Að lesa og hugsa í senn

Ekki hef ég lesið mikið eftir Guðrúnu frá Lundi. En nýútgefna bókina Afdalabarn þrælaðist ég í gegnum. Það er ekki góður skáldskapur; fyrirsjáanlegur söguþráður, einfeldningsleg persónusköpun, langdreginn og ófrumlegur stíll. Að hampa sögunni sem einhverri ritsnilld, eins og gert hefur verið, er of langt gengið. Aukapersónurnar, sem lofaðar hafa verið, eru í besta falli slappar eftirlíkingar á frægum persónum úr Pilti og stúlku (t.d. Gróu á Leiti).

Með þessu er þó ekki sagt að sagan sé verri en margar sögur frá 19. öld, á bernskudögum skáldsögunnar. Afdalabarn er einmitt þetta: frumbernsk saga. Og maður fær þá tilfinningu að hún sé skrifuð um miðja 19. öld; að rætur höfundarins liggi þangað aftur fremur en á 20. öld. En eiga lesendur að hunsa það að Afdalabarn kom út hundrað árum seinna en Piltur og stúlka, þegar þeir leggja mat á bókmenntalegt gildi sögunnar?

Sagan er einföld, auðlesin og aðgengileg. Boðskapurinn liggur fyrir allra fótum á yfirborðinu og enginn þarf að tefja sig á leit að dýpri tilgangi. Að þessu leyti má segja að sagan henti byrjendum. Þ.e.a.s. ef gert er ráð fyrir því byrjendum sé það ofviða að bæði lesa og hugsa í senn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *