Skóli án aðgreiningar?

„Fjórðungur íslenskra gurnnskólakennara hefur ekki trú á hugmyndafræði skóla án aðgreiningar, en aðeins 42 prósent eru jákvæð gagnvart henni samkvæmt nýrri könnun meðal kennara. Þá telja 77 prósent kennara að álag í kennslu hafi aukist mjög mikið á undanförnum fimm árum.“ Könnunin sem vísað er í var á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara. Þetta kemur fram í frétt á  visir.is laugardaginn 1. september sl.

Varla þarf að taka fram að laun kennara hafa ekki hækkað í samræmi við aukið álag.

„Skóli án aðgreiningar“ er sú stefna kölluð að öll börn í hverjum árgangi skólahverfis, hvort sem þau eru með svokallaðar „sérþarfir“ eða ekki, sæki sama skóla og sitji saman í bekk. „Hugmyndafræðin um skóla án aðgreiningar er í raun ávöxtur kenninga um félagslegt réttlæti. Og á að búa einstaklinga með sérþarfir betur undir frekari menntun og þátttöku í samfélaginu, fremur en þeir séu eingöngu að umgangast aðra sem glíma við sömu vandamál“, segir í fréttinni.

En er það furða að kennarar hafi ekki meiri trú á þessu en raun ber vitni? Og hvernig stendur á því?

Raunveruleikinn sem blasir daglega við kennurum, þrátt fyrir fallega hugmyndafræði af ýmsum toga, er að nemendum er hrúgað allt of mörgum inn í bekkina. Er ekki skóli án aðgreiningar óraunhæfur, bara útópía, meðan boðið er upp á þessar aðstæður?

Grunnskólakennari sem horfir framan í fjölmennan bekkinn sinn og á að mæta hverjum og einum nemanda á hans grunni og taka tillit til þarfa hans, langana og áhuga – einstaklingsmiðað nám fyrir fluglæsa og torlæsa, ofvirka og ofurfeimna, fullfríska og fatlaða, fljótfæra og seinfæra, og allt þar á milli, honum ættu í raun að fallast hendur.

Hafa verður líka í huga að almennir grunnskólakennarar eru ekki sérfræðingar í meðhöndlun á sérhverri „greiningu“, þó þeir viti reyndar og geti ótrúlegustu hluti.

Sennilega styttist í að grunnskólakerfið fari að þróast eins og framhaldsskólakerfið, þar sem opinbera stefnan er „Framhaldsskóli fyrir alla“, en aðgreiningin er illa dulin með þeim hætti að hluti skólanna tekur bara inn nemendur með úrvals námsárangur á meðan aðrir skólar sinna skyldum sínum og taka við öllum nemendum. Í litróf hinna síðarnefndu vantar þó stóran hluta af hverjum árgangi – nefnilega marga af þeim nemendum sem reynist auðvelt að læra og hafa áhuga á því.

Hvenær eigum við von á „elítuskólum“ á grunnskólastigi?

Íslenskir kennarar lyfta grettistaki á hverjum degi, við erfiðar aðstæður. En engan skal undra að þeir hafi ekki tröllatrú á „skóla án aðgreiningar“ við þær aðstæður sem þeir þurfa að sætta sig við. Þeir eru væntanlega búnir að glata trúnni á að aðstæðunum verði breytt, t.d. að fækkað verði í bekkjum og ráðnir fleiri menntaðir sérfræðingar til að aðstoða nemendur með sérþarfir og ótöluáfestandi fjölda mismunandi greininga.

Nú er mikilvægur þáttur enn undanskilinn, sá mikilvægasti af þeim öllum: Nemendurnir eiga rétt, já heimtingu, á því að fá þjónustu við hæfi, hvort sem þeir hafa verið greindir með sérþarfir eður ei.

Við núverandi aðstæður er það einfaldlega útilokað. Spurningin er hvort nemendur, foreldrar, kennarar og skólamálayfirvöld sætta sig bara við það?

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *