Úr dagbókinni 2012

Árið er 2012. Safnið telur 103 vísur

23.01.12

Árni Páll Árnason gerði illa undirbúna tilraun til uppreisnar gegn Jóhönnu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar eftir að hann var látinn taka pokann sinn í ráðherra- og ráðuneytafléttu:

Vegur fremdar víst er háll,

valt er fyrra gengi.

Uppreisn gerði Árni Páll.

Ekki stóð hún lengi.

 

25.01.12

Alþingistíðindi

Sigmundur Ernir var í útlöndum og varamaður mættur suður til Reykjavíkur til að leysa hann af á meðan, í atkvæðagreiðslu um frávísunartillögu á afturköllunartillögu Bjarna V. Benediktssonar:

Sætt er heimsins ljúfa líf

og lag að Ernir þetta kanni.

Á meðan Ásta stendur stíf

og stuggar burtu varamanni.

 

Fleiri voru í útlöndum. Össur flýtti sér heim til að greiða atkvæði, einhverjir (illar tungur?) segja að það hafi ekki eingöngu verið til að gæta Geirs, bróður síns:

Út í heimi styttir starf,

því stefnu vill hann eyða.

Yfir gamlan, Össur þarf,

eigin skít að breiða.

 

Uppnám í grasrót VG vegna umpólunar Ögmundar, manns réttlætisins. Því er haldið fram að hann vilji íhaldið, já raunar allt, frekar en Steingrím:

Hí á Steingrím! Hefnt sín gat,

hugann litar sorti.

Orku fyrir endurmat

Ögmund hvergi skorti.

 

Mjög er innra eðlið hreint.

Yndið himnafeðra

ekki lengur getur greint

Grím frá þeim í neðra.

 

Einhverjir samþykktu ákæru á Geir Haarde á sínum tíma, sátu m.a. í Atlanefndinni sem lagði hana til, en virðist nú hafa snúist hugur:

Áður höfðu ákært Geir,

og einhver von á þingi,

en núna settu niður þeir

Nonni, lambið, Ingi.

 

Nefndarformaðurinn sjálfur, fyrrum meintur „pólitískur galdrabrennuforingi“ er einn þeirra sem snúist hefur á sveif með fyrrum óvinum sínum og óvægnum gagnrýnendum á Morgunblaðinu:

Villiköttur vill í hark,

vissu fyrri selur.

Um það höfum órækt mark

er Atli þrisvar gelur.

 

Nú er svo komið að kjósendum er ómögulegt að átta sig á því hver er hvað á Alþingi og fyrir hvað þingmenn standa, ef þeir standa þá fyrir nokkuð?

Þingmenn frábær fyrirmynd,

frægðin vex á þingi!

Um sali, eins og sóttarkind,

snúast þeir í hringi.

 

26.01.12

Vigdís Hauksdóttir hefur oft „glatt“ landsmenn með gjammi sínu. Nýjast var yfirlýsing um að „daun“ legði af Samfylkingunni:

Vigdís í þykkum sveimi sést,

súrnar gamla brýnið.

Er finnur eigin fýlupest

hún fitjar upp á trýnið.

 

Viðbrögð Framsóknar- og Sjálfstæðismanna við ráðningu Jóhanns Haukssonar í starf upplýsingafulltrúa í forsætisráðuneytinu hafa verið með þeim hætti að halda mætti að þeir sjálfir væru einkabörn guðs almáttugs. Mætur maður sagði að halda mætti að þeir væru „saklaus, krullhærð löm að vori“.

Íhald og framsókn; lömbin ljúf

sem leika frjáls um börðin.

Er saklaus dilla dindilstúf

detta aldinspörðin.

 

31.01.12

Bessastaðabóndinn kvað vera á leið á Suðurpólinn, í boði helstu héraðshöfðingja westan hafs. Ekki sjá allir þá utanlandsför sömu augum:

Á Bessastöðum björt er sól,
þar á Brúnastaðaundrið skjól
því Ólaf vill á veldisstól.
Jóka draum um annan ól,
í orðum draum sinn þannig fól:
„One way ticket to the pole“!

 

08.02.12

Loks er varpað ljósi á
langa Vafningsfléttu.
Af sögu þeirri sjálfsagt fá
sumir hryllingsgrettu.

 

Sýna málsins sakargögn
að sagan, rétt ég vona,
er í stuttri endursögn
einhvernveginn svona:

 

Bræður tvennir bralla margt,
banka hyggjast kaupa.
Vilja gjarnan græða skart,
með gull í vösum raupa.

 

Saman eiga þessir Þátt,
þaðan mikinn vilja’ arð.
Morgan Stanleys góna’ á gátt
og grenja’ út tugamilljarð.

 

Kaupa’ í Glitni sjö prósent,
svífa’ á gróðavegi!
Óðar samt er lánið lent
á lokagreiðsludegi.

 

Uppgjör því til fjandans fer,
með félagssjóði blanka.
Til lausnar þrautalending er
lán frá keyptum banka!

 

Reglum samkvæmt meira má
Milestone ekki lána.
Forða Þáttur engan á,
útlit bjart að grána.

 

Til bjargar sjóða svikavef,
seint þó finnist vitni.
Annars tekin yrðu bréf
sem áttu þeir í Glitni!

 

Sveins- og Wernerssynirnir
sjá nú vonir dofna.
Leysa vandann, vinirnir,
Vafning nýjan stofna!

 

Skyldi lán til Vafnings veitt
en velt svo beint til Þáttar
svo milljarðana gætu greitt
og gleiðir lagst til náttar.

 

En Vafning þarf að veita fé
svo veð sé fyrir láni!
Lífsvon Sjóvar lét í té
lyfjakeðjubjáni.

 

Nú aðeins vantar undirskrift!
Er þá nokkur heima?
Ef enginn getur armi lyft
má öllu þessu gleyma!

 

Þó ekki verði öllu náð
sem enn mun talið hreinna.
Þeir hafa undir rifi ráð
og redda þessu seinna.

 

Til Milestone bara færa féð
úr fúnum Glitnis aski.
Þáttarskuldin þvegin með
þokkapiltabraski.

 

Lagaregluverkið var
með vilja þarna brotið
er lítilsigldir lúserar,
léku djarft og rotið?

 

Hið nýja félag fullgilt var
fjórum dögum síðar.
Með traustum Sjóvárbréfum bar
bankaskuldir fríðar.

 

Nú er loksins Vafnings veð
vottað, eftir baslið,
lánið hægt að möndla með
og millifæra draslið.

 

Hefst nú siðlaust sjónarspil,
samningurinn skráður,
(með falsi grófu færður til)
fjórum dögum áður!

 

Aðeins verður vandamál
ef vitnast þessi flétta:
Yrði drísildjöflum hál
dagsetningin rétta!

 

Fram þá stígur Bjarni Ben.
til bjargar, ættarsprotinn.
Pennann glaður grípur – en
gjörningurinn rotinn.

 

Skjalið virðist skíraglit,
skrautritað með „heading“!
Eðli þess með öðrum lit,
algjör skítaredding.

 

Bjarni nú sinn tíma tók
að tæma bankahólfin.
Veit að senn mun bankinn „broke“,
brostin hallargólfin.

 

Vafningsskuld að vonum greidd
með vænu láni’ í Glitni!!
Summan gegnum Svartháf reidd.
Sýnist púkinn fitni!

 

Greitt til baka bara smá
brot af lánsins virði:
Borgar þjóðin þaðan frá
þeirra skuldabyrði.

 

Útrás landið vefur vor
víkingsfrægðarljóma.
Í bankainnrás eðlisþor
æðstan veitir sóma.

 

Saga þessi aðeins er
almennt, lítið dæmi
um sigra þegar saman fer
snilld og íslenskt næmi.

 

09.02.12

Lilja kynnti Samstöðu, nýja flokkinn sinn, og Sigga storm sem sína hægri hönd!

VG, með Steingrím í stafni,

stóð bara ekki’ undir nafni.

Þó samherja lasti

í samviskukasti,

það er lofsvert – svo Lilja ei kafni.

 

Þeir ofríkis ráðamenn bogni!

– það rýkur víst sjaldan í logni –

Stormurinn hrífur

og samstaðan blífur

þó samviskan teygist og togni.

 

14.03.12

Magnús Halldórsson sendi í tölvupósti myndir sem voru teknar af honum á Stuðli sínum með þessum orðum: „Þessar myndir tók Halldór minn í byrjun mars af okkur Stuðli, krapasull og leiðinda færi á veginum, sem fátítt er á þessum slóðum“. Sendi honum þessa vísu til baka:

Í krapasulli karlinn gamli

keyrir ljóðastaf.

Flugtak nálgast, helst að hamli

að hettan fýkur af.

 

27.03.12

Hreinn bróðir sendi á Netinu mynd af bráðefnilegum fola sem á í tamningu, Sprota, undan Þóroddi og Spátu Gadldursdóttur og Spár. Hreinn fékk þessa vísu til baka:

Prúður gengur folinn frjáls,

fögrum litnum skartar.

Með vind í faxi vefur háls,

vonir kveikir bjartar.

 

Hreinn svaraði auðvitað með vísu þar sem hann kvaðst sæll með sendinguna. Ég sendi honum aðra:

Verður ertu víst að fá
í vísu lítinn mola.
Syngja hlýtur sá sem á
svona góðan fola.

 

05.04.12

Ávallt skal forðast stríð og styr,

stefnan sé friður.

Að ganga hægt um gleðinnar dyr

er góður siður.

 

26.04.12

Seiður heitir aðalreiðhesturinn minn undanfarin ár, ferðavíkingur mikill. Belgísk stúlka í ferðahópi sumarið 2011 tók mynd af mér á Seiði uppi á Hellisheiði, þar sem klárinn svolgrar í sig vatnið úr tærum fjallalæk, í glaðasólskini. Myndin varð tilefni til eftirfarandi:

Efst á Hellisheiði,
við heillandi sólarglit,
sit ég glaður á Seiði
með svolítinn kinnalit!

 

Trausti vinurinn teygar,
taktfast við lækjarhjal,
dýrustu veraldarveigar
-vatnið í fjallasal.

 

Fagurt er jafnan á fjöllum,
finn þar hinn tæra hljóm.
Anda, með vitunum öllum,
að mér þeim helgidóm.

 

Mér best á öræfum uni,
andinn mig þangað ber.
Finnst þar eins og að funi
frelsið innan í mér.

 

05.05.12

Framsóknardraugar ýmsir hófust upp, þegar Þórólfur Matthíasson beindi opinberlega nokkrum spurningum til Bændasamtakanna, eftir að hafa loks fengið í hendur ársreikning þeirra, og jusu svívirðingum yfir hagfræðinginn á samskiptasíðum fyrir þann dónaskap að voga sér að spyrja þetta háæruverðuga apparat spurninga:

Ekki spyrja um það má,

einn skal kyrja sönginn,

sannleik yrja – senn mun þá

sálar byrja þröngin.

 

08.05.12

Mikið er nú fagurt út að líta þessa dagana. Alla vega hérna sunnanlands. Og stúdentar úttöluðu sig í gær, í sjónvarpi allra landsmanna, um prófabölið við þessar aðstæður. Þetta er víst eilífðarmál?

Sólin skín af himni heiðum,
hengir lín á gylltan baug.
Faðminn sýnir foldarbreiðum,
fangar mína innstu taug.

 

Það er samt ólíklegt að blessaðir stúdentarnir endist lengi úti við. Er þetta ekki kallað „gluggaveður“?

Værðarfullur vindur ber
um vorið bull og skvaldur.
Gamla rullan, ennþá er
alveg drullukaldur.

 

11.05.12

Það fer ekkert á milli mála að Anna María er ákaflega ánægð með eiginmann sinn. Þegar ég kom inn áðan ljómaði hún öll af hrifningu og greinilegan ánægjublæ mátti greina í rödd hennar þegar hún sagði, án þess hún vissi að heyrðist til hennar:

Vinnuhestur, vindur sér

í verkalistann sáttur.

Blessun mesta bóndinn er,

búinn fyrsti sláttur.“

 

13.05.12

Mæðradagurinn er í dag. Fæstir eiga öðrum en mæðrum sínum meira að þakka og óbreyttir jafnt sem andans jöfrar hafa hyllt þær í verkum og orðum, sumir ódauðlega. Ég legg þetta í púkkið:

Aldrei gleymist ástarþel,
æsku- dreymir glæður.
Innri geyma eldinn vel
allar heimsins mæður.

 

17.05.12

Himinn blár, en horfinn snjár,

hagans grár er feldur.

Nóttin ári nú er sár,

Norðan-Kári veldur.

 

14.06.12

Kom heim úr hestaferð, alveg sótsvartur í framan af ryki. Var nokkuð lúinn eftir langan dag í hnakknum og þá tók Anna María, þessi elska á móti mér með sínum hætti:

Konan beið með bros á vör og bjór í glasi.

Alltaf ljúf og létt í fasi

þó liggi ég í hrossabrasi.

 

16.06.12

Fjórði í hestaferð: Hella-Skúfslækur.

Feykilega fóru vel
fögur listahrossin.
Viljug tölta mó og mel,
með þeim dillar bossinn.

 

20.06.12

Fékk þessa hugdettu, svona fyrir svefninn, enda búinn að ríða út í dag og lesa tvær skáldsögur, aðra í gær og hina í dag:

Glóðir tendrar góðhestur,

gleði sendir strauma.

Bálar kenndir bóklestur,

birtir lendur drauma.

 

22.06.12

Miami Heat vann í nótt NBA titilinn. Það var langþráður titill fyrir suma:

Loksins vann þá dollu, James,

dýrðar má því njóta.

Allra sterkust hetja heims

til handa jafnt sem fóta.

 

Það er víst bara eitt sem hægt er að ganga að vísu:

Sé ég undan sunnan þey
sigla gullinn flota.
Að lokum þessi fögru fley
fáum öll að nota.

 

Sólin braust fram þegar við komum í Skagafjörðinn“ var myndtexti úr kosningaferð Þóru Arnórsdóttur. Mér sýndist myndin bera annað með sér:

Dökkur skýjabakkinn ber

brosin ofurliði.

Horfin sól af himni er,

hvíla mun í friði.

 

Sigmundur Davíð heimtaði undirritað samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu um þinglok, vegna þess að ekkert traust væri milli aðila. Svo lét hann sig hverfa tímunum saman, skv. fjölmiðlum, „eins og krakki“, til að tefja tímann enn meira:

Er á þingi ekkert traust,

allt til stáls lét sverfa,

eins og krakki“ endalaust

aftur lét sig hverfa.

 

06.07.12

Gönguferð Abbalabba frá Skálpanesi, um Jarlhettur, Einifell, Hlöðuvelli, á Skjaldbreið, Kerlingu, Klukkuskarð, Skillandsdal að Laugarvatni. Ort á toppi Skjaldbreiðs:

Geng á háan Skjaldbreið, skoða

skíragullin fjallaranns.

Sköpun elds- og ísa goða

ætíð greipt í huga manns.

 

Á göngu frá Kerlingu að Klukkuskarði varð til þessi vísnagáta. Um að gera að ráða hana. Lausnin er stakt orð, íslenskt nafn:

Þessi einhver styðst við staf.

Stríðinn Óðinn svörin gaf.

Skjaldborg nafni í sælu svaf.

Sést á Neti vísnaskraf.

 

Og efst í Klukkuskarði:

Síst á Abbalöbbu lát,

lokabrattann marði.

Upp sig glennti ofsakát

efst í Klukkuskarði.

 

21.07.12

Skrifað á servíettu í brúðkaupi Dóra og Eddu:

Ástin blómstrar ykkur hjá,

ævin hjartnæm saga:

Ísabella og Thelma tjá

traustið alla daga.

 

30.07.12

Við Ari komum heim af Kili í gær, eftir vel heppnaða hestaleiguferð:

Fannst mér kært að koma heim

og kyssa aftur frúna.

Í huga fagran fjallageim

ferðast get ég núna.

 

11.08.12

Í Sunnlenska fréttablaðinu, var notað enn og aftur (í nýlegu blaði) ónefnið „Laugardalsvellir“, þegar augljóslega, af samhenginu að ráða, er átt við Laugarvatnsvelli. Ég varð að kvarta yfir því. Því grátlegra er þetta að viðkomandi blaðamaður gekk í skóla á Laugarvatni. Það er sjálfsagt líka orðið vonlaust að kveða niður falsið um „veginn yfir Lyngdalsheiði“?

Tindar yfir gólfi grass,

glæst í kvæði efni.

Laugar- heita vellir -vatns

virðum það örnefni.

 

Ferðalangar fá á ný

í fréttum blandað seyði

svo þeir villur ani í

upp á Lyngdalsheiði.

 

14.08.12

Anna María, þessi elska, á afmæli í dag:

Augun brosa, augun þrá,

augun gráta líka.

Augun hreinu, augun blá,

augun himnaríkja.

 

15.08.12

Eftir miklar rigningar undanfarið er að mestu stytt upp. En grasið í garðinum hefur heldur betur tekið kipp og tími kominn á að draga í gang sláttuvélina! En…

Döggin sindrar sverði á,

sólar lokuð gáttin.

Langt í burtu bjart að sjá,

bíð því enn með sláttinn.

 

18.08.12

Við Ari tókum okkur til og ferjuðum fjögur hross að Þóroddsstöðum á föstudaginn til að ríða á Vallamótið – með ýmsum úr stórfjölskyldunni. Það var magnaður túr. Þegar við vorum að tygja okkur af stað heimleiðis á laugardeginum leit út fyrir að einhverjir ætluðu að fara að brýna raustina:

Velja snjallir Vallamót,
varla kallast svikið.
Belja karlar, bjallar snót
bralla allir mikið.

 

Reiðtúrinn heim heiði sveik svo ekki, fremur en vant er, hrossin í feiknastuði:

Af mélum freiðir, augu ör,
andann seiðir þorið.
Dunar heiðin, funar fjör,
fákar greiða sporið.

 

19.08.12

Nú er farið að skyggja á kvöldin! Sumarið má þó ekki sleppa öllum tökum strax:


Sumri hallar, húmar að,
haustið kallar núna.
Í mæðu falla má ei það
og missa alla trúna.

 

19.08.12

Lítið heilræði:

Ef ranga starir lífs á leið,

litlu þar vilt sinna

er best að fara röska reið

og rétta svarið finna.

 

19.08.12

HKL sagði eitt sinn eitthvað á þá leið að því ákafar sem sagnfræðingar reyndu að höndla sannleikann, því lengra hyrfu þeir inn í heim skáldskaparins. Þess vegna er sjálfsagt ástæðulaust að taka mikið mark á doktor Guðna Th. Jóhannessyni, sem lét hafa það eftir sér í kvöldfréttum að forsetinn og forsætisráðherra ættu að geta rætt saman á vinsamlegum nótum um hefðir og skyldur handhafa forsetavalds þegar forsetinn yfirgefur landið. En á kærleiksheimili sagnfræðinnar gæti þetta verið einhvernveginn svona:

Núna forset-inn fyr oss
axlar kross: ástandið.
Jóka hossi, svo kærleikskoss
er kveður „bosh-ið“ landið.

 

22.08.12

Grúskið bætir geðslagið,

gleði stakan veitir,

og hrossin ferðir ven ég við

víða hér um sveitir.

 

22.08.12

Systurnar, og stórfrænkur mínar, Anna Lína og Obba Vill. „lækuðu“ vísuna hér að ofan á Facebook:

Systur „læka“ frændans fitl

við ferskeytluna

sem þó er aðeins þarflaust kitl

sem þarf að una.

 

22.08.12

Vangaveltur í fjölmiðlum um breytingar á ríkisstjórn. RÚV segir: „Katrín í stað Oddnýjar – Líklegast þykir að Katrín Júlíusdóttir taki sæti Oddnýjar G. Harðardóttur…“

Jóku reynist blóðug ben,

broddur stingur svoddan.

Kötu skiptir inná, en

Odda leggst á koddann.

 

22.08.12

Guðmundur Rúnar Árnason var ráðinn verkefnastjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun. DV hafði heimildir fyrir því að Össur hafi verið með puttana í málinu en framkvæmdastjóri stofnunarinnar þvertekur fyrir pólitískan þrýsting:

Hlutlaust farið málið með,

matið faglegt hljómar þanninn:

Össur, jafnan röskur, réð

rétta Samfylkingarmanninn!

 

23.08.12

Ég las á visir.is að „Lilja Mósesdóttir, stofnandi Samstöðu – flokks lýðræðis og velferðar, ætlar ekki að gefa kost á sér í embætti formanns flokksins á landsfundi flokksins í byrjun október. Hún segist ætla að axla þannig ábyrgð á fylgistapi flokksins undanfarna mánuði… Fram að næstu alþingiskosningum ætlar hún að einbeita sér að störfum sínum á þingi [þar] sem hún segist hafa leitast við að nýta fagþekkingu sína… :

Hagfræðingur, hörð í skapi,

helsta vonin innan þings.

Með fagþekkingu í fylgistapi

og forðast hylli almennings.

 

23.08.12

Fyrirsögn á dv.is: „Dreymir um að gera það undir borði í teboði hjá ömmu“:

Boðum neitað, með þökkum, þvert

þar til fyrir skömmu.

En trekkja núna töluvert

teboðin hjá ömmu.

 

25.08.12

Himin ætir harmageð,

úr hófi grætur núna.

Gráma mæti glaður, með

gúmmí- fætur -búna.

 

25.08.12

Mogginn slær upp af bloggi Bjarna Harðarsonar að í ræðu Katrínar Jakobsdóttur á flokksráðsfundi Vg, sem haldinn var að Hólum í Hjaltadal, hafi verið „subbulegar alhæfingar“:

Ennþá veinað, allt í kross,

innanmeinin skaða.

Meitlar steininn Moggahoss,

munið Einar Daða.

 

26.08.12

Að kveldi sunnudags:

Framá settist, mig fetti, þvó,

át frókost (hmm…lýsið skorti!).

Blaði fletti, blettinn sló,

bók las, vísu orti.

 

27.08.12

Í kjölfar undanfarandi vísu, sem ég birti á Fjasbók, gerði Gummi Kalli þá athugasemd að hann „hefði viljað fá sléttubönd“. Ég lét það eftir honum og orti þressi refhverfu sléttubönd:

Þjónar, stritar, sjaldan sér

sjálfum hampar maður.

Bónar, skúrar, ekki er

argur, leiður, staður.

Staður, leiður, argur er,

ekki skúrar, bónar.

Maður hampar sjálfum sér,

sjaldan stritar, þjónar.

 

Eiginkonan hélt í 10 daga ferð til Noregs í morgun, að heimsækja syni og barnabörn. Hún var óþarflega kát þegar hún kvaddi:

Upp er kominn efi stór,

allur dofinn kraftur.

Svo kát til Noregs konan fór,

-kemur hún til mín aftur?

 

Og svo meiri refhverf sléttubönd, fyrir svefninn:

Fórnar sopa, þeigi þver

þrekið, veldur sjálfur.

Stjórnar drykkju, fráleitt fer

fullur eða hálfur.

 

Hálfur eða fullur fer,

fráleitt drykkju stjórnar.

Sjálfur veldur, þrekið þver,

þeigi sopa fórnar.

 

Svandís bekkjarsystir mín úr ML birti mynd af sér á Netinu þar sem hún er skælbrosandi á útreiðum á góðum hesti:

Svandís er með sælubros,

sálin þaninn strengur.

Frá vegi nokkurt virðist los,

varla snertir lengur.

 

1.09.12

Heimssýn er í auglýsingaherferð gegn ESB samningaferlinu og voru samtökin sökuð um að fara þar með ósannindi. Atli Gíslason taldi lýðræðishallann í ESB svo mikinn að Ísland yrði eins og fluga í fílahjörð:

Heimssýn stöðugt stendur vörð,

í stríði allt má gera.

Eins og flugu í fílahjörð

finnst hún sterkust vera.

 

Bjarna frænda og Freyju fæddist í dag drengur:

Freyja og Bjarni fagran tel

flétti ættarstrenginn.

Heilsist ætíð honum vel:

til hamingju með drenginn.

 

Ögmundur var dæmdur fyrir að brjóta jafnréttislög, sjálfur yfirmaður laga og réttar. Hann skammaðist sín ekkert og vísaði í samvisku sína. Þá var rifjað upp hvað hann sagði átta árum áður, þegar Björn Bjarnason braut sömu lög við ráðningu Ólafs Barkar: „Ráðherrar fari á skólabekk til að læra jafnréttislög“, sagði Ögmundur þá:

En það var fyrir átta árum

og aðeins minna’ af gráum hárum.

Samviskuna mikils metur

og miklu hærra lögum setur.

Þarf að fara’ að þusa’ um hrekkinn?

-þetta grín með skólabekkinn?

 

04.11.12

Mikið hefur gengið á undanfarna daga. Stormur og ofsaveður í hviðunum, en á sunnudagsmorguninn rennur upp bjartur, rór og fagur:

Hósta fékk ‘ann Kári kast,
kvaldist upp og niður.
Hinn sjúki núna sefur fast;
sólskin, ró og friður.

 

15.11.12

Svar til Péturs:

Ekki Pétur þegja þarf,

þjóðin metur kvæðin.

Ofar setur stefjastarf,

standa betur gæðin.

 

16.11.12.

Í tilefni af degi íslenskrar tungu:

Lifðu glaður, laus við blaður,

leggðu þvaður af.

Orðastaður! Ydda, maður,

Íslands fjaðurstaf.

 

Í kvöld var haldið Karlakvöld Karlakórs Hreppamanna. Meðal atriða þar var uppboð. „Vinningarnir voru kynntir svona:

1. Pappakassi (falin í koníaksflaska):

Halló! Lítið augum á!

Ekki má nú trassa

að bjóða mikið, og flottan fá

feng úr pappakassa!

 

2. Málverk:

Lítið hingað! Listaverk,

litum undurfögrum málað.

Hátt skal bjóða! Myndin merk.

Á morgun heima verður skálað!

 

3. Hryssa, tamin og vekringur:

Ágætlega tamda tel,

töluvert í hana spunnið.

Gæða hryssa, vökur vel,

verðlaun hefur líka unnið!

 

4. Folatollur, við Hauki frá Haukholtum, á þriðja vetri:

Happatoll nú herrum býð.

Haukur nefnist fákur.

Móðir Elding, fim og fríð,

faðirinn er Krákur.

 

5. Gjafabréf í kassa (spænir frá Límtré, 5 pokar).

Hækkið boðin, hestamenn,

hógværð dugar ekki.

Víkingsdirfskan ólgar enn

ef ég bændur þekki!

 

2.12.12

Spenntur ég stekk upp úr stólnum!

Það er stórsýning úti á hólnum!

Á sviðið er díva,

hún Hundslappa-Drífa,

komin í mjallhvíta kjólnum.

 

20.12.12

Pétur Blöndal kom í Sunnlenska bókakaffið að lesa upp úr Limrubók sinni. Kvöldið áður hafði Kilju-Egill Helgason heimsótt hann heim til sín á Seltjarnarnes. Kvaddi Pétur í bókakaffinu með limru:

Pétur hann les og hann les,

limrurnar víst eru spes.

Hér stendur ‘ann hátt.

Stefnir þó lágt,

já, suður á Seltjarnarnes.

 

23.12.12

Jólakveðjan í ár:

Er skuggarnir skríða’ uppá hól

í skammdegi, norður við pól,

á ljósið má benda,

og með logunum senda

gæfu og gleðileg jól.

 

Enn sækja að freistingafól

með falsið og innantómt gól.

En lausnin er kær:

Líttu þér nær

um gæfu og gleðileg jól.

 

Hve Siggi er sætur í kjól

og Solla með hangandi „tól“.

Ef straumi mót syndið

veitir umburðarlyndið

gæfu og gleðileg jól.

 

Í fjölskyldufaðmi er skjól.

Hann er friðar- og kærleikans ból.

Þar ávallt þú veist

að geturðu treyst

á gæfu og gleðileg jól.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *