Úr dagbókinni 2017

Úr dagbókinni árið 2017. Safnið telur 314 vísur.

08.01.17

Bjarni ben í sjónvarpsviðtali:

Bjarni lyga styðst við staf,
streyma af hans vörum
furðu mikil ókjör af
ónákvæmum svörum.

15.01.17

Daglegt brauð hin dimma hlið,
drungaleg og blaut þján.
Með sömu tuggu tekur við
tvöþúsund og sautján.

Sundlaugarverðir á Akranesi vísuðu berbrjósta konu upp úr lauginni. Netið logaði:

Kona fer, um brjóstin ber,
í baðlaug á Akranesi.
Nei, sko! Er að nudda sér
um Netið, hver lúsablesi?

20.01.17

Bóndadagsveislan:

Sviðin upp úr vatni veidd,
veislu bíður maginn,
og þorramungát mild fram reidd
mér á bóndadaginn.

21.01.17

Ingi Björn Guðnason, Selfyssingur búsettur á Ísafirði, óskaði eftir limru:

Svo Inga Björns efli nú hag
ég ætla að stunda mitt fag.
Limru því yrki
og anda hans styrki.
Það er kjöldráttar dagur í dag.

25.01.17

Þarfnast þessi frekari skýringar?

Ofhitni kerfið um kring
er kúl, svona annað slagið
að passa að pæla einn hring
um Panamasamkomulagið.

26.01.17

Á leið á BETT kennslutæknisýninguna í London:

Sem Garðar hólmann, fús að flýj’ ‘ann
því framtíð svört þar tekur við.
Nú um borð í Norwegian,
nú flýg inn í sólskinið.

Hugleiðing:

Gustur vatnið gárar.
Geisli vekur blóm.
Kona verkin klárar,
karl í slettir góm.
Sögur aldrei sárar
ef sagðar einum róm.
En þegar illa árar
allir fá sinn dóm.

30.01.17

Það var alveg yfirgengileg mannmergðin í London. Ófært um Chinatown vegna ~mannfararflóða“:

Sem móða um strætin mannahjörð,
myrkeyg í straumsins þunga,
myljandi niður móður jörð
og mengandi hennar lunga.

31.01.17

Kosningafréttir að vestan:

Nú dámar mér! Það dreymdi að hann Dónald greyið
skammtaði’ á garðann, skraufþurrt vegið,
en skeit svo bæði og meig í heyið!

Trump, því miður, sýður seið
svo ei griðum lúti.
Þannig ryður þrautum leið,
því er friður úti.

Kerfisbundin skattsvik með blessun stjórnvalda“ er fyrirsögn dagsins í Fréttatímanum:

Blessaður stóreignabokkinn
með bönd sín um stjórnmálarokkinn.
Spillingin lifi!
Landsmenn það skrifi
á íhald og framsóknarflokkinn.

1.02.17

Áframhald að westan:

Hafinn þar westra nú er nýr
neytendavalsútdráttur
í beinni. Mjög í roði rýr
raunveruleikaþáttur.

Trúðurinn opinberar sig:

I know that they like it a lot,
the ladies, so I give it a shot
and grab them by pussy.
Then I grab me some sushi.
Now, see all the power I’ve got!“

Í andliti karlinn er krumpinn,
í kerskni því oft líkt við rumpinn
á óþarfanauti
í flagi. Með tauti
verður þá hvekktur og hvumpinn.

Þar um segja mætti margt,
mörk velsæmis teygja.
Finnst mér þetta fjandi hart,
fer samt best að þegja.

6.02.17

Jón Viðar drullar yfir sjónvarpsþættina Fanga:

Í góðu lagi leikurinn
en lokaþáttinn best við grisjum.
Hann endar svona, maður minn,
í melódramatískum klisjum!

7.02.17

Stjórnmálamenningin:

Með himinskautum hátt nú fer
og hæfileikar dafna.
Boðar í málum beiti sér
best, sem kjósendur hafna.

8.02.17

Vetrarveðrið:

Sunnanátt af austri hrín,
í andlitsdráttum greinir
að þegar hátt í kofa hvín
Kári mátt sinn reynir.

Eys úr koppum og kirnum
og klessir þessu, svo firnum
sætir, á glugga.
Nú glymur við skrugga
með rafhlöðnum, glóandi glyrnum.

10.02.17

Skýringar óþarfar:

Vetrarloppan vöndur kropps,
vorið toppar stundir.
Eg þá hoppa utan stopps
út um koppagrundir.

11.02.17

Muni vakir, en máls hef brest,
mest til sakar gefið.
Meitluð staka megnar best
mér að taka skrefið.

Hvað hægrimaður var þetta aftur …?

Stýrði rændri skútu á sker,
af skjánum mændi þjáður.
Hyglir frændum, alveg er
útvegsbændum háður.

Að öðru:

Hvenær svanasönginn hér
syng, það plan er falið.
Af gömlum vana á fætur fer
við fyrsta hanagalið.

13.02.17

Hádegismatur á Litlahrauni:

Himneskan fáum hádegismat
sem hljóðir á við kjömsum.
Hrekk upp! Einn, og seinastur sat
yfir soðinni ýsu, með hömsum.

Bullið:

Nú var hann Bubbi að byrja,
beljandi falskur, að kyrja
Bíbí og blaka.
Öll borgin mun vaka.
Ekki er aþþí að spyrja.

Nú er hann Bubbi að byggja,
að býsna mörgu’ er að hyggja.
Vinnuharður, en natinn,
og eftir hádegismatinn
finnst ljúft milli hluta að liggja.

Það var aldeilis kjaftur á kellunni
og karlgreyið varð fyrir dellunni
eins og romm út á skyr.
Svo rauk hann á dyr
er náði hún fjórtándu fellunni.

14.02.17

Valentínusardagur:

Ef konan blómvönd krefst að fá
og kominn ert með það í mínus
er helst að siga hundum á
helvítið ‘ann Valentínus.

Limrubullið:

Það er hálftómt í helvítis glasinu
og hundaskítur í grasinu
hjá Guðmundi ríka
sem reynir víst líka
að lifa á borgarabrasinu.

15.02.17

Íhaldið einkavæðir allt fyrir gróðavinina:

Ekkert nú ætla að drolla
og enn síður leggja þeir bolla
því einka skal væða
fyrir vini að græða
en við borgum vegatolla.

Dagleg nautn:

Það er fínt að fleygja sér
fyrir innan gluggann.
Um augnlok siglir, sýnist mér,
sama gamla duggan.

19.02.17

Blessaðar konurnar:

Í heiminn körlum koma þær,
þeim kenna sig að fóta.
Við þeim lukkan ljúfast hlær
er lífs með konu njóta.

Gamli enn að járna sjálfur:

Gömlum verður um og ó,
ástand mjög að kárna.
Með harðsperrur í hupp og þjó
og höndum, af að járna.

22.02.17

Forsetinn ver ekki hrifinn af ananas á pizzur:

Á Bessastöðum er ananas
ekki á pizzuréttunum.
Hinum megin er grænna gras.
Gúrkutíð í fréttunum.

Birgir Ármannsson, einhver glaðbeittasti þingmaður Íslandssögunnar, gagnrýnir stjórnarandstöðuna fyrir skort á gleði: „Einhver kolvitlausasta fýlubomba sem ég hef séð“, segir fýlusvipur aldarinnar:

Birgir skilið ekki á
óþefsbombuvosið.
Nú er ei með hýrri há,
horfið geislabrosið.

Anna María prjónar litfagra og góða vettlinga:

Á prjónunum leikur með liti,
listfengi mikið.
Góður á höndunum hiti,
handbragð ei svikið.

24.02.17

Svona var veðrið þennan daginn:

Vetrar nú er veður gott,
vinds með kúli hressu.
Fróðir trúa’ að verði vott
-og varla snúa þessu.

… og íhaldsstuttbuxnadúllurnar halda áfram að streða:

Labbakútar lúðir
mót lýði krit reisa
því brennivín í búðir
er bölvuð vit leysa.

26.02.17

Ungur maður fórst í snjóflóði í Esju:

Snjókorn eru ekki neitt,
ofan koma smá.
En þegar safnast öll í eitt
ógnarkrafta fá.

28.02.17

Alltaf er tími til að bulla:

Ef að skal til einhvers meta
úr sér gengið vaskafat,
ó, hve væri gott að geta
geymt þar úldinn dósamat.

Ekki má lengur tala tæpitungulaust um þetta:

Skrauthvörfin núna skemmta um of,
skrýtinn við þind finn seiðing,
því að nú kallað er þungunarrof
það sem hét fóstureyðing.

Karlakórsæfing getur mörgu bjargað:

Svart er núna komið kvöld,
kyrrð um Árnesþing,
en andinn brennur, að því völd
er ágæt kóræfing.

Dagur að kveldi kominn:

Brátt nú fer að bæla mig,
bíða morgunverkin:
Upp að rífa aftur sig
eða sækja klerkinn.

1.03.17:

Vesaldómur:

Járnað góðan hef ég hest,
Hrímni, trausta klettinn.
Í skjólin þó er fokið flest,
fór ei skeifnasprettinn.

Liðinn dagur, langar til
að leggjast niður flatur.
Þessa eymd ég ekki skil,
orðinn haugamatur.

3.03.17

Úr rætist vesaldómnum:

Á föstudögum finn mig best,
frjór í hug og glettinn.
Í fínu veðri, fyrir rest,
fór ég skeifnasprettinn.

8.03.17

Bölvað íhaldið vill einkaskattleggja almenning en hlífa ofurríkum auðlindajöfrum:

Flest viljum við akfæra vegi,
um víðáttur, dali og sveigi.
Það vel þess er virði
og veggjöld ei byrði
þó borga úr borginni eigi.

Limrubull:

Hjá Lúlla var ljóður á ráði
að löngunina af honum bráði
í félagsskap kvenna
og ei honum að kenna
hve Þjóðhildur ákaft hann þráði.

Systur hans Dags eru dökkar
í dúndrandi yfirvigt, klökkar
af innbyrgðri mildi
sem enginn þó skildi.
Þetta fordómasamfélag sökkar.

Stundum hangi heima
um helgar, læt mig dreyma
Kvasis um blóð,
svo Braga í slóð
einn um nótt ég sveima.

17.03.17

Limrubull:

Það var dansað og drukkið á Hóli,
meðan dragspilið þandi hann Óli,
úr söngbókum lunginn
til morguns var sunginn,
í pásunum púaður njóli.

18.03.17

Veðrið á Íslandi fylgir sjaldan árstíðum:

Eftir vorblíðu’ í allan vetur,
sem vanann úr skorðum setur,
kemur vetur í vor
með vesöld og hor
svo ég þarf að búa mig betur.

28.03.17

Sunna Rannveig Davíðsdóttir vann „gríðarlega stóran sigur með því að lúskra illilega á annarri konu:

Andann rétta um ég bið,
og með dæmum kenni;
„falleg högg“ í andlitið
svo eftir sjái’ á henni.

Eins og „gengið hafi á hurð“
af heiftúð nauðug sorðin,
á vinstra auga með vænan skurð
og vönkuð, sýnist orðin.

Góða finn hér fyrirmynd,
sem fjölgar bótaþegum:
Með hnjánum beinir í hennar þind
höggum svakalegum.

Grið og miskunn gefðu ei,
í gólfi lent, í kröggum,
skalt klára þetta kvenmannsgrey
af krafti, þungum höggum.

Fór í níundu aðgerð ein,
sem ansi gott má telja,
og þrjátíu líkams brotin bein
er býsna mikil elja.

Selfossbrúna Ölfusár
undir krakkar steðja.
Hver öðrum þar veitir svöðusár
er sjálfsagt um að veðja.

Hæðum afreksíþrótt nær;
ef annan hittir: berð‘ann!
Lífsundirbúning æskan fær,
aðdáunarverðan.

HB Grandi ætlar að loka öllu draslinu á Akranesi. Fjöldi fólks lendir á vergangi. Eitthvað meira um það að segja?

Milljörðunum mokað úr
mar hjá HB Granda.
Á því verður örfár múr-
aður. Sér til handa
úr auðlindinni, í aflandstúr,
óhóf kann að blanda.
Mikið er ég orðinn súr
yfir þessum fjanda.
Íhaldið mun alltaf búr-
anum þétt hjá standa.
Á meðan fær sér landinn lúr.
Það leysir allan vanda.

29.03.17

Blessaður veslingurinn Sigmundur Davíð vogar sér ekki að greina frá hverjum hann var í samskiptum við þarna áður en upp komst um svikamylluna þeirra hjóna:

Kettir heitan kringum graut
klókir jafnan læðast
en fer af krafti um flagið naut
og fljótt er því að mæðast.

Blikar auga botnfrosið,
bera margir grímu.
Þennan sannleik þekkjum við,
því má hefja rímu.

Það er að vogunarsjóða sið
og Sikileyja „Dona“
að segja eitthvað einhvern við
einhvernveginn svona:

Kannski ef á einhvern hátt
eitthvað sniðugt gerum
úr býtum óðar, allt í sátt,
ofurfeitt við berum.

Lágum rómi, í laumi, bið
að leysum þannig málin
að opnist gátt á aflands hlið
svo innum komist sálin“.

Allt er talað undir rós,
ekkert hægt að sanna.
Nú barnaskapur birtist ljós
bláeygra þing-manna.

Þeir elta mann um veröld vítt
og velgjörð sinni lofa.
Í hótelsvítum er á mig ýtt
og í bjálkakofa.

Allt mitt verk ég vann til góðs,
nú vitar allir loga,
en frá að greina er æði óðs,
ekki mér það voga.

30.03.17

Rörsýn
Innblásið af Landsýn, eftir Björnstjerne Björnson. Syngist af innlifun við lag Edvards Griegs:

Ólafur tiginn Ólafsson
ók um víðan Borgarfjörð.
Stýrði til eigin erfðaríkis,
átti þar dýra jörð.
Stórbrotinn stafn sást rísa.
Í Stafholtstungunum ei í kot skal vísa.

Ólafur tiginn Ólafsson
ekki föðurtúni bast.
Settist hann að þar suð’r á melum
svona hið fyrsta kast.
Í athafnaskáldsins anda
allt hann kannaði; banka leit þar standa.

Ólafur tiginn Ólafsson
átti Hverfisgötuhöll.
Musterið gaf af mildi framsókn,
með fylgdu gæði öll.
Rausnin í reyk þó vaðin,
ríkisbanka hann fékk að kaupa’ í staðinn.

Nálgaðist mark, við Merkel-lýð
mælti nokkur valin orð.
Til ísalands stolnum flaug á fjöðrum,
falsið þar lagði’ á borð.
Enginn það athugaði,
Óli mælti þá, seðla í baði:

„Ríkidæmi hef ég hlotið
helling líka undan skotið.
Ég er hrifinn, hjartað bærist
hugur minn á þessu nærist.
Verður öll mín gjörð að gulli,
gapa fífl við lygabulli.
Sál mín grá af gróðahyggju,
gengur út af Kvíabryggju“.

Ólafs dæmum, allar tíðir,
allir fylgi jarðarlýðir:
„Ég er hrifinn, hjartað bærist
hugur minn á þessu nærist.
Verður öll mín gjörð að gulli,
gapa fífl við lygabulli.
Sál mín grá af gróðahyggju
gengur út af Kvíabryggju.

Gullið bræð! Beint í æð!“

1.04.17

Í rútuferð. Við hraðabraut í Garðabæ blasir við ónýtt drasl sem er himnasending í bleytutíðinni:

Fyrst jörðu blæðir, sem blautum svamp,
og blási vel um sveitirnar
er blessun mín að combicamp
komi nú í leitirnar.

Og meira úr sömu ferð:

Lífið, það er þrautaskrafl
og þó oft vitum svarið,
yfir svona ógnar skafl
ekki verður farið.

9.04.17

Brennivín í búðir“ syngja íhaldsbörnin. Í Amríku er það svona:

Til sölu byssur og brennivín
í búðinni við hornið.
Af fægðu hlaupi frelsið skín
í flöskuglampa lýðholl sýn.
Fyllir mælinn kornið?

14.04.17

Páskar framundan:

Nú býðst okkur nöpur páskanorðankæla.

Hita nær ei mælir mæla.

 

Dáfríð geislum dreifir föstudaginn langa.

Sól til viðar seint mun ganga.

 

Um yfirráðin átök milli íss og bríma.
Í framlengingu fer sú glíma.

 

Ríkisstjórnin svíkur öll loforð og „boðar fimm ára fjármálaáætlun sem gengur í berhögg við fyrri yfirlýsingar um endurreisn heilbrigðiskerfis og sókn í menntamálum“, skrifar Torfi Tulinius:

Ræningjaflokkar um Frón
fara sem veiðislyng ljón.
Stjórnin þá styður
og stelur, því miður.
Þýfið er þjóðfélagstjón.

15.04.17

Apríl er ekki alslæmur, alltaf. En stutt í kuldann:

Bylgjast nú sængur á snúru.
Sviðið með vorlegri flúru.
Himinfley siglir.
En svalinn sig ygglir:
,,Bragða skal svörður á súru!“

16.04.17

Páskavísur:

Mannkyn ráfar myrkri í,
við morð og stríð og háska.
Getum við eitthvað gert í því?
Gleðilega páska.

Sól í heiði situr vær,
sína greiðir lokka.
Okkur leiðir yndiskær,
yfir breiðir þokka.

19.04.17

Birti tvær myndir á Fjasbók af okkur hjónum í tilefni 34 ára sambandstímamóta, aðra frá upphafinu og hina úr nútímanum, með þeim orðum að frúin hefði „hangið með mér allar götur síðan“. Stína í Austurhlíð taldi ástæðuna augljósa; engin alvöru kona stæðist töfra hagmælskunnar:

Að sönnu er það ekkert grín,

á því jafnan græði

að silkitróðu töfra mín

tíðu ástarkvæði.

 

20.04.17

Í nestið kveða kann ég lítt,
klaufa meðal talinn.
Myndi héðan fara frítt
ef fyllti téðan malinn.

Berleggjaðar
í bandaskóm,
ungur meyjarbarmur
brumar.

Sólgleraugun
setja upp
í gulum hlýrabolum
gumar.

Skríður þykkur
skýjabakki,
á löngum, dimmum éljum
lumar.

Það er komið
sumar.

03.05.17

Sýnd var í sjónvarpi heimildamynd um baráttu Skagfirðinga gegn háspennulínu þvert yfir blómlegar sveitir:

Laxárstíflusprengja springur!
Þá sparði hvorki hug né mund,
því eitt sinn þótti Þingeyingur
þrautgóður á raunastund.

Virðist þar nú önnur öldin,
alveg kokgleypt foldarspjöll.
En vopnin brýna, skekja skjöldinn,
Skagafjarðardalatröll.

Breska krúnan fer fram á 1,5 milljóna evra skaðabætur, vegna brjóstamynda af hertogaynjunni af Cambridge.
Myndirnar settu sálarlíf bresku þjóðarinnar á hliðina. Það voru þó ekki brjóstamyndirnar sem fóru verst í bresku þjóðina:

Ekkert milli mála fer,
mjög er fríð um barminn.
En prinsinn ekki á brjóstin ber,
bara endaþarminn.

Sveitarstjórn Flóahrepps ákvað að láta skólastjórann fjúka. Í fréttum birtist sftirfarandi klausa: „…Á fundi fræðslunefndar og sveitarstjórnar í morgun var einnig rætt um velferð nemenda og ábyrgð fullorðinna á umræðunni um skólann þeirra.“

Flóamannafórnarlund
er fyrir Kampholtsmóra
sem ræður þeim að rétt sé stund
að reka skólastjóra.

Vigdís nokkur, margfræg af endemum, tjáði sig, eftir nokkurt hlé, um ágæti mestu afturhaldsklíkunnar í Framsóknarflokknum:

Vigdís í kjaftinum kræf.
Guðfinnu gefur hún five
og Simma og Braga!!!
Ja, svei alla daga!!!
‘Bat out of hell’ is alive!!!

Að öðru:

Mikið um, í margri sveit,
móa, urð og klungur.
Af ferðum mínum verst þó veit
að vaða illar tungur.

04.05.17

Núna er í frjálsu falli
ferleg ríkisstjórn.
Refskák leið með lygabralli;
leikin Óttarsfórn.

09.05.17

Stjórnardáða er dýrð um of,
drýpur smjör af henni.
Um hana ætti’ að yrkja lof,
ekki því samt nenni.

Nú er úrið orðið 10,
eg því stúrinn fer að h8.
Senn þó dúra, sæll að 9,
síðan kúri jeg til 8.

Málmar og gler að ganga 12,
nú gott er sér að halla.
Tálmar mér, og treð því gólf,
svo tæpur er ég varla.

10.05.17

Hvergi er notalegra að vinna að trúboðinu um hinn vonda ríkisrekstur, yfirburði einkaframtaksins og kosti einkavæðingar, … en í öruggu skjóli sem opinber starfsmaður…“ skrifar Steingrímur í blaðagrein í Fréttablaðinu:

Háborðinu hrynur af
hratið eftir svolana.
Háskólinn alveg helling gaf,
Hannes tínir molana.

11.05.17

Sláttur hófst seinna þetta vorið en stundum áður:

Karlinn fjandi aumur er,
allur þorrinn máttur.
Bletturinn í órækt fer,
ekki hafinn sláttur.

16.05.17

Það var skammt til þess skylli á þoka
svo Skammólfur ákvað að doka
uns lítið var ljós.
Það var draumur í dós.
En kamrinum láðist að loka.

20.05.17

Ef ég gæti óskað mér
alls í svangan maga
fengi ég bæði fisk og smér
flesta vikudaga.

Af flokksþingi Framsóknar:

Helst af fundi framsóknar
að flokksmenn allir mættu þar,
SIngi af sér svikin bar
en Simmi kraup við gráturnar.

Ennþá framsókn eitthvað mun víst lafa,
innan flokks er tæpast neinn í vafa.
Og þar er enginn af því neitt að skafa:
„Allir vildu Lilju kveðið hafa“.

Af vorverkum:

Núna margt í moldu fer,
mykja og hrossaskítur.
Húskarl víða á hóla ber,
höfði á meðan lýtur.

Lyktin er í loftinu,

leggur fyrir vitin,

fjandi mikið finn ég því

að fellur í mér nytin.

 

Sonnetta

Út um gluggann sé ég sólarlag,
þar silfur togast inn í gullinn loga.
Þangað ætti enginn sér að voga
sem ætlar sér að líta nýjan dag.

Á vesturhimni varla sé nú roða,
veit ég þó í austri skýin bleik.
Röðull, er það háð í hráskinnsleik?
Hefur þú mér stefnt í sálarvoða?

Það mun á efsta degi duga skammt
að dvelja við sinn skitna æviharm
og brjóta heilann, biturt ævikvöld.

Á landi voru kvað þó kveða rammt
að hversdagstrú á hulinn verndararm.
Núna Kostkó upp er runnin öld.

24.05.17

Jeg er alveg æðislega sáttur
eftir hlýja næturgróðrarskúr
og engin heimsins ógn, né dularmáttur
á þess kost að leggja mig í súr.

Ljúf er gangan lífs á veg,
leiðir fátt sé teppa
og hrossum mínum ætla eg
út á grös að sleppa.

Ljúf er gangan lífs um veg,
létt í fangið gola,
gróðurangan yndisleg,
úðinn vang að skola.

Núna þarf ég nokkur orð að mæla!
Neita þó að sé með minnstu stæla!
Þarf samt fyrst, þið afsakið, að æla.
(Í andskotanum, hvað er ég að pæla?)

Fékk margar góðar afmæliskveðjur á Fjasbók:

Hjartað nú orðið meirt og milt,
muna kenni glóðar.
Það er mér bæði þjált og skylt
að þakka kveðjur góðar.

25.05.17

Enginn bjór og ekkert skraut,
enginn kökubakstur.
Afmælisdagsins dýrðar naut,
í draumi, við rútuakstur.

Ef að sé og ef að skyldi
einhversstaðar náð og mildi,
kannski þá Sigmundur samtök stofni
svo að framsókn um herðar klofni.

Nú má aftur neyta brauðs,
njóta brauðmolanna.
Heims því fæ í hléi auðs
hlýju eina sanna.

29.05.17

Vísindaferð Fjölbrautaskóla Suðurlands til Valencia og Alcoy á Spáni. Útsýn úr rútunni á leið til Alcoy:

Á ferð um hrjóstrug héruð Spánar,
hreyfir ekki vind.
Loft af reykjarbólstrum blánar,
bölvuð hryggðarmynd.

Skólaheimsókn í Alcoy. Eftir hringferð um skólann var boðið til hádegisverðar:

Víst þarf sýna, í vísindaferð,
vinnuaga harðan.
Svo rennur hjörðin, alls riktis verð,
og raðar sér á garðann.

Í einni kennslustofunni stóð beinagrind úti í horni, með grænan stráhatt á kúpu:

Í aldanna rás hefur vitið vægt,
það vakir með kynslóðaarfi,
svo kennaraliðið er lítilþægt
og lengi endist í starfi.

Svo var skólastarfið kynnt í fyrirlestrarsal:

Hjörðin í munúð mestri,
og á meðvitundarrófi,
á fróðlegum fyrirlestri
með faglegu glærusjóvi.

30.05.17

Það rignir víðar en á Íslandi:

Það er grenjandi úrhellis gróðrartíð,
grámóskan ekkert að digna.
Rólegur heima á herbergi bíð.
Hann hættir um síðir að rigna.

Dómsmálaráðherrann hljóp frá tillögu hæfisnefndar til að koma „réttum aðilum“ í nýstofnaðan Landsrétt:

Við því alþjóð aldrei bjóst
að eyddi skítablettinum.
Nú er orðið alveg ljóst
að hún spillir réttinum.

02.07.17

Skólaheimsóknum og vinnuferð að ljúka og þá tekur við vikulangt frí, sem nýtt er svona:

Nú er þetta nokkuð gott,
nú má drekka ‘lunch’.
Og það er ljóst ég þæði dott
eftir þriggja tíma struns.

03.06.17

Af biturri reynslu fyrri ára reyndi ég að tryggja mig með þí að vefja tær með íþróttalímbandi:

Nú er framtíð nokkuð skær,
njóta mun þess lengi
að ég hafði teipað tær
túrinn áður gengi.

04.06.17

Í Alicante lá margur dallurinn, ekki af vanefnum smíðaður, við bryggju:

Hér er brakandi þurrkur, hádegishlé,
í höfn allir einþóftudallarnir.
Það er ládauður sjór og lítið að ske,
lagstir að, grásleppukallarnir.

Að liggja í sólbaði svolitla stund
og sofa, ei talið er galið.
Ef í logunum kærulaus lengirðu blund,
löngum þó galið er talið.

Næturhimin skekja skruggur,
skýin bólstrar rafurmagns.
Í brjósti mínu enginn uggur,
öll þau virkjum brátt til gagns.

05.06.17

Lífið á sólarströnd:

Frá morgunmat svaf undir sólu
í sandinum gyllta með ströndum.
Síðdegis gladdist við gjólu,
glansandi, allur í röndum.

Gleðiefnin gefast skjótt,
gott er hvað með öðru,
gyllinæð og líkþorn ljótt
ef líka á tær færð blöðru.

Hvað er nú betra en kyrrð og ró
undir kræklóttu pálmatré?
Kvöldsólin gyllti, til hvíldar sig bjó,
en hver ætli drottningin sé?

06.06.17

Rán að löndum lyftir sér,
ljómar ströndin fögur.
Þræða böndin bylgjur hér,
báru föndra kögur.

07.06.17

Upp á höfðann árdegis,
Önnu lítið tafði!
Svo í búðir síðdegis.
Sigur mikinn hafði.

What the hell! I went to mall,
don’t want to tell about it!
Like a kelling, first to fall!
Found there helling? Doubt it.

08.06.17

Rómantíkin ríður mér á slig
er reyni’ að taka hana’ á næsta stig.
Ég er latur og leiður,
ljótur og breiður
en Anna er alltaf söm við sig.

09.06.17

Nú líður senn að lokum Spánardvalar,
ljúfir dagar enda gjarnan skjótt.
Þó miður dagur sé á mörkum kvalar
mun ég þar um ekkert segja ljótt.
Og það er annað hljóðið, þegar konan talar,
hún þráir hitamollu dag og nótt.

Vigdís er eins árs í dag:

Liðið núna eitt er ár,
ævin varla hafin.
Bæði gefið bros og tár,
blíðu og kærleik vafin.
Lýsa upp heiminn ljósar brár,
ei lítið montinn afinn.

Vinna munt þú marga dáð,
málin stöðugt ræðir.
Yndi hefur um þig stráð,
ömmuhjörtun bræðir.
Um fingur þér, sem fínan þráð,
foreldrana þræðir.

Óskrifað er æviblað,
enn þarf vernda haginn
svo dembir þér ekki á dýpsta vað,
af dæmum lærist aginn.
Vigdís, þú töltir tign af stað!
Til hamingju með daginn!

14.06.17

Ákvörðun ríkislögreglustjóra um „aukinn sýnileika vopnaðra lögreglumanna á fjölmennum útisamkomum“ er umdeild, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Á málinu eru bara tvær hliðar, eins og sýnt er í meðfylgjandi sléttuböndum.

Siðar löggu, fráleitt fer
fyrstur að bögga lýðinn.
Friðar glöggur, ekki er
eilíft að ‘plögga’ stríðin.

15.06.17

Í skoðunarferð með eldri borgara í Rangárþingi var Akureyjarkirkja í Landeyjum einn viðkomustaðurinn:

Í Njálsbúð margir ástir vilja virkja,
víst að gjarnan sést í holdið bert.
Þetta hér er Akureyjarkirkja,
oft á milli leiða það er gert.

21.07.17

Við sumarsólstöður í rigningu og roki:

Hvergi banginn vítt um vang,
votur spranga hól og drang.
Sumarangan fyllir fang
furðu langan sólargang.

Birkið dansar býsna villt,
búk og mjaðmir sveigir.
Alveg virðist orðið tryllt,
alla limi teygir!

Smá lífsspeki:

Eftir dýfu, upp á fót,
enginn hífir lengur.
Einn að klífa upp í mót
út á lífið gengur.

Ekkert græðir tímans tönn,
talsvert skæð við rætur
svo undan blæðir, ekki spönn
að sér hæða lætur.

22.06.17

Það er nóg að gera á helstu ferðamannastöðum, m.a. Geysi í Haukadal:

Nokkuð þarf til neyslu hér
af nauti, svíni, lambi,
kjúkling, fiski. Og kokkur sker
kál af nokkru drambi.

Margur fer um hlöðin hér,
hópinn ber með straumi.
Þjóðin sér að þessi her
þungur er í taumi.

… og víðar:

Komu í hugann kristileg
kartaflan og grjónið
þegar kotungskarlinn ég
keyrði í Bláa lónið.

24.06.17

Góða veislu gjöra skal:

Eftir góða yndisreið
eitt er mesta hnossið:
Þegar hefur skellt á skeið
skaltu éta hrossið.

Kvöldsólin er kynjavera,
kveður sumardaginn.
Þó ekkert láti á því bera,
hún eflir sálarhaginn.

Við miðnætti á Ísalandi er
ekki’ á himni ský.
Júnínóttin undur eldar mér,
að því lengi bý.

26.06.17

Ef styrr þér óar, stundarfró
styður þó á fætur
en betur stóísk styrkir ró,
stressið róa lætur.

27.06.17

Á ferð um Dali vestur:

Oft var legið í laugum
á Laugum í Sælingsdal.
Í baði fór Bolli á taugum
við biturt Guðrúnar tal.

Ferðamaðurinn grípur oft til „örn-þrifa ráða“ og því eru sett upp skilti til leiðbeiningar:

Sagt er að margt sé mörgu í
en maður sínu þarf að ljúka
þó að á private property
prohibited sé að kúka.

Viðkoma í Ólafsdal í Gilsfirði:

Það er fagurt enn í Ólafsdal,
og ansi mögnuð skólasaga.
Út á haf og upp í fjallasal
útsýn gleður bjarta daga.

30.06.17

Enn á ný staddur á Geysi með ferðamenn. Vel útilátinn hádegisverður í boði:

Af stórum skammti stendur við
steikin hér á Geysi.
Í þægindunum þigg svo grið
og þýðan vindinn leysi.

04.07.17

Allt er vænt sem vel er grænt,
vel því hænt að minnið.
Á það mænt en engu rænt
ef að kænt er sinnið.

05.07.17

Staddur á Skarfabakka að bíða eftir ferðamönnum í rútuna:

Skemmtiferðaskipið margt
skríður hér að landi
en farþeganna önnum vart
urðun á kúki og hlandi.

06.07.17

Í fréttum var að breskar unglingsstúlkur flykkist í skurðaðgerðir til að láta „fegra“ skapabarma sína:

Breskar í biðröðum standa
barnungar stúlkur í vanda.
Sárri, að vísu,
sjálfsmyndarkrísu
klámstöðlum heiður til handa.

07.07.17

Staddur með ferðamenn á Snorrastöðum á Mýrum:

Upp úr hrauni Eldborg rís,
allt nú vaxið kjarri.
Eflaust hérna aftur gýs
okkar dögum fjarri.

Svo var ekið í Stykkishólm:

Við tókum dallinn Baldur yfir Breiðafjörð
á björtum, undurfögrum sumardegi.
Ég sendi klökkur þúsundfalda þakkargjörð
að þurfa ei að keyra slæma vegi.

08.07.17

Næsti áfangastaður var Breiðavík og síðan Látrabjarg:

Hér er mikið rok og regn
og rætið þokufarg
svo að það er mér um megn
að mæra Látrabjarg.

Upp komst að bilun hafði orðið í skólphreinsikerfi Reykjavíkurborgar, og mannlegt affall flotið hindrunarlaust í sjóinn:

Kötturinn heldur hægt sér fer
heitan graut í kringum
en fólkið skvampar og skemmtir sér
í skólpi frá Reykvíkingum.

09.07.17

Á leið um fjallvegi til Ísafjarðar:

Yfir dalalæða liggur,
í lofti nokkuð svalur
og kossa sólar þakklátt þiggur
þorpið Bíldudalur.

Æður kúrði út við fjörð,
yfir krían flaug.
Ró og friður, rómuð jörð
við Reykjarfjarðarlaug.

Grípandi, hrífandi hrynjandi,
hreinsandi náttúrurapp.
Syngjandi, dansandi Dynjandi
fær dynjandi lófaklapp.

Efst á Hrafnseyrarheiðinni
er heljarmikill skafl.
Sá páfann, svo vel bar í veiðinni
að span’ ‘ann, og spá svon’ í leiðinni
um spennandi endatafl.

Hafa um það vissu vil
en vötn öll núna sýnast
Dýrafjarðar falla til.
Fjörið þar vill týnast.

Staður þessi þykir við að hjarna,
því af festu tóku menn til varna
og laxakvíar fljóta um fjörðinn þarna,
fágæt blessun, helvítið a’tarna.
Fyrir löngu bjó þar Óli Bjarna.
Bið ég um að nefna stað þann arna.

Geisar foldarfegurð skæð,
feikna sálarbyrði
sýn af fjórðu hótel hæð
hér á Ísafirði.

Í rólegheitum á hótelherbergi streymir ýmislegt fram:

Aumur larfur, ætíð hvarf,
engum þarfur, blauður.
Alger skarfur, andlegt svarf,
eins og karfi rauður.

Nú er best að nátta sig,
nudda sér innundir skelina,
lesa í bók, og lokastig
að leggjast í öndunarvélina.

10.07.17

Ók ferðamönnum inn undir botn Álftafjarðar, hvaðan leið þess lá yfir í Bjarnardal í Önundarfirði:

Á svæði lítil þekking, því
þessa mynd ég tók.
Hvað nefnist fossinn inni í
Álftafjarðarkrók?

Ók mína leið að taka á móti göngugörpunum, tók mynd og lagði þessa gátu fyrir Fjasbókarvini:

Að líta í bækur og landakort
legg ég til er ferðast skal.
Ein hér getraun, upp á sport:
Einhver sem þekkir fjall og dal?

Fyrir botni dals, og klýfur hann í tvo, er fjallið Hestur:

Spekingslega spáði gestur,
spurði um fjall og dal.
Nágranninn hér heitir Hestur,
og horfir fram um sal.

Í biðinni vakna oft þarfar spurningar eins og: „Hver er tilgangurinn með lífinu? Til hvers er ég hér?“

Hvers ei vil ég vera án,
en við mín örlög reira?
Það er blessað barnalán,
bið ég ekki’ um meira.

13.07.17

Þremur dögum eftir Ísafjörð er ég staddur í Landmannalaugum, enn að bíða eftir göngufólki, en …

Þar standa bílarnir í röðum, Roverar og Duster,
og regndroparnir hanga’ á framrúðunni.

Ekið um Dómadal og niður Land, komið við hjá Þjófafossi:

Þjófafoss er þekkilegur,
þegar vatn er í’onum.
Þannig að sér dável dregur,
í dag var ég í skýjonum.

14.07.17

Örlítil sjálfsupphafning:

Mætti ég biðj’ um það betra
en bráðgóða limru hér letra
sem dáðst verður að
og dreift svo með hrað-
i til mörlandans menningarsetra?

Og svo að allt öðru:

Vitum að valinkunnur
varla er galinn, þunnur.
Valdið með plottar,
siðferðið vottar
en fyrir því falinn grunnur.

Og enn öðru:

Ef að mætti monta sig
máske einu sinni
langar mig bara að belgja mig
af börnum, og konu minni.

15.07.17

Smá öfugmæli skaða engan:

Nú líklegast legg ég mig bara
og lífsneistann reyni að spara,
leggst undir feld,
reyni svo eld
að skotsilfri mínu að skara.

16.07.17

Kvennalandsliðið í knattspyrnu stillti sér upp til myndatöku í uppgöngutröppur flugvélar, með þjálfarateymið fremst á myndinni:

Öll barátta blæs út í vind,
hér blasir við feðranna synd
sem gróflega ‘fokkar’
í stelpunum okkar
á karlamengaðri mynd!!!

Endurminningin merlar …

Rétt tæplega tuttugu vetra
og tveggja, ég svam lokametra
sem heimalningsfjandi.
Hún dró mig að landi
(og undir sig vandi).
Hvað getum við beðið um betra?

18.07.17

íslenskt sumarveður?

Nú skal ei trylla og tæta
heldur trygglega heimilis gæta.
Svo andsjálfið finni
heldur mér inni
heiðarleg hásumarvæta.

Forseti lýðveldisins var í miðri áhorfendaþvögunni á fyrsta leik Íslands á EM í Hollandi:

Forsetinn var ekk’ í VIP stúku,
vaskur hann sat hjá þeim flippsjúku.
Við voðalegt stappið
og víkingaklappið
króníska fékk hann svo kipplúku.

19.07.17

Félag Ólafs Ólafssonar gæti innleyst yfir 800 milljóna hagnað“ mátti lesa á Netinu:

Lífið er bæði margþætt og magnað
ef markinu ekki við týnum;
að ‘mennirnir’ fái hógværan hagnað,
smá hlutfall af verðleikum sínum.

25.07.17

Beðið í Hveragerði. Ryðið farið að lita hvíta klæðningu hússins sem við blasir út um framrúðuna:

Ágengan heyrðu í öspunum þytinn,
áfallið gufað og járnið var þurrt.
Í verkið því ráðist með rauðbrúna litinn,
um ríflegan verktíma ekki er spurt.

26.07.17

Ók eldri borgurum á Selfossi í Þórsmörk, og til baka. Örlygur skólameistari og Sigurður dýralæknir voru leiðsögumenn. Komið hafði verið fyrir útvarpssendi í rútunni sem þeir sátu í en móttökuskilyrðin voru ekki upp á sitt besta þannig að farþegar mínir námu fátt af þeim fróðleik sem í boði var. Vegurinn inneftir er heldur ekki fyrir skemmtiferðir:

Á skaki þessu skemmti mér,
skemmdum við þó liggi.
Í útvarpinu urga hér
Örlygur og Siggi.

29.07.17

Fallegt sólarlagið myndað:

Kvöldsól heitan kveikir eld,
kyndir andans bál.
Hennar málverk fyrir milljónir seld.
Þessa mynd ég keypti. Skál!

10.08.17

Allt stefnir eina leið…“

Liðið er stefnulaust, starandi,
sturlun í augunum, farandi
gráðugra, graðara
hærra og hraðara,
hvergi sperringinn sparandi.

Í hreppnum varð héraðsbrestur,
hrakinn í burtu gestur.
Þar greip um sig ótti
því ‘onum þótti
sannleikur sagna bestur.

Karl er að smyrja og smúla
og smælar með uppglenntan túla.
Þó ákaft það reyni
og orku í beini
hann fer ekki’ í skóna hans Skúla.

11.08.17

Meira af bulli …

Sigfinnur stekkur á stöng
um starmýrar vorkvöldin löng.
Þó alla hann toppi
í ónytjuhoppi
bresta þó svanir í söng.

Valur er fáséður fugl
sem flaug í sumar af BUGL.
Um mela og móa
mest er að dóa
þyljandi voðalegt þrugl.

Margt er í pípum hjá Páli,
pilturinn eins og á báli!
Í seglin fær byr
og Sigríði spyr:
,,Viltu kjúklingasalat með káli?“

Friðsamur búsmalinn bítur.
Bærinn er málaður hvítur.
Gælir við vangann
golunnar angan.
Við túngarðinn túristi skítur.

Nútíma kynhneigð er krísa
og hvötunum erfitt að lýsa.
Þó eikynhneigð geisi
og náttúruleysi,
faðmist nú, piltur og físa!

12.08.17

Og enn meira bull …

Bóthildur hvergi var bangin
og bónorðið dró ekki’ á langinn:
,,Ég brúðgumann el
og bragðast mun vel
Hólmfreður, reiktur og hanginn“.

Sigmundur Davíð er súr
því Sigríður And. er á túr
um Eimreiðarlendur
og honum ei stendur
á sama um „sjálfseigin“ kúr.

Margt er í myrkrinu falið.
Að magna upp ótta er galið.
Kvalir og helsi.
Konan þarf frelsi.
Þar liggur vandinn og valið.

Nú er bjart og norðanátt.
Nú dró ský frá sólu.
Nú mun varmans njóta brátt.
Nú dró ský fyr sólu.

19.08.17

Hún Gréta Rós Grétars. frá Lundum
var grátlega fyndin á stundum.
Úr læðingi leysti
lof og háreisti.
Samt var hún ferleg á fundum.

Mynd birtist af Bandaríkjaforseta við stýri í bátkænu, blásandi í KluKluxKlan-seglið:

Heimsmyndin: Lok, lok og læs.
Lífsspekin: Enginn er næs.
Á kynþáttahyggju
ýtt er frá bryggju.
Í seglin bastarður blæs.

20.08.17

Það er margt að minnast á,
mikill heimsins þunginn.
Væla út af mörgu má,
margur grísinn stunginn.

Gott að fá að undrast á
ýmsu, þrá og dreyma.
Alltaf má í mörgu sjá
margt, og spá og sveima.

21.08.17

Telja ágústmánuð má
mjög svo bjartan vera.
Úti flestir eru þá
ýmislegt að gera.

22.08.17

Líf í fang mér lilju gaf,
lofnarangan nærir,
léttir gang, og ljóminn af
lit í vanga færir.

Ef gamall lifi, gleðjast hlýt,
er góð, óskrifuð regla,
þegar yfir líf mitt lít
loks við rifun segla.

Tungan bundin, tekur á,
en trúgjörn lundin mætti
alveg stundarfriðinn fá
fyrir undanslætti.

23.08.17

Mögl og streð ei meta kann,
mildi geð þarf prýða.
Núna gleður margan mann
mikil veðurblíða.

Ei minnsta vott úr býtum ber,
berst mót hrottakófi.
Minn brotinn pottur eflaust er
en allt er gott í hófi.

Gleði, yndi, gæfa mest,
gull í lyndissjóði,
að vita í skyndi vakran hest,
vekja mynd í ljóði.

24.08.17

Nú verður að gæta að orðum sínum – og hugsunum!

Alveg var Eiríkur sleginn
því of þótti bolurinn fleginn
og máls á því ljáði.
Í myrkvuðu háði
karlinn var fljótlega fleginn.

Sjaldan það kemur að sök
ef á segli og vindi kann tök
og Týr hélt það slyppi
þó á Tinnu hann skryppi
en aldrei er ein Bára stök.

25.08.17

Stutt er í að allir Íslandsfirðir verði fullir með laxakvíar norskra fjárfestingarfélaga, sem ekki fá lengur heimildir til að menga firði heima hjá sér.

Nú er uppi nokkurt þref
um nýting landsins fjarða.
Gróða hafa norskir nef
og nytjastefnu harða.
Hér er ennþá alþekkt stef
að engan muni varða
sýn á yfirvaldsins vef,
verndun best að jarða.
Auðlindirnar gjaldfrjálst gef,
gull á Íslands kvarða.

27.08.17

Jarðskjálftar í Bárðarbungu …

Í bríma sér byltu og óku
svo burtu gaflana tóku
Bárður og frú
og rétt fyrir 3
bunguna skjálftarnir skóku.

Eftir ábendingu kunningja og til að samræma við fréttaflutning:

Í bríma sér byltu og struku,
svo burtu gaflarnir fuku,
Bárður og frú
og rétt fyrir 3
bunguna skjálftarnir ‘skuku’.

Við lækinn var Geir talinn latastur,
lá þar, í andanum flatastur,
langt fram á haust.
Þá brýndi hann raust:
,,Enginn er einna hvatastur“.

Margrét Guðmundsdóttir, íslenskan í forgang?

Það er maðkur í móðurmálstægjunum
svo af metnaði sá skal nú fræjunum
til afburðarmennsku
í ritlist, á ensku,
sunnlensku bóka- í bæjunum.

Á daginn hefur dugað mér
að draga stöðugt ýsur.
Er kvölda tekur alsæll er
að yrkja slæmar vísur.

Hvað er betra’ en kvöl og pín
í kristilegum anda?
Litlu verkin láta sín
gegnt lokadómi standa?
Sum þó virtust býsna brýn,
bæta úr heimsins vanda,
reyndust bara bitlaust grín
og bárust ei til stranda
-lítilla sæva og sanda-

29.08.17

Félag eitt kennir sig við ‘þróun’ og vill byggja „nýjan“ miðbæ á Selfossi:

Þróun nær, um þröngan stig,
á þráðan, hæsta tind
er flóamennskan fetar sig
um falska götumynd.

Konan skrapp í berjamó í dag:

Kvöldmaturinn kjarnafæða,
krækiber og skyr með rjóma.
Hér er úrval um að ræða,
Íslands kost og þjóðarsóma.

Skyrið í dollunni heitir nú „Ísey“:

Hví má ei bara skyrið heita skyr?
Hvað skemmir gamla nafnið?
Er íslensk málhefð rétt við dauðans dyr?
Mun djásnið þjóðar flutt á minjasafnið?

Nú mér er sagt að skyrið sé ei skyr,
en skítamix úr jógúrtgerlum.
Í forundran og fávisku ég spyr:
Má falsa allt með gömlum perlum?

04.09.17

Enn ein um veðrið:

Út um grundir undur nem,
eins og hellt úr fötu.
Dró því hund af sundi sem
sá í næstu götu.

13.09.17

Ekkert hef nú ort um hríð,
engin stefin fundið.
Birti ef ég enn, með tíð,
orðavef get bundið.

14.09.17

Mildri hönd um hauður fer
haust, með sólarblíðu.
Ljós og skuggi leika sér
í litarófi fríðu.

15.09.17

Gleðidagur í pólitíkinni. Þegar maður vissi ekki hvað tók vði!

Um dyggðir spilling spólar reyk,
þeim spýtir í hrákadallinn,
en nú á þjóðin næsta leik,
nú er stjórnin fallin.

16.09.17

Stjórnin er fallin, svo fagna má,
fyrr en að nokkurn varði.
Í framtíðarhorfur flestir nú spá,
með framboðakosningaarði.
Mætti ég biðja um meiri virkt,
melgrasskúfurinn harði,
en að framsóknaríhald sé styrkt
undir spillingarbarði?

17.09.17

Meira um íslensku stjórnmálamenninguna:

Skal stokka spilin, sprengja’ upp klíkuheim,
og spillinguna héðan burtu skera?
Eða frekar fyrirgefa þeim,
fyrst þeir vita ekki hvað þeir gera?

18.09.17

Á Íslandi blasir við álitamál,
hvort í eldhúsi þingsins mun boðinn
sami grautur úr gamalli skál
eða glænýr og passlega soðinn?

19.09.17

Brynjar Níelsson var til umfjöllunar vegna stöðu sinnar í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, sem fjallaði um „uppreist æru“ Roberts Downey og fleiri mál, en Brynjar hafði varaið kynferðisbrotamenn:

Harður ytri skrápur bara blekkir,
já, Brynjars æði viðhorf margra skekkir.
Hann trega sínum í táraflóði drekkir
því tilfinningar öðrum betur þekkir.

Af öðrum meiði:

Verst er lífið vekur tár,
varga drífur að.
Engu hlífa sjáist sár,
sífellt ýfa það.

20.09.17

Þarfnast ekki skýringa:

Nú mun virkni ‘nývaldsins’
nokkuð styrkja verða.
Enn blæs sirkus íhaldsins
til óráðs kirkjuferða.

21.09.17

Tíminn stríður straumur er,
stofna víða dregur.
Flotinn skríður fram úr mér
fyrirkvíðanlegur.

Ögn og mikið, allt í senn,
augnablikið nemur.
Fyrir vikið, á mig enn,
óvænt hikið kemur.

22.09.17

Sléttubandaæfing:

Drengur góður alltaf ert,
ekki bróður hnjóður.
Fengur tróðu -silki sért,
síður óður skjóður.

23.09.17

Kosningaloforð:

Ef velferð styrkið og stjórnarskrá,
stoppið siðferðistrosninga,
á menntun að gagni gerið bót,
þá geng ég bundinn til kosninga.

26.09.17

Allir fimm stjórnarmenn Framsóknarfélags Mosfellsbæjar sögðu sig úr flokknum, vegna meintrar aðfarar að fyrrverandi formanninum Sigm. Da. Gun.:

Það má telja nú þyki súr
þjóðhreinsunardraumurinn
fyrst að liggur Framsókn úr
flóttamannastraumurinn.

29.09.17

Enn dró til tíðinda í Framsóknarflokknum:

Gunnar Bragi gekk á vegg
og gerði hið eina rétta
með hnút í maga. Hans nístir negg
að neyðast út í þetta.

Og leiðtoginn mikli:

Fráleitt ég sem flokkinn klauf.
Fremstur ég er talinn.
Á fróni ég ei friðinn rauf.
Fyrstur ég mun valinn“.

03.10.17

Wintrissjólinn reyndi að gera upp skattaskuldir vegna undanskota aflendis en fékk að nýta sér gengistap við uppgjörið:

Í Kastljósi gerðu hælbítar hrekk,
um heiminn allt þaðan upp lapið.
Þá var mokað úr sjóðum í sekk
og sent, til að fylla í gapið
hjá skattstjóra. Í fyrstu ferlega gekk,
en fljótlega léttist skapið.
Fyrir náð og miskunn hjá nefndinni fékk
að nýta sér gengistapið.

04.10.17

Merki Miðflokksins kynnt. Útlend bykkja á afturlöppunum:

Íslenski hesturinn er vinalegur en getur risið upp á afturlappirnar þegar hann þarf að sýna kraft sinn og óttaleysi.“

Framsóknin oft í fasi skýr,
sem fjörið ólmi.
Í frumeðli sínu flóttadýr
og flýr af hólmi.

07.10.17

Heimilsisstörfin:

Upp úr bæli hífði hupp
þó heldur vildi lúra.
Í staðinn hef nú stólað upp
og stendur til að skúra.

Haustmorgunn:

Léttur úði, litaskrúð,
lífs nú hlúð að vonum.
Kári prúður söng við súð
svo ‘ún trúði honum.

09.10.17

Skuggi höfundar á vegg:

Einhver situr andspænis mér,
ekki virðist nú ræðinn.
Kannski bara kinokar sér
að kanna óþekktu svæðin?

10.10.17

Elvar Eyvindsson var kominn á framboðslista XM:

Í birtu morguns blasti við, svo góndi,
blöðum fletti, mín undrun vex ’em ið.
Á Skíðbakka hefur skorinorður bóndi
skyndilega fengið exemið!!!

Þorsteinn Logi keyrði ketið heim að dyrum:

Ljóst að ég lofræðurnar noti
er ljúfmetið hylli
því með kjöti frá Egilsstaðakoti
kistuna fylli.

12.10.17

Nú liggja skuggarnir langir,
litlir mjög fyrir sér,
og í hæglæti hangir
haustfríið yfir mér.

17.10.17

Það var mikil upplifun að koma með Karlakór Hreppamanna í sk. Arnarhreiður í Ölpunum, og taka þar lagið undir skafheiðum himni. Þaðan er útsýn mikil og „sér vítt of vítt / um veröld alla“ eins og segir í frægu kvæði:

Nú er hugur norður frá,
nýtir frjáls vindana.
Héðan Arnarhreiðri frá
hyllir Kálfstindana.

Við komuna heim til Íslands tók á móti okkur karlakórsmönnum „austan kaldinn“ eftir Þýskalandsferðina:

Nú er komið napurt haust
og nokkuð fölur kórinn.
Það er ekki þrautalaust
að þamba svona bjórinn.

18.10.17

Skoða myndir frá Munchen:

Eins og nú fari inn í hólk
og aftur á bak í tímanum
og sjái að rakst á „eitt og eitt fólk“
sem oft var á kafi í símanum.

19.10.17

Vilhjálmur Bjarnason „fjárfestir“ kvaðst ekki nenna að sitja undir bulli:

Hvatur ætt’ að hætt’ og fara,
hingað mætti dræmur, raftur
latur þrætti, þætti bara
þingið bætt ef kæm’ ei aftur.

24.10.17

Gunnar Straumland tjáði sig um menntun, nám og námsmat:

Nær telst sjálfsagt nú til dags
að nám sé einstaklingsmiðað
nemendunum til nota og hags.
En námsmat er staðlað og friðað.

Biskup þjóðkirkjunnar fannst ástæða til að kvarta undan gagnrýni fréttamiðla á Bjarna Ben.:

Í Valhöll Frúin fann sér hjörð
að frelsa, nú um daga.
Ætla lúinn oní jörð
utan trúfélaga.

26.10.17

Dróttkvætt:

Moð er gott til glóðar
en gengið hefur lengi
að ríkir vaði reykinn
og reyni sínu að leyna.
Út þarf særa svörin,
að sinni er mál að linni
valtra pörupilta
prettaaflandsfléttum.

31.10.17

Höfug anda, halda grið,
hinstu rökin
svo að haustið hikar við
að herða tökin.

Léttur úði leggur sig
á lítinn súðarglugga.
Úr landi prúðu er lokastig
litaskrúð að nugga.

Hellist dökkvi hauður á,
heims nú sökkva verðir.
Haustsins nökkvi heldur frá
höfn í rökkurferðir.

01.11.17

Fyrst var það dagrenningin …

Degi mjög, í morguns ár,
mæti lúnum.
Svo ljóma kinnar, loga brár,
hann lyftir brúnum!

… og svo pólitíkin …

Ási Frikk á býsna bágt,
á bílinn snápar rýna.
En Rauði krossinn lýtur lágt
með lögfræðinga sína.

08.11.17

Veðrið og náttúran …

Bíllinn öslar kalsakrap,
karskur þó á vegi,
inn í koldimmt alheimsgap,
út á björtum degi.

… og svo pólitíkin, en formaður Vinstri grænna var staðinn að því að vilja heldur mynda stjórn með afturhaldinu en að reyna að breyta samfélaginu til hins betra:

Ef að Katrín ætlar sig að hneigja,
að altarinu leiða Spillingu,
þá út um gluggann fjöreggi mun fleygja
með Feigð við arm, í brúðkaupshyllingu.

… og svo aftur að veðrinu …

Nú er glæra götu á,
glit- hin skæra -veisla
steypuhræru í frosti, frá
framljóss tæra geisla.

09.11.17

Vildi gjarnan vinalegt
verða barn að nýju
með öskurtarnir, ógeðslegt
iðraskarn og spýju.

12.11.17

Við hjónin drifum okkur í óperuna og þar var hægt að gleyma svikum Vg um stund:

Með pörupiltanna þroska
í pólitíkinni froska
sit uppi með.
Mildar þó geð
tilþrifasöngur í Tosca.

13.11.17

Tveir þingmenn Vg greiddu atkvæði gegn stjórnarsamstarfi við spillinguna:

Framundan útflött eyðimörk,
örlögin sjást í grettunni.
Í rökkrinu Andrés og Rósa Björk
rísa upp af sléttunni.

Vinstri grænir ganga hér
(gellur núna ýlan)
lokaspölinn. Eftir er
aðeins „græna mílan“.

Fer að Íslendinga sið,
aldarlanga glíman:
Alltaf vinnur íhaldið.

15.11.17

Við sögðum fyrir kosningar að við höfnuðum engum og getum því ekki sagt eftir kosningar að við höfnum engum – nema Sjálfstæðisflokknum. Það væri óheiðarlegt.“ Svona hljómaði réttlæting Vg.

En þetta sama fólk sagði margt fleira fyrir kosningar, sem það kýs nú að þegja um að hafa sagt eða meint nokkuð með. Alla vega þarf ekkert að standa við það eftir kosningar, sem er víst samt strangheiðarlegt gagnvart eigin kjósendum!

Var siðferðilegt fúafen,

formyrk, spillt óværa.

Nú, fyrir stól, er Bjarna Ben.

boðin viðreist æra.

 

Frostkaldir dagar:

Vetrarmjöllu stirnir strá,
stjarnahöllin glitar,
letrar fjöllin úrug á,
einnig völlinn litar.

Prýða mjallargeislar gljá
glóð á hjalla tindrar.
Skrýða fjallaeggjar, á
efstu skalla sindrar.

Myrkur bætir, ekki er
andinn næturvætir.
Styrkur mæti, sjaldan sér
sálin þrætur bætir.

16.11.17

Meiri sléttubönd:

Galinn skjóður, ekki er
enn í bróðurgriðum.
Talinn óður, fráleitt fer
fyrir góðum siðum.

19.11.17

Ljós og skuggar leika sér,
ljómar muggubeður.
Fannaduggur, fjallasker,
fagurt gluggaveður.

Niðdimm er í nóvember
nóttin hér á fróni.
Reið um frerann rennir sér,
rymur sverum tóni.

20.11.17

Katrín Jakobsdóttir valdi að leiða Svarta-Pétur til ráðuneytis:

Sinnið kelur soraél,
svika- kvelur vetur.
Katrín elur syndasel,
Svarta- velur Pétur.

21.11.17

Hallmundur Guðmundsson, hagyrðingur á Hvammstanga, birtir á Fjasbók stundum myndir af sér, og gjarnan vísur með, við störf hjá vegagerðinni, við sjnómokstur á vegum eða viðhald þeirra:

Hallmundur hreinsiskati
heiðina ruddi – í plati
en lokaði veginum
og sig lagði að deginum
í ríkisapparati.

22.11.17

Lárus Ágúst Bragason skrifar gjarnan athugasemdir við vísur mínar, eitthvað á þessa leið: ,,,,,,,,,,,,,,,, nú styttist í ljóðabókina ,,,,,,,,,,,,,,,

Styður mig, „stuðlafallsblókina“
þó „stefjahrun“ renni í brókina.
Hann er stopull og stirður
og „stórlítils“ virður
leirinn, í ljóðabókina.

Enn af Týndu-Kötu:

Núna, þegar nálgast jól,
náungkærleik sýndi.
Katrín reisti Skálkaskjól
en skarti sínu týndi.

Gæti loks stillt mína strengi
og staðið í blóma, mjög lengi,
ævintýr lifað
og ljóð um þau skrifað
ef að nú fimmeyring fengi.

Minn var drottinn mestur gerður“
margir telja víst.
En trúarbrögð – seint talið verður
tjón sem af þeim hlýst.

23.11.17

Sólarlagið er hvetjandi:

Samdi óð við sólarglóð
sumar hljóðu kvöldin.
Vekja góð og vönduð ljóð
vetrar blóðug tjöldin.

25.11.7

Eftir stjórnarmyndun Vg. með íhaldi og framsókn:

Þá foreyðingar fann sér línu
að fyrr en þetta kýs
rísa hár á höfði mínu
og heita vatnið frýs.

27.11.17

Það er fátt sem segir meira til um súbstans í fólki og flokkum en hvernig það og þeir takast á við það þegar hlutirnir fara ekki alveg eftir þeirra höfði“, segir Kolbeinn Proppé í gær á Fjasbokarsíðu sinni.

Ég tek undir þetta. Og nú þegar hlutirnir fara alls ekki eftir Kolbeins eigin höfði frá því fyrir kosningar, þá segir það töluvert til um súbstans í honum og félögum hans.

Mikið væri gott ef fólk gæti litið meira í eigin barm og sett sömu kröfur um heilindi á sjálft sig og það gerir á aðra“, bætir Kolbeinn við. Rétt er að taka undir þau orð líka, og biðja hann að fá lánaðan spegil einhvers staðar, líta í hann og spyrja: Hvort mun þetta höfuð hafa mælt svo um, fyrir kosningar, að mynda ætti ríkisstjórn um spillingu?

En kannski hefur hann bara fengið sér nýtt höfuð? Eða nýjan súbstans í höfuðið? Þeir fást víst fyrir lítið í Valhöll.

Á siðbót fylgi safnaði
svo að allvel dafnaði
en Kolbeins súbstans kafnaði
er kjósendunum hafnaði.

Ásmundur Einar var ánægður með málefnasamning ríkisstjórnar sem hann var að setjast í, án þess að hafa fengið ítarlega kynningu á honum. Allir muna líka hvernig hann flúði á mettíma úr framsóknarflokki Steingríms J. yfir í framóknarflokk Sigmundar Davíðs:

Ásmundur Einar Daða
ekki nú telur skaða
að fordæmispretti
fyrrum hann setti
er flúði á hámarkshraða.

29.11.17

Í fannaglætuflúrað rím
frostið lætur rökin.
Loks er grætur loðið hrím
losar næturtökin.

Brunatökum bláum með
breiðir lökin hvítu
yfir þökin, blómabeð,
bala, vök og strýtu.

Loks í vísu hugsun heil
helst frá fyrstu línu
allt til loka. Engan feil
á sé verki mínu.

Enn að pólitíkinni:

Sem vinnunámskeið velur dans
-vinstri, hægri, snú-
og flýgur kát í faðmi hans
er fangar hennar trú.

Þannig er mál með vexti að fyrir utan svefnherbergisgluggann, á versta stað framan við húsið, er ljósastaur sem gónir sífellt inn og beint í augu mín þegar ég leggst á koddann. Sendi honum þessa kveðju:

Dæs! Við húsið dúsar gaur,
dottar rétt við stétt.
Les ég glósur ljósastaur,
ljótt er smettið grett.

08.12.17

Á leið til vinnu á Litlahrauni þurfti eg að stöðva við Björk, rífa upp símann og taka myndband af sólarupprásinni.Stórfenglegt:

Augun greip morguns árið,
austan er gullinn roðinn.
Blátjöldin prýðir párið,
úr penslinum slettu goðin.

12.12.17

Er ekki sígilt að henda í eina endurvinnsluveðurvísu, fyrst kúvending hefur orðið á árstíðum í einni svipan?

Ísa hefur leyst á lóni,
logar sólarglóð,
nú er ekki frost á Fróni,
funar í æðum blóð.

13.12.17

Enn af sólrisi:

Líta röðul merla má
milli svefns og vöku.
Um slíka fegurð alltaf á
að yrkja góða stöku.

Og stuttu seinna:

Sól fer öll í augu mín
undir stýri.
Lendi, ef svo áfram skín,
útí mýri.

15.12.17

Kenningaæfing:

Sverðaþundur, silkigrund,
sónarglundur.
Gunnar fundur, Ýmis und,
Óðins hundur.

Og formæfing með sléttuböndum:

Veði Óðins forða frá
frétta glóðarperu.
Beði ljóða unir á,
andans gróður veru.

16.12.17

Úr ólíkum áttum:

Að berjast með oddi og egg
ég ætla, en forsjáll þó legg
hugann í bleyti.
Einnig því heiti
að skerða ei hár mitt né skegg.

Konan styður, ástin er
andans friður styrkur.
Inni í griðum uni mér,
úti er niðamyrkur.

Gróður jarðar grunnar túnin grænni slikju
sem kæfð er svo í kúamykju.

Merla tún og móaholt af mjallarbóni
en burt það krafsa Brúnn og Skjóni.

Haginn væni? Hjarnið kalda? Hundur grafinn?
Þar lengi hefur legið vafinn.

Katrín vill sinn frama fá
og finnst að gera megi
góða málamiðlun á
mun á nótt og degi.

19.12.17

Biskupsnefnan opnaði munninn um fátæktarumræðu á Íslandi:

Við tökum samtalið seinna,
fólk sífrar en drepst vart úr hor,
því biskupinn liggur við beinna.
Svo bjargar því nálin í vor.

22.12.17

Jólaandinn:

Nú eru margir í miðjum klíðum
að molna’ undan hátíðarstressinu,
æða í búðir í straumum stríðum,
stareygir leitandi’ að dressinu

svo lendi’ ei í klóm, eða kafni í víðum
kjafti á jólafressinu.

Veðrabrigði …

Nú hann fyrir víst ei veit
hvaða veður á að þróa
svo úr nokkrum skýjum skeit
skúrum, út í snjóa,
ræskti sig, með loga leit
á löndin sín í Flóa.

23.12.17

Þoddlákur:

Þorláksmessuþrifin,
þau eru ekkert grín,
líkt og upp lóð séu rifin,
leið, en heilsurækt fín.

Jólakveðja 2017:

Drungalegur dagur skammur

deyfir lund og vinnuþrek.

Niður bælir næturhrammur,

niðasvartur, eins og blek.

Huggun er að ljósið lifir,

lengir göngu sína brátt,

vakir lífi öllu yfir,

eflir von og kærleiksmátt.

 

Jólakveðju ég vil senda;

jarðarbúar öðlist frið!

Þeim er eitthvað illt kann henda,

af öllum mætti veitum lið.

Það er list að þola saman,

þraut fær traustur vinur eytt.

Maður er víst mannsins gaman,

þó margur hafi rjómann fleytt.

 

31.12.17

Hrímnir

Flestir minnast margs við áramót,

minnast þess sem færði ást og gleði.

Kannski líka kemst á hugann rót

kvikni það, sem betur aldrei skeði.

Munum þá að gera bragarbót

og bera sig, því lífið er að veði.

 

Í mysu lífsins maðkur víða sést,

manninn, svik og pretti, oft skal reyna.

Það er sem blessuð skepnan skilji flest,

skynji hugann, engu má þar leyna.

Það veit sá sem eignast úrvalshest

að aldrei vin sinn svíkur lundin hreina.

 

Kæri vin! Ég kveð með hjartasting.

Þín kroppuð tótt nú himni móti starir

sem áður horfði frán um fjallahring.

Þó fram úr öðrum hinum megin skarir,

ég aldrei framar óð minn til þín syng

og engin von með hneggi þú mér svarir.

 

Ég man þinn langa, mjúka, sveigða háls,

ég man, þitt skarpa auga knapann spurði:

Viltu með mér núna, nýr og frjáls,

njóta listagangs, í fullum burði“?

Á gamlársdag finn grimmd. Mér varnar máls

að ganga að þér, dauðum oní skurði.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *