíðs Oddssonar og forsetans Ólafs Ragnars. Landsbankinn og fleiri ríkisfyrirtæki keyptu hlutabréf fyrir háar fjárhæðir í OZ, sem engin innistæða var fyrir, fyrirtækið fór aldrei á alþjóðlegan hlutabréfamarkað eins og logið var að þjóðinni að gerast myndi, ef ekki í gær þá í dag. OZ hrundi á hausinn 2003 og skildi eftir sig stórtjón m.a. í Landsbankanum, sem afskrifaði allt saman. Formaður bankaráðs Landsbankans, sem stjórnaði fjárfestingum banka í eigu almennings, hver var hann eiginlega? Jú, rétt til getið, lesandi góður: Næstaðal í Eimreiðarhópnum, Kjartan Gunnarsson.

Þrátt fyrir allt þetta skipbrot OZ gat eigandinn, Skúli Mogensen, haldið eftir fyrirtækjum í útlöndum, sem hann seldi svo seinna með miklum gróða, keypti fyrir hagnaðinn m.a. hlut í banka á Íslandi, MP banka Margeirs Péturssonar elítumeðlims, og stofnaði WOW Air „til að sigra heiminn – aftur“ (259). Allir vita hvernig það ævintýri endaði.

En þetta var útúrdúr. Eyþór Arnalds, innanbúðarmaður í OZ, hátæknifyrirtækis á einkamarkaði, var sem sagt settur í nefnd til að skoða framtíðarfjarskipti, og gera úttekt á Landssímanum fyrir einkavæðingu. Stjórnvöld skipuðu sem sagt innanbúðarmenn einkafyrirtækja í hátæknigeiranum í nefnd til að rannsaka innviði ríkisfyrirtækis á sama markaði áður en það var einkavætt! Einhverjum gæti dottið í hug að þar yrðu til innherjaupplýsingar. En slíkar hugrenningar væru auðvitað bara öfund í garð snillinga.

Hvað gerðist enda í framhaldinu? Jú, rétt til getið, lesandi góður: Eyþór Arnalds stofnaði með félögum sínum símafyrirtækið Íslandssíma. Það var mikil tilviljun að fyrirtækið var stofnað mánuði áður en skýrsla Eyþórs og félaga í rannsóknarnefndinni á Landssímanum átti að birtast. Eyþór vísaði aðspurður hagsmunaárekstrum á bug, enda myndi hann alls ekki starfa hjá nýja fyrirtækinu. Hann var að vísu orðinn forstjóri Íslandssíma skömmu síðar, en það flokkast víst ekki undir að starfa hjá fyrirtæki að vera forstjóri þess, heldur að vera í forstjóraleik.

Um miðjan 2. áratug líðandi aldar var Eyþór svo orðinn formaður stjórnar Þjóðleikhússins, stofnunar sem Eimreiðarelítan vildi ráða yfir í sínu „menningarstríði“, og 2017 formaður starfshóps um ítarlega rannsókn á innri starfsemi RÚV „og tók þá svipaðan snúning; fór og keypti vænan hluta af hlutabréfum í útgáfufélagi Morgunblaðsins sem einmitt stóð í sjónvarps- og útvarpsþáttagerð í samkeppni við RÚV, allt með undarlegu eyjafléttuláni frá stórútgerðarfélaginu Samherja“ (268). Láni sem var svo afskrifað stuttu áður en Eyþór var dubbaður upp í borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins. En þetta er nú „framtíðarmúsík“. Við erum enn stödd við árþúsundamótin.

Haustið 1999 fór Íslandssími formlega í loftið með því að Davíð Oddsson hringdi í félaga sinn í flokknum, Sturlu Böðvarsson, samgönguráðherra. En fyrirtækið var í basli og Orkuveita Reykjavíkur var látin fjármagna ljósleiðaravæðingu í borginni í samkeppni við Landssímann. Tvö fyrirtæki í almannaeigu látin bítast um sama bitann og sóa óhemju af opinberu fé, til þess að einkavinir gætu leikið sér í fyrirtækjarekstri og reynt að efla völd elítunnar á fjarskiptamarkaði. Undirfyrirtæki Íslandssíma, t.d. strik.is, voru í stórvandræðum og fóru á hausinn í stórum gjaldþrotum. Skjár einn var látinn taka á sig hluta af tapinu, annað kom beint úr ríkisbönkunum, m.a. í gegn um samstarfssamning sem gerður var við Landsbankann, sem var þar með orðinn næstum því fjórðungshlutseigandi í Íslandssíma. Búnaðarbankinn átti líka stóran hlut.

Landsbankasamningurinn gerði ráð fyrir margföldu raunverulegu virði Íslandssíma, eins árs gömlu símafyrirtæki sem var ekki enn farið að reka farsímaþjónustu. Íslandssími var þannig í raun gerður að ríkisfyrirtæki bak við tjöldin. Alþingi kom það víst ekkert við. Fjárþörf og rekstraráhætta Íslandssíma var færð yfir á skattborgarana, sem voru auðvitað ekki spurðir um álit á gjörningnum.

„Hlutabréfaútgáfa Íslandssíma snemmsumars 2001 var sú illræmdasta á síðari tímum. Umsjónaraðilar hlutabréfaútgáfu á opinberum hlutabréfamarkaði eiga ekki að vera  stórir hluthafar í viðkomandi fyrirtæki en voru það samt (og eru enn, sbr. einkavæðingu Íslandsbanka 2022), aðstöðumisnotkun og hagsmunaárekstrar voru frekar reglan en undantekningin á valdatíma Eimreiðarelítunnar“ (273).

Það fór því eins og auðvitað var, alveg eins og í OZ hrundu hlutabréf í Íslandssíma eins og spilaborg um leið og þau fóru á markað og viðskipti með þau hófust, enda virðið falsað stórkostlega með fjölmiðlakjaftæði, óheftu fjárstreymi úr Lands- og Búnaðarbönkum, hlutabréfakaupum, lánum á sérkjörum og ómældum þjónustukaupum.

„Í Landsbankanum sat Kjartan Gunnarsson og í Búnaðarbankanum Magnús Gunnarsson“ og saman áttu bankarnir tveir a.m.k. ríflega 30% í Íslandssíma. „Hin margboðaða frjálsa samkeppni á nýja hátæknimarkaðnum reyndist öll á vegum ríkisins, sem keppti við sjálft sig í boði Eimreiðarelítunnar“ (274) í tveimur fyrirtækjum, Landssímanum og Íslandssíma. Báðum auðvitað stjórnað af elítunni.

Það má segja að hin margumtalaða „góða meðferð á fé annarra“ sem hrýtur af munni Sjálfstæðismanna í tíma og ótíma eigi alla vega örugglega ekki við þá sjálfa. Hins vegar má taka undir það með Sjálfstæðismönnum að ríkisrekstur sé til mikillar bölvunar, sé hann í  höndum flokkselítunnar, því þar er sannarlega fólk sem hvorki vill né kann að fara vel með annarra fé, almannafé.

Í ljósi sögunnar af OZ, Landssímanum og Íslandssíma er skiljanlegt að Sjálfstæðismenn í Árborg hafi kallað til sín Eyþór Arnalds til að setjast yfir sjóði sveitarfélagsins. Þeir munu ekki hafa haft yfir að ráða neinum öðrum sem átti sér jafn litríka sögu í því að „fara vel með annarra fé“.

Sagan af spillingunni á fjölmiðla- og hátæknimarkaðnum er bæði löng og flókin, sannarlega ógeðsleg. Hér hefur einungis verið tæpt á nokkrum atriðum og eru lesendur þessara lína hvattir til að kynna sér málið nánar með því að lesa bók Þorvaldar.

Í næsta pistli, og þeim síðasta, verður reynt að ná utan um einkavæðingu ríkisbankanna, helmingaskiptaspillingu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins með Landsbankann og Búnaðarbankann.

Sú saga er engin vögguvísa.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *