Af skurðgreftri

Ég heyrði einu sinni af flokki manna (konur eru líka menn) sem hafði verið ráðinn til þess að grafa skurði, eða rásir, í gegnum mikinn malarkamb svo hægt væri að veita vatni á frjóan, en þurran jarðveg handan kambsins. Til verksins höfðu verkmenn skóflur, ágætar malarskóflur.

Ekki fylgir sögunni hvar á jarðarkringlunni sagan gerðist, en verkið mun hafa verið á vegum hins opinbera þar í landi og um samdist að það teldist fullt dagsverk að grafa 100 metra langan skurð á mánuði, u.þ.b. metersdjúpan og hálfsmetersbreiðan.

Svo hófu menn gröftinn. Eitthvað voru afköstin misjöfn, eins og gengur, og dæmi um að sumir væru lengur að fram á kvöldið. Skipti og sjáanlega miklu máli hvernig jarðvegurinn var. Stórgrýti og klappir töfðu verkið á köflum en þess á milli var þetta gljúpur sandur og auðmokaður. Ýmis frávik fylgdu og störfum þessum, leggja þurfti skóflublaðið á reglulega, skipta um brotið skaft o.s.frv.

Að nokkrum tíma liðnum fór að sneiðast um þolinmæði beggja aðila, verkamanna og verkkaupa. Verkamenn kröfðust hærri launa, enda verkið erfitt og vandasamt, og jafnframt ákaflega mikilvægt, enda áveitan lykillinn að bættum framtíðarhag ríkisins. Ríkið taldi á móti að afköstin væru ekki næg, og benti m.a. á meiri afköst í öðrum löndum máli sínu til stuðnings (þó þar væri að vísu víðast grafið með vélskóflum).

Samkomulag varð um að ríkið myndi hækka launin ef vinnan yrði endurmetin og hætt að miða við lengdareininguna. Var þá verkafólkið látið telja alla steina og sandkorn sem þeir mokuðu dag hvern. Þessari talningu skyldu þeir sinna til viðbótar sínum daglega mokstri. Launin yrðu svo miðuð við fjölda mokaðra sandkorna en ekki lengd mokaðrar rásar eins og áður hafði verið. Nýtt reiknilíkan var smíðað: Fjöldi sandkorna/100m –  á mánuði fyrir fullt starf.

Við talningu kom í ljós að þegar allir höfðu mokað sína 100 metra vantaði upp á fjölda sandkorna hjá sumum, mismikið eins og gengur. Nú var þeim boðið að bæta upp þennan sandkornafjöldaskort með öðrum störfum, t.d. við brýnslu, skófluskeftingu o.s.frv. eftir þörfum hverju sinni, svo hægt væri að greiða þeim full og umsamin laun – á nýjum og hærri taxta.

Aðrir náðu að fylla upp í umsaminn sandkornafjölda og þurftu ekki að taka að sér aukastörf. En allir … „undu glaðir við sitt / færandi mölina til“…, eins og eitt góðskáldið komst svo snilldarlega að orði á þeirri hátíðarstundu þegar nýja samkomulagið var undirritað.

Nú voru allir sáttir, enda framfarirnar í skurðgreftri ríkisins augljósar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *