Að lesa (og skrifa) list er góð…

Framhaldsskólakerfið á Íslandi er orðið bæði fjölbreytt og sveigjanlegt og kemur því vel til móts við ólíkar þarfir og getu nemenda. Samt hverfa milli 20 og 30% þeirra frá námi í miðju kafi – án viðunandi árangurs. Verkefni skólamanna og stjórnmálaafla er að grafast fyrir um raunverulegar ástæður fyrir þessu, benda á leiðir til úrbóta – og hrinda þeim í framkvæmd.

Undanfarna áratugi hefur verið unnið sleitulaust að því að fjölga námsleiðum, auka fjölbreytileikann og sveigjanleikann í kerfinu, til að koma til móts við nýjan hóp nemenda, nemendur sem áður fyrr yfirgáfu skólakerfið að loknu skyldunámi og fóru út á vinnumarkaðinn, sem tók þeim oftast opnum örmum.

Nú er þetta orðin gömul saga. Framhaldsskólakerfið hefur á sl. 30 árum aðlagað sig að breyttum veruleika – nemendurnir eru ekki lengur sá einsleiti hópur sem gat með tiltölulega lítilli fyrirhöfn hakkað í sig hvað sem fyrir hann var lagt – á leið sinni inn í rykfallnar deildir háskólans. Þó nokkrir skólar komist upp með það enn, dugir framhaldsskólakerfinu í heild ekki að vera bara læst á fyrstu tvö táknin, það þarf að kunna á allt mannrófið, frá A-Ö.

Nú er kominn tími til að hugsa málin upp á nýtt, benda á nýjar leiðir og áherslur, í stað þess að spóla áfram í sama hjólfarinu – og stefna enn að því meginmarkmiði næstu árin og áratugina að auka fjölbreytni og sveigjanleika. Það heggur ekki að rót vandans og mun ekki skila árangri.

Mesti vandinn í skólakerfinu er ekki skortur á fjölbreytni og sveigjanleika, heldur skortur á læsi. Ólæsum eða illa læsum nemendum gagnast lítið fjölbreytni og sveigjanleiki. Þeir eru jafn ólæsir eftir sem áður. Vitaskuld verða alltaf einhverjir sem ekki geta lært að lesa, af ýmsum ástæðum, og þeir þurfa hér eftir sem hingað til þjónustu við hæfi. Sú þjónusta er fyrir hendi.

Í framhaldsskólunum eru langflestir á bóknámsbrautum til stúdentsprófs. Of stóran hluta þessara nemenda má kalla ólæsan, og fer stækkandi. Það eru ekkert endilega nemendur sem glíma við sk. lestrarörðugleika, t.d. lesblindu. Alltof margir, sem hefðu vel getað orðið fluglæsir á barnsaldri, eru stautandi í framhaldsskólum. Svo eru aðrir, sem strax ná góðum tökum á lestrartækninni, en komast svo ekkert lengra, staðna. Þetta er sorglegt. Eitt er að vera læs – og annað er að vera læs.

Af hverjum sættum við okkur við þetta? Foreldrar? Kennarar? Menntamálayfirvöld? Alþingi? Ríkisvald? Samfélag?

Bregðast mætti við með því að herða bara inntökuskilyrðin. Svo er líka hægt að afgreiða skóla sem reyna af fremsta megni að koma sem flestum einstaklingum áleiðis, í samræmi við áhuga þeirra og vonir en kannski að einhverju leyti í blóra við getu þeirra, sem lélega skóla sem útskrifi t.d. „annars flokks stúdenta“. Alltaf er töluverð stemmning fyrir þessum viðhorfum.

Svona aðferðir og sleggjudómar leysa engan vanda. Það er rétt stefna, sem við fylgjum hér á landi, að halda sem flestum dyrum opnum sem lengst í menntakerfinu. Allir eiga að fá sitt tækifæri, í stað þess að ákveðið sé á barns- eða snemma á unglingsaldri, hvaða örlög og starfsvettvangur bíði – lífshalupið í stórum dráttum.

Mikilvægast af öllu er að bæta lestrarfærni. Við höfum nú byggt upp svo góðan grunn, fjölbreyttan og sveigjanlegan, allt frá leikskóla og upp úr, að óviðunandi er að stór hluti æskunnar hrekist þaðan. Góð lestrarfærni er grundvöllur allra lífsgæða, og með því að láta nemendur fljóta illa læsa gegnum skólakerfið, án þess að grípa til þeirra ráðstafana sem duga, eru framin á þeim herfileg mannréttindabrot. Er ekki ólæsið, fremur en skortur á sveigjanleika og fjölbreytni, sá þrítugi hamar sem margir nemendur standa frammi fyrir í framhaldsskólunum, og veldur því að þeir hverfa frá? Langflestir nemendur myndu klára sig prýðilega, á hvaða braut sem er, í hvaða skóla sem er, aðeins ef þeir væru þokkalega læsir.

Þannig útbúnir myndu þeir lesa sig upp hvaða hamar sem er.

Skólakerfið glímir við fleiri drauga en ólæsisdrauginn, og fjallað verður nánar um það næst….

 

 


 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *