Fundinn fjársjóður

Á sunnudaginn var Anna María að grúska eitthvað í skápum og kössum með gömlu dóti. Svo kemur hún, þessi elska, og réttir mér samanbrotið, línustrikað blað sem hún hafði fundið. Þegar ég brýt sundur blaðið þekki ég strax rithöndina hans pabba heitins. Og viti menn. Á blaðið hefur hann skrifað mér kveðju í tilefni fertugsafmælis míns, fyrir hönd þeirra mömmu. Kveðjan er fallegt ávarp og fjórar frumsamdar vísur, sem ég var búinn að steingleyma að væru til, og eru mér því sannarlega fundinn fjársjóður. Vísurnar eru svona:

Íþróttunum alla tíð,

einkum snjall í körfu.

Finnur lausn í harðri hríð,

hugarflugi djörfu.

 

Hesta sína heiðra kann,

hátt á fjöllum ríður.

Á fullum kostum flengist hann,

fjörðið ólgar, sýður.

 

Áfram lítur æfileiðar

undralönd.

Tíðast hefur tvo til reiðar,

tölt við hönd.

 

Farsæll hefur fjóra tugi

farið keikur.

Enda er hann ofurhugi,

aldrei smeykur. 

 

Annars gáfu foreldrar mínir mér hestastein í fertugsafmælisgjöf, stuðlaberg úr Hrepphólum  sem stendur í hlaðinu og festur hefur verið við járnhringur – og svolítill áletraður málmplatti með tilefninu og tveimur vísum, þar sem minnst er fyrsta alvöru gæðingsins sem ég eignaðist og geymi alla tíð næst hjarta:

Átti Hreimur hylli í för,

hratt þó steymdu árin.

Ennþá dreymir ólgufjör,

aldrei gleymist klárinn.

 

Vítt um landið velja má

vegi margrar gerðar.

Leystu hestinn, leggðu á,

löngun er til ferðar.

 

Pabbi kunni sannarlega að setja saman vísur – og hefði gjarnan mátt gera meira af því.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *