Vaktmaður betra lífs

Tveir góðkunningjar mínir gáfu út ljóðabækur í haust, Jón Hjartarson og Pétur Önundur Andrésson. Um þær hefur verið heldur hljótt, enda ekki náð eyrum þeirrar elítu sem stjórnar bókmenntaumfjöllun í þessu landi og talar við sjálfa sig á víxl í fjölmiðlum. Þær eru þó þess verðar að séu lesnar, og hafðar á náttborðum til að grípa í í framhaldinu.

Pétur Önundur er ódeigt ljóðskáld og gefur sínar bækur út sjálfur. „Þögn vatnsins“ er að því er næst verður komist níunda ljóðabók hans. Pétur yrkir aðgengileg ljóð á skiljanlegu máli, en rembist ekki við að vera torræður og myrkur. Það er ró yfir einföldu ljóðmálinu, sem leiðir lesandann í djúpa dali hugans, þar sem friðsæld ríkir og einlægni.

Náttúran skipar stóran sess í þessari bók, landið, gróðurinn, dýralífið, og fléttast saman við minningar höfundarins.

„Vorkoma

sumarbyrjun

marka líf þitt

eins og lítið lamb

svo þú þekkir

upp frá því

hamingjuna

á litnum“

 

Ljóðin eru hápólitísk en hvergi að finna boðunartón, stríðsrekstur, jafnt úti í hinum stóra heimi sem gegn náttúrunni, er afgreiddur með sömu stóisku rónni og bernskuminningar.

„Greiddu hár þitt

kolsvarta tíð

fléttaðu í það vor

gróandann

fangaðu ilminn

megnan af lífi og ást

greiddu gangstíg draumsins

vaktmaður betra lífs“

 

og

 

„Múr sem féll

reistur af

hugsjónamönnum

harðstjórum sjálfshyggjunnar

hruninn vegna smitandi isma

draumum auðsins

gamlir garðar sögunnar

réttlæta ekki nýja“

 

Öll hugsun og boðskapur Péturs rennur fram í þungum straumi en án boðafalla. Hann yrkir

 

„fyrir venjulegt fólk

lesið syngið elskið

mætist á miðri leið

og hlustið“

 

Það er hægt að ferðast um þessa bók í einum áfanga án þess að hnjóta í úfnu orðahrauni. En þangað er líka hægt að fara aftur og aftur og nesta sig í friðsælum lautum.

 

Segja má að Pétur Önundur sé sannkallaður „vaktmaður betra lífs“.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *