Vafningsríma

Loks er varpað ljósi á
langa Vafningsfléttu.
Af sögu þeirri sjálfsagt fá
sumir hryllingsgrettu.

Sýna málsins sakargögn
að sagan, rétt ég vona,
er í stuttri endursögn
einhvernveginn svona:

Bræður tvennir bralla margt,
banka hyggjast kaupa.
Vilja gjarnan græða skart,
með gull í vösum raupa.

Saman eiga þessir Þátt,
þaðan mikinn vilja’ arð.
Morgan Stanleys góna’ á gátt
og grenja’ út tugamilljarð.

Kaupa’ í Glitni sjö prósent,
svífa’ á gróðavegi!
Óðar samt er lánið lent
á lokagreiðsludegi.

Uppgjör því til fjandans fer,
með félagssjóði blanka.
Til lausnar þrautalending er
lán frá keyptum banka!

Reglum samkvæmt meira má
Milestone ekki lána.
Forða Þáttur engan á,
útlit bjart að grána.

Til bjargar sjóða svikavef,
seint þó finnist vitni.
Annars tekin yrðu bréf
sem áttu þeir í Glitni!

Sveins- og Wernerssynirnir
sjá nú vonir dofna.
Leysa vandann, vinirnir,
Vafning nýjan stofna!

Skyldi lán til Vafnings veitt
en velt svo beint til Þáttar
svo milljarðana gætu greitt
og gleiðir lagst til náttar.

En Vafning þarf að veita fé
svo veð sé fyrir láni!
Lífsvon Sjóvar lét í té
lyfjakeðjubjáni.

Nú aðeins vantar undirskrift!
Er þá nokkur heima?
Ef enginn getur armi lyft
má öllu þessu gleyma!

Þó ekki verði öllu náð
sem enn mun talið hreinna.
Þeir hafa undir rifi ráð
og redda þessu seinna.

Til Milestone bara færa féð
úr fúnum Glitnis aski.
Þáttarskuldin þvegin með
þokkapiltabraski.

Lagaregluverkið var
með vilja þarna brotið
er lítilsigldir lúserar,
léku djarft og rotið?

Hið nýja félag fullgilt var
fjórum dögum síðar.
Með traustum Sjóvárbréfum bar
bankaskuldir fríðar.

Nú er loksins Vafnings veð
vottað, eftir baslið,
lánið hægt að möndla með
og millifæra draslið.

Hefst nú siðlaust sjónarspil,
samningurinn skráður,
(með falsi grófu færður til)
fjórum dögum áður!

Aðeins verður vandamál
ef vitnast þessi flétta:
Yrði drísildjöflum hál
dagsetningin rétta!

Fram þá stígur Bjarni Ben.
til bjargar, ættarsprotinn.
Pennann glaður grípur – en
gjörningurinn rotinn.

Skjalið virðist skíraglit,
skrautritað með „heading“!
Eðli þess með öðrum lit,
algjör skítaredding.

Bjarni nú sinn tíma tók
að tæma bankahólfin.
Veit að senn mun bankinn „broke“,
brostin hallargólfin.

Vafningsskuld að vonum greidd
með vænu láni’ í Glitni!!
Summan gegnum Svartháf reidd.
Sýnist púkinn fitni!

Greitt til baka bara smá
brot af lánsins virði:
Borgar þjóðin þaðan frá
þeirra skuldabyrði.

Útrás landið vefur vor
víkingsfrægðarljóma.
Í bankainnrás eðlisþor
æðstan veitir sóma.

Saga þessi aðeins er
almennt, lítið dæmi
um sigra þegar saman fer
snilld og íslenskt næmi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *