Glíman við tungumálið

Hvað annað sem um rímur og rímnahætti má segja eru bragarhættirnir hreint afbragð til að æfa sig í meðferð tungumálsins, til að efla orðaforða, sníða hugsun sinni stakk og koma frá sér, þegar best lætur, meitluðum, vitrænum hendingum. Sléttubönd eru hvað vandmeðfarnasti bragarhátturinn, en lesa má slíkar vísur jafnt aftur á bak sem áfram án þess bragarhátturinn riðlist. Best er ef merkingin snýst við, eftir því hvorn veginn er lesið. Slíkar vísur eru kallaðar „refhverf sléttubönd“. Meðfylgjandi eru nokkrar hringhendar sléttubandavísur, jafnvel dýrari, og þó skáldskapurinn í þeim sé ekki rishár eru þær afrakstur skemmtilegrar glímu höfundarins við tungumálið. Og það er einmitt galdurinn: Að glíma við tungumálið, svo það deyi ekki átakalaust!

Ort 15. nóvember 2017

a)

Vetrarmjöllu stirnir -strá,

stjarnahöllin glitar,

letrar fjöllin úrug á,

einnig völlinn litar.

Litar völlinn, einnig á

úrug fjöllin letrar.

Glitar höllin stjarna, strá

stirnir mjöllu vetrar.

b)

Prýða mjallargeislar gljá,

glóð á hjalla tindrar,

skrýða fjallaeggjar, á

efstu skalla sindrar.

Sindrar skalla efstu á,

eggjar fjalla skrýða,

tindrar hjalla glóð, á gljá

geislar mjallar prýða.

c)

Myrkur bætir, ekki er

andinn næturvætir

Styrkur mæti, sjaldan sér

sálin þrætur bætir.

Bætir þrætur, sálin sér,

sjaldan mæti styrkur.

Vætir nætur andinn er,

ekki bætir myrkur.

d)

Galinn skjóður, ekki er

enn í bróðurgriðum,

talinn óður, fráleitt fer

fyrir góðum siðum.

Siðum góðum fyrir fer,

fráleitt óður talinn.

Griðum bróður enn í er,

ekki skjóður talinn.

Eftirfarandi sléttubönd fylgdu inngöngubeiðni undirritaðs á póstlistann Leir, fyrir meira en áratug:

Margir róta ljótum leir,

lyga- njóta -sögu.

Argir blóta þrjótar þeir

þegar móta bögu.

Bögu móta, þegar þeir

þrjótar blóta argir.

Sögu njóta lyga, leir

ljótum róta margir.

Þessar voru ortar á Hryllingshátið á Hótel Geysi á „fyrirhrunsárunum“:

a)

Krafta villta finn ég frá

fólum, snilli betri.

Rafta fylli, skammaskrá

skrifa gylltu letri.

Letri gylltu skrifa skrá,

skamma fyllirafta.

Betri snilli, fólum frá

finn ég villta krafta.

b) Refhverf sléttubönd:

Geisla stillur, skímuskrá

skreytt er gylltu letri.

Beisla Hrylling, ekki á

annan snilling betri.

Betri snilling annan á,

ekki Hrylling beilsa.

Letri gylltu skreytt er skrá,

skímustillur geisla.

Samið á svipuðum tíma og Hryllingsvísurnar, um Pétur Stefánsson, sem birt hafði á Leir nokkuð af gamansömum sjálfshælnivísum:

a) Refhverf sléttubönd:

Kætir vífið, fráleitt fer

fullur gamli Pétur.

Bætir lífið, ekki er

óður saminn betur!

Betur saminn óður er,

ekki lífið bætir.

Pétur gamli fullur fer,

fráleitt vífið kætir.

b)

Pétur okkar fremstur fer,

fínar kokkar vísur.

Getur þokkað heilan her,

halur lokkar skvísur.

Skvísur lokkar halur, her

heilan þokkað getur.

Vísur kokkar fínar, fer

fremstur okkar Pétur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *