Tímamót

Eftir langan tíma, sennilega of langan, hef ég ákveðið að hætta sem formaður Körfuknattleiksfélags Selfoss og segja mig frá ábyrgðarstörfum fyrir félagið. Þetta hef ég nýverið tilkynnt félagsmönnum. Ég hef nú verið formaður þess undanfarin 8 ár, samfellt frá 2015, og virkur þátttakandi „ofan, neðan og allt um kring“ frá stofnun þess árið 2005.

En þessi saga teygir sig lengra aftur í tímann, til ársins 1993 þegar ég kom á Selfoss sem nýráðinn þjálfari hjá Körfuknattleiksdeild Umf. Selfoss. Fáum árum seinna tók ég við sem formaður deildarinnar, og gegndi því embætti, jafnframt þjálfun m.fl. og yngri flokka, til 2002, þegar bæjarstjórn Árborgar og sveitarstjórnarpólitíkin kom til.

Þetta eru því orðin 30 ár. Heil þrjátíu ár, eða hálf ævin, sem ég hef lagt líf og sál í uppbyggingu körfubolta á Selfossi. Og þrettán ár helgaðar íþróttinni má telja til viðbótar, allt frá 1980, þegar ég fór að heiman til náms í Reykjavík og byrjaði að æfa og spila með Val í úrvalsdeild, síðan ÍR, Reyni Sandgerði sem spilandi þjálfari, og loks Keflavík, áður en meiðsli enduðu ferilinn í efstu deild og landsliðinu árið 1987.

Við tók þjálfun Laugdæla í 1. deild og síðan Selfoss 1993, sem þá var í 2. deild, en fór upp í 1. deild vorið 1994 og þar hefur karlalið Selfoss verið síðan, að þremur árum undanskildum, þegar félagið lék í Úrvalsdeild, 2008-2010 og aftur 2015-2016.

Grunnurinn var auðvitað lagður mun fyrr, við barnsaldur, þegar körfubolti var „þjóðaríþrótt“ á Laugarvatni og margar ógleymanlegar stundir lifa í minninu úr gamla íþróttasalnum heima við Héraðsskólann, og úr félagsheimilum vítt og breitt um Suðurland, fyrst að fylgjast með eldri bræðrum mínum í liði UMFL og HSK og síðan sem virkur þátttakandi í skólaliðum Héraðsskólans og Menntaskólans, og liði UMFL í HSK-mótinu. Við fengum, nokkrir guttar á fermingaraldri, að stofna C-lið Umf. Laugdæla til að geta verið með í HSK mótinu, sem var mikið ævintýri, og síðan lá leiðin framar í stafrófið.

Sko, þetta átti nú ekki að verða ævisaga! Körfubolti er hins vegar svo fyrirferðarmikill að hann fléttast við líf mitt allar götur frá því ég man eftir mér.

En hvað hefur þá áunnist? „Hvað hefur orðið okkar starf í sexhundruð sumur? Höfum við gengið til góðs ….“?

Auðvitað er allt fólkið efst á blaði. Óteljandi vinir og kunningjar um allt land, þjálfarar, leikmenn, stjórnarfólk, sjálfboðaliðar, dómarar, og síðast en ekki síst velviljaðir forsvarsmenn fyrirtækja.

Það hefur verið meira en að segja það að koma körfubolta, „móður allra íþrótta“, á legg á Selfossi. Það hefur lengst af verið harðdrægt verkefni, í knattspyrnu- og handboltabæ, að ætla sér eitthvað með körfuboltalið, annað en að gutla að gamni sínu frá 21.30-23.00 tvisvar í viku, eins og úthlutaðir æfingatímar í íþróttahúsi bæjarins voru fyrstu árin. Það eru ósambærilegar aðstæður við bæjarfélög þar sem körfubolti er aðal boltagreinin innanhúss, eða jafnvel sú eina marktæka.

Það hjálpaði okkur að á 10. áratug 20. aldar reið yfir heiminn „Jordan-æði“, og smitaði meira að segja nokkra krakka á Selfossi, sem voru upphafið að skipulögðu yngriflokkastarfi með reglulegri þátttöku á opinberum mótum körfuboltasambandsins. „Fyrsta bylgjan“ reis hæst með tveimur Íslandsmeistaratitlum 1985 árgangsins, í 7. flokki drengja árið 1998 og 10. flokki drengja árið 2001, og nokkrum leikmönnum sem voru valdir í yngri landslið og spiluðu landsleiki. Bæði ´84 og ´85 árgangarnir spiluðu á efsta stigi, í A-riðli Íslandsmóts yngri flokka, og ungir menn af Jordan-kynslóðinni, fæddir á árunum kringum 1980, urðu kjarninn í meistaraflokksliðinu. Sá sem náði lengst af þeim var Marvin Valdimarsson sem átti langan og glæsilegan feril í efstu deild, fyrst með Hamri og síðar Stjörnunni. Fleiri mætti nefna, sem glatt hafa félagsmenn með frammistöðu sinni í Iðu og Gjánni, og gert sig gildandi í deildakeppninni hérlendis, en það verður ekki gert hér.

Árið 2005 urðu umskipti í sögu körfuboltans á Selfossi þegar Brynjar Karl Sigurðsson stofnaði körfuboltaakademíu við Fjölbrautaskólann. Umskiptin urðu fyrst og fremst á afrekssviði, og höfðu ekki bara áhrif á körfubolta, heldur umbyltu algerlega öllu afreksstarfi og -hugsun í íþróttahreyfingunni á Selfossi. Stofnað var nýtt íþróttafélag, körfuknattleiksfélag utan ungmennafélagsins, og hefur sú skipan haldist síðan: Körfuknattleiksfélag Selfoss blómstrar sjálfstætt og óháð.

Megináherslan í nýja félaginu, sem fyrstu árin var kennt við FSu, var á akademíuna og afreksstarf, sem var mikilvægt og nauðsynlegt, en minni áhersla var á barna- og unglingastarfið. Því trosnaði þráðurinn á tímabili og félagið saup seyðið af því, þegar leikmenn sem tóku sín fyrstu skref fyrir og upp úr aldamótum fóru smám saman að draga sig í hlé, en engir komu í staðinn.

Síðasta áratuginn eða svo hefur þessu verið kippt í liðinn og nú er mjög stór hópur afar efnilegra leikmanna úr „annarri bylgjunni“ að tínast inn í meistaraflokksliðið, að stærstum hluta f. 2006, „strákarnir hans Kalla“, og óslitinn þráður þaðan niður í leikskólaaldur. Úr þessum hópi hafa bæst við nokkrir landsliðsmenn yngri landsliða, leikmenn aldir upp hjá félaginu.

Félagið stendur því styrkum fótum, bíður eins og efnilegt tryppi að „grípa gangsins flug“. Innra starfið er að stórum hluta komið í fastar og traustar skorður, reksturinn er í jafnvægi réttum megin við núllið, yngriflokkastarfið, mikilvægasta auðlindin, er í öruggum höndum öflugs barna- og unglingaráðs og vel mannaðs þjálfarateymis, akademían aldrei verið eftirsóttari. Góður grunnur hefur verið lagður sem gefur fyrirheit um glæsta framtíð, ef rétt er á spilunum haldið.

Næstu skref eru að styrkja umgjörð um meistaraflokkslið karla og að stofna kvennaráð til að undirbúa og byggja upp kvennalið hjá félaginu. Of fáar stúlkur á unglingsaldri eru virkar en vaxandi fjöldi áhugasamra stelpna í minnibolta sem eru efnilegar íþróttakonur og nauðsynlegt að halda vel utan um þær.

Við þessar aðstæður finnst mér tímabært og rétt að stíga frá borði. Enginn er eilífur í sjálfboðaliðastarfi af þessu tagi, getur ekki verið það og á ekki að vera það. Ég treysti því að nýtt fólk með nýjar áherslur taki við og lyfti félaginu upp á næsta stall (annars er mér að mæta!!!).

Öllum sem blásið hafa í seglin undanfarin 30 ár þakka ég af heilum hug fyrir stuðninginn og samstarfið. Ekki síst fyrirtækjum sem lagt hafa til, sveitarfélaginu og fjölbrautaskólanum. Að ekki sé minnst á konu mína og fjölskyldu, sem hafa þurft að búa við það í 40 ár að skipuleggja frí og viðburði út frá leikjadagskrá og æfingaplani.

Síðasta embættisverkið bíður handan við hornið, að slíta aðalfundi þann 29. mars næstkomandi.

ÁFRAM SELFOSS-KARFA!!!

Takk fyrir mig.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *