Læsi – undursamlegust allrar tækni

Tölur um bágt læsi íslenskra unglingspilta komust á dögunum í gegnum þéttriðið net fjölmiðlavaðalsins og vöktu athygli í samfélaginu. Sýndar voru í fréttum myndir úr einhverjum grunnskóla þar sem nemendurnir lásu bækurnar af spjaldtölvum, og voru ánægðir með það. Þar með var málinu lokið og önnur „mikilvægari“ tóku við í fréttatímunum. Því miður er skólamálaumræða fjölmiðlanna oftast bæði grunnhyggin og geld. Gjarnan nær hún ekki lengra en að samanburði á einstökum skólum út frá meðaleinkunnum á lokaprófi, oftast grunnskólaprófi eða stúdentsprófi. Og látið er við þann mælikvarða sitja, eins og málið sé þar með afgreitt fyrir fullt og allt: Sumir skólar eru góðir, aðrir slæmir.

Það er haft á orði að eitt sterkasta einkennið á Íslendingum birtist í frasanum: „Þetta reddast“! Í skjóli hans forsmái þjóðin langtímastefnumótun á flestum sviðum, en taki bara á hverjum vanda þegar hún fær hann í fangið – með átaki. „Þjóðarátak“ gegn þessu eða hinu. Hefur einhver heyrt það? Og Íslendingar virðast líka trúa því að „þetta reddist“ best með nýjustu græjum. Að þeim fengnum þurfi engar áhyggjur að hafa, alveg þar til tæknin færir okkur nýrri græjur. Þetta litar allt samfélagið, líka menntamálin og skólamálaumræðuna.

Hin aldagamla hefð og „bylting spjaldtölvunnar“

Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis og fyrrum skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja, telur að kennsla hafi lítið breyst síðustu aldir, í raun frá tímum Forn-Grikkja „þar sem hinn fróði stóð uppi á kassa og predikaði yfir hinum fáfróðu“ (Hjálmar Árnason, „Um spjaldtölvur og byltingar“, 16). Þessi aðferðafræði rímar illa, segir Hjálmar í grein sinni, við alla kennslufræði, lög og reglugerðir sem kveða á um að bjóða skuli nemendum einstaklingsmiðað nám.

En nú munu betri tímar í vændum. „Veldur þar mestu um ný tækni, netið í allri sinni dýrð, spjaldtölvur…“ (Hjálmar Árnason) og fleiri græjur og samskiptaleiðir sem gera það að verkum að hver og einn getur farið þá leið sem honum hentar að markmiðum námsins og nemendur eru „virkjaðir til að leita sér áhugaverðra leiða“ og gert kleift að „virkja hina skapandi hugsun til lærdómsins“. Þessi tækni „opnar stóra gátt að námsmarkmiðunum og leggur grunn að fjölbreytilegum leiðum hinna lærdómsfúsu“. Með því að nýta hana er hægt að virkja „kraft og áræði fróðleiksfúsra til að finna hver um sig þær keldur sem svala“ (Hjálmar Árnason). Hjálmar rekur svo nokkur dæmi um krarftaverk tækninnar í útlöndum: „Í öðrum skóla náðu rúm 90% nemenda sem notuðu spjaldtölvur en aðeins um 65% þeirra sem voru látin hanga í gömlu aðferðunum“. Og niðurstaða þessa reynslumikla skólamanns er einföld og skýr: „Þetta er einfaldlega svarið við hinni almennt viðurkenndu leið allra fræðikenninga og laga um lærdóm: að sérhverjum einstaklingi skuli sinna við hæfi hvers og eins“ (Hjálmar Árnason).

Rétt er að taka undir hvert orð Hjálmars um einstaklingsmiðað nám, fjölbreytni námsefnis og kennsluhátta, mikilvægi áhugaverðra leiða og skapandi hugsunar. En þegar kemur að trú míns gamla meistara á að ný tækni muni leysa allan vanda innan skólakerfisins, þá viðurkenni ég að renni á mig tvær grímur. Reyndar er rétt ég í upphafi dragi fram og undirstriki hér tvö lykilorð í grein hans: lærdómsfúsir og fróðleiksfúsir. Hinir lærdóms- og fróðleiksfúsu munu nefnilega hér eftir sem hingað til halda ótrauðir áfram að markmiðum sínum, þrátt fyrir skólakerfið sem þeir búa við. Ný tækni mun vissulega veita þeim aukin og fjölbreyttari tækifæri, auðga nám þeirra og líf. Hinum, sem hvorki myndu teljast fróðleiks- né lærdómsfúsir, mun ný tækni ein og sér ekki bjarga. Ný tækni mun hinsvegar auka bilið milli þeirra sjálfviljugu og hinna bágræku og, í fyllingu tímans, auka stéttaskiptingu í samfélaginu – ef ekki er tekið á rót vandans.

Allan minn starfsaldur í skólakerfinu, nánast óslitið síðan 1983, hefur megináhersla löggjafans verið á það að auka fjölbreytni í námsframboði og kennsluháttum til að koma til móts við mismunandi þarfir, áhuga og getu nemenda. Þetta hefur auðvitað, eins og Hjálmar bendir réttilega á, ekkert gengið snuðrulaust fyrir sig því „hin aldagamla hefð gegnsýrir allt kerfið. Hinn fróði predikar yfir hinum vankunnandi.“

En staðreyndin er sú að byltingin sem Hjálmar Árnason telur nú að verði „í kennsluheiminum“ með spjaldtölvum er í raun og veru gengin yfir. Á árunum fyrir og um síðustu aldamót var þessi „bylting“ gerð. Hún hét tölvuvæðing. Framhaldsskólar voru tölvuvæddir. Internet og innra net. Nemendur fengu fartölvur í hendurnar. Markmiðið með því var þá nákvæmlega það sama, og trúin á undur tækninnar jafn heit og trú Hjálmars nú á undur spjaldtölvunnar. Nemendur myndu glaðir og frjálsir, bæði lærdóms- og fróðleiksfúsir, sökkva sér í og teyga þekkingu og þroska úr lindum alheimsins á Netinu, hver auðvitað á eigin forsendum og hraða, eftir þeim leiðum sem honum best hentaði í áttina að göfugu markmiði um minna brottfall, gæfuríka menntun, innihaldsríkara líf, upplýstara lýðræði – betra samfélag.

Þessi draumsýn hefur ekki ræst og mun ekki heldur rætast með því að spjaldtölvuvæða skólakerfið. Málið er ekki svo einfalt.

Undursamlegust allrar tækni

Til þess að draumsýnin hér að ofan geti ræst kemur ákveðin tækni vissulega við sögu. Sú tækni hefur ekkert með „græjur“, eins og fartölvur eða spjaldtölvur, að gera. Hvort sem nemandi, sem ætlar að læra eitthvað, hefur í höndum hefðbundna bók eða tölvu með aðgangi að svokölluðum upplýsingaveitum á rafrænu formi, á Netinu, þarf hann að vera læs. Læsi er grundvallaratriðið, ekki tækið (bók, tölva, …) sem veitir aðgang að upplýsingunum.

Nemendur mínir, sem eru fluglæsir og lærdómsfúsir, drekka í sig eins og ekkert sé hverja gamaldags kennslubókina á fætur annarri. Löng saga, eins og t.d. Njála, er þeim hreinasti svaladrykkur. Þessir nemendur mennta sig, í besta skilningi orðsins, án minnstu vandræða með eingöngu pappírinn og prentsvertuna að vopni. Nemendum í sama námshópi, sem eru illa eða ólæsir, dugar hvorki að hafa fartölvur eða spjaldtölvur né nýjustu útgáfur af öllum forritum, til að halda í við hina. Fartölvurnar, spjaldtölvurnar og öflugustu forritin duga heldur hvergi til þess að kveikja lærdómsfýsn, sé hún ekki til staðar. Því miður. Skiptir þá engu hvort viðkomandi er læs eða ólæs. Þar eru einhverjir aðrir kraftar að verki en skortur á tækninýjungum.

Því miður lýkur of stór hópur nemenda 10 ára grunnskólanámi án þess að geta talist læs. Eigum við, samfélagið, að sætta okkur við það? Hvað blasir við honum í framhaldsskólunum, þar sem ætlunin hlýtur að vera að stefna frekar upp á við, kenna eitthvað nýtt, fara dýpra í efnið, auka þroska, bæta við þekkingu – klífa fjall fremur en að lötra um flatlendið? Eru allir – foreldrar, skólafólk, sérfræðingar, stjórnmálamenn – örugglega meðvitaðir um það hve stór hluti af veröldinni er tekinn frá ólæsum nemanda? Ef svo er, hvers vegna hefur ólæsi við lok grunnskóla ekki verið upprætt?

Vissulega munu „læsir“ nýta sér hverja tækninýjung sér til framdráttar, en er það forgangsverkefni að henda einu sinni enn í nemendur nýjustu græjum, með tilheyrandi gríðarlegum kostnaði? Getur verið að það sé mikilvægara að nýta fjármunina, sem munu vera takmarkaðir, til að reyna að tryggja með öllum ráðum að enginn nemandi ljúki grunnskóla án þess að hafa náð að minnsta kosti góðum tökum á lestrartækninni?

Læsið í öndvegi – „…ekki verður undan því vikist…“

Í nýjustu menntastefnu stjórnvalda, bæði lögum og aðalnámskrám, er læsi sett í öndvegi, ásamt þessum lykilhugtökum: jafnrétti, lýðræði, menntun til sjálfbærni og skapandi starfi. Félagsvísindastofnun HÍ tók út lestrarkennslu í 10 grunnskólum skólaárið 2008-9 fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Þar kom meðal annars fram að markvissri lestrarkennslu er hætt allt of snemma í grunnskólum, og það bitnar auðvitað harðast á þeim sem síst skyldi – nemendum sem eiga í erfiðleikum í upphafi lestrarnáms (Katrín Jakobsdóttir, 2010, „Læsi sett í öndvegi í nýrri menntastefnu“, 7). Skipulögð lestrarkennsla virðist, skv. úttektinni, gufa upp að mestu eftir 3. bekk grunnskólans, þegar börnin eru að verða 10 ára gömul! Í kjölfarið skipaði ráðuneytið starfshóp til að „fylgja úttektinni eftir og einnig að skilgreina lestur í víðum skilningi og læsi sem eina af grunnstoðum í menntakerfinu“ (Katrín Jakobsdóttir, 7). En læsi er fleira en að kveða að. Fyrrnefndur starfshópur skilgreinir það svona: „„Í læsi felst að búa yfir þekkingu og leikni til að skynja, skilja, túlka, gagnrýna og miðla texta til að mæta kröfum samfélagsins og einstaklingsins. Með texta er átt við ritmál, myndmál, talmál og önnur kerfi tákna““ (Katrín Jakobsdóttir, 7). Allir sjá að langur vegur er frá því læsi að stauta sig í gegnum Gagn og gaman og að þessari „djúpu“ skilgreiningu ráðuneytishópsins.

Þó lesskilningur íslenskra nemenda komi betur út í PISA könnun 2009 en sambærilegum könnunum fram að því (Katrín Jakobsdóttir, 6) er ljóst að betur má ef duga skal. Og spjaldtölvur munu ekki ríða þann baggamun. Lestrarnámið mun hér eftir sem hingað til „vera grundvallarforsenda í öllu skólanámi“ (Katrín Jakobsdóttir, 7) og læsið „er svo mikilvægur þáttur í lífi einstaklings að ekki verður undan því vikist að vinna eins vel og unnt er að því að efla það og bæta“ (Guðmundur B. Kristmundsson, „Molar um læsi“, 9).

Mikilvægt er að allir átti sig á því að hér er um að ræða alvarlegt mál. Það varðar ekki aðeins líf, heill og hamingju hvers einstaklings heldur grundvöll mannlegs samfélags. Ef hluti samfélagsins er ólæs, hvort sem er í hinni þrengstu skilgreiningu hugtaksins eða þeirri sem starfshópur ráðuneytisins setti fram, er tómt mál að tala um „opið og gagnsætt samfélag“, hvað þá raunverulegt „lýðræðissamfélag“. Því „verður ekki undan því vikist“ að kenna öllum að lesa og gera hverjum og einum grein fyrir því „að læsi er eitthvað sem hann getur þroskað og eflt og það er hans eign sem ekki verður með nokkru móti af honum tekin“ (Guðmundur B. Kristmundsson, 10).

Skyndilausnir og græjur?

Skyndilausnir eins og fyrrnefndar tækninýjungar, og oftrú á að þær leysi af sjáfum sér einhvern vanda, eru skaðlegar. Til þess að tæknin nýtist öllum, helst sem jafnast, á leið sinni til þroska verður að byggja traustan grunn. Sá grunnur er læsi. Nú eru of margir nemendur illa eða ólæsir í skólakerfinu, hvort sem er grunnskólum eða framhaldsskólum. Það er óviðunandi. Illa eða ólæsum nemendum gagnast ekki aukin fjölbreytni í kennsluaðferðum eða námsframboði. Fleiri og fleiri námsleiðir geta á hinn bóginn sett strik í reikninginn og leitt athyglina frá því eina sem máli skiptir fyrir nemendur í þessari stöðu: að þeim sé kennt að lesa.

Aukinn aðgangur að upplýsingum, og sífellt fjölskrúðugri og öflugri tækni, gerir líka auknar kröfur til skólakerfisins. Það er ekki nóg að kunna að lesa gullaldarbókmenntir sem valdar eru fyrir nemendur, og að þeim réttar við fyrirfram ákveðin tækifæri. Krafan um að nemendur séu færir um „að skynja, skilja, túlka, gagnrýna og miðla“ margfaldast, því margt býr í netþokunni.

Þessar vangaveltur má enginn skilja sem svo að tækni sé einhver djöfull sem beri að forðast eins og heitan eldinn. Aðeins varúðarorð gegn því að okkar ágæta skyndilausna- og græjuóða þjóð fari á hvolf yfir því að komnar séu á markað spjaldtölvur, og gleymi kjarna málsins í gleðinni.

Bókin blífur

Bækur hafa í gegnum tíðina verið grundvöllur menntunar. Þeir sem hafa haft aðgang að bókum, og getað lesið þær, hafa fengið í kaupbæti forskot að sælunni. Og bókin blífur, ekki bara þessi úr pappír og prentsvertu heldur er „rafbókin“ nú komin til að vera. „Helsti kostur rafbóka fram yfir prentuðu bókina er að lesandinn stjórnar lestrarupplifuninni. Lesandinn getur aðlagað rafbókina að sínum þörfum með því að stjórna stærð texta, leturgerð, lit texta og bakgrunns og getur stækkað og minnkað myndir. Þetta eru dýrmætir möguleikar sem veita ýmsum hópum svo sem lesblindum, sjóndöprum og blindum aukið aðgengi að bókum“ (Óskar Þór Þráinsson, „Rafbækur í skólastarfi“).

Rafbækur er hægt að lesa nánast í hvaða tæki sem er. Það þarf ekki að kaupa sér nýja spjaldtölvu eða i-Pad eða sérhönnuð lestæki, eða hvað allar græjurnar nú heita. Gamla fartölvan í skólatöskunni og borðtölvan heima eða á bókasafninu duga í flestum tilvikum (Óskar Þór Þráinsson).

Tækniframfarir gagnast lítið ólæsum

„Það er næsta víst“ að þessir fyrrnefndu eiginleikar rafbóka koma til með að hjálpa til við lestrarkennslu og þær munu auka aðgengi að hverskyns lesmáli. Fátt „gefur manni meira en að lesa góðan texta sér til ánægju og fróðleiks. Í heimi bókmenntanna er falin mikil viska og fegurð“ (Katrín Jakobsdóttir, 7) en þeirri fegurð og visku verða illa og ólæsir af. Það er mikil ábyrgð fólgin í því að senda börnin ólæs upp í framhaldsskólana og svipta þau þannig stórkostlegum lífsgæðum – taka frá þeim hálfan heiminn, ef ekki meira. „Gott og traust læsi þjóðar er auður sem ekki verður metinn til fjár en Ísland verður metið í samfélagi þjóðanna meðal annars út frá stöðu þess“ (Guðmundur B. Kristmundsson, 11).

Græjur og tækni eru vissulega til síns brúks en gleymum því aldrei að aukið aðgengi að upplýsingum og lesmáli (í hvaða mynd sem er) gagnast aðeins læsum.

 

Heimildir

Guðmundur B. Kristmundsson. 2010. „Molar um læsi“. Skíma. Málgagn móðurmálskennara, 33, 2: 8-11. Ritstjóri Svanhildur Kr. Sverrisdóttir. Samtök móðurmálskennara, Reykjavík.

Hjálmar Árnason. 2012. „Um spjaldtölvur og byltingar“. Fréttablaðið, 2. apríl, bls. 16.

Katrín Jakobsdóttir. 2010. „Læsi sett í öndvegi í nýrri menntastefnu“. Skíma. Málgagn
móðurmálskennara, 33, 2: 6-7. Ritstjóri Svanhildur Kr. Sverrisdóttir. Samtök
móðurmálskennara, Reykjavík.

Óskar Þór Þráinsson. 2012. „Rafbækur í skólastarfi“. Fréttablaðið, 3. apríl, bls. 24.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *