Snúum vörn í sókn – fellum samkomulagið

Mennta- og menningarmálaráðherra skrifar í Fréttablaðið í gær, 9. nóvember, þar sem hún reynir að sýna fram á að „nú liggi leiðin upp á við“ í menntakerfi landsins og tiltekur sérstaklega framhaldsskólana. Hún segir að eftir niðurskurðar„átak síðustu ára verður mögulegt að snúa vörn í sókn“ og þess sjái „þegar stað í frumvarpi til fjáraukalaga þar sem gert er ráð fyrir aukafjárveitingu til framhaldsskóla“ og að auki sé „gert ráð fyrir viðbótarfjármagni til framhaldsskóla fyrir aðra umræðu fjárlagafrumvarps.“

Þarna vísar ráðherra væntanlega til þeirra 216 milljóna sem lofað er, í samkomulagi samninganefndar ríkisins og KÍ f.h. FF, til vinnukaupa af kennurum við námskrárgerð, til eflingar náms- og starfsráðgjafar og til stuðnings nýliða í kennslu, auk 3ja% hækkunar á launataxta framhaldsskólakennara á næstu 13 mánuðum.

Ráðherra ítrekar í grein sinni að aukin vinnukaup af kennurum, eða „aukin fagleg forysta kennara og þróunarvinna“ eins og hún orðar það sjálf, eru lykilatriði til þess að innleiðing nýrra námskráa gangi eftir.

Í grein sinni veitir Katrín Jakobsdóttir ágæta innsýn í það hve álag á kennara og annað starfsfólk framhaldsskólanna hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Niðurskurðurinn hefur í fyrsta lagi leitt til stórfjölgunar nemenda í námshópum, raunar út yfir öll velsæmismörk með tilliti til vinnusiðferðis, að ekki sé talað um þá forsmán á faglegri sýn á gæði skólastarfs sem í þessu felst.

Í öðru lagi hafa framhaldsskólarnir á sama tíma „tekið við fleiri nemendum en nokkru sinni fyrr undir merkjum átaksins Nám er vinnandi vegur“ og í þriðja lagi hafa framhaldsskólakennarar unnið mikla þróunarvinnu við samningu og innleiðingu námskráa vegna nýjustu framhaldsskólalaganna.

Í öllum niðurskurðinum hafa kennarar framhaldsskólanna sem sagt þurft að þola stóraukið álag í starfi sínu og bæta þar fyrir utan á sig meiri vinnu og fleiri verkefnum, án þess að þess sjái nokkurn stað í launum þeirra.

„Þegar kjör íslenskra kennara“, segir menntamálaráðherra, „eru borin saman við kjör starfssystkina þeirra í nágrannalöndum okkar komum við Íslendingar því miður ekki nægilega vel út.“ Þetta vitum við og svo hefur verið lengi. Raunar eru fá teikn á lofti um að kjör íslenskra kennara verði nokkurn tíma tengd við launakjör kennara í nágrannalöndunum. Slíkar hugmyndir eru víst aðeins fyrir skýjaglópa, því illa gengur að standa við umsamin viðmið innanlands.

Áður en ráðherra fer að velta upp slíkum skýjaborgum væri nær að hún beitti sér af hörku fyrir því að staðið yrði við bókanir sem gerðar voru með síðasta kjarasamningi um að leiðrétta skyldi jafn óðum, ef í ljós kæmi launamunur milli félagsmanna í FF og FS annars vegar og viðmiðunarstétta innan BMH hinsvegar. Nú er þessi launamunur um 60 þúsund krónur á mánuði að meðaltali.

Ráðherra endar grein sína á frómum óskum um að kennarar samþykki fyrirliggjandi samkomulag og „það verði einn liður í að bæta kjör kennara og efla stöðu þeirra“.

Því miður er ekkert í þessu nýja samkomulagi sem vísar þann veg. Sexþúsund króna launahækkun á næstu 13 mánuðum segir lítið upp í 60 þúsund króna gap. Og kennarar líta ekki heldur á það sem sérstakan virðingarvott eða mikla eflingu á stöðu sinni að gert sé skriflegt samkomulag um það að ríkisvaldið ætli loksins að fara að greiða þeim yfirvinnu samkvæmt taxta kjarasamnings fyrir örfáa tíma við innleiðingarvinnu, í staðinn fyrir þær ólöglegu „sjóræningjagreiðslur“ fyrir þessi störf sem viðhafðar hafa verið undanfarin ár, skv. orðum forsvarsmanna samninganefndar framhaldsskólakennara.

Kennarar ættu því alls ekki að samþykkja þetta samkomulag. Engin rök hníga til þess. Þeir hafa núna gullið tækifæri til að snúa vörn í sókn með því að fella samkomulagið og hefja raunverulega baráttu fyrir kjörum sínum og starfsheiðri – og um leið bættu skólastarfi.

Betra menntakerfi verður ekki reist á þrautpíndum og útjöskuðum kennurum á lágmarkslaunum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *