Þetta er allt á uppleið

Fyrir 15 mánuðum skrifaði ég pistil hér á síðuna um brunaútsölu á húsnæðisskuldum íslenskra heimila úr gömlu, föllnu bönkunum til þeirra „nýju“ – auðvitað útsölu „án auglýsingar“ enda slík skuldakjör ekki fyrir meðalflónin, heldur einungis alvöru stórskuldara, eins og dæmin hafa sannað æ síðan.

Í pistlinum rakti ég hvernig efnahagsstefna og pólitík Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, á tveggja áratuga samfelldri valdatíð fyrir hrun, færði húsnæðisskuld okkar hjóna upp um heil 40% á einni nóttu, án þess að við getum með nokkrum rétti eignað okkur neinn hlut í þeirri hækkun, því miður.

Skuldin á litla raðhúsinu okkar hækkaði sem sagt úr 18,4 milljónum í 25,3 milljónir og um leið minnkaði eignarhluturinn úr 25% og niður fyrir núll. Nýi bankinn fékk 25,3 milljóna skuldina okkar á hálfvirði en rukkar okkur auðvitað um hverja krónu. Það er ekki afskrifað nema hjá alvöru stórskuldurum og þeim sem sannanlega eru farnir á hausinn.

Og hvað hefur gerst á þessum 15 mánuðum sem liðnir eru frá því ég skrifaði þennan pistil, með nokkuð súrt bragð í munni.

Ríkisstjórnin og talsmenn hennar þreytast ekki á því að tilkynna okkur veslingunum sem þó borgum skatta og skyldur með rentum mánaðarlega að nú sé allt á uppleið í þjóðfélaginu. Best ég fari nú aftur í heimabankann minn og tékki á stöðunni.

Hún er í stuttu máli sú að upphaflegu 18,4 milljóna lánin frá 2005 sem höfðu endurfæðst eftir hrun í 25,3 milljónum standa nú í 26.823.209 krónum, þar af rúmlega 970 þúsund á svokölluðum jöfnunarreikningi vegna „greiðsludreifingar“ sem við urðum náðarsamlegast að þiggja svo mánaðarlaunin dygðu fyrir húsnæðisskuldunum. Vel að merkja: þarna eru lifandi komin úrræðin við „skuldavanda heimilanna“.

Á 15 mánuðum hafa húsnæðisskuldir heimilisins því hækkað um 1,5 milljónir, þrátt fyrir að borgað hafi verið samviskusamlega samkvæmt útreikningi bankans, nú síðast mánaðargreiðsla upp á kr. 165.342,-. Á 15 mánuðum gerir það kr. 2.480.130 krónur.

Við erum sem sagt búin að borga tæpar 2,5 milljónir síðustu 15 mánuðina til að hækka húsnæðislánið okkar um 1,5 milljónir. Það eina sem ég skil ekki í þessum reikningum er hvað varð um þessa u.þ.b. einu milljón sem upp á vantar? Sem sagt: Ef ég borga 2,5 milljónir inn á lánið mitt – hvers vegna hækkar það þá ekki um sömu upphæð?

Það er víst algengur misskilningur víða í útlöndum að þegar menn borga af skuldum þá eigi þær að lækka. En þetta vita flestir venjulegir Íslendingar að er helber blekking. Því meira sem þú borgar, því meira skuldar þú. Það eru ekki nema örfáir eðalmálmar frá eyjunni fögru, sem eru hagvanir í útlöndum, sem vita að skuldir er einfalt að láta hverfa með hókus-pókus trixum.

En boðskapur stjórnvalda er sem sagt hárréttur – þetta er allt á uppleið. Og af þessu litla dæmi úr heimabankanum mínum, þar sem heilli milljón króna munar á innborgun minni og hækkun lánsins, bankanum í óhag, má glöggt sjá að heilmiklir fjármunir, sem vel gætu nýst til enn frekari hækkana, fara í raun forgörðum.

Ríkisstjórnin getur því gert mun betur.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *