Úr dagbókinni 2010

Árið er 2010. Safnið telur 72 vísur.

10.02.10

Guðmundur Karl Guðjónsson, verkfræðingur á Selfossi, var að pæla í limrunni og einkennum hennar. Hann sendi mér eina frumorta, sem ég umorðaði svona:

Háttinn um limrur vil læra,

ljóðin í stílinn svo færa.

Lengi allt bregst,

en loks þetta tekst,

af því mig stöðugt mun stæra!

 

Og sendi honum svo aðra limru:

Limran er ljómandi háttur,

léttur og taktfastur sláttur.

Það er þó best

þegar að sést

tungunnar tvíræði máttur.

 

22.02.10

Gunnar Birgisson féll af stalli sínum í Kópavogi og var sagður íhuga sérframboð. Mér var einnig kastað í prófkjöri Samfylkingarinnar í Árborg:

Fjórmenningar happi hrósa,
hafði ég ekki við þeim roð.
Þó enginn vilji mig auman kjósa,
ég íhuga núna sérframboð!

23.02.10

Pétur Stefánsson grínaðist með að stytta af honum yrði reist við hlið Tómasar í Reykjavík, eftir dauða sinn:

Styttan verði stærst og mest
við styðjum þetta flest.
Ágætt færi eflaust gefst
áður Pétur drepst.

01.03.10

Sigmundur Benediktsson lét eftirfarandi ummmæli fylgja vísu nokkurri: „Þetta er ekki klámvísa nema það sé í hugsuninni.“ Svaraði svona:

Hugsun orðin heldur dauf.
Heimur stöðugt versnar.
Vísna ekki neitt ég nýt
nema séu lesnar.

01.03.10

Endatafl:

Tefldu við sólarlag saman,
Siggi og nýjasta daman.
Í endataflsæði
æptu þau bæði,
af æsingi eldrauð í framan.

12.03.10

Vernharður vísurnar stagaði
í vinnu, ef þannig til hagaði.
En hugsunin fraus
er höndin varð laus!
Viðutan sjálfan sig sagaði.

18.04.10

Séra Hjálmar Jónsson varð sjötugur um þessar mundir:

Andans jöfur, aldrei mjálmar,
ekkert tálmar.
Sigurhringinn sannur skálmar
séra Hjálmar

29.04.10

Baldur Garðarsson spurði um orðið Gegnir, en það var valið sem heiti á nýtt bókasafnakerfi Landskerfis bókasafna árið 2002. Svo hvatti Baldur til þess að ort væri:

Íslands hrjáðu þjóð, og þegni,
þjóni hver sem framast megni.
Allt um sína fortíð fregni:
flettir bara upp í Gegni.

03.05.10

Seðlabankastjórinn átti yfir höfði sér tillögu frá formanni bankastjórnar um launahækkun upp á 400 þúsund!! Samkvæmt Mogga. Már var í Kastljósinu:

Þreyttur, svangur og sár
í Seðlabankanum, Már
sér starir í gaupnir
og strákarnir hlaupnir!
Til Íslands var ferð ei til fjár.

19.05.10

Horfi út um gluggann, á nýsleginn blettinn. Tíkin var að koma inn.

Nú er úti veður vott,
vex allt hratt í þessu.
Við augum blasir flötin flott
með fúla skítaklessu.

12.06.10

Gosið í Eyjafjallajökli. Töskutuddanna bíður ærinn starfi:

Undir Fjöllum er ósköp af ösku
sem utanlands selst víst á flösku.
Í lág er nú gosið
en langt þó í brosið.
Glotta þó tuddarnir tösku.

Síðan hvenær?

Nú er uppi öldin trist,
andleg heilsa broguð,
sérhver dyggð af sannri list
snúin, reitt og toguð.

18.06.10

Pétur Stefánsson montaði sig af kveðskap og syni sínum, sterkasta manni Íslands:

Undan Pétri úrvals slekt,
enginn er skammtur svikinn.
Þetta’ er ekkert undarlegt
eins og hann ríður mikinn.

19.06.10

Sæðisbanki Péturs yrði sannkallað „gagnaver“, sem skapa myndi fjölda starfa. Verst ef hella þarf niður umframbirgðum!

Afurðamagnið margfalt, svo
man ekkert þessu líku.
Málnytu Péturs mætti sko,
mjólka í hverja píku.

21.06.10

Ort úti í garði. Rósin farin að blómstra ríkulega:

Gróðri vaggar blærinn blítt.

Burtu sólin hopar.

Ilmar blómstur, furðu frítt.

Falla nokkrir dropar.

 

23.06.10

Veðurblíða hin mesta í dag:

Kaffibolli, bók í hönd.

Bakar sólin kroppinn.

Frúin sem á sólarströnd.

(„Svona, leystu toppinn!!“).

 

Horfi og við hana rór

í huga mínum gæli.

Mesta heimsins blessun; bjór

bíður inní kæli.

 

24.06.10

Þula er hundtíkin okkar

Daglangt mátar sól á sig

síða skýjakjóla.

Tókst mér því að þvinga mig

með Þulu út að hjóla.

 

25.06.10.

Ólafur Áki Ragnarsson rekinn úr Sjálfstæðisflokknum degi fyrir landsfund:

Svo Flokkinn ei beygli né bráki
eða boðorðum klíkunnar skáki,
Jónmundur sagði
í símann að bragði:
„Burt með þig, Ólafur Áki!!!“

06.07.10

Eftir tvö kjörtímabil í bæjarstjórn fyrir Samfylkinguna:

Áform hef nú mörg og merk,

mikið band á rokknum.

Sem mitt fyrsta sumarverk

ég sagði mig úr flokknum.

 

Burt úr flokki, af því er

ekki hlýðinn sauður.

Ennþá glaður inní mér

eldur logar rauður.

 

09.07.10

Gísli Gíslason á afmæli í dag. Sendi honum þessa vísu:

Góðan daginn, Gísli minn,
gleði dragðu’ á langinn.
Vertu ör og ástfanginn
út um grænan vanginn.

20.07.10

Enn á Kili.

Í Fremstaveri:

Aleinn, finnur enga ró,
urðargustur napur.
Þylur yfir mel og mó
mjóróma og dapur.

…og morguninn eftir…

Þetta nær víst engri átt,
enn að vana geri
að sofna kátur, hrjóta hátt
hér í Fremstaveri.

Að áliðinni næstu dagleið:

Eygði kofann uppi‘ á mel,
eigi lofið sparði.
Ætla‘ ég sofi ekki vel
undir rofabarði.

Á leið norðuraf:

Sunnanvindur, sólin skín.
Sitrar lind í heiðinni.
Fjallatindafannalín.
Fögur mynd á reiðinni.

28.07.10

Á ferð um Þjófadali og Kjalhraun. Reit í gestabókina í Árbúðum:

Ríð um dali, hrjóstur, hraun,
hrossavalið lofa.
Veita skal mér ljúfust laun:
liggja’ í smalakofa.

Reit í gestabókina í Fremstaveri:

Hvítá niðar, héðan frá
heyrist iðuslagur.
Veitir friðinn -fellið Blá-,
fagur liðinn dagur.

Reit í gestabók Skálans í Myrkholti:

Hérna geðið fer á flug,
funar hjartað, sálin.
Lifnar myndin ljós í hug:
Loftur, Vilborg, Skálinn

02.08.10

Enn á fjöllum og gestabækurnar fá að kenna á því:

Ríður héðan, öldruð, ung,
ekki nokkur sála,
sem er beisk og brúnaþung
burt úr Helgaskála.

05.08.10

Var að ljúka síðustu hestaferðinni í sumar. Sjö daga ferðalag austan úr Landsveit með hálendisbrúninni, um Þingvelli og vestur fyrir Hengil.

Á hestaferðum ljósið lít,
um landið víða sveima.
Betur ekki neins ég nýt
en nú er ég lentur heima.

09.08.10

Hitti Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum uppi á Auðkúluheiði. Báðir ríðandi með hóp af fólki:

Á ferð um húnvetnska heiði
-hrossið á tölti og skeiði-
ég Sveinsstaða Manga
mildan á vanga

hitti. Þar vel bar í veiði.

 

12.08.10

Pétur Stefánsson kvaðst hættur á Leir, í bili, vegna kulnaðrar vísnaglóðar:

Pétur þjóðar vorrar veg
vísar ljóðagerðar.
Setur hljóðan. Aðeins eg
óska góðrar ferðar.

14.08.10

Afmæli Önnu Maríu.

Elsku hjartans Anna mín,

undir bros þín græða.

Yndislegu augun þín

ástarbálið glæða.

 

15.08.10

Rigndi einhver ósköp þennan daginn. Einhverjir kvörtuðu yfir rigningunni:

Ég fór út og járnaði hest,

sem játa er enginn vandi.

Með tvo til reiðar, og frjálsari‘ en flest

flaug svo og brjóstið þandi.

 

04.09.10

Afmæli Sveins Kristinssonar frá Dröngum:

Við þér slóði blasir beinn.

Blessun á þig ljóðar.

Ykkar vaxi sælan, Sveinn.

Sendi kveðjur góðar.

 

12.09.10

Árleg réttasúpa í Skarði, hjá Björgvin G. og Maríu. Að venju voru botnaðir fyrripartar:

Réttasúpan svíkur ei,

sæla bragðlaukanna.

Logakryddað lúðugrey

liggur milli tanna.

 

Blandið lævi loftið er,

liggur flest við höggi.

Víkja undan ábyrgð sér

allir, nema Bjöggi.

 

15.09.10

Í tilefni af útkomu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sk. „Atlanefndar“:

Þykjast eiga þingmenn bágt,

þora vart að stokka.

Risið á þeim ansi lágt,

elta línur flokka.

 

Íhald reynist enn jafn spillt,

óðal sérhagsmuna.

Hefur lýðinn lengi villt,

leiddi dansinn Hruna.

 

Framsóknar er framtíð séð,

föst í spillingunni.

Stendur ennþá óskipt með

einkavæðingunni.

 

Samfylkingar sök er stór,

söng hún bakraddirnar

í frjálshyggjunnar falska kór

og flýr um hliðardyrnar.

 

Vinstri grænir velja oft

vegarslóða þrönga

og velta útaf. Upp í loft

öðrum líka þröngva.

 

Hreyfingin er heldur klén.

Hvað er þar á seyði?

Búsáhaldabylting, en

bölvað þras og leiði.

 

Blíðu Þráinn Bertelsson,

býður, engum háður.

Órólegum veitir von

um valdatíð og gráður.

 

02.10.10

Kyrrð er í heiðinnar heimi

undir heillandi norðljósageimi.

Þar lækurinn rennur

og lyngið –það brennur!

Við tætturnar svipir á sveimi.

 

Gerast nú góðviðrin klén,

gusturinn rífur í trén

gisin og hokin

-gullin öll fokin-

samt öspin fær alltaf í hnén!

 

06.10.10

Geta þessir listamenn ekki bara fengið sér vinnu eins og við hin“? spurði ein mannvitsbrekkan á þingi, greinilega óvitandi um allt herjans atvinnuleysið!!!

Á listamannalaununum,

þeir labba milli húsa

og reyna’ að gleyma raununum

með rakspíra á brúsa.

 

Svo var um daginn efast um hæstvirt og háttvirt alþingi.

Þraut að hæstvirt þingið vort

þannig setji niður.

Altént veit ég ekki hvort

einhver skapast friður.

 

20.10.10

Davíð Hjálmar Haraldsson sendi þennan fyrripart á leirliða:

Lena hefur laskað mjöðm,
litlutá og sköflung

Ég botnaði:


því að Davíðs fékk hún föðm
og fóta millum öflung.

31.10.10

Ort var um hann í neðra og Hallmundur Kristinsson bað um guð almáttugan í staðinn:

Góði, þú veist að guðsorð er bannað,
gleymt, og útrýmt úr málinu.
Skáldin því verða að yrkja um annað
áður en lenda á bálinu.

01.11.10

Grínið í vísunni hér að ofan fór alveg þvert ofaní ýmsa guðleysingja á Leir. Héldu að ég (og fleiri) væri að fárast við banni við trúboði í reykvískum skólum og sendu eldheitan pistil um glæpi kirkjunnar:

Ekki mun nú ofsögum sagt
um eldheita sannfæringu!
Grínið er jafnvel á logana lagt
og leirinn fær bannfæringu!

Húmorinn er höfuðprýði,
þó húmor stundum undan svíði.
Húmor enn mun lengi lifa.
Á leirinn húmor á að skrifa.

04.11.10

Bændasamtökin neita að lána sérfræðinga sína til að gæta hagsmuna bænda í samningaviðræðum við ESB. Ætihvönn er blóðaukandi og því góð fyrir karlmenn:

Af bændum þessi saga sönn:

Við samning hjálpa ekki!

Úti að tína ætihvönn

allir sem ég þekki.

 

Móðgaði með vísulausu skeyti um að bændur vildu ekki sóa mannauði sínum í samningaviðræður:

Í öðru skeyti vísan var.
Verst hve mikið bulla.
Enda skil víst ekki par,
orðum bara sulla.


Á sama degi móðgaði ég mann
og mælti fyrir hófi.
En um mig núna segja má með sann
að sé ég versti bófi.

Komin út bók um framhjáhald og næturklúbbagöltur Gústafs Svíakonungs:

Víst ertu Gústaf kóngur klár,

kóngur nætur og holdsins þrár,

kóngur sokkinn í klám og hór,

kóngur reistur og tignarstór.

 

06.11.10

Í fréttum sagt frá Þjóðfundi sem haldinn var í Laugardalshöll:

Á þjóðfundinum þúsund manns,

þar er góður andi“.

Bjargast þjóðin þá með glans

úr þessu auma standi?

 

29.11.10

Lygin

Ljótri hlakkar lygi í,

læðist blakkan reykinn.

Og hún flakkar, uns á ný

einhver skakkar leikinn.

 

Nóvemberdagur

Úti gjólan æfir væng.

Eftir sólu biðin:

er í skjólið undir sæng

uppí bóli skriðin.

 

Rigningarmorgunn

Á mig bætir nú á ný

nokkru vætumagni

er á fætur skreiðast ský

og skvett‘ úr næturgagni.

 

30.11.10

Vetrardagur

Kenni falleg klakabönd,

kyngir salla niður.

Upp til fjalla, út við strönd

andann kallar friður.

 

Spegilmyndir

Tekur vindur blíðan blund,

brosir lindin þegar

spegilmyndir sýna sund,

svona yndislegar.

 

01.12.10

Sólarupprásin

Skýjalopann þæfir þétt.

Þerrar dropa nætur.

Morgungopann mátar nett.

Myrkrið hopa lætur.

 

Sólsetur

Dagur hnígur, dreyma fer.

Dreyra mígur lögnin.

Nóttin flýgur, orðlaus er.

Engu lýgur þögnin.

 

Að kvöldi fullveldisdags

Kvöldið þaggar kólgu frétt.

Kyrrðin flaggið vangar.

Rósin vaggar lendum létt.

Lúra daggar angar.

 

Anna María

Veit ei neina roðna rós

rökkursteina milli.

Leit ég eina dýrðardrós:

Drottins greini snilli.

 

02.12.10

Heimur versnandi fer

Lyklaborðið berja kann,

Bætast orð á skjáinn.

Blóðrautt forðum blekið rann.

Best að skorða náinn.

 

Vitnað var í Biblíuna á Leirlistanum, þá speki að heimskir byggi hús á sandi. Fía á Sandi var ekki alveg sammála þessu. Sendi henni þessi varúðarorð:

Byggt á Sandi býlið er,

birtist vandi, Fía!

Hætt við grandi, haska þér

heimaland að flýja.

 

Ei á Bjargi búa vill,

betri margfalt Sandur!

Trúarsargi eyðir ill,

af slær þvarg og flandur.

 

Pétur Stefánsson birtist aftur á Leir og var við sama heygarðshornið. Þessari vísu var ætlað að falla í þann flokk:

Áttu saman stutta stund

(stundargaman kitlaði)

Mann að framan á marga lund

myndar dama fitlaði.

 

Tími var kominn á heimsósóma:

Veröld hrakar, virðist ærð,

valdaskakið kitlar.

Fólkið þjakað, foldin særð

fyrir sakir litlar.

 

Ort til að bera í bætifláka fyrir hringhendur:

Geði yljar óðarmál,

engan skyldi mæða!

Yrkja vil svo eflist sál,

ekki til að hræða!

 

06.12.10

Ólafur Stefánsson taldi sig verða varan við samtal tröllkvennanna í Búrfelli og Bláfelli:

Ólafur í ástartrans,
ákefð sína stilli.
Tvöföld liggur Tunga hans
tröllalæra milli.

Ort var um Hörpu, miður skarpa og heilalausa. Sneri því upp á nýbyggingu:

Fögur við höfnina Harpa,
heimili menningargarpa
með skuldirnar hreinar.
En skapandi greinar
munu okinu af henni varpa!

07.12.10

Eitthvað heyrðist mér að Neinn-Bjarni og Maddama Sigmundur væru að belgja sig í sjónvarpinu í gærkveld. Fyrst var alveg ómögulegur niðurskurðurinn sem boðaður var í fjárlagafrumvarpinu en nú skildist mér að ætti að draga eitthvað af því til baka, og auðvitað var það allt ómögulegt líka. Það er kannski ekki að undra að stjórnarandstaðan kemur svona herfilega út í skoðanakönnunum, með 16% stuðning? Margfalt verr en stjórnin, meira að segja! En ef ég náði inntakinu í málflutningi þeirra félaga þá var það einhvernveginn svona:

Stjórnin dreifð um víðan völl
og veður í ljónsins gin.
Mér sýnist hafi svörin öll
16%-in.

Umræða var um hvernig góðar vísur væru og einhver orðaði það á þann veg að þær væru kliðmjúkar eins og lækur sem liðast niður kjarri vaxna hlíð. Lagði þetta í púkkið:

Frjóar og meðfærilegar,

fallegustu vísurnar,

einfaldar og eðlilegar

eins og „ljósku skvísurnar“.

 

Fía á Sandi benti á að þarna kæmu fram fordómar gegn litarhætti. Svaraði svona:

Ímynd finnur stöðugt stað
af stöðluðu ljóskunni.
Spyrja mun víst ekki að
andskotans þrjóskunni.

Meira var ort um það hvernig góð vísa ætti að vera. Lagði þetta til málanna:

Ekki þvinga óðinn má,

allur syngja verður.

Kýlum stinga ætti á,

ætíð hringhent gerður.

 

12.12.10

Ort eftir jólahlaðborð í gærkvöldi. Þar „fílaði maður sig“ svoldið eins og Logi forðum:

Jólahlaðborð, játa nú
étið hafi’ of mikið.
Mat og dúk og borð og bú
og bragðið hvergi svikið.

Gamall draumur:

Brosið naumast sýnir sig,
samt í laumi kætist.
Góðir straumar gleðja mig,
gamall draumur rætist.

Heimsþorpið:

Flýgur fiskisagan,

fangar þorpið allt.

Skælir hag og hugann

heimsins lánið valt.

 

13.12.10

Sólin

Senn mun gömul sól á ný

sína hefja göngu.

Hún var eldrauð, ung og hlý

endur fyrir löngu.

 

Myrkrastóðin

Vefur gróðinn mildast menn,

myrkrastóðin slægu.

Hefur þjóðin ekki enn

úthellt blóði nægu?

 

Heimskan

Á hornum stærir heimskan sig,

hæst þar mærir skrumið.

Mistök færa margt á slig,

margan ærir fumið.

 

16.12.10

Dreymir um fríið.

Til útlanda dreymir, um ólgandi dröfn

þó aldrei í sjó hafi migið.

En ef vegurinn liggur um Landeyjahöfn

þá langar mig ekkert í fríið.

 

Skrapp að Laugarvatni til að horfa á FSU etja kappi við Laugdæli í 1. deild karla í körfu. Leikurinn var ekki upp á jafn marga fiska og vonir höfðu staðið til:

Ekki var það ferð til fjár

er fór að Laugarvatni.

Svitna þyrftu í sautján ár

svo að leikur batni.

 

20.12.10.

Sunnlenska.is sagði frá því að Grábotni frá Vogum í Mývatnssveit hefði slegið öll met með því að gefa 280 sæðisskammta á einum morgni:

Heiminn sigrar sauðfé vort,

til sóma Íslendingum

og loftþrýstings engan skort

sér enn hjá Mývetningum.

 

24.12.10

Jólakveðja

Stjörnu sé ég skína skæra

og skeiða álf úr hól.

Vetrarskýin foldu færa

í fagran mjallarkjól.

Marglit ljósin hjörtun hræra,

er hækka tekur sól.

Öllum sendi kveðju kæra

er koma heilög jól.

 

31.12.10

Maður ársins 2010

Elja Steingríms okkur nær

uppúr skuldaleðju

á nýju ári, og hann fær

áramótakveðju.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *