Laus við allt stress

Það eru liðnir rúmir þrír mánuðir síðan ég skrifaði síðast pistil hér á síðuna.  Ekki svo að skilja að nokkur maður sakni þess, en ástæðurnar fyrir þessari löngu „þögn“ eru nokkrar. Í fyrsta lagi hefur verið afar mikið að gera. Vinnan vill þvælast fyrir manni, fram á kvöld og um helgar líka. Svo er nóg að gera í tamningunum. Karlakórinn, Árgali. Að ekki sé talað um alla körfuboltaleikina sem bæði er ljúft og skylt er að sækja.

Ég er búinn að skrifa svo mikið um mennta- og skólamál að ég nenni því ekki lengur, í bili a.m.k. Í annríkinu kemur svo andinn ekki almennilega yfir mann – alla vega lætur ekkert birtingarhæft á sér kræla.

Og pólitíkin, maður lifandi! Hún er með slíkum endemum að þyrmir alveg yfir mann. Best að hafa ekki orð um það meir.

Nú berast af því fréttir að Smugan sé að lokast. Þá er kannski best að geyspa einhverju frá sér, með golunni?

Það bar helst til tíðinda að við hjónin brugðum okkur í bústað í eigu stéttarfélagsins um liðna helgi.

Sælt er að leigja sumarhús,
saman þar má rækta
urtir fagrar í andans krús,
ást af brunni nægta.

Það er ágætt að hverfa af hversdagssviðinu, þó ekki sé nema í tvo daga,  stutt að fara upp í Hrunamannahrepp, svo ekki þarf að hafa áhyggjur af ferðaþreytu, sem gjarnan situr eftir þegar lengra er farið, að ekki sé talað um til útlanda í stuttum fríum. Og einn er meginkostur við Hreppana:

Frá vinnu gefst í Hreppum hlé,
hvíldar njóta skal.
Þar öllu bjargar að ég sé
upp í Laugardal.

Það má svo sem líka viðurkenna að víðar er fallegt heim að líta en í Laugardalinn. Reyndar er gjörvallur fjallahringur uppsveitanna óborganlegur. Ekki síst úr heita pottinum á heiðskíru vetrarkveldi. Þegar upp úr er komið er skrokkurinn líka alslakur:

Sæll ég niðr’ í sófann féll,
sá þá út um gluggann
að blasti við mér Bjarnarfell:
Breiddi sæng á muggan.

Í slíkum ferðum gerir maður sér dagamun í mat og drykk. Að þessu sinni var hvergi til sparað og hrossasteik í farangrinum, ásamt góðum veigum:

Bjór og hvítvín á kantinum.
Kjötið bráðnar í trantinum.
Laus við allt stress
vöknum við hress.
Svo funar kaffið í fantinum.

Þetta reyndist unaðsleg helgi. Og það besta við hana var að geta í bili látið fram hjá sér fara mestallt sigmundarlodderíið. Nóg verður víst samt á næstunni.

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *