Kappið og umhyggjan

Í því þunnildi sem Fréttablaðið annars er leynist stundum feitmeti. Í dag gerir t.d. Sif Sigmarsdóttir að umræðuefni það sem hún kallar, eftir öðrum, „ferilskrárdyggðir“ og „líkræðudyggðir“ og ályktar réttilega að vonlaust sé að færa rök fyrir því „að stjórnandi í gjaldeyrismiðlun … sé þarfari þegn en starfsmaður í umönnun á elliheimili.“

Til að undirstrika þetta grípur augað eftir nokkrar flettingar framhjá opnuauglýsingum fyrirsögnin „Vertu ofurhetja í einn dag“ þar sem Anna Steinsen „hvetur landsmenn til að leggja sig enn frekar fram fyrir hönd þeirra sem minna mega sín.“

Venjulega er hugtakið ‘ofurhetja’ tengt fyrrnefndum ‘ferilskrárdyggðum’, skemmst er að minnast ‘útrásarvíkinga’ sem þáverandi forseti lofaði og bar á höndum sér, og óbilandi trú margra á okkar helstu gróðapunga, þó ekki séu vandir að meðulum, s.s. mútum og aflandsbraski.

Hin fleygu einkennisorð íþróttahreyfingarinnar – „Hærra, lengra, hraðar“ – stjórna um of öllu samfélaginu. Þó hóflegur keppnisandi sé góður þá er krafan um stöðugan, óheftan vöxt að sundra því sem við viljum kalla SAMfélag manna, hreinlega að gera út af við lífríki jarðarinnar.

Þegar að er gáð fer enginn hvorki hærra, lengra né hraðar án þess að standa á grunni, hvort sem það eru sjálfboðaliðar undir starfi íþróttahreyfingarinnar eða skólakerfi, velferðarkerfi og aðrar sameiginlegar auðlindir undir framgangi „athafnamanna“ og ‘gróðapunga’.

Það er fegurðin í umhyggjunni sem einhvers er verð en ferilskráin lítils virði á sjúkrabeði og í mótlæti.Séra Friðrik hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði: „Látið kappið ekki bera fegurðina ofurliði“.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *