Ættfræði: Um Jóelsætt, 4. þáttur

Yngsta dóttir Guðrúnar Kristmundsdóttur var Unnur Sigrún, f. 1922 á Smyrlabergi í Ásum. Unnur ólst upp hjá frænda sínum, Guðmundi Kristmundssyni Meldal, afa mínum, og konu hans, Róselíu Guðrúnu Sigurðardóttur (Pálsætt á Ströndum), frá tveggja ára aldri. Þau bjuggu á Höllustöðum og Þröm í Blöndudal, síðan í Litla-Dal í Svínavatnshreppi og loks Auðkúlu.

Unnur var því fóstursystir mömmu minnar, 5 árum eldri, sem hún leit mikið upp til og þótti vænt um. Mamma hefur sagt mér sögur af því hve hjartahlý Unnur var og henni mikilvæg þegar hún kom fyrst kornung inn á framandi heimili föður síns í Þröm, afskekktu og rýru heiðakoti lengst inni í Blöndudal.

Unnur Sigrún stundaði nám í Kvennaskólanum á Blönduósi og hefur síðan starfað við framreiðslustörf bæði hér á landi og í Danmörku. Hún giftist Jóhanni Rósinkranz Björnssyni frá Ísafirði árið 1948. Þau eignuðust 3 börn, Rósu Guðrúnu 1948, Guðmund Ægi 1951 og Matthildi 1960.

Um daginn þegar við vorum að fletta saman Jóelsætt og skoða myndir af fólkinu, rifja upp kynni hennar af ættingjunum, minntist hún best Guðrúnar af systkinum föður síns. „Já, ég man auðvitað vel eftir henni, hún var afburðakona“, sagði mamma, og þurfti ekki fleiri orð um það. Um önnur hálfsystkini pabba síns var misjafna sögu að segja. Hún mundi eftir að hafa séð þau flest en ekki öll. „Það var ekki verið að fara svo mikið á milli þá. Einstöku sinnum kom einhver í heimsókn.“ „Já, svona einu sinni, tvisvar á ári?“, sagði ég og átti við systkinin. „Nei, nei, nei, miklu sjaldnar“, svaraði mamma að bragði.

Sum systkina pabba síns taldi hún sig aldrei hafa séð. Eitt af þeim var Guðmundur, alnafni afa, fæddur 1892 í Ásbjarnarnesi og yngsta barn föður síns af fyrra hjónabandi. Og ekki furða því hann flutti ásamt konu sinni, Guðrúnu Runveldi Eiríksdóttur til Kanada árið 1925, eftir að hafa búið á Gunnfríðarstöðum í A.-Húnavatnssýslu. Eftir stutta dvöl í Kanada var Guðmundur myrtur þar árið 1926. Engar frekari fréttir eða upplýsingar er að hafa um það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *