Úr dagbókinni 2013

Árið 2013. Safnið telur 114 vísur

23.01.13

Við bekkjarbræðurnir úr B-bekknum í KHÍ vorum að undirbúa 30 ára útskriftarafmæli í vor. Vangaveltur um matseðil voru þar á meðal, hvort ætti að velja fyrir allan hópinn og þá hvernig:

Svona mætti orða könnunina:

Hvað viltu dýrðlegt á disk?

Dugar ei lengur neitt gisk,

sút eða hik.

Settu þitt prik

við annaðhvort önd eða fisk.

 

31.01.13

Við undirbúning fyrrnefndrar hátíðar var sæst á að 27. apríl væri heppilegur dagur til veisluhalda. Síðar áttuðu menn sig á því að það mun vera kjördagur til Alþingis. Ólafur Arngrímsson taldi það engin tormerki, hann hefði hvort eð er ekki kosið í nokkrum undanförnum kosningum, og engin ástæða til þess að hann færi að bæta við meira af því sem fyrir er:

Ábyrgð neina Óli ber

á undanförnum þingum.

Þar nuddar upp úr níði sér

nóg af vitleysingum.

 

02.03.13

FSu vann Reyni í Iðu:

Heimaliðið komst á kreik,

kátur frá því greini.

Tæpur svo, í seigluleik,

sigur vannst á Reyni.

 

06.03.13

Brast á með stórhríð, á miðju vori!:

Núna vetur vöndinn hóf,

vind í metra tugum.

Nærri getur! Neyð og þóf,

nema betur dugum.

 

17.03.13

Tvær fermingar í dag. Jasmín Ragnarsdóttir fermdist í Garðakirkju:

Gæfan við þér brosir blítt,
sem blik frá stjörnum skærum.
Lífið hefur að þér ýtt
ótal tækifærum.

 

Þorsteinn Stefánsson fermdist í Fríkirkjunni:

Þá lífið opnar litla gátt,
lagið nýttu feginn.
Alltaf skaltu hugsa hátt
og horfa fram á veginn.

 

31.03.13

Páskaveðurvísa:

Sólin himni siglir á
seglum þöndum.
Næturfrerinn fýldur þá
fer með löndum.

 

16.05.13

Sjúkraprófið búið. Einkunnum skilað. Hvað skyldi þá taka við?

Vorið seiðir þýðar þrár,

þerrur breiðir hlýjar.

Sporið greiðir kátur klár

kannar leiðir nýjar.

 

01.06.13

Frétt á dv.is frá Japan um fyrirtæki sem neyddist til að hætta að selja hundamat unninn úr íslensku hvalkjöti:

Verndum hvalaveiðina.

Verðum hér að stund’ ‘ana!

Seljum marga sneiðina

sem fer beint í hundana.

 

04.06.13

Kom áðan í heimsókn til Óla Th. og Gyðu. „Enginn fær að fara fyrr en hann er búinn að skrifa í gestabókina. Hingað til hefur enginn neitað“, sagði Óli. Ég skrifaði:

Bæði hjónin fim og flott,
frjótt er andans hvelið.
Kaffið er hér æði gott
eins og vinarþelið.

 

05.06.13

Eftir nokkurra daga rigningu og rok birti loks til:

Nakta loks er sól að sjá,
sólin klæðum fletti.
Gylfi ætlar út að slá,
út að slá á bletti.

 

08.06.13

Það er dásamlegt veðrið þessa dagana, loksins komið sumar. Mild vætutíð og sprettan góð. Dásamlegir útreiðardagar:

Mjög er veðrið milt og gott,
mikið sprettur gróður.
Lagði því á ho-ho. „Hott,
hott“, ég sagði rjóður.

 

16.06.13

Sendi eftirfarandi kveðju á Netsíðuna „Takk Óli“ þegar síðasti landsleikur Ólafs Stefánssonar stóð yfir í beinni útsendingu í sjónvarpinu:

Óli Stefáns, engum líkur,
öll þín snilld og töfrabrögð.
Aldrei fæðist annar slíkur,
þín ævintýri lengi sögð.

 

25.06.13

Sigmundur Davíð var í heimsókn hjá danska forsætisráðherranum, og hafði það helst til frásagnar af fundinum að sú danska kynni ágæta dönsku!

Sigmundur Davíð, þeirri dönsku
drýldinn í íslenskan bröns ku
boðið nú hafa.
En bindin samt lafa
við þjóðrembukúrinn úr frönsku
m.

 

07.07.13

Marga er farið að lengja eftir sólskini, þetta sumarið:

Nú er úti veður vott,

vindar stöðugt blása

svala gráa sumardaga.

Þetta’ er orðið ansi gott

engin gefin pása.

Gylfa frú sig grætur hása.

 

08.07.13

Mánudagur:

Út er sofinn, orku með

sem eykur blundur fagur.

Ekkert meira gleður geð

en góður mánudagur.

 

09.07.13

Þriðjudagur:

Sýni bæði djörfung, dug,

svo dívan nýta megi.

Fátt eitt meira herðir hug

en hvíld á þriðjudegi.

 

Forsetinn skrifaði undir lög um lækkun sérstaks veiðigjalds, þrátt fyrir að honum bærust 35 þúsund undirskriftir kosningabærra manna um að gera það ekki. Samdi vísnagátu í tilefni dagsins:

Vakur mjög í vindi snýst.

Veldur styr að morgni.

Brjóstið mjög út belgir víst.

Beittur Jóns í horni.

 

10.07.13

Miðvikudagur:

Ég kúri, en seilist til kökunnar

í kyrrð, milli svefnisins og vökunnar.

Hve mildur og fagur

er miðvikudagur

um sláttinn, ef nýttur til slökunar.

 

11.07.13

Fimmtudagur:

Fluggreind tík og friðsamleg,

til fyrirmyndar oft,

svo fimmtudegi fagna ég

með fætur upp í loft.

 

12.07.13

Föstudagur:

Við grundun boðorðs guð minn sat,

sem gott er fram að draga:

Eigðu náðugt eftir mat

alla föstudaga“.

 

13.07.13

Laugardagur:

Ávallt skaltu leita lags

að losna flest við störfin.

Besta lofgjörð laugardags

er lítil vinnuþörfin.

 

14.07.13

Sunnudagur:

Víst má í því fróun fá

og finna eflast haginn

að liggja sínu liði á

langan sunnudaginn.

 

06.08.13

Óli Björns tilkynnti að hann væri mættur á kontórinn eftir góða verslunarmannahelgi:

Óli Björns á kontór kom

kátur eftir helgina.

Samband náið hafði hann

haft við rauðvínsbelgina,

sungið og í Úthlíð glatt

alla drykkjusvelgina!

 

13.08.13

Ferðasumrinu lokið. Fimm vikuferðir á hestum um íslenska náttúru. Gerist ekki betra:

Þá er ferðum um fjöll og dali,

fjörur, hraun og kjarrið græna

lokið að sinni.

Sá ég heiðbláa himnasali,

fann hávaðarok og dembu væna

á eigin skinni.

Af útiveru enginn verður minni.

Ofar mönnum trónir tign,

í tröllsham eða blíð og lygn,

náttúran – og sérhver sál

sem að nemur hennar mál

til smæðar sinnar, hrærð, í auðmýkt finni.

 

14.08.13

Anna María á afmæli í dag:

Enn hve ljóma augun þín,

allan lýsa bæinn

og brosið, það heilar heimsins pín.

Til hamingju með daginn.

 

29.08.13

Nú eru göngur hafnar fyrir norðan, reyndar af sérstökum ástæðum. Vonandi fer allt vel þar um slóðir. Eftir hálfan mánuð eða svo hefst eðlilegur gangnatími. Ég átti þess kost að smala með Grímsnesingum í fyrra, sem afleysingamaður fyrir Þóroddsstaðabændur í Austurleit. Það var ógleymanlegt, enda hvergi að finna jafn glæstan afrétt og afréttur Laugdæla og Grímsnesinga óneitanlega er. Að lokinni þeirri fjallferð samdi ég eftirfarandi vísur, sem ég birti hér af því tilefni að styttist óðum í brottför Austurleitarmanna að nýju. Ég mun hugsa til þeirra:

Austurleitarvísur
Fjallferð Austurleitar á Grímsnessafrétti

Austurleitin enn skal halda inn til fjalla,
um birkihlíðar, bratta stalla,
bunulæki, gil og hjalla.

Hófasláttinn herða má við háar brúnir
Hrossadals, í friðinn flúnir
fjallmenn, samt við öllu búnir.

Kætir geð að komast inn úr Klukkuskarði.
Um hvað rætt þó engan varði,
og eitthvað lækki pelans kvarði.

Leiðin síðan liggur norður Langadalinn.
Faðma allan fjallasalinn.
Fegurst þessi afrétt talin.

Undir kvöldið lenda Kerlingar við kofa.
Jafnan farið seint að sofa
og sungið eins og raddbönd lofa.

Kamarinn í Kerlingu er kúnst að nýta:
Þú berar úti bossann hvíta
og bakkar inn, til þess að skíta.

Aftur sama aðferð þegar út er farið;
á hækjum sér, með höfuð marið
og helgidæmið allt óvarið.

Héðan fjallmenn hálfan ríða hring um Breiðinn.
Kargaþýfð og löng er leiðin.
Já, lystug verður blóðmörssneiðin.

Skeiðið renna, skála undir Skriðuhnjúki.
Flæðir þaðan mosinn mjúki,
móðir jörð sem þakin dúki.

Höfuð ber og herðar yfir, Hlöðufellið.
Það augum kastar, ansi brellið,
yfir hraun og jökulsvellið.

Á feti ríður flokkurinn á Fífilvelli.
Tign er yfir Tjaldafelli
sem tekur undir smalans gelli.

Ei lokka Skersli. Lengra sér til Lambahlíða.
Þangað ekki þarf að ríða
þó að „sjáist“ kindur víða.

Skyggnst er um af Sköflungi og Skjaldbreið líka.
Spariklæðum fjöllin flíka.
Fegurð sem á enga líka.

En skelfing líkjast skítahraukum Skefilfjöllin!
Eins og hafi hægt sér tröllin
á harðaspretti suður völlinn.

Teygist líka töluvert úr Tindaskaga
enda tröllin oft að plaga
iðrakveisur, forðum daga.

Hrafnabjargahálsinn þykir hörmung sveitar
sem blá af kulda bráðum neitar
að bíða komu Vesturleitar.

Öræfanna úti brátt er ævintýri.
Kveður fjallaheimur hýri
er heilsar smölum Kringlumýri.

Að lokum þarf að lóna suður Lyngdalsheiði.
Jafnan ber þar vel í veiði,
vænir dilkar á því skeiði.

Rökkurvökur, rómur hás og rassinn sári!
Þokkalegur, þessi fjári,
en þeginn vel á hverju ári.

Þó að smalar þvældir gerist, þverri kraftur,
í skinni brennur brátt hver kjaftur
og bíður þess að fara aftur.

31.08.13

Pétur Stefánsson játaði auðmjúklega og með eftirsjá í frábærri vísu að hafa sett x við B í síðustu kosningum, en jafnframt að það gerði hann ekki aftur:

Að hann setti x við B
af auðmýkt núna játar.
Á því verður ævihlé,
aðra stafi mátar.

 

31.08.13

Jónas Haukur kom heim til Íslands frá Bergen í síðustu viku og heimsótti okkur mömmu hans. Við gerðum eins vel við hann í mat og drykk og mögulegt var: grilluðum hrossalundir, sem Jónas dásamaði m.a. í færslu á Facebook. Ég setti inn þessa athugasemd:

Ef góða veislu gjöra skal,
galdur einn ég þekki:
Herra, Guð, í himnasal,
hrossið klikkar ekki.

 

1.09.13.

Rok og rigning. Enn ein lægðin gengur yfir:

Úti heyrist hávært væl,

hugarró misbjóða.

Enn ein lægð, og engum dæl,

alger grenjuskjóða.

 

5.09.13

Bekkjarbræður úr ML birtu á Facebook af sér mynd úr ferð í Veiðivötn. Systur tjáðu sig um myndina, um glæsileik þeirra og minnst var á að líkast væri að þeir hefðu verið geymdir í formalíni frá skólaárunum. Fram kom þá að formalín hefði ekki farið „mildum höndum“ mannsreður í safni á Húsavík. Var þá formalínið dregið til baka en í staðinn minnst á vínanda:

Reður manns kvað rýrna mest

rakur í formalíni

og glæsipiltar gamlast best

glaðir af brennivíni.

 

Lít ég vaskar veiðiklær.

Vinir! þið stöðugt batnið.

Samviskan er silfurtær,

þið sötrið, og berjið, vatnið!

 

5.09.13

Eyrún Guðmundsdóttir lýsti rafmagnsleysi við götuna vegna aðgerða fjölmenns flokks frá Orkuveitunni sem græfi holur. Sennilega væru mennirnir að reyna að laga slæmt karma vegna aðgerða við lagningu ljósleiðara fyrr í sumar:

Teknar í garðinum grafirnar,

grafa á Orkuveituna,

því „dyrakarmað“ komið var

í klessu, útí bleytuna.

 

14.09.13

Ort í kjölfar eilífrar umræðu, m.a. þingmanna, um óþurft listamanna og listsköpunar:

Djöfull er djöfullinn góður!
Hann dansar í kringum oss, óður!
Og menningarlífi,
sem guð oss frá hlífi,
laumar í frummannsins fóður.

 

21.09.13

Eftir langt rigningarsumar stytti loks upp með norðanátt. Þá er hætt við hélu á bílrúðum á morgnana, en líka vona á fallegum kyrrðardögurm:

Sumar bauð það súran kost
að seint úr hug mun líða.
Náði hingað næturfrost.
Nú er sól og blíða.

 

22.09.13

Tveir dagar í röð, og maður fyllist bjartsýni:

Það er ei við leiða laust
af langri sumars vætu
en fáum við kannski himneskt haust
með hita og sólarglætu?

 

30.09.13

Prófessor Eiríkur Rögnvaldsson vakti athygli á því að „svá er“ rímar við „Wow air“:

Nútíminn rafknúið ráf er
en í rauntíma Framsókn í kláf er
á leið yfir álinn
með áherslumálin.
Við sjónbaug hvarf vélin frá Wow-air.

 

15.10.13

Þegar heim var komið úr ferð KKH til Rómar og farið að skoða myndirnar urðu til meðfylgjandi vísur:

1. vísa:

Vá! hvað úrvalið er flott
og efnið, finndu, líka gott!“
„Nú, ætlar þú að kaupa klút?
Komdu, góða, héðan út.“

 

2. vísa:

Augun gleðja undur tvö,
annað sjónum falið.
Í veröld allri eru sjö.
-Átta, ef rétt er talið!

 

3. vísa:

Baddi huga hefur bægt

heim, sér til að orna:

Kunnu þeir nokkuð í rófurrækt

Rómverjar til forna?

 

4. vísa:

Mikilfengleik má til sanns

marka í Rómarsetri

að fangar ógnarfjölda manns

forstofan hjá Pétri.

 

5. vísa:

Ef fleygir í brunninn mynt, þá má
marka að snúir aftur.
Í mannhafinu, mátti sjá,
er mikill segulkraftur.

 

6. vísa:

Guð láti gott á vita

er gleypum við næsta bita.

Böl þess’ að kyngja.

Og bannað að syngja!

Þröngt mega sáttir sitja.

 

7. vísa:

Tók á annan aldartug

að opna dýrðarskelina:

Fornar minjar fanga hug

og fóðra myndavélina.

 

8. vísa:

Eitthvað virðist Siggi sjá

við sundurgrafna jörð.

Eiríkur grimmi gengur hjá.

Grétar stendur vörð.

 

9. vísa:

Myntu fleygði frú um öxl

því finna Róm vill aftur.

Gylfi stóð og gnísti jöxl-

um. Gamall fylliraftur.

 

10. vísa:

Mjög er athyglinni beitt,
engu þar við blandandi.
En Böðvari er býsna heitt
og blundar Jenný standandi.

 

11. vísa:

Í Vatikanið ætla inn
að undralistagliti.
Frómur rekur flokkinn sinn
fyrrum hrepps oddviti.

 

12. vísa:

Mörg til forna gyðjan gekk
glæst um Colosseum
og þær vilja upp á dekk
enn, í þessum véum!

 

13. vísa:

Vatikansins mikli múr,
merki‘ um vald og auð.
Fjölda þræla undinn úr,
upp á vatn og brauð.

 

14. vísa:

Í rjómablíðu í Rómarborg

reyndist margt að kanna.

Þess til gengu þrátt um torg

Þorvaldur og Anna.

 

15. vísa:

Eitthvað markvert segir Sjöfn.

Það er sól, en engin gjóla.

Í svalheitunum sýnast jöfn

Sigurður og Fjóla.

 

16. vísa:

Hér er listagatan greið

úr glingri ýmsu’ að moða.

Halla gengur heim á leið,

hinar þurfa’ að skoða.

 

17. vísa:

Ekki virðist undirleit,

út nú glennir fingur.

Agnes sér að Anna veit

alveg hvað hún syngur.

 

18. vísa:

Fjögur eyru fíla Sjöfn

af fróðleik rykið dusta.

Sumir, nefnum engin nöfn,

nenna ekki’ að hlusta.

 

19. vísa:

Gamlar minjar grafnar upp

á gullin klínd var svertan

Eins og fljóð með fílahupp

Francós rjómatertan.

 

20. vísa:

Gleðjast þegnar Fagra-Fróns,

frískir dag og nætur,

nema Siggi Sigurjóns,

soldið man, og grætur.

 

21. vísa:

Bílstjórar lævísir lómar

svo léttgeggjað kaosið ómar.

Hér færa þarf fórn!

Fín umferðarstjórn

hjá Edit, í öngstrætum Rómar!

 

22. vísa:

Flekklaus hér múgurinn fetar,

jafnt Frakkar sem Rússar og Bretar.

Í annála set

að Elísabet

um páfagarð gekk með hann Grétar.

 

23. vísa:

Lært af löngu skaki

í lífsins ferðahraki

að nóttu jafnt sem degi:

Nema sér bróður eigi

ber er hver að baki.

 

24. vísa:

Lítið ítölskuna þekki.

Eitthvað samt verð að fá.

Hvað það verður veit ég ekki.

Við skulum bara sjá“.

 

25. vísa:

O, la vita bella!

írskan fundum bar“.

Áslaug, Jenný, Ella

eignast minningar.

 

26. vísa:

Þó falleg, gömul æskuást

ekkert sýnist dofna,

margfalt þarna matur brást

og Miklós er að sofna.

 

27. vísa:

Fer um salinn fögnuður,

frá er loksins röðin:

Silfrið rekur Ásthildur

oní salatblöðin.

 

28. vísa:

Ég skal bara játa enn,

þó jafnan séu beittir:

Af rápi verða miklir menn

miður sín, og þreyttir.

 

29. vísa:

Um loftið einhver angan fer

og undan best að líta.

Verst ef, eins og virðist mér,

Valdi þarf að skíta?

 

30. vísa:

Erða þessi, eða þessi gata?“

Nei, þetta var nú bara grín.“

Það er mikil þraut að rata

þegar vantar fjallasýn.

 

31. vísa:

Um vanga meyjar ljósið lék,

lygnum augum góndi,

því rétt sér bak við runna vék

röskur kúabóndi.

 

32. vísa:

Mörlandanna sælust sjón

að sjá, er himnaduggan.

Þó er ljóst að þessi hjón

þakka fyrir skuggann.

 

33. vísa:

Eftir stappið stöðva skal,

stundarhvíld er brýn.

Konni, eins og kriminal,

kneifar bjór og vín.

 

34. vísa:

Við slöknum öll ef fáum frí,

finnum hefjast bringu.

Dreyminn Palli er dottinn í

Dressmannauglýsingu.

 

35. vísa:

Andans ró og yndi finn,

ein er stundum gott að sitja.

Ættum við kannski, Óli minn,

eitthvert hingað suður flytja“?

 

36. vísa:

Í sólarglennu situr hér

sitt af hvoru tagi:

Norræn frú, en aftar er

ekta suðrænn gæi.

 

37. vísa:

Það er gott að þenja sig,

þokkinn berst um loftin,

líkt og eitthvert æðra stig

andi gegnum hvoftinn.

 

38. vísa:

Prófum ekki eftir beið,

útúr hafði lekið,

í flýti Hjalti fram úr skreið

og fór í apótekið.

 

39. vísa:

Ykkur dugar ekkert pex,

endar það með veini.

Kábojhattur, harkan sex,

hólkinn mundar Steini.

 

40. vísa:

Aðeins komst á liðið los,

líktist mannastöppu,

þá sáust tvær með sælubros

í sól, við Spánartröppu.

 

41. vísa:

Grímur speki grundar vær.

Gramur stillir Rúnar hljóðið.

Brjóstsykurinn Brynjar fær.

Bettý nemur orðaflóðið.

 

24.11.13

Fránum augum löngum lít

lífsins þýfi karga:

Út að hreinsa hundaskít,

heimi þarf að bjarga.

 

27.11.13

Sigmundur Davíð, forsætisráðherra, varaði þingfulltrúa á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins við því að stjórnarandstaðan myndi snúa út úr öllu þegar skuldaniðurfellingartillögur hans yrðu kynntar, og myndi ekki hika við að ljúga:

Bera andstæðingar sig,

útúrsnúning feta,

ætla’ að ljúga upp á mig

öllu sem þeir geta.

 

30.11.13

Þá er loforðasúpan fram reidd:

Löngum þeirra’ er lofa mest

lækkar strýtan.

Framsóknar er fyrir rest

fallin spýtan.

 

Framsókn er með lík í lest,

loforð svikin.

Formaður í fýlupest

fer nú mikinn.

 

23.12.13

Jólakveðjan þetta árið á gangleri.is:

Heimi forðum hinstu speki Hávi kvað:

Ef rekur menn á rangan stað

reynist best að hjálpast að.

 

Ofurgræðgi einkavegi út af fór.

Enginn syngur einn í kór.

Með öðrum verður maður stór.

Vinarþel er fundið fé

sem forðar oss frá grandi.

Óskum þess að ætíð sé

allt í góðu standi.

 

Gefðu þjáðum þelið hlýtt,

þerra sárastrauma

og þá lifir upp á nýtt

alla þína drauma.

Ef reynist þungur raunakross

að rata veginn sinn,

þá kærleikur, að kenna oss,

kemur sterkur inn.

 

Á berum orðum, sem bjarta höll

byggjum okkar hug.

en baktalsvammið, veljum öll

að vísa því á bug.

Heyrist sagt að sækist enn

sér um líkir.

Þar sem ganga góðir menn

gleðin ríkir.

 

Jafnt á árið jöfnum út

jólasiðinn:

Argan leysa innri hnút

og elska friðinn.

Er gæfan horfin, grafin virðing, gleðin köfnuð?

Hvar sem tekst að tvístra söfnuð

tryggjum mannúð, frelsi, jöfnuð.

 

Ef að bara endurnýtum ástarvöttin,

upp þá lýsum allan hnöttinn

og enginn fer í jólaköttinn.

 

24.12.13

Í jólapakka til konunnar:

Ef kemur á mig eitthvert los

og undan fargi styn,

rétta mig aftur englabros

og augna þinna skin.

 

28.12.13

Ari, yngsta barnið okkar hjóna, er 24 ára í dag:

Unnum heimsins happafeng

er herti vetur strangur:

Eignuðumst ljúfan, lítinn dreng

svo lengdist sólargangur.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *