Samkomulag um ekkert – og út í bláinn

Það er athyglisvert að enginn, ENGINN, sem tjáð hefur sig um samkomulag milli samninganefnda framhaldsskólakennara og ríkisins telur að um sé að ræða gott samkomulag. Meira að segja þeir sem mæla heldur fyrir því, forysta Félags framhaldsskólakennara og samninganefndarfólk, viðurkenna svikalaust að þetta er lélegt samkomulag hvað varðar launakjör kennara. Enda er samkomulagið SVO AUMT hvað þetta varðar að útilokað er annað en að viðurkenna það.

Hvað er það þá í samkomulaginu, sem samninganefndin okkar telur svo mikilvægt framfaraskref, að það geri meira en að bæta úr algerri katastrófu á þeim lið kjarasamninga sem öllu máli skiptir fyrir flesta?

Það er tvennt.

Í fyrsta lagi gerir ríkisvaldið um það samkomulag við kennarastéttina að það ætli á næstunni að leggja fram örlítið brot af þeim fjármunum sem það kostar að innleiða nýjustu framhaldsskólalögin, til að kaupa fáeina vinnutíma af kennurum í því skyni.

Í öðru lagi ætlar ríkisvaldið að skipa fulltrúa af sinni hálfu í nefnd með kennurum, til að endurskoða vinnutíma þeirra, svo hægara verði, að sögn, að koma almennilega í framkvæmd lögum sem ríkið hefur samþykkt á Alþingi. Nefndinni er ætlað að skila tillögum um breytingar á vinnutíma kennara áður en næsta kjarasamningalota hefst, væntanlega í upphafi árs 2014.

Þetta er nú allt og sumt. Hvers vegna ættu kennarar að leggja í kostnað við allsherjaratkvæðagreiðslu út af þessu?

Allt það sem í samkomulaginu felst, og samninganefndin okkar telur svo mikilvægt að það yfirskyggi launaliðinn, má gera án þessa viðauka við gildandi kjarasamning kennara: Ríkisvaldið sendir bara eins mikla peninga út í skólana, í innleiðingu og námskrárgerð, eins og það treystir sér til á hverjum tíma. Svo einfalt er það. Það mun vera á ábyrgð ríkisins að framfylgja lögum, og standa undir kostnaði við þau, en ekki stéttarfélaga.

Þannig að ég segi glaður við fulltrúa fjárveitingavaldsins: Komið bara með peningana, ef þið viljið fullkomna lögin ykkar. Það verða örugglega margir kennarar fegnir að fá nokkra tíma í yfirvinnu fyrir jólin.

Og ríkisvaldið getur hæglega óskað eftir því við forsvarsmenn kennarastéttarinnar að stofnuð verði nefnd þessara aðila til að ræða vinnutímaskilgreiningar stéttarinnar. Til þess þarf ekki þennan ónýta klíning utan á kjarasamninginn. Ef ríkið er sannfært um að þetta séu góð lög sem mikilvægt er að koma í fulla framkvæmd sem fyrst, og vinnutími kennara sé hindrun á þeirri vegferð, hlýtur þá ekki samninganefnd þess að mæta á fundi samviskusamlega? Ekki mun standa á fulltrúum kennara að mæta.

Ef þetta tvennt, innleiðingarpeningarnir og vinnutímanefndin, er tekið út fyrir sviga, því ástæðulaust með öllu er að tengja það samningum um launakjör, hvað er þá eftir?

Þá er aðeins eftir niðurlægjandi „launahækkun“ upp á svona 4 þúsundkalla á mánuði núna og 2 þúsundkalla til viðbótar eftir 13 mánuði. Á sama tíma og fyrir liggur að umsamin viðmiðunarlaun eru orðin 60 þúsundköllum hærri á mánuði en framhaldsskólakennaralaun.

Þar með er samkomulag þetta sjálffellt. Og ekki orð um það meir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *