Skipulagsslys handa framhaldsskólum

NÝTT STJÓRNSÝSLUSTIG:
Svæðisskrifstofur sérfræðinga fyrir framhaldsskólana
 
Í gær tilkynnti barna- og menntamálaráðuneytið að væntanlegar væru kerfisbreytingar á rekstri opinberra framhaldsskóla. Stefnt væri að því að stofna fjórar til sex svæðisskrifstofur sem tækju við „stjórnsýsluhluta stjórnunar“ skólanna, og einhverju fleiru.
 
Hvað þýðir þetta? Hver er stjórnsýsluhluti stjórnunar?
 

Halda áfram að lesa

Er menntun besta betrunin

Undanfarið hefur töluvert verið fjallað um fangelsismál í fjölmiðlum. Þátturinn Kveikur á RÚV 30. janúar sl. var lagður undir málefnið undir fyrirsögninni „Fangar í óboðlegum aðstæðum“, í mörgum þáttum á Samstöðinni og í Heimildinni hefur verið fjallað um stöðu og aðbúnað fanga, og svört skýrsla ríkisendurskoðunar um Fangelsismálastofnun var til umfjöllunar í flestum fjölmiðlum skömmu fyrir síðustu áramót. Halda áfram að lesa

TÖLFRÆÐI FRAMFARA OG BÆTINGA – EÐA STÖÐNUNAR OG AFTURFARAR?

Í töflunni sem fylgir hér neðst er skrá yfir ‚mínútur spilaðar‘ og ‚framlag‘ „heimaaldra“ (homegrown), íslenskra leikmanna sem spila meira en 3 mínútur að meðaltali í Bónusdeild karla, eftir 13 umferðir, á yfirstandandandi leiktímabili, 24-25. Einnig eru sýndar sömu tölur fyrir næstliðið leiktímabil, 23-24 (eða það tímabil sem þeir spiluðu síðast, ef þeir spiluðu ekki í fyrra). Öftustu dálkarnir í töflunni sýna samanburð á mínútum og framlagi á yfirstandandi tímabili og „besta“ tímabili leikmannsins á ferlinum (eða síðasta virka). „Afturför“ eða samdráttur er sýndur með rauðum mínustölum en bæting / framför með bláum tölum.

Halda áfram að lesa

Áramótakveðja 2024

 

Við gnægtir alls er vært að vera til.

Var vöggugjöfin happakerti’ og -spil?

Þau sem fengu öruggt skjól og yl

af sér geta staðið hríðarbyl.

 

Í norðri loks á himni hækkar sól,

þar haldin eru gleði’ og friðarjól.

En þó er víða helstríð heims um ból,

herja fantar, með sín vígatól.

 

Þegar slær að þræsingur og él,

þankagangur lokast inni’ í skel,

þá er alltaf gott að gera vel,

gleðja aðra, sýna vinarþel.

 

Ef allir vildu þerra tregatár,

tætt og rifin græða innri sár,

lífsins ganga yrði ‘ferð til fjár’

og friðar nyti mannkyn hvert eitt ár.

 

 

Jólakveðja 2024

Blasa við hörmungar heiminum í.

Hvenær gefum við illskunni frí?

Hvað er fallegra’ en friður á jörð?

Hví forðast mannkynið sáttagjörð?

Þurfum við þrautum að valda?

 

Um kúgun og ójöfnuð vitum við vel,

um vonleysi, fátæktar lokuðu skel.

Þó þrotlaust um ævi sé stritað við starf,

stöðugt allsnöktum keisurum þarf

blóðug gjöldin að gjalda.

 

„Meðaltalskaupmáttur mikill“, er sagt,

og í moðsuðu’ um jöfnuð útaf því lagt

en lítið það dugar um mánaðamót

ef matbjörg er þrotin, engin sést bót,

og herðir að krumlan hin kalda.

 

Sá aðeins telst maður sem ætíð er hress

á yfirsnúningi, dæmdur til þess

að fljóta viljalaus meginstraumi’ með,

á móti að róa er ekki vel séð,

í móinn ei vinsælt að malda.

 

Að berjast í nauðum við heiminn er hart,

því hamingju kjósum, að útlit sé bjart.

Á mennina kökunni misjafnt er skipt

og mörg þykka sneiðin með rjóma er typpt,

en enginn þarf á því að halda!

 

Þó „allt sé í heiminum hverfult“ og valt

við hér saman dveljum, þrátt fyrir allt,

svo kynþátta milli byggjum nú brú

og biðjum að kærleikur, von og trú

lifi um aldir alda.

Af lötum, oflaunuðum kennurum, sem alltaf eru veikir á fundum, í undirbúningi og í fríi

Á ég að nenna að skrifa þennan pistil enn einu sinni? hugsaði ég í morgunsárið þegar ég drakk kaffið mitt, svældi í mig brauðrudda með osti og hlustaði á morgunútvarpið. Þar var búið að draga að hljóðnemanum á Rás 2 formann samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga í kjaradeilu við Kennarasambandið. Í stað þess að sitja við samningaborðið og reyna að þoka málum í samkomulagsátt var formaðurinn sendur að hella olíu á eldinn með enn einni aðförinni sem dunið hefur á kennarastéttinni undanfarna daga og vikur, og opinbera um leið vanþekkingu yfirboðara sinna á kennarastarfinu, með rangfærslum og ósannindum. Halda áfram að lesa

Um gagnslausa kennara og velferð ungs fólks

Ég þóttist vita af langri reynslu að ekki liði á löngu frá verkfallsboðun KÍ þar til einhver ofvitinn kæmi fram í fjölmiðlum með speki sína um kennara. Það má segja að gáfumannatalið hafi komið úr viðeigandi stað, beint upp úr strjúpanum á borgarstjóranum, næstæðstu fígúru Framsóknarflokksins og yfirmanns fjölmennustu sveitar kennara, við dynjandi lófaklapp og húrrahróp sveitarstjórnarfólks og starfsfólks sveitarfélaganna í landinu. Halda áfram að lesa

Skerðing lífeyrisréttinda: Eru undirskriftirnar pappírsins virði?

Einhverjar verstu hrakfarir kennarasambandsins í kjaramálum, alla vega á kennaratíð undirritaðs en sennilega fyrr og síðar, eru annars vegar samþykkt sk. vinnumats í framhaldsskólum 2014 og afsal ákv. lífeyrisréttinda með undirritun samnings þar um 2016. Það var þann 19. september 2016 sem forystumenn samtaka opinberra starfsmanna, BSRB, KÍ og  BHM, annars vegar, og vinnuveitendur þeirra hins vegar,  ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga, skrifuðu undir  samkomulag „um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna“.

Undir skjalið rituðu f.h. ríkissjóðs Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, f.h. SÍS Halldór Halldórsson formaður og Karl Björnsson frkv.stj., f.h. opinberra starfsmanna Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, og Þórður Hjaltested, formaður KÍ.

Tilgangurinn með samkomulaginu var að „koma á samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn“, þ.e. að samræma lífeyrisréttindi á annars vegar almennum og hins vegar opinberum vinnumarkaði, en lengi höfðu lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna verið þyrnir í augum annarra, t.d. samtaka atvinnurekenda, forystusveitar ASÍ og ýmissa starfsstétta á almennum vinnumarkaði. Halda áfram að lesa