„…varðstaða um sérhagsmuni.“

Það er erfitt að skilja hvers vegna stjórnmálaflokkar, sem gefa sig út fyrir að vinna að almannahagsmunum, berjast með kjafti og klóm gegn yfirráðum almennings yfir sjávarauðlindinni og úthlutun á tímabundnum nýtingarrétti á henni. Það er þó svo sjálfsagt, einfalt og auðskilið að tímabundinn nýtingarréttur, burtséð frá því gjaldi sem nýtingarrétturinn væri seldur á, þjónar hagsmunum almennings en ótímabundinn, arfgengur nýtingarréttur sem verið er að reyna að koma á endanlega um aldur og ævi gerir það ekki, heldur sérhagsmunum fárra.

Það má segja að afstaða Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Miðflokksins komi ekki á óvart, enda þessir flokkar þekktir að því að vinna fyrst og fremst að sérhagsmunum, þegar almannahagsmunir og sérhagsmunir rekast á. Hins vegar kemur það á óvart að Vinstrihreyfingin grænt framboð skuli vera svo grímulaus sérhagsmunagæsluflokkur fyrir hina  fámennu, ofurríku auðklíku Íslands og raun ber vitni – í ljósi fagurgala flokksins á fyrri árum um velferð okkar „minnstu bræðra og systra“.

Þorsteinn Pálsson skrifar góða grein í Fréttablaðið í dag um auðlindamálin og vekur athygli á því að í frumvarpi umhverfisráðherra Vg um hálendisþjóðgarð komi fram skýrt og skorinort „að óheimilt sé að reka atvinnustarfsemi í Hálendisþjóðgarði án þess að gerður sé tímabundinn samningur um slíka starfsemi“ og jafnframt að um þetta virðist ríkisstjórnarflokkarnir vera algjörlega sammála, þó þeir deili um flest annað í frumvarpinu.

„Tímabinding réttinda er“, í lýðræðisríkjum, „meginregla þegar stjórnvöld úthluta takmörkuðum gæðum til einstaklinga eða félaga þeirra til hagnýtingar“, segir Þorsteinn og bendir á að þetta gildi hér á landi um orkuframleiðslu, nýtingu auðlinda í jörðu og um fiskeldi.

Á sama tíma og Vg leggur fram frumvarp um tímabindindingu nýtingarréttar sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar á hálendinu telur flokkurinn „nauðsynlegt að Alþingi hafi svigrúm til þess að viðhafa sérreglu um nýtingu sjávarauðlinda í almennum lögum.“ Með allt öðrum hætti en öðrum sameiginlegum auðlindum.

Ástæðan fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir vilja alls ekki samþykkja auðlindaákvæði „nýju stjórnarskrárinnar“ er einmitt sú að það myndi taka það vald af Alþingi að úthluta nýtingu sjávarauðlindarinnar með almennum lögum til útvalinna, myndi setja bönd á sérhagsmunagæsluna.

Því „[t]ilgangurinn með stjórnarskrárbundnum takmörkunum á valdi Alþingis er einatt sá að tryggja jafna stöðu borgaranna og koma í veg fyrir hvers kyns mismunun.“

Það getur ríkisstjórnin alls ekki hugsað sér – og forsætisráðherra sem leiðtogi hennar, og formaður Vg, gengur því fram fyrir skjöldu með tillögum sínum að stjórnarskrárbreytingum. Allt til að verja sérhagsmunagæslu í sjávarútvegi gegn almannahagsmunum.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *