Af almennum félagsfundi

Í gær var haldinn almennur félagsfundur í Félagi framhaldsskólakennara. Fundurinn var haldinn að kröfu um 200 félagsmanna sem undirrituðu skjal þess efnis en skv. lögum FF (11. grein) skal halda slíkan fund tafarlaust ef 10% félagsmanna biðja skriflega um það. Fundurinn var haldinn á sal MH og sendur út á Netinu fyrir þá sem ekki áttu heimangengt.

Raunar má segja að þetta sé gott en ákaflega vannýtt samskiptaform. Bæði fyrir forystu félagsins, sem ætti að öllu eðlilegu að vera það kappsmál að heyra sem flest sjónarmið umbjóðenda sinna og sem oftast, til að móta stefnu og vinnulag, og um leið að komast í nánari tengsl við þá, augliti til auglitis. Það segir sig eiginlega sjálft að samskipti af þessu tagi eru eðlilegri og hollari en endalausir tölvupóstar eða kjaftamiðlaglósur. Fulltrúafundirnir, þó þeir séu góðir fyrir sinn hatt, takmarkast við fáa útvalda, formenn félagsdeilda, og trúnaðarmenn þegar vel er í lagt.

Og fundir af þessu tagi eru auðvitað bráðnauðsynlegir fyrir hinn almenna félagsmann sem þar fær tækifæri til að ávarpa forystuna og félaga sín beint og milliliðalaust um sín hjartans mál.

En gildi opinna félagsfunda takmarkast ekki við það sem hér hefur verið nefnt. Það skiptir ekki síður máli að þeir eru góð æfing í og, þegar vel tekst til, mikilvægur hluti af raunverulegu lýðræði.

Í janúar 2013 var haldinn almennur félagsfundur í FF að kröfu grasrótar félagsmanna, eftir undirskriftasöfnun í skólunum. Tilefnið þá var tvíþætt, annars vegar höfðu félagsmenn þá nýverið fellt samkomulag um vinnumat og hins vegar var „Vísindasjóðsmálið“ í hámæli (sjá um fjöllun um það hér) og forysta FF lá undir ámæli fyrir skammarlega framgöngu í því. Ekki er mér kunnugt um fleiri slíka fundi.

Fundurinn í gær stóð fyrir sínu að því leyti að félagsmenn gátu þar tjáð sig. Ágæt mæting var í MH og þónokkrir höfðu látið setja sig á mælendaskrá fyrirfram. Auk þess gat hver og einn fundarmanna beðið um orðið og ávarpað fundinn. Þó ræðumönnum væru sett tímamörk voru fundarstjórar hæfilega sveigjanlegir á klukkunni; allir héldu sig svo sem líka við hóflegar framsögur. Reyndar vakti athygli að til að stjórna fundinum höfðu tryggilega verið valdir fundarstjórar með réttar skoðanir. Skipun ritara virtist ætlað að vega á móti þeim halla en þegar fundarritari tók til máls og lýsti yfir sinnaskiptum í vinnumatsmálinu var komin trúverðug skýring á vegtyllunni.

Tilefni fundarins var auðvitað vinnumatið alræmda sem fellt var í kosningu í lok febrúar sl. Skoðanaskipti voru eins og við mátti búast. Einhverjir töluðu gegn vinnumatinu en aðrir með. Bæði formaður og varaformaður félagsins héldu sínar hefðbundnu lofræður. Formaðurinn áfram með tugguna um að allir hækki jafnt í launum: „Því þurfa kennarar sem kenna fámennari hópum að taka að sér fleiri verkefni til að [ná] sama tímafjölda og þeir sem kenna fjölmennari hópum. Þannig munu allir framhaldsskólakennarar fá sömu launahækkun“, er haft eftir henni á mbl.is. og virðist engu máli skipta þó bent sé á að hærri greiðslur vegna aukinnar vinnu sé ekki launahækkun.

Sérstaka athygli vakti líka þröng lagahyggja varaformannsins; sett hefðu verið lög um framhaldsskóla árið 2008 og fyrir vikið væru kennarar ofurseldir örlögum sínum. Aðrir bentu á að ekki tíðkaðist á almennum vinnumarkaði að setja lög og reglur er vörðuðu kjör og vinnutíma án þess að semja við verkalýðshreyfinguna um útfærslu þeirra – og það sama hlyti að gilda um samninga hins opinbera.

Það merkasta sem kom fram á fundinum, og samræmist veruleikanum, var ágæt ræða með útlistun á því hvers vegna ríkið leggur ofurkapp á að þröngva þessu vinnumati upp á kennarastéttina: til að spara peninga og ná valdi á vinnutíma þeirra, svo innan skamms verði það í valdi stjórnenda að ákveða hvað kennarar geri, hvernig, hvar og hvenær – og þar með verði útrýmt helstu kostunum við þetta starf, sjálfstæðinu og sveigjanleikanum, sem er mikilvægur grundvöllur starfsánægju, frumkvæðis og sköpunarkrafts. 11,3% launahækkun er aum greiðsla fyrir slíkt grundvallarafsal.

Formaður skólameistarafélagsins segir á ruv.is að stytting náms í framhaldsskólunum „muni örugglega spara umtalsverða fjármuni“, eins og allir geta svo sem sagt sér sjálfir. Nýtt vinnumat fyrir kennara er í beinu sparnaðarsamhengi við styttinguna. Allt snýst þetta um sparnað.

Þrátt fyrir ágæta frammistöðu fundarstjórnenda í tímavörslu kolféllu þeir á prófinu þegar kom að einhverju sem máli skipti. Þegar einn fundarmanna las upp fyrir fundinn tillögu að ályktun fundarins og afhenti hana svo fundarstjóra til meðferðar, ákvað fundarstjóri að leggja ályktunina ekki fram, heldur vísa henni frá fundinum og til stjórnar. Rökstuddi hann gerræði sitt eitthvað á þá leið að þessi fundur væri ekki nein sérstök stofnun innan félagsins, hefði enga formlega stöðu og væri ekki ályktunarhæfur. Allt þetta er út í hött. Í fyrsta lagi geta allir fundir samþykkt ályktanir ef fundarmenn samþykkja að gera það. Í öðru lagi hefur þessi fundur lögformlega stöðu í lögum félagsins. Í þriðja lagi var löglega til hans boðað og því gat hann samþykkt hvaða ályktun sem var, með fullri heimild og gildi. Þessi uppákoma setti svartan blett á framkvæmdina.

Og burtséð frá lögformlegu gildi hefði stjórn og samninganefnd auðvitað átt að fagna því að fá ályktun frá fundinum. En nú skyldi knébeygja alla mögulega gagnrýni og eftir situr meirihluti félagsmanna með óbragð í munni. Sú tilfinning að forysta FF og samninganefnd ætli að keyra þetta vinnumat í gegn með öllum ráðum styrktist. Með vali á fundarstjórum átti að tryggja að forysta félagsins þyrfti ekki að rogast heim af þessum fundi með „óþægilegar samþykktir“ á herðum sér. Ályktunartillöguna getur stjórn nú meðhöndlað sem hverja aðra sérvisku eins fundarmanns. Þessi vinnubrögð voru óþörf og til þess eins fallin að grafa enn frekar undan trausti. Samt var ekki betur að heyra en ályktunartillagan væri með öllu skaðlaus og raunar hin þarfasta; brýning til samninganefndar að láta ekki plata sig til að semja um einhverja vitleysu.

Stundum er talað um kúgun minnihlutans. Það er ekki til eftirbreytni. Í samningamálum FF er orðið til eitthvað sem mætti kalla hinn kúgaða meirihluta. „Við hlustum á alla“ segir formaðurinn, en hlustar ekki á neitt nema það sem hún vill heyra. Það er búið að ákveða að það skuli samið við ríkið um nýtt vinnumat, burtséð frá því hvað félagsmenn vilja.

Enda voru sett ný lög um framhaldsskóla árið 2008. Þá þarf ekki frekari vitna við. Kennarastéttin sér sæng sína útbreidda.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *