Óbótastefna

Nú styttist í að margir kjarasamningar á vinnumarkaði renni út. Margir búast við hörðum átökum. Kennarar eru meðal þeirra stétta sem þurfa að setjast að samningaborðinu á næsta ári. Samningar framhaldsskólakennara renna út 31. janúar, grunnskólakennara stuttu seinna og leikskólakennara síðar á árinu.

Ráðamenn hafa látið hafa það eftir sér að hækka þurfi laun kennara. Bæði menntamálaráðherra, viðsemjandi framhaldsskólakennara, og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, viðsemjanda grunnskólakennara, segjast hafa skilning á nauðsyn þessa. Meintar launahækkanir eru þó bundnar skilyrðum. Skýrt hefur komið fram að ekki eigi að veita auknu fé inn í skólana í þessum tilgangi heldur eigi fjármagnið „að koma innan úr kerfinu“. Fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp boðar líka áframhaldandi niðurskurð í framhaldsskólunum, svona viðbótarglaðning við þá a.m.k. 12 milljarða sem skornir hafa verið á undanförnum árum.

En hvernig ætla þessir herramenn að skafa fjármagn til launahækkana innan úr langsveltu skólakerfinu? Þær fyrirætlanir liggja fyrir klárt og kvitt svo kennarar þurfa ekki lengur að velkjast í neinum vafa, hafi einhverjir þeirra gert það. Það á sem sagt ekkert að hækka launin heldur láta kennarana vinna meira. Menntamálaráðherra ætlar að stytta nám til stúdentsprófs í framhaldsskólum um eitt ár og fækka með því kennurum um a.m.k. 25%. Svo á að hjóla í vinnutímann, afnema „kennsluskylduna“ og láta kennarana kenna fleiri kennslustundir. Með því er hægt að fækka kennurum enn meira.

Formaður SÍS, sem nú sækist eftir efsta sætinu á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir sveitarstjórnakosningarnar næsta vor, orðar þessa stefnu flokksins enn skýrar en menntamálaráðherrann í grein í Fréttablaðinu í dag, sem hann kallarVið getum bætt okkur. Þar segir hann: „Hægt er að nýta fjármagnið betur með því að breyta kennsluskyldunni og draga úr skrifræði innan skólanna þannig að kennarar hafi meiri tíma með nemendum og geti kennt meira. Það hefur þau áhrif að hægt er að reka kennsluna með færri kennurum.“ Kennarar og nemendur í Reykjavík eiga sem sagt von á góðu!

Launakostnaður er langstærsti útgjaldaliðurinn í ölllum rekstri, jafnt ríkisrekstri sem öðrum, svo yfirvöld geta með þessum aðgerðum sparað umtalsverðar fjárhæðir. Eitthvað verður sjálfsagt nýtt til að hækka launataxtana. Ekki er ástæða til að efast um það. En þá hækkun munu kennarar þurfa að kaupa dýru verði og vinna margfalt fyrir hverri viðbótarkrónu.

Svonefnd „kennsluskylda“ sem skilgreind er í kjarasamningum kennara er viðurkenning á því að hverri kennslustund fylgi bæði undirbúningur og úrvinnsla. Allir ættu að skilja það að enginn hleypur með góðum árangri óundirbúinn beint af götunni inn í kennslustund. Þar bíður nefnilega svo fólkinn veruleiki mismunandi námsgetu, félagsþroska og greininga, svo eitthvað sé nefnt, að útilokað er annað en vera vel undirbúinn og þaulskipulagður, svo ekki fari allt úr böndunum. Úrvinnslan felst m.a. í námsmati, samstarfi kennara, foreldrasamskiptum,tiltekt og ýmiskonar skráningu. Þetta er þó aðeins brot af hinum ytri veruleika og undirbúningurinn og úrvinnslan í höfði kennarans öll ótalin, þó varað geti sólarhringum saman.

Kennsluskyldan er viðurkenning á því að til þess að kennari geti haldið uppi vitrænu starfi og verið nemendum sínum allt í senn bakhjarl, hvatning og leiðarvísir, þá getur hann ekki „kennt“ samfleytt frá 8-16. Kennarinn verður að fá rými í stundatöflunni bæði til að undirbúa og vinna úr kennslustundum. Allt fram á síðustu ár hefur ríkt skilningur á þessu meðal viðsemjenda kennara. Nú blasir við alger viðsnúningur á því. Ráðamenn horfa greinilega til fordæmis danskra yfirvalda og þess forkastanlega ofbeldis sem þau nýlega beittu hið lýðræðislega samningsfrelsi og kennarastéttina þar í landi.

Og það er ekki aðeins kennarinn sem á heimtingu á því að þessum órjúfanlega hluta kennarastarfsins sé sinnt af alúð, heldur varðar „kennsluskyldan“ ekki síður hagsmuni nemenda. Þeir eiga skýlausan rétt á því að vandað sé til alls skólastarfs. Án undirbúnings og úrvinnslu verður kennslustundin hvorki fugl né fiskur.

Fullvíst er að ef hugmyndin um kennsluskylduna verður þurrkuð út úr kennarastarfinu, eða gerð að algeru aukaatriði, og kennarar látnir kenna enn fleiri kennslustundir í dagvinnu, þá munu þeir bara þurfa að vinna meira en þeir þegar gera eftir að skóla lýkur, á kvöldin og um helgar. Þeir munu ekki fá greitt fyrir þá  vinnu. Þeir munu standa frammi fyrir tveimur kostum – og báðum slæmum: Að vinna kauplaust í frítíma sínum eða hætta að kenna. Lítið mun leggjast fyrir tímabundnar taxtahækkanir í ónýtum gjaldmiðli.

Þessi stefna, sem Sjálfstæðisflokkurinn keyrir nú fram af auknum þunga bæði í ríkisstjórn og sveitarstjórnum, er kynnt sem umbótastefna í skólamálum. Það eru öfugmæli. Þetta er óbótastefna sem mun valda langtímatjóni á skólakerfinu, ef af verður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *