Viltu kaupa skeinipappír?

Fram kemur á Smugunni að Ragna Ingólfsdóttir, fremsta badmintonkona Íslands um árabil og afrekskona á heimsvísu, lepji dauðann úr skel. Hún á varla fyrir almennilegum mat, en allir vita að þeir sem stunda íþróttir, hvað þá afreksíþróttamenn, þurfa á því að halda að borða góða og næringarríka fæðu reglubundið, en ekki með höppum og glöppum.

Ragna undirbýr sig nú fyrir Ólympíuleikana í London á næsta ári, og vegna þess að hún á bjargálna og öfluga fjölskyldu sem stendur við bakið á henni, sér hún fram á það að lifa af fram yfir ÓL. Hún hefur hinsvegar fórnað bæði lifibrauði og lífeyrisréttindum árum saman til þess að geta látið drauma sína rætast.

Saga Rögnu er ekkert einsdæmi. Þetta er saga  íslenskra íþróttamanna í gegnum árin. Hópur af efnilegum afreksmönnum hefur ákveðið að ganga ekki þennan píslarveg og hætt. Svo má líka spyrja sig hvort þátttaka í afreksíþróttum sé háð tískusveiflum. Hver er t.d. staðan hjá Helgu Margréti Þorsteinsdóttur, sem undirbýr sig líka fyrir ÓL í London? Er hún í sömu sporum og Ragna? Eða eru frjálsíþróttir meira í tísku en hnit og því auðveldara fyrir hana að safna styrkjum frá fyrirtækjum? Gaman væri að vita þetta. Viljum við að það sé fyrst og fremst háð tískusveiflum og stundarvinsældum íþróttagreina hvaða íþróttamenn fái tækifærin? Fleiri afreksmenn í einstaklingsgreinum undirbúa sig fyrir ÓL, t.d. Kári Steinn Karlsson, sem hefur tryggt sér þátttökurétt í maraþonhlaupi, og hver er staða Sundsambandsins, sem ávallt á sína fulltrúa í keppnislaugum Ólympíuleikanna?

Þekkt er að körfuboltasambandið LAGÐI NIÐUR LANDSLIÐ SÍN Í NOKKUR ÁR vegna fjárskorts og skulda sem safnast höfðu upp smám saman hjá sambandinu vegna þátttöku í alþjóðakeppnum. Stjórnendur KKÍ eiga heiður skilinn fyrir að sýna þessa ábyrgð, því áframhaldandi rekstur landsliðanna hefði keyrt sambandið í þrot, og íþróttina í kjölfarið. Mér er til efs að ríkisvaldið hefði eftir á hlaupið með sama hætti undir bagga með KKÍ og  margoft hefur verið gert gagnvart t.d. HSÍ. Með þessu er ég ekki að segja að HSÍ sé ofhaldið af sínu, heldur að benda á misréttið og stefnuleysið sem íþróttahreyfingin hefur árum saman þurft að búa við. Þetta herfilega misrétti grundvallast á því að ALLT OF LÍTIÐ ER TIL SKIPTANNA.

En þessi saga af KKÍ er hörmungarsaga og til háborinnar skammar, jafnframt því að vera dæmisaga um lofsverða framgöngu formanns og stjórnar sambandsins. Hvers eiga afreksmenn í þessari íþróttagrein að gjalda?

Nú um þessar mundir tekur kennalandsliðið í handbolta Í FYRSTA SKIPTI þátt í lokakeppni heimsmeistaramóts. Þessi frábæri tímamótaárangur í íslenskri íþróttasögu vekur verðskuldaða athygli, enda standa stelpurnar sig með mikilli prýði. Vakin hefur verið athygli á þeim himinhrópandi aðstöðumun sem þær þurfa að búa við, samanborið við aðra þátttakendur á mótinu. Þó við gerðum ekki kröfur um að íslenska liðið byggi við sambærilegar aðstæður fjárhagslega og hinir moldríku frændur okkar í Noregi geta boðið upp á, sjá allir að hér er ekki keppt á jafnræðisgrundvelli, heldur víðsfjarri því.

Eina sérsambandið innan ÍSÍ sem er sæmilega bjargálna er KSÍ. Það kemur til vegna himinhárra (í íslensku samhengi) peningagreiðslna frá útlöndum. Íslensku  landsliðsmennirnir í knattspyrnu karla, flestir atvinnumenn sem vaða í peningum, fá um leið langhæstu félagslegu styrkina til að keppa fyrir hönd þjóðarinnar. Er ekki eitthvað öfugsnúið við það?

Nú geta auðvitað einhverjir sagt að þessi píslarganga sé bara val Rögnu, og annarra í hennar sporum. Hún geti sjálfri sér um kennt að vera að streða í þessu. Með hvaða rétti ætti líka að „seilast ofan í vasa skattborgaranna“, eins og það heitir hjá íhaldinu, sem kvartar hæst yfir því að lagðir séu á skattar, til að einhverjir geti verið að leika sér í allskyns ónytjuhoppi?

Þessu er ég algerlega ósammála. Fyrir mína parta má gjarnan leggja á sérstakan aukaskatt sem rynni til íþróttahreyfingarinnar, þannig að sérsamböndin gætu áhyggjulaus bæði haldið úti lágmarksstarfsemi og styrkt afreksmenn sína til að keppa á alþjóðavettvangi – án þess þeir þyrftu að safna sjálfir fyrir flugi og hótelgistingu með skeinipappírssölu, en borga kostnaðinn ella úr eigin vasa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *