Hrossanöfn í mótsskrá LM 2018

Sitjandi í brekkunni við kynbótavöllinn á Landsmóti hestamanna í Reykjavík 2018, blaðandi í mótsskránni og hlustandi á þulina þylja upp nöfn hrossanna sem fyrir augu bar, feðra þeirra, mæðra og stundum móðurforeldranna líka, kom stundum fyrir að mér væri sem strokið andhæris um málvitundina. Þessi tilfinning varðaði stafsetningu, beygingar og nafnaval. Ég ákvað því að skoða nánar nafngiftir hrossanna í mótsskránni og velta fyrir mér „frávikum“ m.v. eigin máltilfinningu. Ekki eru þessar vangaveltur á neinn hátt vísindalegar, til þess skortir mig dýpri málfræðiþekkingu og væri gaman ef vísindamenn á því sviði leiðréttu það sem missagt kann að vera.

Nafnahefðir hrossa eru þær sömu og gengur og gerist almennt með íslenskar nafnahefðir. Meginreglan er sú að nöfn manna og dýra á „vorri dýru móðurtungu“ séu nafnorð og að karlkynsnafnorð fylgi karlkyni en kvenkynsnafnorð kvenkyni. Oft eru hrossanöfn sótt í goðafræði, gjarnan norræna en einnig gríska og rómverska: Þór, Sif, Hera, Seifur, Júpíter o.s.frv. En almennt séð eru hvers lags nafnorð góð og gild. Og með því að fletta fyrrnefndri mótsskrá geta allir sannfærst um að enn er þetta meginreglan. Langflest nöfnin eru af þessum toga, og verða ekki tíunduð hér.

Lýsingarorð

Löng hefð er einnig fyrir því að nota lýsingarorð sem nöfn á dýr og menn. Glaður, Ljúfur, Rauður og Jarpur hafa troðið götur þessa lands um ómunatíð, Kátur trítlað gjammandi á eftir. Teitur er algengt mannsnafn og Svartur hét húskarl Bergþóru. Þessi lýsingarorð taka beygingu nafnorða; beygjast eins og hestur: Glaður – Glað – Glaði – Glaðs, en ekki eins og lýsingarorð: glaður – glaðan – glöðum – glaðs.

En hvaða lýsingarorð er að finna í nafnalista hrossa í mótsskrá LM2018? Sjáum til:

Dimmblá, Djarfur, Engilfín, Frakkur, Frjór, Frægur, Glaður, Glaðbeitt, Hlýr, Hulinn, (Hestamannafélagið) Kinnskær, Klókur, Knár, Kolvakur, Ljúfur, Prúður, Séð, Skýr, Snögg, Spakur, Vökull, Þeldökk, Örgrunn, Ötull.

Af þessum er einfalt að afgreiða nokkur: Djarfur-Frakkur-Frægur-Glaður-Klókur-Ljúfur-Prúður-Spakur beygjast vandræðalaust á sama hátt, þó sumt sé vissulega tamara á tungu en annað.

En hvernig á að afgreiða „þann kolvakra“? Þar er -r ið stofnlægt: vakur-vakran-vökrum-vakurs.

Hvað segir eigandinn: „Ég ætla að leggja á hann Kolvak“. Hæpið. Er ekki eðlilegra að leggja á Kolvakur: Kolvakur-Kolvakur-Kolvakri-Kolvakurs?

Vökull og Ötull eru einfaldir í meðförum. Hryssunöfnin Dimmblá, Engilfín, Glaðbeitt, Séð, Snögg, Þeldökk og Örgrunn geta varla annað en beygst eins, fá einungis -ar endingu í eignarfalli. Nema Örgrunn beygist eins og Þórunn?

Þá eru það þeir Frjór, Hlýr, Kinnskær, Knár og Skýr. Á ekki að beygja öll þessi nöfn eins? Og er ég þá kominn að öðru atriðinu úr þularstofu sem strauk mér öfugt. „ … undan Ský …“ hljómaði úr hátalarakerfinu.

Þessi orð eru ekki öll eins: frjór-frjóan; hlýr-hlýjan; knár-knáan má flokka saman. Þar er r-ið í nefnifallinu ekki stofnlægt; „hún er“ frjó, hlý, kná. Óhætt ætti því að vera að leggja á Frjó, Hlý og Kná.

Um Skýr og (Kinn)skær gilda önnur lögmál. Í þessum orðum er r-ið stofnlægt: „Hún er“ skýr og skær. Samkvæmt mínum kokkabókum ætti beygingin frekar að hljóma svo: Skýr-Skýr-Skýr-Skýrs. Enda sér það væntanlega hver maður að „Ský“ er allt annað en „Skýr“. Og ætti ekki nákvæmlega það sama að gilda um nafnið „Kinnskær“?

Í Gull-Þóris sögu (Þorskfirðinga sögu) segir hins vegar: „En það var litlu síðar er Þórir reið Kinnskæ hinum gamla yfir Þorskafjörð“. Þarna er komið fordæmi úr miðaldatexta, og verður ekki að taka mark á því? Eða gerði skrifarinn bara klaufaleg mistök? Ég fer alla vega ekki ofan af því að betur færi að Þórir riði Kinnskær hinum gamla …

Hvað með Hulinn? Beygist hann eins og Huginn?

Kynin

Fram undir síðustu áratugi hefur þótt sjálfsagt að karlkynsorð fylgdu karlkyninu og kvenkynsorð kvenkyninu. Nú stefnir í grundvallarbreytingar þar á – og nýjasta dæmið að karlkyns bóndi norður í landi vill fá staðfest fyrir dómi að hann megi heita Sigríður eftir ömmu sinni.

Þekkt er það meðal hestamanna að ágætur stóðhestur bar nafnið Vár. Og gerir kannski enn. Vár er kvenkyns nafnorð, gyðjunafn úr norrænni goðafræði. Ekki hefur það verið staðfest að viðkomandi stóðhestur væri kynhverfur eða hefði óskað eftir kynskiptaaðgerð, heldur sinnti hryssum af sönnum áhuga. Þegar graðhesturinn Vár kom fram notuðu nokkrir ræktunarmenn tækifærið og nefndu hryssur sínar Vár.

Tilefni þessara vangaveltna er hryssunafnið „Skart“, sem ýfði feld minn nokkuð í brekkunni í síðustu viku. Skart er augljóslega hvorugkyns nafnorð og á lítið erindi sem nafn á hryssu. Eða hvað? Löng hefð er fyrir því að nefna stúlkur Líf, sem er jafn hvorugkyns og skart, og Líf er eitt af hryssunöfnunum í mótsskránni. Og að því er ég best veit er ypsilon líka hvorugkynsorð. Ypsilon er nafn á þekktum stóðhesti, og má sömuleiðis finna í mótsskrá LM.

Nokkur nöfn í skránni eru að öllum líkindum bara rangt stafsett. Byrnir ætti að heita Birnir, Pittur átti væntanlega að heita Pyttur og betur færi á því að Trygglind héti Trygglynd. Nema merkingin sé sú að hryssan eigi að vera sú trygga lind sem aldrei þornar, í þeirri myndhverfu merkingu að eigandinn geti ausið gæðingum af gnægtabrunni hryssunnar. Ekki veit ég hvort hægt er að koma fyrir stafsetningarleiðréttingaforriti í World-Feng, til að koma í veg fyrir svona slys, ef um slys er að ræða?

Flugsvinn er þekkt hryssuheiti en í skránni góðu eru nöfnin Flugsvin og Dagsvin. Kannski er aðeins lökum prófarkalestri um að kenna? Hvaða merking er annars á bak við nafnið Dagsvinn, ef það á annars að stafsetja svo?

Og hvað eiga nöfnin Álfarinn, Glóinn, Lóðar, Hlóð og Mætta að fyrirstilla? Eða Doðrant? Af hverju ekki Doðrantur?

Ættarnöfn og listamannsnöfn eru nokkur:

Erró, Kamban, Kiljan, Kjarval, Kjerúlf, Kvaran, Mugison, Vídalín. Í skránni er einnig nafnið Laxnes, sem færi sennilega betur að hafa eins stafsett og skáldið kaus: Laxness.

Erlend tökuorð

All algengt er að nota erlend tökuorð af ýmsum toga. Þetta geta verið biblíunöfn, nöfn þekktra persóna úr nútíð og fortíð, „embættisheiti“, nöfn skáldsagnapersóna o.s.frv.

Adrían, Abel, Abraham, Aríel, Bendix, Efemía, Evíta, Fönix, Gabríela, Gídeon, Herkúles, Hektor, Júpíter, Íkon, Ísar, Ísold, Kardináli, Kaspar, Kastor, Katalína, Lúkas, Lydía, Malín, Mídas, Mekkín, Neptúnus, Pegasus, Pílatus, Platon, Ra, Ronja, Sesar, Sókron, Valíant, Vívaldi.

Í þessum flokki eru líka þær Grafík, Klassík og Manía.

Tónlist og dans

Nokkur nöfn eru fengin úr tónlist og dansi. Þar eru bæði Samba og Tangó en einnig Kantata, Konsert, Órator, Tenor og Tenór, Melodía, Sinfonía og Aría. Svo eru þeir allir í sama ættleggnum, Flygill, Trymbill og Kjuði, allir nefndir góðum og gildum íslenskum nafnorðum.

Samber er sennilega einhvers konar hljóðlíking, dregin af nafninu Samba?

Slettur

Nokkur nöfn í skránni eru slettur, erlend orð sem ekki er gerð tilraun til að aðlaga að íslensku: Arion, Arya, Emanon, Bisund, Cesar, Gangster, Lady, Lord, Pan, Parker, Naomi og Zorro. Samkvæmt íslenskri orðabók er bisund „býsönsk gullmynt“.

Tvínefni, skopskyn og annað

Tvínefni koma aðeins fyrir. Þekkt eru bæði Hekla-Mjöll og Sveinn-Hervar. Eyrún Ýr er af svipuðum toga og Dimma-Svört og Jón Forseti fylgja í kjölfarið. Kannski ætti sá síðastnefndi að vera með bandstriki? Eða litlum staf í viðurnefni, Jón forseti?

Í mótsskránni eru bæði Eivör og Eyvör, enda bæði ei og ey algengir for- og viðliðir nafna; Ei-lífur, Ei-ríkur, Ey-rún, Eydís, Lauf-ey, Ey-mundur o.s.frv.

Nýstárleg og undarleg þykja mér nöfnin Bandvöttur og Hraunsteinn en ég hef húmor fyrir því að Stuna frá Dýrfinnustöðum sé undan Frygð frá Fjalli.

Að lokum: Gloríus, Gósi, Írafár, Ísó, Júrósokka, Ný Dönsk, Lottó, Óson, Ræja, Tór. Og þarf ekki fleiri orð um þessa upptalningu, en ég læt lesendum eftir að giska á hvort um er að ræða hesta eða hryssur.

Niðurstaðan er að íslensk nafnahefð er í hávegum höfð hjá hestamönnum. Langflest nöfnin í mótsskrá LM 2018 eru hefðbundin, alíslensk nafnorð, ausin af sama gjöfula brunninum um aldir. Á þeirri reglu eru undantekningar. Finna má dæmi um að eigendur virðist lenda í ógöngum í viðleitni sinni að upphefja hross sín með glæstum nöfnum, því kannski hefur ekki verið hugað nægilega vel að beygingum og kyni orða.

Einnig eru dæmi um hrein ónefni, sem er miður. En það er auðvitað smekksatriði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *