Í nógu að snúast í vetur

„Við gerum bara ráð fyrir því að þetta taki gildi næsta haust og við þurfum að vera reiðubúin með allar námsbrautalýsingar 1. mars og við höfum ekki fengið neinar aðrar dagsetningar, þannig að það verður í nógu að snúast í vetur“.

„…þannig að það verður í nógu að snúast í vetur…“ segir Hjalti Jón Sveinsson formaður Skólameistarafélags Íslands í fréttum RÚV í gær.

Formaður skólameistarafélagsins hefði gjarnan mátt geta þess í fréttaviðtalinu að ríkisvaldið gerir ekki ráð fyrir neinu fjármagni til að vinna að samningu nýrra námsbrautalýsinga. Ætlar Hjalti Jón að vinna þessa vinnu sjálfur? Á hann við að í nógu verði að snúast hjá honum sjálfum í vetur, að semja námsbrautalýsingar meðfram skólastjórnuninni, næstu 5 mánuði – og fyrir ekkert? Er skólastjórnun ekki tímafrekari en svo að hægt sé að bæta þessu inn í vinnuskylduna? Kannski byrja daginn á þessu, svona frá átta til hálftíu, og snúa sér að stjórnuninni eftir morgunkaffið?

Nei, hann á ekki við það. Hann á við það að ætlast verður til þess að kennarar bæti þessari vinnu ofan á sín daglegu störf, kennsluna, kauplaust í frítíma sínum á kvöldin og um helgar.

Þar stendur hnífurinn í kúnni, eins og ævinlega.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *