Spillingarsaga V – Landssímasukkið hið síðara

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023: bls. 299-307).

Elítan í Sjálfstæðisflokknum gjörnýtti sannarlega ríkisfyrirtækið Landssímann til óhæfuverka á markaði. Segja má að frjálshyggjupostularnir hafi ríkisvætt hátæknigeirann og sukkað gróflega með opinbert fé til að koma einkafyrirtæki fyrir kattarnef og hindra samkeppni. Fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar var samið og lagt fram til að drepa Norðurljós og Stöð 2, enda í „óæskilegri eigu“. Þegar sú vegferð (sem væri fullt tilefni til að rekja hér, en einhvers staðar verður að setja mörkin) fór út um þúfur þurfti Davíð að beita öðrum meðulum en löggjafarvaldinu til að drepa samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Elítan hafði fulla stjórn á ríkismiðlunum og nú var Landssímanum beitt eins og hverju öðru stríðstóli gegn hinu voðalega fyrirbæri: „Frjálsri samkeppni“.

Elítan lét ríkisbankana fjármagna Íslandssíma í samkeppni við Landssímann. Á sama tíma var Landssíminn látinn fara hamförum á fjarskiptamarkaði með uppkaupum á fyrirtækjum. Elítan var á öllum póstum, bæði í Íslandssíma og Landssímanum, Páll Kr. Pálsson í Íslandssíma og Þórarinn V. Þórarinsson, fv. forkólfur í samtökum atvinnurekenda (sem klíkan var vel að merkja með fulla stjórn á líka) forstjóri Landssímans um þessar mundir.

Þá kemur aftur til sögunnar sjónvarpsfyrirtækið Skjár einn, sem naut vaxandi vinsælda með „ferskri, íslenskri dagskrárgerð og opinni dagskrá“. Meðal annars var á dagskránni vinsælasti umræðuþátturinn í íslensku sjónvarpi þau misserin, Silfur Egils. Þessar vinsældir og vöxtur fullnægði samt ekki valdaþörf elítunnar, sem vildi allsherjaryfirráð, og byrjaði á því að reka Egil Helgason, sem hefur væntanlega ekki verið nógu talhlýðinn „leigupenni“ fyrir smekk elítunnar.

Á yfirborðinu fóru með Skjá einn ungir sjálfstæðismenn í Kópavogi, Árni Þór Vigfússon og bræðurnir Kristján Ra og Sveinbjörn Kristjánssynir. Enginn utanaðkomandi botnaði í hvaðan þetta sjónvarpsfélag sótti peninga til að standa undir dýrri íslenskri dagskrárgerð.

Síðar (2005), þegar þeir félagar voru dæmdir fyrir stórfelld skattsvik, kom í ljós „hvernig viðskiptanet ungu mannanna úr Kópavogi var samofið viðskiptum Eyþórs Arnalds og aðilum í innsta hring Sjálfstæðisflokksins. Eyþór var stjórnarmaður og viðskiptafélagi dæmdu mannanna í fjölmörgum fyrirtækjum þangað sem vafasamt fé streymdi inn“ (301), og hafði m.a. komið að kaupum á Skjá einum strax árið 1999.

En sem sagt: Hvaðan komu peningarnir sem héldu Skjá einum á floti?

Auðvitað úr vasa einstaklinga úti í bæ, sem notuðu eigin peninga og áhættu til að stunda heiðarleg viðskipti á frjálsum markaði, eins og frjálshyggjufólk er óþreytandi að lýsa hugsjónum sínum?

Nei, hárrétt hjá þér, lesandi góður. Þetta var illa fengið fé, skafið innan úr fyrirtæki í opinberri eigu, peningar í eigu almennings, sem voru hér misnotaðir í þágu elítubræðra, eins og fyrri daginn – og hinn síðari líka. Og, rétt til getið aftur, úr Landssímanum, þar sem aðalgjaldkerinn reyndist bróðir forsvarsmanns Skjás eins og hafði með fölsun bókhaldsins borað aðrennslisgöng fyrir peninga, hundruð milljóna árum saman, inn í Skjá einn, út úr Landssímanum.

Þessi svikamál (bókhaldssvik og skattsvik) voru fyrir dómstólum 2004 og 2005, og það var ekki fyrr en að þeim loknum sem Eyþór færði sig opinberlega yfir í pólitík, tók við sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Árborg fyrir kosningar 2006 (bls. 300-301).

Spillingarsagan fram að Hruni einkennist af yfirráðum fámennrar klíku yfir fjármunum annarra. „Nokkrir aðaleigenda Skjás eins sem einnig tengdust Japis, Íslandsneti, Íslandssíma og fleiri fyrirtækjum voru samábyrgir fyrir viðtöku stolins fjár úr Landssímanum, hvort sem þeir stóðu fyrir fjárdrættinum eða ekki“ (301) og á sama hátt samábyrgir fyrir stuldi úr ríkissjóði með skattsvikum, að sækja stórfé gegnum vafasöm hlutafjárútboð í OZ og Íslandssíma og að sjúga fé út úr ríkisbönkunum, með stórundarlegum samningum og viðskiptavild (eins og rakið var í fyrri pistlum).

„Til að skilja framhaldið í öllum þessum pólitíska ósóma þurfa lesendur að átta sig á að aðalviðskiptavinur Íslandssíma og Skjás eins var Landssími Íslands! Síminn átti grunnnetið, aðaldreifikerfið og seldi báðum aðilum aðgang og þjónustu sem var stór hluti af rekstrarkostnaði fyrirtækjanna. Skjár einn lifði því ekki aðeins á stolnu fé frá Landssímanum, fölskum reikningum og óleyfilega keyptum víxlum. Hann lifði á viðskiptavild Landssímans, frestun á greiðslu reikninga, afsláttum og fyrirgreiðslu og samt var Skár einn í stöðugum og viðvarandi fjármagnsvandræðum“ (301-302).

Eimreiðarelítan var samt ekkert af baki dottin. Mjólkurkýr og gullgæs Stöðvar 2 var enski boltinn, en sýningarrétturinn var boðinn út reglulega. Klíkan á bak við Skjá einn stofnaði félag, kallað „Fjörnir“, sem yfirbauð Stöð 2 og hreppti hnossið. Í fyrstu var það háleynilegt hverjir voru þar að baki en síðar kom í ljós að meðal „fjárfestanna“ var enginn annar en Björgólfur Guðmundsson, sem var sannarlega upp risinn eftir Hafskipshneykslið og fangelsisdóm, eftir áfengisævintýri og bjórverksmiðjurekstur í Rússlandi, og þeir feðgar orðnir moldríkir, sonurinn ríkasti maður Íslands og þó víðar væri leitað (það setti lítinn sem engan blett á „gamla“ hér heima að tapa réttindamáli sem samverkamaður í bjórævintýrinu höfðaði, peningarnir og ríkidæmið heillaði landann meira). Björgólfur eldri var þegar hér er komið sögu búinn að koma sér aftur í mjúkinn hjá Eimreiðarelítunni með því að endurreisa Almenna bókafélagið, sem hafði farið á hausinn í höndum Óla Björns Kárasonar nokkru áður, undir nafninu „Nýja bókafélagið“, sem m.a. dældi út áróðursritum fyrir klíkuna, t.d. eftir Hannes Hólmstein, Björn Bjarnason og Ólaf Teit.

Það er lýsandi fyrir óskammfeilni elítunnar að endurvinna nafnið „Fjörnir“, en það var einmitt nafnið á skólablaði Eimreiðarelítunnar sem Kjartan Gunnarsson gaf út í MR á sínum tíma, og birti m.a. umdeilda grein Geirs H. Haarde um „svarta kynþáttinn“ (302). En hvað um það, Davíð, Kjartan Gunnarsson og Brynjólfur Bjarnason keyptu sem sagt ekki enska boltann í eigin nafni, heldur settu Fjörni á svið til hátíðabrigða og til að búa í leiðinni til ágóða fyrir klíkuna.

Og nú hittir þú enn naglann á höfuðið, lesandi góður: „Kaup Landssímans á Fjörni voru tilkynnt 3. september 2004“ (302) og stuttu síðar var Landssíminn búinn að kaupa ráðandi hlut í Skjá einum. Engar upplýsingar voru gefnar um viðskiptin – Landssíminn var jú hlutafélag og undanþeginn upplýsingalögum. Forstjórinn, Brynjólfur Bjarnason, taldi sér á engan hátt skylt að upplýsa um kaupverð, þrátt fyrir að ríkið ætti 98% hlut í Landssímanum, og handhafi þessa hlutabréfs ríkisins, Geir H. Haarde fjármálaráðherra, taldi að honum bæri engin skylda til að afla þeirra upplýsinga, enda væri þetta hlutafélag. Aðspurður um það hvort hann, sem 98% eigandi hlutafjár, gæti ekki boðað til hluthafafundar til að afla upplýsinga um kaupin, svaraði Geir að Símanum væri ekki heimilt að veita honum upplýsingar umfram aðra hluthafa (305). Hvort var Landssíminn ríkisfyrirtæki eða hlutafélag? Eða hvorugt?

Öllum var auðvitað ljóst að tilgangurinn með þessum snúningum á Landssímanum var pólitísk herför frjálshyggjupostula Eimreiðarelítunnar gegn Norðurljósum og Stöð 2 og meðalið var gerræðisleg „ríkisvæðing“ gegn hinum „frjálsum markaði“.

„Sjónvarpsstöð fjölmiðlaklíku Sjálfstæðisflokksins, Skjár einn, sem áður lifði á stolnu fé frá ríkisfyrirtækinu Landssímanum var keypt af Landssímanum í leynimakki og með yfirhylmingu fjármálaráðherra“ (306), sem er ekta dæmisaga um „að fara vel með fé annarra“, ekki satt?

Hvað um það. Með þessum gjörningi voru öll prinsipp (ef prinsipp skyldi kalla) fjölmiðlafrumvarps Davíðs Oddssonar hrunin til grunna. Takmarkað eignarhald fyrirtækja á fjölmiðlamarkaði var krafan sem sett var fram í frumvarpinu, auðvitað beinlínis til höfuðs Norðurljósum, en ef Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar stjórnaði ráðandi fyrirtækjunum á sama markaði var takmarkað eignarhald ástæðulaust með öllu. Það sér hver maður. Þetta er sem sagt ógeðslegt þjóðfélag, engin prinsipp, engar hugsjónir …

Þegar þessi flétta var um garð gengin, Skjárinn orðinn hluti af Símanum, var þess ekki lengi að bíða að tilgangurinn kæmi í ljós: Brynjólfur Bjarnason og Orri Hauksson ýttu á flot nýjum pólitískum umræðuþætti, sem beint var gegn Silfri Egils, og þáttarstjórnendurnir auðvitað úr réttu klíkunni: Illugi Gunnarsson og Ólafur Teitur Guðnason.

Það sem er þó „skemmtilegast“ fyrir okkur nú á dögum að vita er að Katrín nokkur Jakobsdóttir var meðstjórnandi þáttarins, til að „ljá þáttunum yfirbragð hlutleysis“ (307).

Katrín, núverandi forsætisráðherra, var sem sagt strax árið 2005 „komin í bland við tröllin“ og farin að láta Eimreiðarelítuna nota sig til að ljá elítuspillingunni yfirbragð heiðarleika og hlutleysis, hlutverk sem hún hefur síðan látið nota sig í eins og gólftusku.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *