Er menntun besta betrunin

Undanfarið hefur töluvert verið fjallað um fangelsismál í fjölmiðlum. Þátturinn Kveikur á RÚV 30. janúar sl. var lagður undir málefnið undir fyrirsögninni „Fangar í óboðlegum aðstæðum“, í mörgum þáttum á Samstöðinni og í Heimildinni hefur verið fjallað um stöðu og aðbúnað fanga, og svört skýrsla ríkisendurskoðunar um Fangelsismálastofnun var til umfjöllunar í flestum fjölmiðlum skömmu fyrir síðustu áramót.

Síðast en ekki síst hefur bæði Umboðsmaður Alþingis, sem sinnir OPCAT-eftirliti (Optional Protocol to the Convention against Torture) í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna sem fullgiltur var hér á landi árið 2019, og CPT (European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment) skilað reglulega undanfarna áratugi skýrslum með ábendingum til Alþingis og ríkisstjórnar Íslands um óboðlegar aðstæður og nauðsynlegar umbætur í fangelsum landsins.   

Svör yfirvalda við þessum ábendingum eru í grófum dráttum þau sömu ár eftir ár: almenn útlistun á þeirri vinnu sem er í gangi og þeim umbótum sem til standi að innleiða, í samræmi við væntanlegar skýrslur og niðurstöður vinnuhópa. Árum saman komast yfirvöld upp með það að segjast ætla að bregðast við og gera eitt og annað, án þess að brugðist sé snöfurlega við og tekið til hendinni- og allt er því enn við það sama. 

Meginþunginn í fjölmiðlaumfjölluninni undanfarið er á ytri aðstöðu og aðbúnað, en einnig sálgæslu og meðferðarúrræði. Hins vegar hallar nokkuð á menntun og skólahald í umræðunni, sem þó er ítrekað sögð „besta betrunin“.

Þar sem málið er okkur skylt, og hefur á okkur brunnið um langan tíma, finnst okkur undirrituðum tilefni hafa gefist til að leggja orð í belg og lýsa okkar viðhorfum í þessum umfangsmikla og flókna málaflokki sem fangelsismálin eru, og undirstrika mikilvægi menntunar í þeirri betrunarstefnu sem flestir vonandi stefna að. 

Frá 2007 hafa ráðuneyti mennta-, dóms- og félagsmála sett á laggirnar nokkra vinnuhópa og nefndir um málefni fanga.

    • 2007: Nefnd um stefnumótun í menntunarmálum fanga, skipuð af menntamálaráðherra. Skilaði skýrslu 2007.
    • 2018: Starfshópur um bættar félagslegar aðstæður einstaklinga sem lokið hafa afplánun refsingar í fangelsi, skipaður af ráðuneyti félags- og jafnréttismála- (síðar félags- og barnamála-). Skilaði skýrslu 2019.
    • 2019: Stýrihópur um málefni fanga, skipaður af félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra. Skilaði skýrslu 2021.
    • 2020: Starfshópur um menntun fanga og fangavarða, skipaður af mennta- og menningarmálaráðuneyti (síðar mennta og barnamálaráðuneyti). Áætlun um skýrslu á vormánuðum 2020.  Áætlun um  skýrslu á haustmánuðum 2021. Enn engin skýrsla tilbúin.
    • 2022: Verkefnahópur sérfræðinga í mennta- og barnamálaráðuneytinu. Engin gögn finnanleg um þennan hóp eða vinnu hans, nema að fram kemur í svari MMR til Umboðsmanns Alþingis vegna OPCAT heimsóknar á Kvíabryggju árið 2022 að hann sé að störfum. 

Nefnd um stefnumótun í menntunarmálum fanga 2007

Nefnd menntamálaráðherra frá 2007 um stefnumótun í menntunarmálum fanga var fjögurra manna nefnd undir stjórn Ásgerðar Ólafsdóttur sérfræðings í ráðuneytinu. Það sem stingur í stúf við þessa nefnd, í samanburði við hinar, er að í henni sat þáverandi skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem hefur rekið skóla í fangelsunum frá stofnun hans árið 1981, og þar er því til innan veggja gríðarlega mikil þekking og reynsla fólks sem starfað hefur árum saman „á gólfinu“, með skjólstæðingum sínum í kennslustofum og viðtalsherbergjum fangelsanna, og veit því sínu viti um það hvar skórinn kreppir, hver þörfin er og væntingarnar –  hvaða lausnir eru líklegar til árangurs og hverjar síður eða ekki.

„Ásgerðarnefndin“ skilaði sinni skýrslu í desember 2007. Skemmst er frá því að segja að allar tillögur hennar standast fullkomlega tímans tönn, og segja má að ekkert umfram það sem fram kemur í þessari skýrslu sé að finna í  tillögum annarra nefnda og starfshópa sem síðar hafa skilað einhverju frá sér um menntamál í fangelsum. Helsta niðurstaða nefndarinnar er að nám „gegni lykilhlutverki í endurhæfingu fanga“ enda sýni margar rannsóknir „fram á að menntun í fangelsi hefur fyrirbyggjandi áhrif“. Þess vegna skuli hvetja fanga til að nýta tímann til náms, og þeim standi til boða:

  • kynning á námsmöguleikum
  • mat á fyrra námi
  • mat á raunfærni
  • áhugasviðsgreining
  • aðstoð við gerð námsáætlunar
  • aðstoð við að skipuleggja frekara nám

Sjálfsagt er að geta þess að allt þetta hefur verið innleitt og stendur föngum  til boða í skólanum sem Fjölbrautaskóli Suðurlands rekur í fangelsunum, enda hefur hann á sínum snærum bæði náms- og starfsráðgjafa í 100% stöðugildi og kennslustjóra í 50% stöðugildi. Nokkrir nemendur hafa m.a. lokið raunfærnimati með aðstoð námsráðgjafa, með glæsilegum árangri, og gengið út að lokinni afplánun nánast fullnuma í sinni iðn og með starfsréttindi upp á vasann.   

Annað sem nefndin leggur áherslu á er „að vinna gegn brottfalli, m.a. með öflugri sérkennslu og einstaklingsmiðaðri ráðgjöf.“

Um þetta er það að segja í fyrsta lagi að allt skólastarfið í fangelsunum er einstaklingsmiðað og ráðgjafar aðgengilegir nánast daglega. Í öðru lagi að haustið 2016 tók sérkennari til starfa í skólanum á Litla-Hrauni og starfaði þar einu sinni í viku til vors. Næsta skólaár á eftir, 2017-18, bætti hann fangelsunum á Sogni og Hólmsheiði við og þessi þjónusta stóð til vors 2020. Þá fór viðkomandi á eftirlaun og hlé varð á sérkennslunni um haustið, en á vorönn 2021 varð svanasöngur sérkennslunnar, vonandi þó bara í bili. 

Þriðja áhersluatriði nefndarinnar var að stuðla að „fjölbreyttari námsmöguleikum í fangelsum, m.a. með námskeiðum“.

Á starfstíma núverandi kennslustjóra, frá 1. janúar 2015, sem þessi umfjöllun tekur til, hefur hann, í samstarfi við náms- og starfsráðgjafa, unnið bæði leynt og ljóst að því að auka námsframboð í fangelsunum. Því miður með misjöfnum árangri, því fjárveitingar munu standa ekki undir kostnaði við rekstur skólans. Allt frá upphafi vega hefur verið boðið upp á staðkennslu í „grunngreinum“, þ.e. íslensku, ensku og stærðfræði, einnig áfanga í íþróttum. Lengi líka í dönsku en hún var skorin niður fyrir u.þ.b. áratug. Málmiðngreinakennari kenndi tvo mismunandi áfanga vikulega, hvorn sinn daginn, allt frá upphafi og til vors 2020 þegar sú kennsla var skorin niður. Í staðinn var boðið upp á kennslu í trésmíði einu sinni í viku frá hausti 2021 til áramóta 2023 þegar sú kennsla var skorin. Til viðbótar hefur verið boðið upp á staðkennslu í myndlist og upplýsingatækni/tölvufærni nokkrar annir, frá hausti 2019 til vors 2022 en ekki síðan. Kennari í bíliðngreinum, skv. námskrá Borgarholtsskóla, kom í fjögur ár einu sinni í viku á Litla-Hraun, frá hausti 2015 til vors 2019 og rafiðnakennari staðkenndi bóklega rafmagnsfræði eina önn. Upp á ýmsu hefur því verið reynt að brydda, þó húsnæðisaðstæður hamli vissulega á mörgum sviðum. Ekkert verknám hefur verið í boði annars staðar en á Litla-Hrauni, vegna algers aðstöðuleysis.

Til viðbótar við þetta hafa námsráðgjafarnir verið ódeigir við að búa til styttri námskeið, sem hafa líka verið samþykkt sem einingabærir áfangar í framhaldsskólakerfinu. Þetta eru námskeið m.a. um áhugasviðsgreiningu, námstækni, markmiðasetningu og sjálfstyrkingu, ákaflega gagnleg og vönduð námskeið. 

Auk staðkennslunnar hefur stöðugt verið klappaður sá steinn að ávallt sé í boði sem fjölbreyttast fjarnám, sérstaklega með tilliti til nemenda sem eru komnir það vel á veg í námi að byrjunaráfangar í grunngreinum svara ekki þörfinni, en einnig til að koma til móts við óskir og áhuga einstakra nemenda. Ekki er óalgengt að 8-10 kennarar við FSu. bjóði nemendum í fangeslunum upp á fjarnám í aðskiljanlegustu námsgreinum, auk þess sem það er regla fremur en undantekning að nemendur stundi fjarnám við aðra skóla, svo sem Fjölbrautaskólann við Ármúla og Tækniskólann, að ekki sé talað um háskólana.

Við upphaf yfirstandandi annar, vorannar 2024, var námsframboð í staðkennslu í fangelsunum fátæklegra en það hefur fyrr verið. Ástæðan er fjárskortur, skv. skólameistara FSu., en eins og fyrr var nefnt  standa fjárveitingar ríkisins til skólans vegna kennslu í fangelsunum ekki undir kostnaði við reksturinn, þrátt fyrir ítrekaðar óskir um úrbætur, og því sé ekki hægt að halda úti hefðbundnu lágmarksnámsframboði, hvað þá að auka í. Reynslan er sú að þyngra er fyrir fæti að auka námsframboðið en skera það niður og því veldur það sérstökum áhyggjum þegar nám sem tekist hefur að bæta við er lagt af, að ekki sé talað um þegar gamalgróin kennsla er skorin niður.

Staðan er nú þannig, í fyrsta skipti frá upphafi skólahalds í fangelsum, að ekkert verknám er í boði fyrir fanga. Allir sjá hve ömurlegt það er, enda segir „Ásgerðarnefndin“ skýrum orðum í skýrslu sinni frá 2007, að „bæta þarf aðstöðu til verknáms og starfsfþjálfunar í fangelsum, skapa þarf ný störf […] sem geta nýst til starfsþjálfunar og þannig verið hluti af námi“ og að nýta þurfi „verkstæði í fangelsum s.s. smíðaverkstæði, til starfsþjálfunar“. Við þetta má bæta að lagt var í nokkurn kostnað skólaárið ‘21-’22 til að bæta tækjakost á trésmíðaverkstæðinu á Litla-Hrauni svo aðstæður til kennslu gætu talist uppfylla lágmarkskröfur. Suðuklefar, og annar úr sér genginn búnaður til kennslu í málmi, stendur ónotaður á verkstæðinu. Hvernig má það vera?

Ekki þarf að fara mörgum orðum um þann skaða sem niðurskurður af þessu tagi veldur í skóla þar sem langstærsti hluti nemendanna glímir við hindranir af ýmsu tagi. Burtséð frá fíknisjúkdómum, og félagslegum og andlegum erfiðleikum af ýmsu tagi, þá er hér um að ræða nemendahóp sem í flestum tilvikum hefur neikvæða reynslu af skólakerfinu, hefur ýmist horfið frá á grunnskólaaldri eða eftir skamma viðdvöl í framhaldsskólum. Athyglisbrestur, ofvirkni, dyslexia o.s.frv. er regla fremur en undantekning, ásamt lélegu sjálfsmati. Því er það með öllu óviðunandi að yfirvöld komist upp með það að leggja ekki fram sérmerkt fjármagn til að skilgreina fast starfshlutfall sérkennara – og að ekki sé hægt að bjóða upp á a.m.k. grunnnámskeið í nokkrum iðngreinum, eins og t.d. trésmíði, málm- og rafiðnum, pípulögnum, og fleiri iðnir mætti nefna. Það er gott og blessað framtak ráðherranna að fjármagna stóra starfshópa sérfræðinga til að móta á ný stefnu sem þegar liggur fyrir í 17 ára gamalli skýrslu. En einfaldara, og ódýrara, gæti verið að fjármagna almennilega þá starfsemi sem þegar er til staðar og byggir á gömlum og traustum grunni.

Skóladeild FSu. í fangelsum er þannig skipulögð að fullt tillit er tekið til aðstæðna hvers nemanda. Engum er hafnað og engum er vísað frá þó mæting detti niður tímabundið, heldur eru nemendur hvattir til að koma aftur þegar þeim líður betur. Enginn þarf að byrja aftur á námsefni frá ráslínu, þó hlé verði á ástundun og einingar skili sér af þeim sökum ekki við annaskil, heldur býðst öllum einfaldlega að halda áfram þar sem frá var horfið. Nemendurnir þurfa síst af öllu á því að halda að fá enn eina staðfestinguna á því að þeim hafi mistekist og allt sé farið í súginn, heldur að öllu sem gert var sé skilmerkilega haldið til haga og bíði þess að byggt verði ofan á það, fet fyrir fet eða skref fyrir skref, allt eftir því hvernig stendur í bólið hjá hverjum og einum, þá og þá stundina. Kennarar og starfsfólk skóladeildarinnar hafa langa reynslu af þessu verklagi, fullan skilning og vilja til að veita þann stuðning og sveigjanleika sem nauðsynlegur er. Stundum er talað fjálglega um einstaklingsmiðað nám. Ef til er einstaklingsmiðað skólastarf, nám og  kennsla, þá er það að finna í skóladeild FSu. í fangelsum. 

Í skýrslu „Ásgerðarnefndarinnar“ frá 2007 er lagt til að Fjölbrautaskóli Suðurlands verði áfram „móðurskóli“ og gegni „lykilhlutverki í menntun fanga“ og verði einnig falið það hlutverk að sjá til þess að föngum almennt standi til boða að stunda nám“. Skólanum verði tryggðir möguleikar á að efla þá kennslu sem fyrir er og bjóða upp á fjölbreyttari námsúrræði og hann hafi forystu um að koma á nauðsynlegum tengslum við aðrar menntastofnanir, t.d. varðandi fjar- og dreifnám, enda telur nefndin að erfitt sé að stunda nám í dag nema hafa aðgang að Netinu“.

Sérstaka áherslu leggur nefndin á koma til móts við þarfir nemenda „með stutt nám að baki“, þ.e.a.s. nánast allan hópinn ef að er gáð, með öflugri náms- og starfsráðgjöf og sérkennslu. 

Að lokum beinir nefndin sjónum að föngum af erlendum uppruna og þjónustu við þá, með íslenskukennslu, aðgengi að bókum á móðurmáli sínu og hugsanlegu fjarnámi í heimalandinu.

Það er augljóst mál að skýrsla nefndarinnar frá 2007 stenst fyllilega tímans tönn. Hægt væri að taka tillögur hennar eins og þær leggja sig og smíða úr þeim framtíðarstefnu um menntun fanga og skólahald í fangelsum. Þá er rétt að undirstrika það að skóli FSu. í fangelsunum starfar að öllu leyti í anda þeirra tillagna sem settar eru fram þar. Það er ekki endilega þörf á fleiri nefndum og starfshópum til að smíða nýtt kerfi utan um menntun fanga. Allir „innviðir“ eru til staðar, skipulag, utanumhald, kennarar og starfsfólk með áralanga reynslu og þekkingu á málaflokknum – allt nema nægt fjármagn. 

„Tollahóparnir“

Bæði starfshópur frá 2018 og stýrihópur frá 2019, um 20 manns samtals, störfuðu undir forystu Þorláks Morthens myndlistarmanns á vegum félags- jafnréttis- og barnamálaráðuneytis og dómsmálaráðuneytis. „Tollahóparnir“ beindu sjónum sínum að mun víðara sviði en bara menntun og skólahaldi, s.s. aðstöðu og húsnæði, geðheilbrigði, félagslegum stuðningi, virkni og ráðgjöf, atvinnu og hæfingu, og að lokum framfærslu og félagslegum stuðningi að lokinni afplánun. Skýrsla stýrihópsins, sem ætlað var að vinna úr tillögum starfshópsins, kom út 2021, er ítarleg og vel unnin, og þó „besta betrunarúrræðið“ sé ekki í forgrunni, eru þar margar góðar tillögur um mjög mikilvæg mál. Auk þess fylgja henni útreikningar á samfélagslegum ávinningi af því að lækka endurkomutíðni í fangelsi, áætlaður kostnaður vegna afbrota, áætluð fjárþörf við betrunarstefnu, mat á endurkomutíðni og mat á arðsemi tillagnanna til næstu 15 ára. 

Allir vinnuhóparnir sem settir hafa verið á laggirnar frá 2018 eru að stórum hluta skipaðir sömu sérfræðingunum úr ráðuneytunum. Í engan þeirra var óskað eftir tilnefningu frá FSu, öfugt við nefndina frá 2007. Í sumum tilvikum var haft samband og leitað álits, og skólameistari, kennslustjóri og náms- og starfsráðgjafi mættu á einn fund í menntamálaráðuneytinu. Auk þess hefur starfsfólk skóladeildarinnar, að eigin frumkvæði, óskað eftir og fengið fundi með ráðherrum og ráðuneytisfólki, skrifað margt bréfið og sent frá sér tillögur, mest 2016-2018, fyrir skipun „Tollahóspins“ 2018.

Í 2. kafla skýrslu Tollahópsins frá 2021 er stutt efnisgrein um menntun og í kjölfarið settar fram tillögur um námsráðgjöf, aukna áherslu á sérkennslu, að boðið verði upp á fullorðinsfræðslu með áherslu á íslensku, lestur, stærðfræði, ensku, tölvufærni og íslenskukennslu fyrir erlenda ríkisborgara. Einnig er lagt til að „boðið verði upp á t.d. þriggja til sex mánaða námskeið, þar sem fangar fá skriflegan vitnisburð um að hafa lokið námskeiði í verkmenntun, til dæmis í málaraiðn, trésmíði, bílaréttingum, rafvirkjun, bakstri, járnsmíði o.s.frv.“ til þess að fangar standi „betur að vígi í atvinnuleit á almennum vinnumarkaði.“

Allt er þetta gott og blessað í sjálfu sér, en ekki er samt hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að  

forystuhlutverk „móðurskólans“ við menntun fanga sé sniðgengið. Í fyrsta lagi, eins og fram hefur komið, var ekki óskað eftir þátttöku skólans, í öðru lagi eru tillögurnar um menntamál þess eðlis að ekki verður séð að hópurinn telji ástæðu til þess að föngum standi til boða í framtíðinni formlegt, einingabært nám til starfsréttinda, nám sem er marktækt í almenna skólakerfinu og nýtist eftir afplánun í öllum framhaldsskólum til að ljúka réttindanámi í iðngrein eða bóknámi til stúdentsprófs, og þaðan til náms við háskóla eða meistararéttinda í iðn, svo dæmi séu tekin. 

Þess í stað er lagt til að bjóða föngum upp á þriggja til sex mánaða námskeið með „bréfi upp á það“, svo vitnað sé í Íslandsklukkuna. Það má vera að einhver tæki mark á slíku bréfi, en fyrir því er engin trygging og nemandinn gæti sem best staðið uppi með þá tilfinningu að pappírinn væri helst nýtilegur til annarra, óþrifalegri verka. Alla vega myndu skólar ekki taka mark á slíku, þó einhverjir vinnuveitendur gætu gert það. 

Í þessu ljósi er vert að benda á það að venjuleg námskeið í framhaldsskólum eru einmitt innan þessa tímaramma. Hver önn er því upplagður rammi fyrir mislöng námskeið, með mögulegu framhaldi á næstu, eða þarnæstu önn á eftir. Hvert námskeið sem fangar hafa lokið í skóladeild FSu. er auk þess fullgilt, hver áunnin eining er eign nemandans, sem hann getur framvísað í hvaða skóla sem er, hjá hvaða vinnuveitanda sem er og þarf aldrei að efast um verðgildið. 

Dæmi eru einmitt um það að nemendur sem hafa byrjað í námi í fangelsunum, lokið slatta af námskeiðum og einingum, hafa drifið sig í skóla eftir afplánun og lokið þar þeim einingum sem upp á vantaði til sveinsprófs í iðn eða stúdentsprófs. Miklu minni líkur væru á slíkum, ánægjulegum  framgangi ef viðkomandi hefðu ekki haft grunn til að standa á, engan einingastabba til að byggja ofan á, heldur þurft að byrja allslausir í námi, fullorðnir menn með 15 ára krökkum í framhaldsskóla, en hugsanlega með gagnslítið bréf upp á vasann.

Við fullyrðum það með stolti að sveigjanleikinn, hið einstaklingsmiðaða „kerfi“, sem skóladeild FSu. í fangelsunum beitir, er besta lausnin. Skiptir þá engu máli hvort fangar stefna á frekara nám eða vilja nýta það sem í boði er til afþreyingar og betrunar meðan þeir sitja inni. Það eina sem þarf að gera er að tryggja er fjármagn til að hægt sé að bjóða upp meiri fjölbreytni og að stöðugleiki ríki önn frá önn, ár eftir ár, hvað námsframboð varðar, og að ekki vofi sífellt yfir að á næstu önn verði þetta eða hitt námskeiðið skorið niður vegna sparnaðar í skólakerfinu og naumt skorinna fjárveitinga til framhaldsskólanna.

Einhver „styttri fullorðinsfræðsluámskeið“ munu varla kosta minni peninga en það nám sem hægt er að bjóða upp á í gegn um „móðurskólann“. Hver á að sjá um þau? Slíkt framboð gæti aldrei orðið jafn stöðugt. Það er ekki fyrir hvern sem er að fara inn í fangelsi til að kenna. Það er gríðarlega mikilvægt að traust sé óbilað, ekki síst til sérkennara og námsráðgjafa. Farsælast í öllu tilliti er að stöðugleiki ríki, starfsfólkið geti fylgt nemendum sínum eftir þegar þeir eru fluttir milli úrræða og tekið við þeim aftur eins og ekkert hafi í skorist ef þeir koma til baka.

Lokaorð

Það liggur fyrir að gera þarf stórátak í fangelsismálum. Eins og oft og víða hefur komið fram eru aðstæður að mörgu leyti slæmar. „Tollahóparnir“ setja fram góðar tillögur um úrbætur á mörgum sviðum. Þó er þar lítil áhersla á menntun sem betrunarúrræði, en bent á fullorðinsfræðslunámskeið. Menntuninni er áfram best fyrir komið í þeim farvegi sem hún hefur lengi verið. Allir innviðir, þekking og reynsla til staðar til að gera vel. Það eina sem skortir er fjármagn. 

Allt betrunarstarf þarf að skoða í samhengi. Til að skólinn og hvers kyns námsframboð nýtist sem best þarf stórátak í forvörnum, fíknimeðferð, geðrænum og félagslegum stuðningi o.s.frv. Þó góður hópur stundi skóla og einhverjir nái sér vel á strik, skili jafnvel afburðaárangri í námi, þá eru hinir of margir sem ekki gera það, komast ekki út úr vítahring fíknar, ekki fram úr á morgnana, treysta sér ekki í skóla eða aðra virkni, eru haldnir kvíða og þunglyndi, sjá engan tilgang með neinu, jafnvel lífinu. Þessir einstaklingar þurfa á hjálp heilbrigðiskerfisins að halda, til þess að raunhæft sé fyrir þá að stunda nám eða vinnu. Þess vegna eru stöðugleikinn, sveigjanleikinn og einstaklingsþjónustan sem FSu. hefur þróað í gegn um árin algert grundvallaratriði.

Sem fyrst teljum við mikilvægt að taka upp samning menntamálaráðuneytisins við FSu. um skólahald í fangelsunum og tryggja þannig mikilvæga stöðu menntunar í nýrri betrunarstefnu. Auka þarf fjárveitingar til verkefnisins umtalsvert. Tryggja þarf ákveðið lágmarksframboð af námskeiðum, og að grunnnám í iðngreinum sé ávallt þar á meðal. Tryggja þarf viðunandi aðstöðu til kennslunnar. Fangelsismálayfirvöld og skólayfirvöld þurfa að tala betur saman og hafa virkt eftirlit á báða bóga, þannig að allt í senn fjármagn, aðstaða og námsframboð standist kröfur nútímans um árangursríka betrun í fangelsum landsins.

Gylfi Þorkelsson,

kennari FSu. í fangelsum frá 1994,

kennslustjóri FSu. í fangelsum frá 2015

 

Klara Guðbrandsdóttir,

náms- og starfsráðgjafi FSu. í fangelsum frá 2018.

Fylgiskjöl:

Samantekt úr skýrslum kennslustjóra 

„Um stefnumótun í menntunarmálum fanga 2015-2023“

– Gylfi Þorkelsson, kennslustjóri, jan. 2024

„Þegar á heildina er litið hefur skólastarf í fangelsunum á Litla-Hrauni og Sogni gengið vel. Það helgast fyrst og fremst af framúrskarandi starfsfólki, áhugasömum kennurum, mörgum með langa reynslu. […] Það eru spennandi tímar framundan, með nýrri sókn og stefnumótun í málaflokknum og ef allir leggjast á eitt er hægt að lyfta grettistaki.“

„Kennslustjóri í fangelsum og náms- og starfsráðgjafi lögðu töluvert mikla vinnu á skólaárinu í undirbúning stefnumótunar til framtíðar fyrir skólastarf og námsframboð í fangelsum, ekki síst með tilliti til væntanlegs nýs fangelsis á Hólmsheiði, og lögðu fram drög að stefnumótunaráætlun. Undirbúningurinn fólst m.a. í fundahöldum með skólameistara FSu, nýjum forstöðumanni á Litlahrauni og Sogni, fangelsismálastjóra í Fangelsismálastofnun, fangelsið á Hólmsheiði var skoðað í fylgd Guðmundar Gíslasonar, forstöðumanns hjá Fangelsismálastofnun, og föstudagssíðdegi var nýtt til að sitja ráðstefnu í Norræna húsinu um „norsku leiðina“ í menntunarmálum fanga, þar sem aðalræðumaður var fyrrum innanríkisráðherra Noregs. Einnig var fundað með verknámskennurum FSu undir vor til að skerpa á samstarfi og undirbúa aukið námsframboð af verk- og iðnbrautum.“ 

Úr lokaorðum sömu skýrslu

„Vinna að undirbúningi stefnumótunar um skólahald, nám og kennslu fanga, sem hófst á síðasta skólaári, hélt áfram af fullum krafti. Eftir fundi kennslustjóra og starfs- og námsráðgjafa með skólameistara FSu, forstöðumanni Fangelsisins á Litlahrauni og Sogni og með starfsmanni og forstjóra Fangelsismálastofnunar tók kennslustjóri saman drög að stefnumótun í málaflokknum. Stefnumótunardrögin voru í framhaldinu send bæði ráðuneyti menntamála og Innanríkisráðuneytinu með óskum um stofnun starfshóps um mótun framtíðarstefnu, með tilliti til breytinga á lögum og opnunar nýs fangelsis á Hólmsheiði. Ekki hefur erindinu verið svarað, eða starfshópurinn stofnaður, en vonandi líður að því fljótlega, því málið er brýnt.“

Mikil gerjun var í menntunar- og skólamálum í fangelsum á skólaárinu. Fjölmargir fundir voru haldnir og ráðstefnur sóttar vítt um heim. Þróunarvinna um námsefnisgerð er komin í burðarliðinn; hugmyndir hafa verið mótaðar og sótt hefur verið um styrki í verkefnið. Þó þeir hafi ekki enn fengist hefur veturinn verið nýttur til að þróa hugmyndina og móta verkefnið, sem er bæði spennandi og mjög hagnýtt. Það er skýrt markmið að byggja upp námsefnisgrunn sem þjónað geti öllum nemendum í fangelsum jafnt, sama hvar þeir eru vistaðir hverju sinni. 

Að sama skapi er komin góð hreyfing á eflingu verknáms á Litlahrauni, iðngreinakennarar FSu hafa greint þarfir og gert grófa kostnaðaráætlun um þau tæki, tól og aðstöðu sem upp á skortir til að hægt sé að bjóða upp á grunnnám bygginga- og mannvrikjagreina og verklega grunnáfanga í tré-, raf- og málmiðnum. 

Líkur eru á að undir lok árs verði kominn á meiri stöðugleiki í vistunarmálum innan fangelsanna sem mun í framhaldinu skapa meiri frið um nám og kennslu, föngum til heilla. Nemendafjöldi og námsárangur getur, vegna utanaðkomandi, óviðráðanlegra aðstæðna, sveiflast eitthvað til milli anna og skólaára, en meginmálið er að þeir sem á málum halda tapi ekki sýn á hina stóru mynd. Þar gildir hið fornkveðna að „veldur hver á heldur“.

Úr sömu skýrslu (bls. 7-8)

Kennslustjóri og náms- og starfsráðgjafi funduðu með skólameistara FSu þann 20. janúar um framþróun náms og kennslu í fangelsum. Í framhaldinu voru sendar umsóknir í bæði Sprotasjóð og Þróunarsjóð námsgagna um styrk til að þróa og útbúa námsefni á rafrænu formi, sem nýtast myndi til fjarkennslu í öllum fangelsum og væri til í námsefnisbanka til stöðugrar notkunar. 

Í lok annar var komið í ljós að ekki fengjust styrkir úr þessum sjóðum að svo stöddu. Umsóknir um styrki til verkefnisins voru einnig sendar til ýmissa fyrirtækja í samfélaginu en ekki hafa borist svör þegar þetta er ritað. 

Kennslustjóri, náms- og starfsráðgjafi og skólameistari FSu sóttu hina árlegu BETT ráðstefnu og kennslubúnaðarsýningu í London 26. – 29. janúar. Megintilgangurinn var að leita að og kynna sér tæknibúnað sem hentað gæti til fjarkennslu í fangelsunum og annað það sem rekið gæti á fjörurnar og nýttist skólahaldi í fangelsum. Ýmsar hugmyndir vöknuðu við göngu um rangala sýningarinnar, sem féllu að þeim hugmyndum um rafrænt námsefni sem undirbúningur var hafinn að, og nýttist ferðin því vel. 

Kennslustjóri og náms- og starfsráðgjafi funduðu 3. mars á Litlahrauni með forstöðumanni fangelsisins á Litlahrauni og skólameistara FSu um þróun námsframboðs í fangelsinu. Í lok fundar var skoðaður sá húsakostur innan fangelsisins sem nýta mætti betur fyrir verknám. 

Kennslustjóri veitti upplýsingar og átti á önninni í töluverðum samskiptum við þingmennina Ara Trausta Guðmundsson og Bjarkeyju Olsen um stöðu náms og skólahalds í fangelsum. Á grunni fenginna upplýsinga lögðu þingmennirnir fram þingsályktun um málaflokkinn. 

Kennslustjóri og náms- og starfsráðgjafi funduðu í lok apríl með áhugahópi um menntun í fangelsum. Óskað var eftir samræðum og upplýsingum um það hvernig áhugahópur, einskonar „hollvarðasamtök“, gætu best nýtt krafta sína til að gera gagn. 

Þann 12. maí kl. 10:00 var haldinn hefðbundinn skólalokafundur í FSu fyrir fgangelsiskennsludeildina. Fundinn sátu, auk kennslustjóra og náms- og starfsráðgjafa í fangelsum, skólameistari, forstöðumaður Litlahrauns og Sogns, aðalvarðstjóri á Sogni og kennarar deildarinnar. Sama dag kl. 14:00 sátu kennslustóri og náms- og starfsráðgjafi í fangelsum fund um skólahald á Hólmsheiði með forstöðumanni fangelsisins þar, varðstjórum og umsjónarmanni vinnu, verslunar og náms innan fangelsisins. Farið var yfir helstu atriði er varða skólabrag, umgengni í skólastofu, bókakost, kröfur og verklagsreglur sem nauðsynlegt er að séu skýrar. 

Þann 18. maí komu kennarar úr tré-, málm- og rafiðnadeildum FSu í heimsókn á Litlahraun og fóru með forstöðumanni í skoðunarferð um fangelsið til að átta sig á möguleikum til að efla verknám á staðnum, þarfagreina m.t.t. húsnæðis, tækja og aðstöðu, og áttu í lokin fund með kennslustjóra um málið og framhald þess. Niðurstaðan var að viðkomandi kennarar munu senda kennslustjóra skýrslu frá hverri deild um hvaða úrbóta er þörf, hvaða tæki og verkfæri vantar, ásamt kostnaðaráætlun.

Úr inngangi sömu skýrslu

Kennslustjóri í fangelsum og náms- og starfsráðgjafi héldu ótrauð áfram að þróa hugmyndir og verkefni til að bæta skólastarf og námsframboð í fangelsum í góðri samvinnu við starfsfólk og yfirvöld skólans og fangelsanna, og marktækur árangur náðist á skólaárinu. Verkefni um gerð rafræns námsefnis er komið á framkvæmdastig, um leið og fjármagn fæst, og sömuleiðis uppbygging aðstöðu fyrir aukið verknám á Litlahrauni. Þegar á heildina er litið má segja að þrátt fyrir töluverða dýfu hafi skólastarfið verið gjöfult og mikil gerjun er tvímælalaust til staðar í menntunarmálum fanga. 

„Nú eru 40 ár síðan kennsla og skólastarf hófst á Litlahrauni. Þó margt hafi áunnist, nám og kennsla smám saman vaxið að umfangi og fjölbreytni, fangelsum fjölgað og starfið þróast í samræmi við það, þá má fullyrða að menntun fanga og skólastarf í fangeslum er að stórum hluta til ósáinn akur. Ótal möguleikar eru enn vannýttir, en í þessu strandar á opinberri stefnumótun, að yfirvöld mennta- og fangelsismála komi sér saman um framtíðarsýn og skýra stefnu sem taki á skipulagi skólastarfs í öllum fangelsum á Íslandi. […] 

Ekki hefur allt gengið eftir sem vonir stóðu til sl. vor að yrði klappað og klárt. Enn á eftir að blessa yfir og bæta við hráefnum svo hægt verði að hnoða stefnumótunardeigið, koma því í ofninn og á diskana. 

Eftir á að ljúka frágangi nýrra og endurbættra kennslurýma svo hægt sé að auka námsframboð enn meira við betri starfsaðstæður. Ef sýnin og stefnan er ljós verður framkvæmdin ekki þröskuldur, til staðar eru mannauður, verkferlar og tillögur. Vonandi verður ný heildarstefna í málaflokknum kynnt í skýrslu næsta skólaárs.“

Úr sömu skýrslu (bls. 7)

Helstu vonbrigðin í lok skólaársins eru að öll sú vinna, hugmyndir og tillögur sem ræddar hafa verið undanfarin ár, útfærðar ítarlega og lagðar fram á síðasta skólaári, fyrir ráðuneyti menntamála, fangelsis- og skólayfirvöld, hafa strandað, a.m.k. í bili. 

Ekkert bólar á viðbrögðum ráðuneytisins við tillögum um framtíðarskipan menntunar og skólahalds í fangelsum, aukin og bætt verknámsaðstaða á Litlahrauni er ekki komin í gagnið og beðið er eftir endurnýjun tölvuvers. 

Gleðilegt er þó að vilji er til að auka fjölbreytni í námsframboði og er staðkennsla í teikningu og rafmagnsfræði á Litlahrauni á vorönn til vitnis um það. 

Úr sömu skýrslu (bls. 13)

„Um miðjan október 2017 var ráðinn sérkennari í fangelsunum tveimur á Suðurlandi, Litlahrauni og Sogni í u.þ.b. 5 tíma á hvorum stað eða 25% starf. Lagt var upp með að sinna greiningum á námsvanda, ráðgjöf við nemendur og aðstoð í námi. […] Í lok október kom ósk um að bæta fangelsinu á Hólmsheiði við og fóru sérkennari og kennslustjóri saman þangað einu sinni í viku. […] Mikill áhugi hefur verið […] sömu nemendur mætt nær undantekningarlaust í alla tíma og tekið miklum framförum og sumir upplifað í fyrsta sinn að þeir geta tekist á við flókin verkefni […] Fyrir kennara hefur þetta verið gefandi tími, nemendur hafa á margan hátt sýnt að þeir eru ánægðir með þessa þjónustu og því full þörf á að sinna þessum þætti vel eins og annarri kennslu í fangelsum.“

Úr lokaorðum sömu skýrslu

„Staða sérkennara er væntanlega komin til að vera og þjónusta bæði náms- og starfsráðgjafa og sérkennara við nemendur á Hólmsheiði vonandi líka. Allt er þetta jákvætt. Það sem eftir stendur eru þó viss vonbrigði. Margt af því sem talið er upp í lokaorðum skýrslu síðasta skólaárs og sagt vera „á góðri leið“ hefur ekki orðið að veruleika. 

Mikil vinna undirritaðs í langan tíma við stefnumótun; fundir, tillögur, skýrslur, hefur ekki skilað sér eins og vonir hafa staðið til, í skýrri stefnu um skólahald í fangelsum og menntun fanga, í fjölgun stöðugilda og bættum starfsaðstæðum, betri þjónustu við Kvíabryggju, Akureyri og Hólmsheiði, auknu verknámsframboði og umbótum á skólahúsnæði. Nokkur skref hafa þó verið stigin í framfaraátt, eins og rakið hefur verið, og ber að þakka það. 

Stóru myndina á þó enn eftir að ljúka við, og verður ekki gert fyrr en yfirvöld menntamála marka opinbera stefnu í málaflokknum, hvort sem er á grunni þeirra stefnumótunartillagna sem lagðar hafa verið fram eða í kjölfar eigin frumkvæðisvinnu. Ekki væri annað meira viðeigandi en að fagna fjörutíu ára afmæli skólahalds í íslenskum fangelsum með opinberri stefnumótun byggða á skýrri framtíðarsýn um menntun sem besta mögulega betrunarúrræðið.“ 

„Skólastarf í fangelsunum var að mestu hefðbundið. Námsframboðið er svipað ár eftir ár og gengur hægt að auka fjölbreytnina. Þær nýjungar sem boðið hefur verið upp á núna síðustu tvö skólaár, kennsla í teikningu og grunnnámi bifvélavirkjunar, hafa reynst vel og eru vonandi komnar til að vera. Næsta áskorun er að koma á markvissri kennslu í grunnnámi tré- og rafiðna, og þá ekki bóklega hlutanum heldur verklegum áföngum. Tímabært er að margumtalaðri aðstöðu fyrir slíkan „smáiðnað“, verði komið upp, það er ódýrt og einfalt í því húsnæði sem fyrir hendi er á Litla-Hrauni. 

Blessunarlega var fastri stöðu sérkennara komið á koppinn fyrir einu og hálfu ári og hefur sú ráðstöfun sannað sig svo um munar, ekki síst hvað stærðfræði áhrærir, en hræðsla við það fag er einkennandi fyrir nemendahópinn. Enn er þjónusta við fanga á Hólmsheiði að flestu leyti ófullnægjandi og þarf að gera gangskör að umbótum þar; nemendur í brottfallshópi eru ekki líklegir til að fóta sig hjálparlaust í fjarnámi.“

Úr sömu skýrslu (bls. 6-7)

„Enn er við það sama, sem tíundað var í skýrslu síðasta árs, að þjónusta við nemendur á Hólmsheiði takmarkast að mestu við innritun í fjarnám í upphafi annar og þeir sem koma í fangelsið þar, eftir að innritun almennt lýkur, verða af tækifærum til náms. 

Sömuleiðis er enn allt við það sama hvað varðar stefnumótun um framtíðarskipan menntunar og skólahalds í fangelsum. Erindi og tillögur þar um liggja væntanlega einhvers staðar í skúffum. Kennslustjóri og náms- og starfsráðgjafi sóttu dagana 7.-8. maí fund vinnuhóps á vegum norrænu ráðherranefndarinnar í Halmstad í Svíþjóð um mótun heildstæðrar ráðgjafarstefnu í fangelsum Norðurlandanna. Framhald verður á vinnu hópsins í haust og áætlað að ljúka vinnunni fyrir árslok 2020. Það má láta sig dreyma um að niðurstaðan, þegar hún liggur fyrir, ýti á framfarir í málaflokknum.“

Úr lokaorðum sömu skýrslu

„Vissulega eru það vonbrigði að ekki gangi hraðar að bæta ýmsa aðstöðu til skólahaldsins en við getum ekki annað en lifað áfram í voninni og haldið áfram að vekja athygli á því sem til framfara gæti horft.“

„Námsframboðið er svipað ár eftir ár og gengur hægt að auka fjölbreytnina. Miður er að þær nýjungar sem boðið hafði verið upp á síðustu tvö skólaár, kennsla í teikningu og grunnnámi bifvélavirkjunar, féllu niður í vetur. Vonandi er það tímabundið ástand, og að innan ekki of langrar framtíðar verði boðið upp á verklegt nám í tré- og rafiðnum, eins og vonir hafa staðið til um hríð.“

Úr sömu skýrslu (bls. 3)

„Náms- og starfsráðgjafi sótti, ásamt sérkennara, í lok nóvember fund vinnuhóps á vegum norrænu ráðherranefndarinnar um mótun heildstæðrar ráðgjafarstefnu í fangelsum Norðurlandanna. Fundurinn fór að þessu sinni fram í Osló.“

Úr sömu skýrslu (bls. 5)

„Fangar hafa ekki sínar tölvur til að ræða við kennara í „Teams“ eða öðrum forritum inni á klefum. Þeir hafa almennt ekki aðgang að tölvuveri til að stunda fjarnám. Einungis 4 nettengdar tölvur eru í boði á Litla-Hrauni og eru uppteknar meira og minna allan vinnudaginn af nemendum sem stunda fullt fjarnám við aðra skóla. Að lokum skortir þennan nemendahóp í flestum tilvikum þá færni og námstækni sem nauðsynleg er til að stunda fjarnám.“ 

Úr lokaorðum sömu skýrslu

„Ekki er þó svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Dagskólakennarar urðu í hasti að læra á og tileinka sér nýja tækni til að geta sinnt nemendum sínum, frjálsum í samfélaginu, eins og kostur var. Þessi tæknivæðing gefur vonir um að héðan í frá verði mögulegt að auka verulega námsframboð í fangelsum með fjarkennslu til þeirra sem lengra eru komnir í námi og hafa tileinkað sér þá þekkingu og færni sem nauðsynleg er í fjarnámi.“

„Ánægjulegt var að fá á skólaárinu aftur til starfa sérkennara. Engum blöðum er um það að fletta að staða sérkennara er með þeim mikilvægustu í skólanum. Þá ber að fagna því að námsframboð var fjölbreyttara á vorönninni með tilkomu upplýsingatækni- og myndlistarkennslu. Vonandi er þetta fyrsta skrefið í stöðugri sókn skólastarfsins til betri vegar. Enn er þó beðið eftir auknu framboði verklegra áfanga.“

„Sífellt fleiri afplána dóma í samfélagsþjónustu eða opnum úrræðum og af því leiðir að samsetning nemendahópsins í þessari deild skólans hefur breyst. Þessar breyttu aðstæður kalla enn frekar en áður á sérstök úrræði, sérkennslu og verklegt nám. Því var slæmt var að sérkennari fór í námsleyfi og fékkst ekki annar til afleysinga. 

Sveiflur eru í námsframboðinu, myndlistin féll út á vorönn og málmiðngreinarnar voru ekki kenndar á skólaárinu. Í staðinn var kenndur verklegur áfangi á húsasmíðabraut, sem vonandi er kominn til að vera. Það gengur því hægt að auka námsframboðið og er það bagalegt, sérstaklega varðandi verklegra áfanga.“

„Nú eru hafnar umfangsmiklar framkvæmdir á Litlahrauni, sem munu m.a. bæta aðstöðu í skólanum verulega, og jafnframt gefa færi á því auka námsframboð og efla þjónustu við nemendur þar. Skólastarf í fangelsum er lykill að betrun einstaklinganna sem þar dvelja, það er meðferð ekki síður en nám og um það gilda einfaldlega önnur lögmál en í almenna skólakerfinu. Auka þarf fjölbreytni í námsframboði og skólahaldið þarf að einkennast af stöðugleika, þolinmæði og nærgætni.“ 

Úr lokaorðum sömu skýrslu

„Eftir tvö nokkuð erfið ár er skólahaldið í fangelsunum aftur komið á sporið. Nemendafjöldi er í skorðum, námsárangur með ágætum og margar ánægjulegar stundir. Það vekur góðar vonir að framkvæmdir skuli hafnar á Litlahrauni, enda skapa þær tækifæri til að efla skólahaldið á allan hátt með stórbættri aðstöðu, bæði fyrir nemendur og starfsfólk. Jafnframt er rétt að minna á það að nýjar byggingar og bætt ytri aðstaða er engin trygging fyrir góðum skóla. Skóli er ekki hús, heldur innra starf, frjótt samstarf kennara og nemenda. Til að bæta skólann þarf því, jafnframt dýrum byggingaframkvæmdum, að auka námsframboð og fjölbreytni, sem vegur þyngra og ætti í raun réttri að vera framar í forgangsröð en steinsteypa. 

Annað sem þarf að hafa í huga er vaxandi aðstöðumunur nemenda til náms í fangelsunum og mikilvægt að móta stefnu til framtíðar um uppbyggingu í hinum fangelsunum þegar framkvæmdum lýkur á Litlahrauni.“

Blaðagreinar um menntamál fanga:

  • Fréttablaðið, 11. febrúar 2016

Af menntun og skólahaldi í fangelsum – Gylfi Þorkelsson

  • Stundin, 5. apríl 2017 

Er ekkert að gera í fangelsunum? Gylfi Þorkelsson

  • Fréttablaðið, 9. mars 2017

Menntun fanga – Gylfi Þorkelsson og Lóa Hrönn Harðardóttir

  • Grein, maí 2018

Skóli í fangelsum 40 ára – Gylfi Þorkelsson

  • Fréttablaðið, 4. okt. 2018

Fangar fái menntun við hæfi – Viðtal: Gylfi Þorkelsson

  • Aukið námsframboð frá FSu í staðkennslu á LH frá 2015:
  • Málmiðnaáfangar frá upphafi til vors 2020, (2x í viku suða / plötusmíði)
  • Tréiðnaáfangi frá H21-V22, H22-V23, H23
  • Myndlist: V18, H18-V19, H19, V21, H21
  • Bíliðngreinar: H15-V16, H16-V17, H17-V18, H18-V19
  • Upplýsingatækni/Tölvufærni: H21-V22
  • Rafmagnsfræði: V18

Frá 1.1.24 er því aðeins í boði á Litla-Hrauni staðkennsla í íslensku, ensku, stærðfræði og íþróttum. Á Sogni: íslenska, enska og stærðfræði. Öll önnur staðkennsla hefur verið skorin niður í fangelsunum. Ástæðan er fjárskortur. Fjárveitingar ráðuneytisins vegna skólahalds FSu. í fangelsunum standa ekki undir kostnaði, samkvæmt skólameistara. 


Skýrslur

2007 – Stefnumótun í menntunarmálum fanga á Íslandi

Nefnd skipuð af menntamálaráðherra:

Ásgerður Ólafsdóttir, sérfræðingur, menntamálaráðuneyti, formaður

Dís Sigurgeirsdóttir, lögfræðingur, dóms- og kirkjumálaráðuneyti

Erlendur S. Baldursson, afbrotafræðingur, Fangelsismálastofnun ríkisins

Sigurður Sigursveinsson, skólameistari, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Selfossi.

Almennar tillögur :

  • Nefndin lítur svo á að nám í fangelsi, ásamt öðrum meðferðarúrræðum sem í

boði eru, gegni lykilhlutverki í endurhæfingu fanga og bendir á að margar

rannsóknir sýna fram á að menntun í fangelsi hefur fyrirbyggjandi áhrif

  • evrópskar fangelsisreglur verði ætíð í heiðri hafðar við skipulagningu náms
  • fangar verði hvattir til að nýta tímann í fangelsi til náms
  • þeim standi til boða:
  • kynning á námsmöguleikum
  • mat á fyrra námi
  • mat á raunfærni
  • áhugasviðsrannsókn
  • aðstoð við gerð námsáætlunar
  • aðstoð við að skipuleggja frekara nám
  • þýðingarmikið er að vinna gegn brottfalli, m.a. með öflugri sérkennslu og

einstaklingsmiðaðri ráðgjöf

  • stuðla þarf að fjölbreyttari námsmöguleikum í fangelsum m.a. með námskeiðum

af ýmsu tagi sem hafi það að markmiði að auka lífsgæði fanga, lífsleikni þeirra og

færni

  • endurskoða þarf reglur um greiðslur til fanga sem stunda nám

Aðstaða til náms :

  • Góð aðstaða til að stunda nám þarf að vera til staðar í öllum fangelsum
  • tryggja þarf föngum aðgang að
  • náms- og starfsráðgjöf
  • tölvum
  • bókasafni
  • nettengingu þar sem það á við

Móðurskóli :

  • Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi gegni áfram lykilhlutverki í menntun fanga á

Litla-Hrauni

  • skólanum verði einnig falið það hlutverk að sjá til þess að föngum almennt standi

til boða að stunda nám

  • skólanum verði tryggðir möguleikar á að efla þá kennslu sem fyrir er og bjóða upp

á fjölbreyttari námsúrræði

  • skólinn hafi forystu um að koma á nauðsynlegum tenglsum við aðrar

menntastofnanir, s.s. skóla sem bjóða upp á dreif- eða fjarnám

  • Gera þarf skriflegan samning milli menntamálaráðuneytis og Fjölbrautaskóla

Suðurlands um þjónustu skólans við fanga

Náms- og starfsráðgjöf :

  • Náms- og starfsráðgjafi verði ráðinn að Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi hið fyrsta
  • hlutverk hans verði að veita náms- og starfsráðgjöf til fanga á Litla-Hrauni sem og

í öðrum afplánunarúrræðum

  • náms- og starfsráðgjafi hafi einnig frumkvæði að nauðsynlegu samstarfi við aðra

skóla og menntastofnanir eftir þörfum

Notkun Netsins :

  • Nefndin telur að erfitt sé að stunda nám í dag nema hafa aðgang að Netinu
  • í einhverjum tilvikum kann að vera nauðsynlegt að heimila fanga nettengingu í

klefa, en til þess þarf breytingu á lögum um fullnustu refsinga

  • tenging við Netið verði heimiluð í opnu fangelsi þegar fangar eru í námi eða starfi

þar sem notkun þess er nauðsynleg

  • lagt er til að takmörkuð nettenging verði fyrir hendi í öllum fangelsum

Verknám :

  • bæta þarf aðstöðu til verknáms og starfsfþjálfunar í fangelsum
  • skapa þarf ný störf í fangelsum sem geta nýst til starfsþjálfunar og þannig verið

hluti af námi.

  • föngum sem kjósa að stunda verknám, verði gefið tækifæri til starfsþjálfunar utan

fangelsis að uppfylltum kröfum 47. gr. laga um fullnustu refsinga og að

undangengnu áhættumati og með samþykki skólayfirvalda eða vinnustaðar.

  • nýta þarf verkstæði í fangelsum s.s. smíðaverkstæði, til starfsþjálfunar
  • leita ber til atvinnufyrirtækja í nánasta umhverfi fangelsa um starfsnám fyrir þá

fanga sem hafa leyfi til náms utan fangelsis

Fangar með stutt nám að baki :

  • Koma þarf til móts við þarfir þessara fanga með

o öflugri náms- og starfsráðgjöf

o sérkennslu hjá þeim hópi sem á í námserfiðleikum

o með því að bjóða upp á námskeið til að bæta grunnfærni í lestri,

stærðfræði og tölvunotkun.

  • samkvæmt evrópskum fangelsisreglum skal menntun fanga með lestrar- eða

stærðfræðiörðugleika og sem skortir grunn- eða iðnmenntun hafa forgang

Fangar af erlendum uppruna :

  • Kannað verði í hverju tilfelli hvort afplánun í fangelsi í heimalandi fanga sé

raunhæfur kostur með tilliti til greiðari aðgangs að námi

  • hugað verði að íslenskukennslu fyrir erlenda fanga sem dvelja um langan tíma í

íslenskum fangelsum

  • huga þarf að möguleikum fanga af erlendum uppruna sem munu fara úr landi að

lokinni afplánun á að stunda fjarnám við menntastofnanir í heimalöndum sínum

  • fangar af erlendum uppruna hafi aðgang að bókum á eigin móðurmáli í

fangelsinu.

2018-2019 Starfshópur um bættar félagslegar aðstæður einstaklinga sem lokið hafa afplánun refsingar í fangelsi

Félags- og jafnréttismálaráðuneyti / Félags- og barnamálaráðuneyti 

Starfshópurinn var þannig skipaður:

Þorlákur „Tolli“ Morthens myndlistarmaður var formaður starfshópsins. 

Ingibjörg Sveinsdóttir frá heilbrigðisráðuneyti. 

Kristín Einarsdóttir frá dómsmálaráðuneyti. 

Ragnheiður Bóasdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti. 

Laufey Gunnlaugsdóttir frá Vinnumálastofnun. 

Jón Þór Kvaran frá Fangelsismálastofnun. 

Sigrún Þórarinsdóttir frá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga. 

Guðmundur Ingi Þóroddsson fulltrúi fanga tilnefndur af Afstöðu, félagi fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun.  

Starfshópnum til ráðgjafar voru 

Valdís Ösp Ívarsdóttir

Agnar Bragason. 

Starfsmenn starfshópsins voru 

Ívar Már Ottason, lögfræðingur á skrifstofu barna- og fjölskyldumála hjá félagsmálaráðuneytinu

Þór Hauksson Reykdal, sérfræðingur hjá Félagsmálaráðuneytinu. 

Hópnum til halds og trausts var 

Sóley Ragnarsdóttir, aðstoðarmaður félags- og barnamálaráðherra

Birgir Ómarsson, grafískur hönnuður.

Félags- og barnamálaráðuneyti og Dómsmálaráðuneyti

Stýrihópur til að fylgja eftir  tillögum skýrslu „Starfshóps um bættar félagslegar aðstæður einstaklinga sem lokið hafa afplánun refsinga í fangelsi“.

Þann 29. maí 2020 skipuðu félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra sameiginlega stýrihóp um málefni fanga en hlutverk hópsins var að móta heildstæða meðferðar- og endurhæfingarstefnu í fangelsismálakerfinu, leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum og greina fjárþörf til þess að tryggja öllum föngum einstaklingsbundna meðferðaráætlun, bættan aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu og aukinn stuðning að afplánun lokinni. Stýrihópurinn fundaði reglubundið frá 29. maí 2020 til 28. apríl 2021.

Stýrihópurinn var þannig skipaður:

Þorlákur Morthens (Tolli), fulltrúi félags- og barnamálaráðherra, formaður án tilnefningar. 

Guðmundur Gíslason, fulltrúi Fangelsismálastofnunar, varaformaður. 

Ingibjörg Sveinsdóttir, fulltrúi heilbrigðisráðherra. 

Kristín Einarsdóttir, fulltrúi dómsmálaráðherra. 

Ragnheiður Bóasdóttir, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra. 

María Ingibjörg Kristjánsdóttir, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga. 

Laufey Gunnlaugsdóttir, fulltrúi Vinnumálastofnunnar. 

Í nóvember 2020 tók Hanna Rún Sverrisdóttir við af Kristínu Einarsdóttur sem fulltrúi dómsmálaráðherra í stýrihópnum. 

Ráðgjafi hópsins:

 Agnar Bragason, forstöðumaður Batahúss.  

Starfsmenn hópsins:

Jóna Guðný Eyjólfsdóttir

Þór Hauksson Reykdal, sérfræðingar á skrifstofu barna- og fjölskyldumála í félagsmálaráðuneytinu. 

Hönnun og uppsetning skýrslu:

Birgir Ómarsson. 

Helstu tillögur hópsins:

  1. Húsnæðismál

Endurbætur og langtímastefnumótun í húsnæðismálum fangelsanna er grundvallarforsenda þess að hægt sé að innleiða þá batamiðuðu nálgun sem stýrihópurinn leggur til í þessari skýrslu. 

Litla-Hraun: 

Til skamms tíma er brýnast að gera umbætur í húsnæðismálum á Litla-Hrauni. Lagt er til að án tafar verði hafist handa við að framkvæma fyrirhugaðar breytingar á Litla-Hrauni í samræmi við frumathugun Framkvæmdasýslu ríkisins frá nóvember 2020. Meðal annars eru umbætur á aðstöðu fyrir heilbrigðisstarfsfólk, þ.m.t. geðheilsuteymis, en ljóst er að aðstöðuleysi hefur hamlandi áhrif á störf heilbrigðisstarfsfólks í fangelsinu. 

Hólmsheiði: 

Að flestu leyti er aðstaða í fangelsinu til fyrirmyndar. Þrjú atriði eru þó ekki í lagi: Aðstaða til náms, aðstaða til vinnu og virkni og aðstaða til íþróttaiðkunar.  

Sogn: 

Lagt er til að unnin verði framkvæmdaáætlun um breytingar á húsnæðinu með það fyrir augum að bæta aðstöðu til meðferðar- og batastarfs. Nýtt fangelsi: Þá er nauðsynlegt að horft verði til framtíðar varðandi byggingu nýs fangelsis þar sem batamiðuð hugmyndafræði verði lögð til grundvallar við hönnun mannvirkja. 

  1. Heildstæð meðferðarstefna: 
  • Skimun þegar dómur fellur: Á hverju ári hljóta rúmlega 480 einstaklingar refsidóma og sýna rannsóknir að hluti þeirra sýni einkenni áfallastreitu í kjölfarið. Mikilvægt er að þessir einstaklingar geti strax leitað til heilsugæslunnar í viðtöl þar sem heilbrigðisstarfsmaður skimar m.a. fyrir geðrænum erfiðleikum. Um væri að ræða valkvætt úrræði fyrir einstaklinga sem óska eftir ráðgjöf og stuðningi. 
  • Geðheilsuteymi eflt: Stöðugildum sérfræðinga í geðheilsuteymi fanga verði fjölgað um eitt til að tryggja samfellu í þjónustu og samhæfingu heilbrigðis- og félagsþjónustu, auk eftirfylgdar í allt að 12 mánuði þegar afplánun lýkur fyrir þá einstaklinga sem eru í brýnni þörf fyrir eftirfylgd. 
  • Meðferðarsvið Fangelsismálastofnunar (FMS) eflt: Réttur til meðferðaráætlunar, sbr. 24 gr. laga nr. 15/2016, verði lögbundinn fyrir alla sem dæmdir eru til lengri fangelsisvistar en 90 daga. 

Stöðugildum meðferðarsviðs Fangelsismálastofnunar verði fjölgað svo unnt sé að sinna þeim brýnu verkefnum sem því er ætlað en til þess þarf að bæta við eftirfarandi fjölda starfsmanna í 100% starfshlutfalli: Þremur félagsráðgjöfum til viðbótar við þá tvo sem nú eru starfandi, tveimur sálfræðingum til viðbótar við þá þrjá sem nú eru starfandi, þremur vímuefnaráðgjöfum til viðbótar við þann eina sem nú er starfandi, tveimur iðjuþjálfum sem væri ný og nauðsynleg viðbót.

  1. Menntun og virkni
  • Stóraukin námsráðgjöf og sérkennsluúrræði. Bjóða þarf upp á sérkennslu fyrir nemendur með lestrar- og/eða skriftarörðugleika og íslenskukennslu fyrir erlenda ríkisborgara. 
  • Fullorðinsfræðsla þar sem aðalfög eru íslenska, lestur, stærðfræði, enska og tölvukennsla. 
  • Tölvustofur: Huga þarf að betra aðgengi fanga, í lokuðum fangelsum, að tölvum, interneti og þjálfun í tölvulæsi til daglegra þarfa (heilsuvera, bankaþjónusta o.þ.h.).
  • Styttri námskeið í verkmenntun. Lagt er til að í boði verði t.d. þriggja til sex mánaða námskeið, þar sem einstaklingur fær skriflegan vitnisburð eftir að hafa lokið tímabundnu námskeiði í verkmenntun. Til dæmis í málaraiðn, trésmíði, bílaréttingum, rafvirkjun, bakstri, járnsmíði o.s.frv. 
  1. Atvinna, hæfing og félagslegur stuðningur að lokinni afplánun
  • Mat á starfshæfni: Mat á starfshæfni og mat á áhuga á því að fara í starf á almennum vinnumarkaði þarf að liggja fyrir við lok afplánunar. Slíkt mat gæti verið í höndum ráðgjafa Vinnumálastofnunar (VMST) sem koma að fræðslu fanganna ásamt verkstjóra í verkþjálfun innan fangelsanna. 
  • Formlegur samráðs-/samstarfsvettvangur milli VIRK, VMST og FMS um málefni fanga og útbúa verkferla þar um. 
  • Nýtt stöðugildi (100%) hjá VMST til að halda utan um málefni fanga og veita reglulega fræðslu og ráðgjöf í öll fangelsin, þ.m.t. samtöl við fanga í fjarfundabúnaði. 
  • Formlegt samstarf við Samtök atvinnulífsins. 
  • Lagt verði mat á árlega fjárþörf áfangaheimila og annarra úrræða sem bjóða upp á búsetu fyrir einstaklinga sem lokið hafa afplánun og fjármögnun tryggð í fjárlögum til lengri tíma. 5. Framfærsla og virknigreiðslur: 
  • Þóknun fyrir vinnu eða nám, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 162/2017 og lög um fullnustu refsinga nr. 15/2016, hækki úr 415 kr. á klukkustund í 500 kr. á klukkustund. 
  • Dagpeningar, sbr. 3 gr. reglugerðar nr. 162/2017 og lög um fullnustu refsinga nr. 15/2016, verði hækkaðir úr 630 kr. á dag í 1.100 kr. 
  • Fangelsismálastofnun verði heimilt að greiða hærri þóknun, allt að 25% til viðbótar, fyrir mjög krefjandi vinnu og aukna ábyrgð. Þar er einkum verið að horfa til vinnu utan fangelsis. 
  • Heimilt verði að greiða þóknun vegna þátttöku í viðurkenndri starfsemi sem fram fer innan fangelsanna og telst liður í endurhæfingu, t.d. reiðistjórnarnámskeið o.s.frv. 
  • Nauðsynlegar persónulegar hreinlætisvörur verði ókeypis.
  • Við upphaf afplánunar fái fangar almenna ráðgjöf um fjármál og í kjölfarið verði jafnframt boðið upp á viðtöl hjá umboðsmanni skuldara. Einnig er lagt til að boðið verði upp á námskeið um fjármálalæsi sem hluta af náms- og virkniframboði. 

Enn fremur leggur stýrihópurinn til að skoðaðar verði eftirfarandi hugmyndir

  • Fangar sem eiga réttindi í íslenska almannatryggingakerfinu geti sótt um barnalífeyri meðan á afplánun stendur. 
  • Gerð verði athugun á því hvort fyrirkomulag sem er viðhaft í Svíþjóð, þ.e. að 10% af tekjum fanga fari inn á sérstakan reikning sem fangar fái greitt við lok afplánunar, gæti hentað á Íslandi. 

 

2020 – ??? Starfshópur um menntun fanga og fangavarða

Mennta- og menningarmálaráðuneyti / Mennta- og barnamálaráðuneyti

Starfshópurinn var þannig skipaður:

Ragnheiður Bóasdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, formaður, 

Sigurveig Gunnarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, 

Kristín Einarsdóttir og síðar Hanna Rún Sverrisdóttir frá dómamálaráðuneyti

Guðmundur Gíslason frá Fangelsismálastofnun

  • Áætlun um skýrslu á vormánuðum 2020 – engin skýrsla tilbúin. 
  • Áætlun um skil á skýrslu á haustmánuðum 2021 – engin skýrsla tilbúin. 
    • (í „Tollskýrslunni“ 2021 kemur fram að starfshópurinn hafi unnið í nánu samstarfi við stýrihóp um málefni fanga). 
  • Í svörum MMR til Umboðmanns vegna OPCAT skýrslu vegna Hólmsheiði á skýrslan að vera tilbúin á vormánuðum 2022 – engin skýrsla tilbúin.
  • Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar er þeim tilmælum beint til mennta- og barnamálaráðuneytis að flýta vinnu starfshóps um menntun fanga og fangavarða. 
  • Í febrúar 2024 er skýrslunni ENN ÓLOKIÐ
  • 2022 – Verkefnahópur sérfræðinga í mennta- og barnamálaráðuneytinu

Félags- og barnamálaráðuneyti

Verkefnahópur til að útfæra nánar tillögur á grundvelli „Stýrihóps um málefni fanga“

í svarbréfi MMR til Umboðmanns Alþingis vegna OPcat heimsóknar á Kvíabryggju árið 2022, dagsett 24. júlí 2023, er vísað í skýrslu „Stýrihóps um málefni fanga“ frá árinu 2021, þar sem skýrt komi fram að menntun er ein af grundvallarforsendum betrunar. Þar er lagt til að aukið verði við náms- og starfsráðgjöf við innleiðingu batamenningar. Einnig er lagt til að boðið verði upp á sérkennslu, einkum í grunnfögum eins og íslensku, ensku, stærðfræði og tölvukennslu, ekki síst fyrir nemendur sem glíma við námsörðugleika. Einnig er skýr krafa um íslenskukennslu fyrir erlenda ríkisborgara.

Samantekið úr bréfinu til umboðsmanns:

  • menntun er ein af grundvallarforsendum betrunar.
  • aukið verði við náms- og starfsráðgjöf 
  • boðið verði upp á sérkennslu, einkum í grunnfögum eins og íslensku, ensku, stærðfræði og tölvukennslu
  • krafa um íslenskukennslu fyrir erlenda ríkisborgara.

Verkefnahópurinn kynnti ráðherra kostnaðarmetnar tillögur í febrúar 2023. 

Meðal tillagana hópsins var átak í menntun fanga með því að 

  • koma á fót námsverum í fangelsum
  • stórauka framboð verknáms og námskeiða
  • setja á fót námsver 
  • fyrsti viðkomustaður fanga innan fangelsiskerfisins. 
  • Þar yrði gert stöðumat 
  • mat á þekkingu og færni nemenda svo hægt yrði að undirbúa og laga kennslu að þörfum og þekkingargrunni hvers og eins. 
  • Metið yrði út frá þörfum og áhugasviði hvers og eins 
  • hvaða fög eða námskeið eru sótt í námsverið og hvernig námið yrði skipulagt. 
  • Ínámsverinu yrði starfandi náms- og starfsráðgjafi
  • stuðningur við nemenda og ynni með þeim, starfsfólki og öðrum sérfræðingum að ýmiss konar velferðarstarfi sem snúi að námi, líðan og framtíðaráformum fanga. 

Að lokum kemur fram í svarbréfi MMRN til Umboðsmanns að verið sé „að vinna að frekari útfærslu tillagna stýrihópsins og hvernig unnt sé að fjármagna þær.“  Skýrsla ekki tilbúin

 

  • Skýrsla CPT til Ríkisstjórnar Íslands:

1998

2004

2012

2019

ísl. þýðing á skýrslu 2019

  • OPCAT – skýrslur og svör frá ráðuneytum og FMS

2019 Heimsókn á Sogn

2020 Heimsókn á Hólmsheiði

2021 Litla-Hraun öryggisdeild

2022 Heimsókn á Kvíabryggju

2022 Heimsókn á Litla-Hraun

2023 Konur í fangelsi

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *