Fiskarnir hafa fengið vængi

Loksins komst ég í það sem staðið hefur til allt árið: Að lesa nýjustu bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Fiskarnir hafa enga fætur. Í sem stystu máli þá fann ég minn Kalman aftur.

Jón Kalman er fyrir minn smekk. Einn af örfáum nútíma skáldsagnahöfundum íslenskum sem náð hafa að heilla mig með skrifum sínum. En ég var samt farinn að efast. Þegar ég var farinn að fletta áfram til að kanna hvort snjóbylnum ætlaði virkilega aldrei að linna?

Í fótalausu fiskunum er Jón upp á sitt allra besta. Textinn er afbragð, ljóðrænn og þykkur eins og feitt smjör sem drýpur af hverri síðu. Það er auðvelt að fara yfir strikið í notkun líkinga. Hér eru líkingar nánast í hverri málsgrein en þær hitta í mark – frumlegar og skemmtilegar. Og djúpar. Það er eins og hver þeirra beri æðri boð, heimspekilegar spurningar um lífið, samfélagið, veröldina.

Sagan er marglaga. Hún er ástarsaga, þroskasaga, ættarsaga. Höfundurinn kafar inn á við, inn í innsta kjarna mannsins. Hún fjallar um tilgang manneskjunnar í heiminum:

„ … ástin, segir hann, það er sú vetrarbraut sem skærast skín og aldrei eyðist! En sárast hlýtur að vera að hafa aldrei elskað nógsamlega, ég er ekki viss um að það sé hægt að fyrirgefa það.“

 

Hún er samfélagsádeila, enginn öskrandi áróður heldur heimspekilega yfirveguð og beittari fyrir vikið:

„Vesalings Jón Sigurðsson sem þarf að horfa dag og nótt á Alþingi Íslendinga, við förum illa með sjálfstæðishetju okkar, hann er líka þungbúinn á svip og hefur lagt hendurnar á jakkaboðunginn, eins og hann sé reiðubúinn að seilast í innri vasann eftir eggi til að kasta í Alþingsihúsið; reiðubúinn að grípa egg upp úr vasa ef forseti landsins ætti leið hjá. Hvað er hægt að gera við þessa þjóð sem á örskömmum tíma varð að fyrirmynd, að hetjum Evrópu, en reyndist síðan, eins og oft áður, meistari í spretthlaupi, ónýt í langhlaupi?“

 

Hún er heimsádeila, ádeila sem á rætur sínar innan í manneskjunni: tilgangurinn lifir innra með manninum, maðurinn lifir í samfélagi og samfélagið er meðal samfélaga.

„ …það er fátt jafn dýrmætt í þessari veröld, jafn mikilsvert, og brosið. Samt voru þeir Brésnev og Jimmy Carter ekki með það á viðræðulista sínum veturinn 1980, […], og þó stóðu allir í þeirri vissu að þeir myndu ræða mikilvægustu málefni jarðarbúa.“

 

Svona eiga skáldsögur að vera. Þær eiga að hreyfa við manni og fá manni sífelld ný viðfangsefni að glíma við. Fiskarnir hafa enga fætur er hreint afbragð.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *