Ættfræði: Móðurættin í stuttu máli

Bjarni á Sjöundá átti Gísla sem átti Guðnýju sem átti Sigurð með Stefáni. Sigurður Stefánsson átti Elínbjörgu með Sigríði, dóttur Jóns og Guðrúnar Pálsdóttur Jónssonar, hvern Pálsætt á Ströndum er við kennd. Elínbjörg átti Ragnheiði Ester með Guðmundi Kristmundssyni Meldal, en Ragnheiður Ester er móðir mín.

Guðmundur Kristmundsson Meldal var sonur Steinvarar Ingibjargar Gísladóttur og Kristmundar Meldal, bónda á Ásbjarnarnesi og lengi í Melrakkadal, Þorkelshólshreppi, V-Hún, Guðmundssonar, bónda á Efri-Þverá í Vesturhópi, Helgasonar og Hólmfríðar Bergþórsdóttur úr Tjarnarsókn, Jóelssonar Bergþórssonar, hvern Jóelsætt er við kennd.

Steinvör Ingibjörg var dóttir Gísla Gíslasonar, eiginmanns Vatnsenda-Rósu. Þau voru barnlaus. Móðir Steinvarar var Arnfríður, vinnukona í Vesturhópshólum, Jónasdóttir Guðmundssonar bónda í Stóru-Giljá og konu hans Hólmfríðar Jósefsdóttur, bónda á Ásgeirsá, Tómassonar.

Gísli, faðir Steinvarar var sonur Gísla Gíslasonar frá Enni, Engihlíðarhreppi, A-Hún., prests í Kaldaðarnesprestakalli, Vesturhópshólum, Staðarbakka og Gilsbakka. Gísli mun hafa verið lærður maður vel og gáfumaður mikill, skáldmæltur en drykkfelldur til vandræða og kvensamur. Gísli var sonur Gísla Arasonar bónda á Enni og s.k.h. Margrétar Jónsdóttur frá Kríthóli, Jónssonar. Gísli er af bændafólki kominn í báðar ættir og talinn „lítilla manna“ af tengdaforeldrum sínum.

Gísli, faðir Gísla föður Steinvarar, var giftur Ragnheiði Vigúsdóttur Thorarensen, systur Bjarna skálds, en Vigfús var sonur Þórarins á Grund Jónssonar, hvern Thorarensenætt er við kennd. Gísli var í þjónustu Vigfúsar sýslumanns Þórarinssonar á Hlíðarenda 1808-12 og náði þar í heimasætuna, foreldrunum til skapraunar.

Ragnheiður var þriðja barn (á eftir Þórarni og Bjarna) Vigfúsar og Steinunnar Bjarnadóttur, Pálssonar landlæknis. Móðir Steinunnar, og kona Bjarna læknis, var Rannveig Skúladóttir, landfógeta Magnússonar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *