Hrímnir

Flestir hugsa margt við áramót,
minnast þess sem færði ást og gleði.
Kannski líka kemst á hugann rót
kvikni það, sem betur aldrei skeði.
Munum þá að gera bragarbót
og bera sig, því lífið er að veði.

Í mysu lífsins maðkur víða sést,
manninn, svik og pretti, oft skal reyna.
Það er sem blessuð skepnan skilji flest,
skynji hugann, engu má þar leyna.
Það veit sá sem eignast úrvalshest
að aldrei vin sinn svíkur lundin hreina.

Kæri vin! Ég kveð með hjartasting.
Þín kroppuð tótt nú himni móti starir
sem áður horfði frán um fjallahring.
Þó fram úr öðrum hinum megin skarir,
ég aldrei framar óð minn til þín syng
og engin von með hneggi þú mér svarir.

Ég man þinn langa, mjúka, sveigða háls
ég man, þitt skarpa auga knapann spurði:
„Viltu með mér núna, nýr og frjáls,
njóta listagangs, í fullum burði“?
Á gamlársdag finn grimmd. Mér varnar máls
að ganga að þér, dauðum oní skurði.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *