Hin kristilegu kærleiksblóm

Hvað er „kristilegt siðferði“? Hver eru „hin kristnu gildi“ sem öfgafullir hægrimenn tönnlast á að séu nú í stórhættu hér á landi og þurfi að verja með öllum ráðum, aðallega fyrir „innrás“ fólks úr öðrum menningarhefðum? Helstu meðulin til varnar kristnu siðferði í landinu virðast vera að loka landamærunum og reka útlendinga heim til sín, kenna Biblíusögur í grunnskólum og reka konur aftur inn á heimilin, til undaneldis og barnauppeldis. Þannig verði „Ísland frábært aftur“, svo vitnað sé í slagorðin. Róið er undir hatri á útlendingum, á ólíkum menningarheimum, á öllu frjálsræði, og háðsleg fyrirlitning er berlega látin í ljós gagnvart auðsýndri umhyggju fyrir náunganum.
 
Þegar ég var að alast upp kenndi móðir mín mér, með dyggri aðstoð barnaskólakennarans Rósu B. Blöndals, að kristilegar dygðir fælust einkum í því að fyrirgefa, koma vel fram og af virðingu, að elska náungann, að hjálpa þeim sem á þyrftu að halda, að sýna hógværð en hreykja sér ekki, finna til samlíðunar með öðrum og sýna kærleika bæði í orði og verki.
 
Hinsvegar var látið skýrt í ljós að sundurlyndi, reiði, hatur, misskipting, sjálfselska, hroki og yfirlæti, baktal og niðurlæging, brottrekstur, einelti, ofbeldi og útskúfun, græðgi og sérgæska væru lestir, með öllu ósæmilegir og ókristilegir. Og þó mamma hafi af hjartagæsku sinni auðvitað aldrei farið út í helvítisóttapredikanir, þá var helvíti og djöfullinn sjálfur á sínum vísa stað í vitundinni.
 
Ég hef reyndar ekki farið í messu lengi og því kann að vera að kominn sé nýr boðskapur um kristnar dygðir; að Jesú bróðir besti leyfi börnunum ekki lengur að koma til sín, heldur hreki þau með skömm á brott, meðan hann graðgar sjálfur í sig öllum fiskinum og öllu brauðinu, að hann sé ekki lengur „hinn góði hirðir“ sem vakir yfir öllum sauðum sínum, heldur aðeins þeim hvítu og kollóttu en sigi hundinum í og flæmi burt þá svörtu, mórauðu og flekkóttu, að hann kasti nú sjálfur fyrsta steininum í afvegaleidda, sjúka og stríðshrjáða?
 
Ef svo er, þá er Miðflokksfólk og málgagn þess, Morgunblaðið, vissulega með sína kristinfræði á hreinu.
 
Hinsvegar þykist ég vita að svo er alls ekki, heldur að hinn kristilegi kærleiksboðskapur sé enn sá sami og hafður var fyrir mér í bernsku.
 
Öfgahægrið á Íslandi, eins og í vaxandi mæli um allan „hinn kristna heim“ er því, þvert á hástemmdar yfirlýsingar, að boða andkristilega stefnu, ósæmilegt siðferði, að gera strandhögg á eilífðarlandið og róa „lastafleyi andskotans“ til hafnar, svo gripið sé til orðfæris rétttrúnaðarins.
 
Daðra, með dapurlegt negg
og deilur um keisarans skegg,
við sundrungarfjandann
en sannkristna andann
sækja með oddi egg.