Úr dagbókinni 2009

Árið er 2009. Margar af eftirfarandi vísum eru ortar á póstlistann Leir. Þær eru gjarnan viðbrögð við orðum eða yrkingum fólks í þeim lokaða hópi. Það sem tengist nafngreindum einstaklingum er einhver kerskni, alltaf saklaus og iðulega írónísk, þannig að þar sem fast er kveðið að orði hefur tilefnið gefið færi, og því meiri er velþóknunin á tilefninu og höfundinum. Önnur lögmál gætu gilt um tilefni af opinberum vettvangi. Safnið telur 178 vísur.

24.01.09

Gussi á Melum, félagi í Karlakór Hreppamanna, varð fimmtugur og hélt stórveislu í Félagsheimili Hrunamanna í kvöld. Kórinn söng nokkur lög við það tækifæri og ég flutti afmælisbarninu eftirfarandi vísur milli laga:

Stofnfélagi‘ í karlakór.

Ef kallað, strax er þotinn.

Gaular 2. graðtenór

gjarnan handleggsbrotinn.

 

Í heyskapnum Hreppasauðum

hjálpar, og fleirum í nauðum.

Hans tungu vel mælist.

Hún fyrir samt þvælist

ef þefar af „karlakórsrauðum“.

 

Þó hjálpa vilji, alltaf eigi svar,

á hann líka stundum til að gleyma

og vinir þeir sem þegið hafa far

þurfa oft að sitja eftir heima.

 

Dæmalaus dugnaðarjálkur

drífur af stað letiálkur.

Friðsemdarmaður,

fyndinn og glaður,

en bölvaður hrakfallabálkur.

 

Hokin standa stefnumið

er stuðið tekur völdin,

svo glaðir allir gerðumst við

Guðjón, bak við tjöldin.

 

26.01.09

Pétur Stefánsson orti snjöll sléttubönd á Leir. Ég svaraði með refhverfum sléttuböndum, svona:

Kætir vífið, fráleitt fer

fullur gamli Pétur.

Bætir lífið, ekki er

óður saminn betur!

 

Pétur sagði þá: „Þakka þér fyrir hugljúfa vísu Gylfi:) Ég má til að yrkja eitthvað fallegt til þín líka“, og gerði það svikalaust. Ég sendi þetta til baka: „Sæll, Pétur, og þið hin. Þetta eru ágætar formæfingar. Verð þó að senda bragarbót, fyrir grínið og öfugmælin fyrr í dag, enda var þar ómaklega vegið að okkar besta hagyrðingi og kvennaljóma.“

Pétur okkar fremstur fer,

fínar kokkar vísur.

Getur lokkað heilan her,

halur strokkar skvísur.

 

08.02.09

Það er alltaf jafn gaman að fá afabörnin í heimsókn. Þar sem dótturdæturnar sátu við borðstofuborðið hjá okkur í morgun, önnur að lita en hin að reikna heimadæmin, urðu til þessar vísur:

Lítil stúlka, ljúf og sæt,

litar, raular, spjallar.

Sóley, hún er ljós sem læt

loga stundir allar.

 

Dugleg reiknar dæmin sín,

drottning okkar vona.

Jasmín, sól er skærast skín

og skörungs hestakona.

 

21.02.09

Karlakór Hreppamanna hélt söngskemmtun í kvöld að Flúðum, og bauð til sín Karlakórum Bólstaðarhlíðarhrepps og Kjalnesinga. Var þar frábær skemmtun. Eftir sönginn var boðið til samsætis fyrir kórfélaga og maka þeirra, þar sem meðal annars var á dagskránni „vísnaþáttur“. Ég samdi og flutti þessar vísur fyrir hönd Hreppakórsins, en yrkisefnin voru fyrirfram gefin:

1. Er hæð eða lægð yfir Hreppamönnum?

Hjá Hreppamönnum þekkjast hæðir jafnt og lægðir,

af hógværð kunnri veðurmonti sleppa.

En flestum mönnum betri hafa hægðir

og hugarró, af neyslu Flúðasveppa.

 

Þeir slakir hafa‘ í hreppum verið löngum,

helst er von að sperri sig hann Ingi.

Dýralæknahefð með hreðjatöngum

mun halda uppi, glaðbeittur á þingi.

 

2. Heilög Jóhanna – eða Davíð eftir atvikum.

Heyrði sögu af illskeyttri íhaldskerlingu sem var sérlega uppsigað við Jóhönnu Sigurðardóttur, og er eftirfarandi limra ort í orðastað hennar – lokalínan bein tilvitnun í ummæli kerlingar:

Jagast sem Jenni og Tommi

Jóhanna, afturhaldskommi.

Truntan, hún fer

í taugar á mér

og „svo er hún helvítis hommi“!

 

Djöfull langar Davíð nú að detta íða.

Jóhönnu með stælum stríða

og Steingrím láta‘ á hnjánum skríða.

 

Þennan stjóra þolir ekki þjóðin kranka

með fýlusvip og þunga þanka

þversum inní Seðlabanka.

 

3. Er kreppa?

Glappa-kreppa kröpp er á,

knappar hreppum tíðir.

Slappir hnepptu hnöppum frá,

hrappar leppasíðir.

 

4. Hvað er í Kerlingarfjöllum?

Er kleif eitt sinn Kerlingarfjöll

kvensniftar- hitti þar –tröll

sem óðar sig tjáði

að heitast hún þráði

skagfirska sveiflu og böll.

 

5. Draumadísirnar

Kona, þú ert mín draumadís

ef dauðar úr höfði þér falla lýs,

minnis- og sjónlaus ekki ert

né algerlega heyrnarskert.

 

Ekki‘ ertu reyndar, elskan, spes:

-ef ættir rekur á Kjalarnes

-ef hrat er í blóði, þín hrákasmíð

er hræringur úr Bólstaðarhlíð.

 

22.02.09

Fía á Sandi kvartaði á Leir yfir því að aðeins tveir væru þar virkir þennan daginn og efaðist um að hausinn væri virkur á hinum. Svaraði henni svona:

Skeytið kom við kaunin.

Hvort mun virka baunin?

Mætti vinna

tefja minna.

Mörg er búmanns raunin.

 

26.03.09

Óli Stef. orti eftir landsfund VG og fékk þessa í staðinn:

Verkin falla íhalds öll,

eiturbrall og -glímur.

Lausnir snjallar heims í höll

hefur Skallagrímur.

 

Óli svaraði auðvitað, og blandaði Framsóknarflokknum inn í málið. Hann fékk þá þetta svar:

Framsóknarmerin er lágreist og lotin,

lullar á rúmlega sjö af hundraði.

Í Hreppunum tafarlaust hún yrði skotin

þó hæstvirtan dýralækninn það undraði.

 

03.04.09

Í vísu Hallmundar Kristinssonar kom fyrir hendingin „ekkert hrín á Pétri“ en þar er um að ræða Pétur Stefánsson, kvenna og vínsmakkara. Ég tók hendinguna traustataki:

Tilþrif sýna miklir menn

hjá mey, af víni betri.

Gleðin skín úr augum enn,

ekkert hrín á Pétri.

 

Mikið hefur verið ort af „kreppuljóðum“ undanfarið og því bætti ég við:

Bankahretin fæstum fyrnd,

fjöldann setur hljóðan.

En kreppuvetur grár, af girnd

gerir Pétur óðan.

 

07.04.09

Ragnar Ingi Aðalsteinsson var fenginn að þessu sinni til að stjórna árlegu hagyrðingakvöldi að Borg í Grímsnesi á síðasta vetrardag. Hann sendi tillögur að yrkisefnum og óskaði eftir staðfestingu á því að skeytið hefði borist. Ég svaraði:

Skeytið barst, með skilum,

skáldin vinnu fá.

Best við ekki bilum,

að Borg það færð að sjá.

 

Þátttakendur, eða hagyrðingar, á skemmtuninni höfðu verið boðaðir undirritaður, Sigurjón Valdimar Jónsson, báðir annað árið í röð, Unnur Halldórsdóttir og Jóhannes Sigmundsson. Sigurjón sendi vísu á hópinn um afleiðingar ofáts páskaeggja. Ég svaraði Sigurjóni:

Veistu, góði, það er þekkt,

og þykir eina vitið

að gretta sig. En gleðilegt

að geta þessu skitið.

 

08.04.09

Í kvöldfréttum var þetta helst: Íhaldið þáði vinargjöf frá FL-Group og Landsbankanum, samtals 60 milljónir, árið 2006:

Ísinn brast og allir þeir

ofan í spillingarvökina

féllu saman, en gamla Geir

er gert að taka’ á sig sökina.

 

Jóhannes í Syðra-Langholti var ekki alsáttur við yrkingar Leirverja af þessu tilefni og sendi inn vísu með tilvitnun í Biflíuna um að kasta ekki fyrstur steininum. Svaraði Jóa um hæl:

Illt er bölvað ónæðið

og nú glöggt ég heyri

venju samkvæmt, viðkvæðið:

Vondir eru fleiri“.

 

14.04.09

Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum orti um milljarða niðurfellingu skulda Moggans. Jóhannes í Syðra svaraði: „Magnús, vinur vor, virðist lifa í fortíðinni þegar allir flokkar áttu sín málgögn.“ Ég svaraði:

Dóu málgögn flestra flokka,

fjármagn skipti máli hér.

En Mogginn sér enn í sömu sokka

smeygir, lyktin vitni ber.

 

15.04.09

Pétur Stefánsson segir: „Asskoti eruð þið gamaldags í ástaryrkingunum strákar“ og smellti með vísu um það hvernig ylja skyldi snót og klikkti út með: „Klikkar ekki, látið mig þekkja það“. Ég svaraði þessu: „Sem betur fer er hið eina sanna yrkisefni aftur komið í leitirnar!“

Skartar öllum skrautfjöðrum,

skrifar gullnu letri.

(Tek fram: núna tala um

tittlinginn á Pétri).

 

22.04.09

Hagyrðingamót var haldið að Borg í Grímsnesi í kvöld:

Fyrst átti að gera skil eftirfarandi yrkisefnum:

1. Hagyrðingar kynna sig með vísum.

Þið lítið hér (nú lýsa skal

lotnum, feitum kalli):

lítinn strák úr Laugardal,

að leika upp‘ á palli.

 

Hef ég oft í klofi klár,

kenni fræðin börnum.

Ekki vex á hausnum hár

en hef ég nóg af mörnum.

 

Kvalinn og boginn í bakinu,

bölvað er ástand mitt.

Svo lendir allt í lakinu

ef langar að gera hitt!

 

Um miðnættið hrúta marga sker.

Að morgni hefst ei undan feldi.

Um hádegi gjarnan í fýlu fer.

Framlágur mjög að kveldi.

 

2. Hvaðan kemur þú, hvernig gekk ferðin hingað? Sástu nokkuð markvert á leiðinni?

Hafði ekki um það val,

allt úr lagi fer.

Á leiðinni heim í Laugardal

ég lenti óvart hér.

 

Í Þrastalundi lífsglöð við hjón,

lögðum að gömlum sið.

Í dyrunum sáum við Sigurjón

og snerum þá bara við.

 

Golf er íþrótt ekkert spes,

úti við Borg er sæla og friður,

Sveiflar þar járni Jóhannes,

og jafnan eitthvað skýtur niður.

 

Karlinum eftir í tíma ég tók,

var á tánum, og bremsaði skart,

en hraðann bara jeppinn jók,

jörðina snerti vart.

 

Sko, glussinn allur útaf lak,

svo afstýra naumlega kunni,

áður en ég Rauð minn rak

í rassgatið á Unni.

 

3. Sumir halda því fram að kreppan hafi að sumu leyti góð áhrif á Íslendinga; nú séu þeir orðnir viðræðuhæfir, m.a. um peningamál. Hvað segir þú um það?

Strákarnir okkur keyrðu í kaf,

klæddir í drullusokkinn.

En stefnunni eru þeir stoltir af

og styrkja Sjálfstæðisflokkinn.

 

4. Hvað var það fyrsta sem þér kom í hug þegar þú fréttir um bankahrunið?

Góði Davíð! gjafmildin ei svíkur!

Þín glæsta Perla ávallt skína mun,

og gróðatíðin, Ráðhús Reykjavíkur.

Nú réttir okkur líka bankahrun!

 

Eftir mesta Íslands rán

í yfirdráttarhófi,

inneign telst nú engin smán

né Árni Johnsen bófi.

 

5. Ef þú ynnir tuttugu og fimm milljónir í lotto, hvað myndir þú gera við peningana?

Fyrst í anda gróðæris og útrásar:

Ef myndi ég í lottói milljónirnar vinna,

mikið sjálfumglaður og hissa yrði þá.

Ég klappa myndi höndum og heldur til mín finna

og heita því á fátækum aumur skyldi sjá.

 

Ég kaupa myndi Bónus og banka svona fjóra,

búta þá svo niður og margfalda með sjö.

Svo byggja myndi óperu, ógeðslega stóra,

og innisundlaug heima, bara fyrir okkur tvö.

 

Svo aðeins raunsærri mynd:

Ef milljónir hefð’ undir höndum!

í huganum svíf vængjum þöndum.

En bíðum nú við.

Mér birtist ný hlið:

Tel fullvíst ég færi með löndum.

 

Þegar hér var komið sögu átti að botna tvo fyrriparta:

Upp má reisa efnahag

okkar hrjáðu þjóðar.

 

Minn botn:

Ef hún syngur sérhvern dag

sínar vísur góðar.

 

Fagnar vori þjóðin þreytt

þung í spori gengur.

 

Fyrri botn:

Krít sér getur varla veitt

með vísakorti lengur.

 

Svo tók ég mark á innríminu:

Full af hori, öllu eytt,

engu þorir lengur.

 

Næst gafst hagyrðingum kostur á að koma fram með vísur frá eigin brjósti, gamlar eða nýjar. Ekki verða þær endurteknar hér, nema hugsanlega þessi um innanmein framsóknar sem komu upp á yfirborðið þegar Siv taldi þáverandi formann senda húskarla sína gegn sér.

Skælist og kreppir að skórinn.

Skortir nú samhljóm í kórinn.

Út af kappi og ríg

kostar húskarlavíg

að moka framsóknarflórinn.

 

Og svo var haldið áfram með yrkisefnin:

6. Hvalveiðar, ertu hlynntur þeim eða á móti?

Erfitt þetta víst er val:

Vernd, eða rengistutla?

En mega þeir ekki Kristján hval

á kæjanum bara skutla?

 

7. Nítján langreyðar rekur á land á Bakkafjöru. Hvað segir a) Steingrímur Sigfússon? b) Einar K. Guðfinnsson? c) Forsvarsmaður umhverfisverndarsinna (er það ekki Árni Finnsson?)?

Í orðastað Steingríms:

Andskotinn, núna er gamanið grátt,

gríðarleg hvalaþröngin

tefur mig, þetta nær engri átt,

ég átti að fara göngin!!“

 

Í orðastað Árna Finnssonar:

Varúð! náttúruteiknin ei trufla má

tignarleg hvalaþröngin!

Hvað var að hugsa hann Einar K?

Hefjum nú ættjarðarsönginn.“

 

Í orðastað Einars K.:

Víkingar allir, vígbúist brátt,

vaðandi blasir við hvalaþröngin!

Sýnum nú okkar manndóm og mátt!

Mathiesen! Hvar er geldingatöngin?“

 

8. Fjöldi kannabisverksmiðja hefur fundist á síðustu vikum. Hvað segir þú um það?

Í vonleysi, þegar ei vorar í bráð,

og vandræðum lífeyrisþeganna

nú um stundir, er notadrjúgt ráð

nýsköpun atvinnuveganna.

 

Við endurreisn atvinnuveganna

ekki má fara ráða á mis.

Það leysir hnút lífeyrisþeganna

að lögfesta neyslu kannabis.

 

Athafnamennirnir markið eitt sjá:

sem mestan gróðann sækja.

Svo mikilli fjölgun spekingar spá

sprotafyrirtækja.

 

Á Íslandi ríkir efnahagsfrost

sem efalaust seint verður þiðnað,

en athafnamennirnir kanna þann kost

að kýla á heimilisiðnað.

 

Íslands núna eflir veg,

æskan skyldurækin.

Spretta því upp, spái ég

sprotafyrirtækin.

 

Athafnamennirnir rjúkandi ráð

rifjum undir hafa:

Í stórum hópum á skútu sig skráð

og í skyndi lært að kafa.

 

9. Hvernig stjórn vilt þú sjá eftir kosningar?

Íslendingar færa fórn,

fegnir verkum sinna,

og glaðir munu styðja stjórn

sem stelur eitthvað minna.

 

Þjóðarsálin mörgum meinum

merkt, og stundum illa þvegin.

En víst er að í hjartahreinum

hjartað liggur vinstra megin.

 

10. Nýr stjórnandi er tekinn við Seðlabankanum, norskur. Hvert er álit þitt á því?

Skoðun ég hef ei handa þér

hvort sá norski’ er góður í þetta.

Það plagar mig lítið, enda er

þar ekki’ úr háum söðli að detta.

 

Fyrripartar skáletraðir:

Bjuggust ört til útrásar

Íslands hraustu víkingar.

Brenndu fyrst í bankann sinn,

og brott þar námu gjaldeyrinn.

Bruna þú nú bátur minn,“

bergmálaði hláturinn.

 

Úr næsta fyrriparti átti að gera limru:

Ég kátlega hugmynd vil kynna:

til Kanada förum að vinna.

Okkur þar herðum!

því vesturferðum

ætlar víst aldrei að linna.

 

Sigurður Sigurðarson, dýralæknir, gaukaði þessum fyrriparti að þátttakendum þarna um kvöldið:

Mér er vaxinn vísdómsjaxl,

vitið reyndar lítið óx.

 

Botnaði svo:

Sit í praxis upp til axl-

anna sokkinn vegna rógs.

 

Endurvinnsluvísur heitir það þegar höfundurinn notar þekktar vísur og breytir þeim lítillega, eða hendingar og prónar við þær. Við áttum að reyna okkur við þetta.

Okurvextir, og nú má

einn um nótt ég sveima.

Nú fær húsið nýja skrá.

Nú á ég hvergi heima.

 

11. Eva Jolly, sem líka er norsk að hluta til, ætlar að elta uppi peningana sem hurfu í bankahruninu? Hvernig heldur þú að það gangi?

Ef verkið skal vandað hjá Jolly

vinnu þarf setja mörg holl í.

Það skammt mun þó duga,

svo höfum í huga

klónun, og kindina Molly.

 

12. Davíð Oddsson flutti umdeilda ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins á dögunum. Hvernig fannst þér hún?

Á landsfundinum Davíð steig á stokk,

og straujaði þar yfir eigin flokk:

Þessi skýrsla’ er djöfuls fokking fokk!“

Af fögnuði þá látum ekki linnti,

liðið vætti sig og músum brynnti.

 

13. Hver af útrásarvíkingunum er að þínu mati mest heillandi persónuleiki? Rökstyddu svarið.

Bónusfeðgar býsn úr ermum hrista

og Björgúlfsfeðga opnir standa sjóðir

til mæðrastyrkja, menningar og lista.

Mikið eru þessir fantar góðir!

 

15. Hvernig væri svo að fá vísur um veðrið?

Kuldasuddi, sortaél,

snjónum niður hleður.

Dökkur bakki, blæs af mel,

bölvað íslenskt veður.

 

Stillufrost og stjarnan skær

stafalognið gleður.

Sól og blíða, blámi tær,

blessað íslenskt veður!

 

Viljug fetar vanans gang,

veitir engin grið.

Sólin út um víðan vang

vekur sumarið.

 

16. Hvað segja hagyrðingar svo um stjórnandann?

Þegar tekur vísan völd,

þá víst er mörgu fórnandi.

Finnst mér bara fúlt í kvöld

að fannst ei betri stjórnandi.

 

Belgdur þori ei barmar sér,

brattur vori fagnar.

Rúnum skorinn allur er,

Aðal-borinn Ragnar.

 

17. Hagyrðingar kveðja með vísu.

Þá var ekki seinna vænna að skjóta örlítið á hina hagyrðingana, með öllu tilefnislaust:

Unnur vekur aldrei traust,

ekki lekur blóðið.

Upp hún rekur endalaust

árans frekjuhljóðið.

 

Þessari vísu beindi ég til stjórnandans:

Ragnar, kalda ber fram bón,

brúka vald af krafti:

Sendu galdur á Sigurjón

svo ‘ann haldi kjafti.

 

Jóhannes í Syðra-Langholti er alltaf á ferð og flugi út og suður, jafnt vetur, sumar vor og haust, í félagsmálavafstri eða einhverjum reddingum. Hrafnhildur dæsir stundum yfir honum; þegar hún ætlar að nota hann, er hann allur á bak og burt, eða þarf nauðsynlega að skreppa þangað eða hingað:

Engin ró, sem friðlaus fló

flögrar, þó að snjói.

Eins og spói, út um mó

eitthvað dóar Jói.

 

Þessa vísu, sem auðvitað er argasta öfugmæli, sendi ég á alla:

Liðið hérna alltaf er

eintómt níð og kjaftur.

Helvítans að hugnist mér

að hitta þetta aftur.

 

Og þá var bara eftir að kveðja:

Fínar vísur funduð til.

Nú fetar hver sinn stig.

Tíminn þrotinn, því ég vil

þakka fyrir mig.

 

26.04.09

Sjónvarpið hringdi í mig og vildi fá mig í kosningavökuna. Ég beið og beið en endaði á því að pína Maríu Sigrúnu til að taka mig bara upp og senda svo út þegar henni hentaði. Fór svo heim að sofa. Nemendur mínir sögðu mér í gærmorgun að ég hefði komið á skjáinn kl. 5.30 um morguninn. Þannig að frægð mín fer vaxandi. Fer ég ekki að slá upp í ´útrásarvíking´? Þetta hafði ég í sjónvarpið að segja:

Jóhanna og Steingrímur hafa ekki verið alveg sammála um danssporin og því stigið á tærnar hvort á öðru.

Jóhanna við Steingrím:

Í samkvæmum alltaf, veit ég vel

að vangadans kýstu, en samt tel

að efli vort þor

ef lærum í vor

öll nýstjustu sporin frá Brussel.

 

Steingrímur við Jóhönnu.

Heyrðu, þú virðist í vímu!

Varpaðu Evrópugrímu.

Ég stend mína vakt.

Já, stígum í takt

hina þjóðlegu íslensku glímu.

 

Ragnheiður Elín, efsti maður á lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, var spurð á kosningafundi í Hótel Selfossi um afgreiðslu flokksins á svokölluðu vændisfrumvarpi á Alþingi fyrir skömmu, að banna kaup á vændi. Hún fór í svari sínu að tala um „elstu atvinnugreinina,“ enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt mikla áherslu á atvinnumálin og farið fram undir kjörorðunum: „Göngum hreint til verks“:

Ragnheiður Elín ansar, ei sein:

Flokks við þörfnumst núna sterks.

Í heimsins elstu atvinnugrein

ætl’ að ganga hreint til verks.“

 

Svo nýtti ég í sjónvarpið fleiri áður birtar vísur sem ekki verða endursagðar hér.

02.05.09

Fía á Sandi sagði: Helsti sigur kosninganna er auðvitað kvennasigur. Svo orti hún um að karlarnir væru orðið aðeins nýtilegir upp í rúmi á kvöldin. Ég savaraði Fíu:

Staða karla ágæt er,

aðeins sinna skakinu,

og í lendum lyfta sér

liggjandi á bakinu.

 

04.05.09

Óli Arngríms, bekkjarbróðir úr KHÍ óskaði eftir myndum úr „bekkjarsamkvæmi“ í febrúar sl. Edda Björk sendi nokkrar myndir og þá svaraði Óli: „Mér sýnist kvenþjóðin koma heldur vel undan tímans tönn, ungleg og falleg. Það sama má segja um þá karlmenn sem sjást á myndunum. En hvað með bekkjarbræður mina, – þóttu þeir ekki viðunandi myndefni? Eru þeir orðnir rúnum ristir?“ Ég svaraði Óla svona fyrir hönd okkar bekkjarbræðranna:

Erum djúpum rúnum ristir

og raunalegar fyrirsætur.

Ekki því af miklu misstir.

Málið niður falla lætur.

 

28.05.09

Pétur Stefánsson kvartaði yfir því að á Leir væru menn annaðhvort dauðir og burtkallaðir eða horfnir af vettvangi og enginn brúkaði sín skáldagen þar. Svaraði Pétri:

Talinn dauður! tek upp þykkju

til að, Pétur, vitnist þér

að hinum megin við dans og drykkju

dauðir yrkja og skemmta sér.

 

30.05.09

Páll Imsland sótti um vist á Leir, og sendi með ágætan kveðskap. Ég hvatti til innlimunar hans með eftirfarandi hætti:

Enginn núna er á Leir

í öllu betra standi

að skemmta. Þína skál! Já, meir!!

skáldið frá Imslandi.

 

Minntist gamals söngtexta Ómars Ragnarssonar: „opna fyrir Páli“ og „loka fyrir Páli“:

Lokað allt og læst með stáli,

ljóðar hérna enginn meir?
Opna, Þórir, upp fyr Páli

inn svo komist hann á Leir.

 

06.06.09

Fjör í Flóa“, helgina 5.-7. júní 2009. Hagyrðingaþáttur á skemmtivöku í kvöld. Stjórnandi: Guðmundur Stefánsson, Hraungerði. Þátttakendur: Magnús Halldórsson, Hvolsvelli, Sigurjón Jónsson, Selfossi og undirritaður

Fósturjörðin, Flóinn og vorið.

Í júní loksins litkast börðin,

ljómar sól um hreppana.

Flóinn, og gjörvöll fósturjörðin,

fer í sparileppana.

 

Útrásin: Keyptur fjöldi fyrirtækja í nágrannalöndum, krosseignatengsl og gróðabrall. Menn seldu sömu fyrirtæki sín á milli aftur og aftur. Bankar lánuðu til að kaupa í sjálfum sér:

Frjálshyggjukrumlan er köld,

kyrkir nú borgara fjöld.

Allt er í hengslum

af krosseignatengslum

Guðsorðið: gróði og völd.

 

Keyptu fjölda fyrirtækja

fyrir lán og yfirdrátt.

Bankar urðu aðeins hækja

eigenda sem flugu hátt.

 

Bófarnir fóru í bankann sinn.

Bugar þá enginn kraftur?

Beygðu við hornið og báru féð inn

bakdyramegin aftur.

 

Ef að þú vilt kaupa eitt fyrirtæk‘ á Fróni

færðu lán í banka, og meira en þú vilt.

Rótt þú getur sofið, gulltryggður fyrir tjóni

tapið borga aðrir, er þú hefur vasa fyllt.

 

Kaupa stóran hlut í sjálfum sér

og selja aftur fljótt til baka.

Sko, gengið hefur margfaldast í mér

svo milljónunum saman raka.

 

Hrunið – kreppan. Í Hraungerði er ekkert kreppuvæl, þar nýta menn mykju til gasframleiðslu:

Ekkert kreppu argaþras

þó orkan sé á sprengverði.

Nýtir allt sitt garnagas

Guðmundur í Hraungerði.

 

Ríkisstjórn og Seðlabankastjórn hrekjast burt. Mannabreytingar í stjórnmálunum. Frjálslyndi flokkurinn hvarf:

Alþingi fengum í arf

þar íslenskir lúðar fá starf.

Nú íhaldið hrundi

og Guðjón, hann stundi

því Frjálslyndiflokkurinn hvarf.

 

Bjarni Ben. Tók við formennsku hjá íhaldi. Kári Stefáns. finnur erfðafræðilegar skýringar á flestu:

Svo framræktuð eru formanns gen

að finnur Kári’ enga líkingu.

Arfhreinn mun því Bjarni Ben

og blár af meðfæddri sýkingu.

 

Sigmundur Davíð er nýr formaður Framsóknar og lýsir sjálfum sér sem nýslegnum og hvíthreinum en aðrir telja hann á vegum Finns Ingólfssonar:

Sigmundur kaldan klíkuhramm

kyssir innan tíðar.

Peði lék nú Finnur fram,

fórnar hann því síðar.

 

Mikið gegnur á innan Brunavarna Árnessýslu, eldur í slökkviliðinu!

Hitinn var kominn á hættustig

og hópurinn saman á iðinu.

Svo Babú fær‘ ekk‘ að brenna sig

var best að fækka í liðinu.

 

Bræðratungubrúin, geta Hreppa- og Tungnamenn samlagast?

Torveld vötnin tryggðu frið,

tolldu fleiri heima.

Kristján Möller, þig bljúgur bið:

Best er þessu‘ að gleyma.

 

Hef ég um það illan grun,

um er margt að tefla.

Bræðratungubrúin mun

ei bræðralagið efla.

 

Ef um frekari sameiningu sveitarfélaga verður að ræða, hvert ætti Flóahreppur að snúa sér? Til Árborgar í vestri, Ásahrepps í austri, Skeiða- og Gnúpvejahrepps í norðri, Grímsnes- og Grafningshrepps líka í norðri og panta í leiðinni nýja Hvítárbrú við Oddgeirshóla, sem myndi stytta leiðina Borg-Þingborg um 16 km?

Sameiningar sætt er tal,

sælt er með góðum vinum.

En Flóamönnum frá nú skal

forða okkur hinum.

 

Þegar SÍS var við lýði þurfti það við stígvélakaup að muna eftir stóru númerunum handa Kaupfélagi Árnesinga. Sagt var að þau væru á Flóamenn. Hverjum blandast Flóamenn best? Hvert eiga þeir að horfa í makavali?

Í forarvilpur fóru á kaf

flestir, hér í denn.

Þeir sem í keldum komust af

kallast Flóamenn.

 

Á trausti hjónaband skal byggt.

Á brúðkaupsnótt strax eru skilin

nema að formlega fyrst sé tryggt

að fermeter teljist ilin.

 

Höfuðið er „höfuð“ mannskepnunnar, og kemur fyrst í heiminn. Gildir annað um Flóamenn?

Pörin kunna allflest enn

afmorsleikja stundan.

Fæðast seinna Flóamenn

með fæturna á undan.

 

Flóamennska er þekkt hugtak. Lýsir þessi vísa inntakinu?

Ráðið besta reynist oft:

með rósemd á sér hægja.

Hvorki þurfa lof né loft

-lítið mun hér nægja.

 

Umfjöllun um ræktun erfðabreytts byggs með erfðavísi (geni) úr manni.

Ráðamenn ég raunar hygg

að ræktun slíka banni.

Ekki mun ég borða bygg

búið til úr manni.

 

13.06.09

Guttormur Bjarnason frá Stöðulfelli, bóndi, meðhjálpari og staðarhaldari í Skálholti, varð fimmtugur þann 10. þessa mánaðar og hélt herjans veislu í Aratungu í kvöld. Guttormur er einn félaga í Karlakór Hreppamanna og við sungum fyrir hann, auk þess sem ég flutti honum eftirfarandi vísur:

Í stillu hausts að Stöðulfelli

stofnað var til þessa manns.

Hans biðu sjö í röð, með relli

svo runnu tvær grímur á pabba hans.

 

Bernsku alla sat í sólu,

samhent fjölskyldan og sterk.

Níu manns þar upp hann ólu

sem eflaust hefur reynst létt verk.

 

Skildi ei þá sem í skepnum pæla,

á skrúfjárn var heill í trúnni.

Ær má laga, nú eða mæla

olíu á kúnni.

 

Eftir dagsverk þá eflir dug

útreið, því gleðin tekur völd.

En Guttorms brann þó helst í huga:

Hvað á ég að skrúfa í kvöld?“

 

Allt kann laga, ekkert tjasl,

aldrei þiggur borgun.

Margt hann geymir gamalt drasl

sem gæti nýst á morgun.

 

Fremur dulur, drengur bestur,

deilir huga fáum með.

Stundum hvessir, stíflan brestur,

en stillist aftur fljótt hans geð.

 

Skálholt Gutti mikils metur,

miðstöð lands um aldirnar.

En hann í fyrsta sætið setur

Signýju og dæturnar.

 

Tekur oft til kosta klár.

Í kór einn mesti veinarinn.

Setið hefur í sautján ár

sérlegur biskupsskeinarinn.

 

14.06.09

Ort í tilefni af útskrift Árna Hrannars, masterspróf í vélaverkfræði frá háskólanum í Álaborg.

Ungur reynslu fjölbreytta fékk,

faðirinn stöðugt hann hvatti.

Lítt var þó skemmt á skólabekk

en í skotveiði ánægður patti.

 

Bráðger og lærði að bjarga sér

braut flest til mergjar sjálfur.

Stefnufastur, en stundum þver

í stríðinu aldrei hálfur.

 

Ákvörðun síðan ungur tók,

sú ætlun varð kristaltær glampi.

Lagði á síkvikan sæinn, í bók

og sigldi þar fullum dampi.

 

Forkur til verka og fylginn sér,

fleyinu heilu mun lenda.

Vanda hvern leysir, á viljanum fer

vonglaður heiminn á enda.

 

Mannvæn eru systkinin sjö,

af samhug hvert annað styðja.

Gullið hún Bettý og börnin tvö

hans bakhjarl, og veraldar miðja.

 

Áfanga stórum nú er náð,

nokkru var kostað af báðu.

Allt þetta tókst, eins og til var sáð

er tekur við mastersgráðu.

 

21.06.09

Trailer með gálga fékk Gven

dur. Glaður í Hvalfjörðinn renn

di. Spikið af Báru

burtu þar skáru

hvatvísir hvalskurðarmenn.

 

24.06.09

Pétur Stefánsson var enn á ferðinni á Leir með sitt ágæti. Ég sendi honum þessa:

Pétur, hann er feitur, frjór,

fullur oftast, glaður.

Íðilfagur, í anda stór

og ótrúlega graður.

 

05.07.09

Agnes Bragadóttir kölluð til að taka drottningarviðtal við Davíð Oddsson. Hjálmar Freysteinsson sagði: „Sjá sérstaka viðhafnarútgáfu Morgunblaðsins í dag í tilefni þess að fyrrverandi hitt og þetta opnaði munninn.“ Sendi Hjálmari til baka á Leir:

Moggans sagnamagn les.

Mál- svo hagnist -staður

allvel gagnast Agnes.

Oddsson fagnar glaður.

 

09.07.09

Hjá Pétri Stefánssyni kvað nýrra við, þegar sást frá honum í hendingum: „…náttúran róast…“ og „..geng ég í sæng og sofna“. Sendi honum þessa af tilefninu:

Núna róast náttúran,

nú er karl að dofna.

Ástarleiki enga man

aðeins vill hann sofna.

 

10.07.09

Pétur fornemaðist eitthvað við innganga sem ég sendi á Leir að síðustu vísu. Sendi honum þessa:

Misskilinn húmor er mörgum böl

mjög vel skil það núna.

Tel því best að teyga öl

og tefla svo við frúna.

 

12.07.09

Ólafur Stefánsson sagði á Leir: „Gylfi.t.d.hefur þrjú áhugamál: Hesta, ESB og konuna sína.“ Ég svaraði:

Eitthvað tel ég Óli „sé

að misskilja“ núna

um áhuga minn á ESB;

allt þó satt um frúna.

 

13.07.09

Sem fyrr ríð ég Kjöl með hóp fyrir hestaleigufyrirtæki þetta sumarið:

Nú skal ríða norður Kjöl,

njóta landsins djásna,

um rýran gróður, grjót og möl,

gráa mela blásna.

 

Norðan gustur kælir kinn,

kjassar ferðalanginn

sem yndis nýtur enn um sinn

enda hvergi banginn.

 

Sólin hengir hýjalín.

Hesta lít ég karska.

Hress við skálann kaldinn hvín.

Kerling hlær í fjarska.

 

Pétur Stefánsson kvaðst öfunda mig af allri reiðinni og Sigrún Haraldsdóttir gjarnan vilja taka þátt í henni:

Oftast þýðgengt undir mér,

ilmandi kjarr og votar mýrar

á tölti reistur fákur fer.

Framundan hæðir gróðurrýrar.

 

28.07.09

Á heimleið suður Kjöl urðu til nokkarar vísur. Á leið til Hveravalla gaf á með éljagangi og skítakulda. Þetta minnti á forna tíma, þó ekki væri svo sem mannskaðaveður, langt því frá:

Á Kili sortnar ennþá að,

urrar stormur skæður.

Fyrrum reyndu röskir það

Reynistaðarbræður.

 

Daginn eftir var enn napurt við Hveravelli, Þjófadalafjöll nágrá niður í rætur. Þegar kom hinsvegar fram úr Þjófadölum og suður í hraun skipti alveg um veðurlag:

Fylgir tryggur, blíður blær,

brosir sólin móti.

Að Hveravöllum kom í gær

kuldabolinn ljóti.

 

Á leið suður með Bláfelli austanverðu er yfir mikla grjótmela að fara áður en komið er í Fremstaver. Ég reið fremstur og stjórnaði hraðanum. Einu sinn sem oftar varð mér litið aftur til að kanna ástandið á meðreiðarfólkinu. Sælubros lék um varir þess og datt þá samstundis þetta í hug:

Ágætlega undir fer

og, svo konur geti

andlitsrjóðar runkað sér,

ríð ég nú á feti.

 

Þegar við lentum í Fremstaveri, í hægum vindi og sólarglenningi varð þessi vísa til:

Auga grjóts á stiklum stóð,

strá í gráðið reri.

Fífa sæl í sólarglóð

svaf í Fremstaveri.

 

Skálinn í Myrkholti er eigendum sínum til mikils sóma, þeim Lofti og Vilborgu. Þar er útsýn hvað fegurst á Íslandi. Húsið stendur hátt og Langjökull og Jarlhettur blasa við, Bláfell og Bjarnarfell hvort sínu megin, Geysir og Haukadalur og sér að auki fram allar Tungur. Þessi sýn vænti ég snerti við öllum:

Eldhúsglugginn gefur hér

guðdómlegan sjarma

svo vaskir undan venda sér

votir mjög um hvarma.

 

16.08.09

Kom heim í gær, úr 11 daga hestaferð inn í Arnarfell hið mikla. Með í för voru 4 danskar, ein svissnesk, færeysk hjón og íslensk, auk starfsliðs, undir stjórn bróður míns, Hreins Þorkelssonar og á vegum Sagnaslóðar ehf. hans. Ógleymanleg reynsla að koma þangað. Gistum í Tjarnarverum, fyrir og eftir reiðina inn að rótum Arnarfells. Þar urðu til þessar vísur:

Fengum af himni heitan koss,

að hjarta nýja lykla.

Vakir hérna yfir oss

Arnarfell hið mikla.

 

Dásemd höndum tókum tveim

með trega héðan snerum.

Fundum nýjan huliðsheim

hér í Tjarnarverum.

 

Skín við jökulskallinn flotti.

Upp skagar hamarinn.

Skrýðir mynd, með skelmisglotti,

skítakamarinn.

 

22.08.09

Hálfdan Ármann Björnsson, félagi á Leir, lést.

Hálfdan slíðrar sónarsverð.

Við söknum dánumanns.

Til betri heima byrjar ferð.

Blessuð sé minning hans.

 

26.08.09

Sigmundi Erni Rúnarssyni, þingmanni, varð hált á Bakkusarsvellinu eins og glöggt mátti sjá og heyra í ræðustól Alþingis:

Sigmundur Ernir í sjónvarpi naut sín,

svipbrigðamikill, og vitsmunir glóðu.

Á Alþingi líður hann þvílíka þrautpín

að þruglar og stamar og sér allt í móðu.

 

01.09.09

Óhóflegur dráttur“ var fyrirsögn í Mogganum í gær. Var bent á þetta sem fyrirtaks yrkisefni á Leir. Ég notaði tækifærið og skaut á Pétur Stefánsson:

Á Pétri okkar ekkert hrín,
eflist fjör og máttur
ef hans bíður áfengt vín
og óhóflegur dráttur.

 

03.09.09

Títtnefndur Pétur sendi fallegt kvæði á Leir. Ég sneri út úr því með því að taka tvær og tvær línur úr kvæði hans, setja þær saman og prjóna svo við þremur línum og gera ferkvætt. Fyrsta línan í öllum átta eftirfarandi „endurvinnsluvísum“ eru því tvær samanteknar línur í kvæði Péturs:

Sól á himni sífellt lækkar“,
sumar kveður bráðum.
Ris á Péturs holdi hækkar
því hlín er með í ráðum.

 

„Geislar dofna, grösin visna“,
gáski sumars dvínar.
Péturs eykst þó ástarrisna,
æsir kenndir sínar.

 

„Dagar styttast, dimman eflist“,
drottnað yfir getur.
Hvernig afmors taflið teflist
tíðast ræður Pétur.

 

„Vindar gnauða, vetur nálgast“
á veðra-kaldri eyju.
Undir Pétri sorgir sálgast

sveittrar, ungrar meyju.

 

Fuglar vorsins fjöri knúnir“

fara allir burtu.

Limir allir saman snúnir:

syndin ber í sturtu.

 

Sælir fljúga suður bóginn“,

syngja engum líkir.

Rakar Pétur skapaskóginn

og skútu Sjafnar mýkir.

 

Fjöllin grána, frera vafin“,

fallin blöð af trjánum.
Niður sest, því nú er hafin

nektarmynd á skjánum.

 

Magnast húm í margra sálum“,

en morgunlöggin styrkir.

Pétur sinnir sínum málum,

serðir, drekkur, yrkir.

 

17.09.09

Kristján Runólfsson Skagfkirðingur sótti um inngöngu á Leir og lét fylgja með kveðskap, umsókninni til rökstuðnings. Ég mælti með honum þannig:

Bornar fram af bestu sort

bragarsmíðiskruður.

Kristján getur alveg ort,

enda fluttur suður.

 

07.10.09

Jón Gissurarson orti hringhendu á Leir. Ég notaði innrímið hjá Jóni og prjónaði utna um það þessa vísu:

Ekkert næði. Einn ég vil
yfir kvæði vaka.
Kenndin glæðist. Kemur til!
Kannski fæðist staka?

 

12.10.09

Kvartað var yfir þögn á Leir. Einhverjir svöruðu. Ég sendi þessa:

Dauð við erum ekki, þó

á innsoginu hljóðnum.

Leirinn andann lengi dró,

úr lungum blæs svo óðnum.

 

13.10.09

Oft er fallegt á haustin.

Hljótt og stillt og fjöll í firð

fyrir utan gluggann.

Fáklædd orðin hússins hirð,

heldur lengir skuggann.

 

13.10.09

Pétur Stefánsson gaf út bókina Stefjahnoð, til styrktar Búsetu- og stuðningsþjónustu fyrir geðfatlaða. Hann sendi mér eintak og ég las með ánægju, þó hvolpurinn næði að naga eitt hornið á bókinni:

Komst í póstinn hvolpurinn

og kjamsaði á Stefjahnoði.

Fór að urra fyrst um sinn

en færðist síðan yfir doði.

 

Ekki tíkin datt þó dauð

af dýru Péturs riti.

Ég beið að lesa andans auð

eftir að hún skiti.

 

14.10.09

Þrír Leirverjar voru staðnir að því að kveðast á á Fjasbók.

Halda framhjá þrjótar þrír,
þetta hart skal dæma.
Fjandi þessi, forn og nýr
finnst mér þeim ei sæma.

 

19.10.09

Jón Gissurarson í Víðimýrarseli sagði: „Október mánuður hefur verið fremur kaldur hér í Skagafirði þetta haustið, þó svo að ekki sé hægt að tala um harðindi. Í dag þann 19. október er snjóföl hér á Vatnskarðinu eftir hríðarél gærdagsins og nú í morgunsárið er frostið 4-5 gráður hér á Víðimýrarseli“ og lét fylgja með vísu um þetta. Mér fannst ástæða til að túlka þessa góðu vísu Jóns: Hér talar Jón „undir rós“. Kenningin „mannsins önd“ er auðvitað Andrés, sem er tákngervingur „litla mannsins“, bjargarlauss almúgans, og rósavöndurinn tákn lífsneista eða hamingju hans. Hríðarkófið er þá hin helbláa hönd frjálshyggjunnar og græðginnar.

Útrás gat ei reist við rönd,
né réð við bankafimi.
Mjög nú þjáist Andrés önd
út af Jóakimi.

 

26.10.09.

Flosi Ólafssoner látinn, blessuð sé minning hans. Von er á Kvosar-æviminningum hans endurútgefnum:

Aftur bros við öll hans spor

okkur Kvosin gefur.

Átti Flosi skip í Skor,

nú skipið losað hefur.

 

27.10.09

Haustvísa:

Haustið kemur, kímir vá,

kaldinn semur rímu.

Pollar hema, híma strá,

heljar nema grímu.

 

29.10.09

Önnur hasutvísa:

Fast vill lemja úrhellið,

ekki hemja smassið.

Viltu semja, gefa grið

guð, og temja skassið?

 

30.10.09

Ort var um Gylfa Arnbjörnsson, og ekki fallega. Vildi koma því að að til væru snjallir Gylfar!!

Gullin mörg í huga hert,
hógvær, beittur, stríðinn.
Vísur hefur Gylfi gert
sem gleðja allan lýðinn.

 

07.11.09

Soffía Rósa Gestsdóttir, skólasystir mín, bauð til 50 ára afmælisfagnaðar 13. nóv. 2009. Sendi henni vísu:

Varla kemst í afmælið,

yfir því er leiður.

Bið ég þess að búir við

blessun, ást og heiður.

 

25.11.09

Sótt var um inngöngu fyrir nýjan mann á Leir og send með umsókninni nokkur „inngönguvers“:

Leirinn virði boð og bann
í bragar gamla leiknum.
En Lárus, alveg orti hann
með undur miklum feiknum!!

 

26.11.09

Pétur Stefánsson kvaðst fara gangandi, eftir að bíllinn bilaði:

Gapi!! Á mig grímur renna
ef garpur þessi strætin skeiðar!!
Hélt að Pétur hundruð kvenna
hefði viljugar til reiðar?

 

27.11.09

Arnþór Helgason hafði meldað sig af leir vegna inngöngu nýs meðlims sem honum þótti ekki kunna nóg af bragreglum. Arnþór stimplaði sig svo aftur inn daginn eftir með depurðarvísu sem bregðast varð við:

Arnþór dapur flúði fengið
frelsi vetrarnætur.
Eina vísu, afturgengið,
yrkir skáld, og grætur.

 

28.11.09

Kvenfélag Biskupstungna gaf út dagatal:

Tungnakonur gera’ða ekki endasleppt,
allsnaktar ganga um völlu.
Á myndinni sést hvað maður gæti hreppt,
og mikið býðst af öllu.

 

29.11.09

Guðbrandur Þorkell Guðbrandsson sendi fyrripart á Leir:

Lækkar enn á lofti sól
lengjast skuggar, birtan dvín

 

Ég botnaði:

Við barm þinn á mitt besta skjól,
bros þitt lýsir, ástin mín.

 

13.12.09

Einn af þessum dögum:

Þokan grúfir, þykk og grá,

þjáðu yfir landi.

Nú er ekki sjón að sjá!

Sortinn mestur vandi.

 

15.12.09

Speki dagsins:

Fátt mun leysa ofbeldið,

ávallt það ég lasta.

Flekklaus skal, að fornum sið,

fyrsta steini kasta.

 

21.12.09

Heilræðavísur jólasveinsins

Hafi vinur keyrt í kaf

af kreppuþján og streði,

honum gefðu ómælt af

ást og jólagleði.

 

Veistu þann er styðst við staf,

stirðan mjög í geði?

Þessum veittu ómælt af

ást og jólagleði.

 

Ef leggur út á úfið haf,

og eigið líf að veði,

í bæn þá sendu ómælt af

ást og jólagleði.

 

Manstu einn sem eftir gaf

við óhapp, sem að skeði?

Færðu honum ómælt af

ást og jólagleði.

 

Enn af þeim er ætíð svaf

einn á sjúkrabeði.

Kveðju berðu, og ómælt af

ást og jólagleði.

 

23.12.09

Vísur á jólapökkum:

Til Ragnars:

Fram á veginn fetar slóð,

fjölmörg heillaskrefin.

Digran áttu sálarsjóð,

syngur óskastefin.

 

Til Jónasar Hauks:

Oft má gleyma stað og stund,

standa þó vel að málum.

Gott er að eiga létta lund

lífs á vegi hálum.

 

Til Ara:

Flókið er að leika lag,

á lífsins gítarstrengi.

Sælt er að vinna sér í hag,

síðan njóta lengi.

 

Til mömmunnar á heimilinu:

Þér vil gefa þúsund stig,

þokkinn öllu skákar.

Út af lífi elska þig

allir þínir strákar.

 

24.12.09

Á Leir var ort um að sólin „klýfi“ himnastigann:

Á himni blessuð birtan svam
og bætti mynd á strigann:
Þar keppist sól í kvalaham
að kljúfa himnastigann.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *