Skóli í fangelsum 40 ára

Í haust eru 40 ár síðan formlegt skólahald hófst í fangelsum á Íslandi. Við stofnun Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 1981 var kennsla í fangelsinu á Litlahrauni eitt af því sem fylgdi með Iðnskólanum á Selfossi inn í hina nýju stofnun. Allt frá 1970 höfðu fangar notið leiðsagnar velviljaðra á Eyrarbakka í föndri og trésmíði en þegar Helgi Gunnarsson tók við sem forstöðumaður vinnuhælisins árið 1973 fóru hjólin að snúast. Árið eftir fékk hann kennara við barnaskólann á staðnum til kennslu en hafði samt háleitari áform; að fangar gætu lokið iðnnámi, og hugsanlega öðru námi, meðan þeir afplánuðu dóma.  Halda áfram að lesa

Áramótakveðja ’23 – ’24

Vélabrögð af verstu sort í veröldinni

vekja núna sorg í sinni,

sé ei von að þessu linni.

 

Áralöng er óöldin í Úkraínu.

Þrælahald, við þurft og pínu.

Þjóðarmorð í Palestínu.

 

Starað. Tekin staða gegnt og steyttir hnúar.

Hvergi skilningsbilið brúar

barnamorð, í nafni trúar.

 

Skinhelgin er skelfileg í skertum heimi.

Sem sig á asnaeyrum teymi

yfirvöld, og siðum gleymi.

 

Er þá bara ekkert fyrir oss til ráða?

Horfa upp á aðra smáða?

Undan líta? Hunsa þjáða?

 

Stórt er spurt! En stöndum upp, og staðföst munum:

Þessu líku aldrei unum!

Hið eina svar við spurningunum.

 

Heimsins lýður hamingju og heilsu njóti.

Mitt nýársheit: Að mæla móti

meinsemdum, þó skammir hljóti.

 

Jólakveðja 2023

Þó láti glatt, um greiðan veg í skjól,

þín gengin spor

er ferðalagið engum aðeins sól

og eilíft vor

en mörgum tamt að tefja lítið við,

að týna sér í fjöldans raddaklið.

 

Er unum sæl við stundarglys og glaum

við gleymum því

að ljósi, sem þarf að eins lágan straum,

ei lifir í;

því heimsins gæðum gjarnan rangt er skipt

svo gleði, von og lífi fólk er svipt.

 

Ég finn í hjarta sorg og sinnuskort,

já, sáran sting,

þó gæfan hafi margan óðinn ort

mig allt um kring.

Er borin von að trúin flytji fjöll,

að flærð sé eytt, í kærleik lifum öll?

 
(Lag: Lýs, milda ljós: Charles Henry Purday / Matthías Jochumsson)

 

 

Spillingarsaga V – Landssímasukkið hið síðara

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023: bls. 299-307).

Elítan í Sjálfstæðisflokknum gjörnýtti sannarlega ríkisfyrirtækið Landssímann til óhæfuverka á markaði. Segja má að frjálshyggjupostularnir hafi ríkisvætt hátæknigeirann og sukkað gróflega með opinbert fé til að koma einkafyrirtæki fyrir kattarnef og hindra samkeppni. Fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar var samið og lagt fram til að drepa Norðurljós og Stöð 2, enda í „óæskilegri eigu“. Þegar sú vegferð (sem væri fullt tilefni til að rekja hér, en einhvers staðar verður að setja mörkin) fór út um þúfur þurfti Davíð að beita öðrum meðulum en löggjafarvaldinu til að drepa samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Elítan hafði fulla stjórn á ríkismiðlunum og nú var Landssímanum beitt eins og hverju öðru stríðstóli gegn hinu voðalega fyrirbæri: „Frjálsri samkeppni“. Halda áfram að lesa

Spillingarsaga IV – Landssíminn  spillingarvæddur

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023).

Landssími Íslands, síðar Landssíminn, réði um miðjan 10. áratug 20. aldar yfir miklum auði og þekkingu í skjóli einokunar á símaþjónustu, m.a. ljósleiðaranetinu. Að honum sneri Eimreiðarelítan græðgisglyrnum sínum, eftir stöðugar ófarir við að koma á fót einkarekinni sjónvarpsstöð (Stöð 3), í valdafíkn sinni yfir fjölmiðlun í landinu. Halda áfram að lesa

Spillingarsaga III – BÚR í Hvalskjaft

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023).

Áður en kemur að Landssíma Íslands, einhverju hroðalegasta dæminu um einkavæðingarspillingu í Íslandssögunni, er gott að skoða upphaf spillvæðingarinnar.

Eitt fyrsta verk Davíðs Oddssonar, eftir að hann tók við embætti Borgarstjóra í Reykjavík 1983, var að hefja einkavæðingarferli Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Ferlið hófst með því að Davíð „rak umsvifalaust tvo framkvæmdastjóra BÚR og réð stórvin sinn og félaga úr Eimreiðarhópnum, Brynjólf Bjarnason, sem framkvæmdastjóra, án auglýsingar. Mann sem aldrei hafði stýrt útgerð en hafði góða reynslu af bókaútgáfu Sjálfstæðisflokksins í Almenna bókafélaginu“ (bls. 103). Halda áfram að lesa

Spillingarsaga II – að „fara vel með annarra manna fé“

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023).

Í síðasta pistli var rakin árásin á Ríkisútvarpið. Það er fróðlegt að skoða þá umfjöllun í samhengi við viðtal við Auðun Georg Ólafsson í Heimildinni #26 (26. tbl., 1. árg. 20.-26. okt. 2023, bls. 24-28). Þar kemur skýrt fram að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði, auðvitað í samkrulli með Framsóknarflokknum í helmingaskiptaspillingunni, að munstra í fréttastjórastólinn hjá fréttastofu sjónvarpsins einstakling sem ekki var metinn faglega hæfastur, en klíkan taldi að yrði sér leiðitamari en aðrir umsækjendur. Ráðningunni var harðlega mótmælt. Halda áfram að lesa

Spillingarsaga I – Glæpur skekur ríkisútvarpið (skrifað 15.10.2023)

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar: Eimreiðarelítan – Spillingarsaga  (Steinason ehf. Reykjavík, 2023, bls. 111-116).

Hinn víðfemi forarpyttur Kolkrabbans sem hefur seitlað úr um allt þjóðfélagið, a.m.k. allan lýðveldistímann fram á okkar daga, er illþefjandi. Eimreiðarelítan komst til valda í borginni, og Sjálfstæðisflokknum með kjöri Davíðs Oddssonar upp úr 1980, og hóf þegar gegndarlausa valdasókn á öllum sviðum samfélagsins. En löngu fyrr var hafið „menningarstríð“, með stofnun Almenna bókafélagsins 1955. Halda áfram að lesa

Er Reykjavík verst rekna sveitarfélagið?

Mikið hefur verið rætt og ritað um slaka fjárhagsstöðu sveitarfélaganna undanfarið – og sú umræða hefur svo sem verið viðvarandi í áratugi, a.m.k. allar götur sína ég hóf þátttöku í sveitarstjórnarmálum fyrir kosningarnar 2002. Nýlega var t.d. staða Árborgar í fréttum, og í kjölfarið uppsagnir hátt í 60 manns, auðvitað mest láglaunafólks sem síður má við skakkaföllum skv. yfirlýsingum stéttarfélaga á svæðinu.
 
 
En hvað mest áberandi hefur verið stöðugur „fréttaflutningur“ (set þetta orð innan gæsalappa, því „söguburður“ væri meira viðeigandi í ljósi þess sem síðar kemur fram) af stöðu Reykjavíkurborgar, sem skv. „bestu og traustustu miðlum“ (set þetta innan gæsalappa því vísað er í Morgunblaðið og miðla þess) er að þrotum komin og að því er virðist af sögunum eina sveitarfélagið sem á í vanda.
Því var það upplýsandi að lesa samantekt í Heimild dagsins um stöðu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur skýrt fram að Reykjavíkurborg stendur fjárhagslega hvað best allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og MUN BETUR en flest nágrannasveitarfélögin sem samt verja hlutfallslega MUN MINNA fé af skatttekjum til félagslegra úrræða. Þetta hafði Þorvarður Hjaltason líka bent á fyrir ekki löngu síðan í ágætri úttekt á Facebook, með því að rýna í tölur í Árbók sveitarfélaganna, ef ég man rétt.
 
Skuldahlutfall A-hluta reksturs Reykjavíkur, þess hluta sem fjármagnaður er með skatttekjum, var 112% um síðustu áramót, sem vissulega er neikvæð staða, skuldir eru meiri en tekjur. Kópavogsbær er á pari við Rvk. með 111% en Hafnarfjörður 136%, Mosfellsbær 133% og einka- og erfðasvæði Sjálfstæðisflokksins, Garðabær (125%) og Seltjarnarnes (130%) skulda bæði mun meira umfram tekjur en Reykjavík, þrátt fyrir að nota miklu minna af skatttekjum til félagslegra úrræða. Hvers lags fjármálaóreiða og óstjórn er þar á ferðinni?
 
Ef litið er til skulda á hvern íbúa þá er staða Reykvíkinga líka mun betri en annarra íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Hver Reykvíkingur þyrfti að reiða fram kr. 1.247.000,- ef gera ætti upp skuldirnar, Hafnfirðingurinn 1.695.000, Mosfellingurinn 1.502.000, Garðbæingurinn 1.530.000 og Seltirningurinn 1.455.000. Aðeins Kópavogsbúinn slyppi með lægri greiðslu en Reykvíkingurinn, eða 1.209.000.
 
Þriðja atriðið er sk. veltufjárhlutfall, sem segir til um peningalega stöðu um áramót, lausafjárstöðu sveitarsjóðs, og hvort sveitarfélagið eigi fyrir launagreiðslum, afborgunum og öðrum útgjöldum á komandin ári. Ef veltufjárhlutfallið er 1,0 eða hærra sleppur það til en ef það er undir 1,0 þarf að taka lán fyrir nauðsynlegum útgjöldum, spara með því t.d. að segja upp fólki, selja eignir eða grípa til viðlíka aðgerða.
 
Þó undarlegt megi virðast miðað við Moggann, þá er veltufjárhlutfall Reykjavíkur betra en allra nágrannasveitarfélaganna, eða 1,1. Hafnfirðingar áttu líka lausafé fyrir útgjöldum með hlutfallið 1,0 en öll hin voru í mínus: Kópavogur 0,4, Garðabær 0,6, Mosfellsbær 0,6 og Seltjarnarnes 0,4.
Ofan á þetta bætist að rekstur Reykjavíkur er þyngri en allra hinna sveitarfélaganna vegna yfirburða höfuðborgarinnar þegar kemur að félagslegri þjónustu við íbúana, skv. tölum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir árið 2021.
 
-74% allra félagslegra íbúða á þessu svæði eru í Reykjavík.
-Hver íbúi í Rvk. greiddi 269.877 kr vegna veittrar félagsþjónustu, hver Kópavogsbúi 142.701, hver Garðbæingur 145.349, hver Seltirningur 155.326.
-30% af skatttekjum Reykvíkinga fóru í félagsþjónustu en 16% í Garðabæ og 18% á Seltjarnarnesi.
-Reykvíkingar greiða líka mest allra per íbúa í fjárhagsaðstoð og þjónustu við aldraða.
 
Í B-hluta rekstrar sveitarfélaga eru fyrirtæki í fullri eða hlutaeigu þeirra, t.d. Orkuveitan og Félagsbústaðir í Rvk. en einnig fyrirtæki sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga og reka sameiginlega. Þessi fyrirtæki geta skuldað háar upphæðir og því er freistnivandi að bæta þeim skuldum inn í heildarskuldastöðuna til að dæmið líti verr út, jafnvel þó fyrirtækin skili miklum arði og séu fullfær um að borga skuldir sínar án þess þurfi að nota beinar skatttekjur til þess.
 
Af þessu má ráða að umræðan um skuldavanda og óstjórn við rekstur Reykjavíkurborgar er ekki aðeins byggð á sandi, heldur er um beinar blekkingar að ræða og pólitískan áróður, því það er náttúrulega óþolandi að Sjálfstæðisflokkurinn stjórni ekki borginni, og mun vænlegra að koma henni í flokk með þeim nágrannasveitarfélögunum sem Flokkurinn stjórnar, sveitarfélögum sem skulda meira per íbúa og hafa bæði verra skuldahlutfall og veltufjárhlutfall en höfuðborgin, undir stjórn hins voðalega Dags B. Eggertssonar og félaga hans.
 
Þegar allt kemur til alls eru sveitarfélögin í rekstrarvanda. Ríkisvaldið hefur velt yfir á þau hverju vanfjármagnaða verkefninu af öðru undanfarna áratugi, grunnskólunum, öldrunarþjónustu, málefnum fatlaðra o.s.frv.
 
Upphrópanir íhaldsins í Reykjavík og áróðurssnepils þess og auðstéttarinnar í landinu um óstjórn Reykjavíkurborgar, en æpandi þögn um VERRI STÖÐU nágrannasveitarfélaganna sem Sjálfstæðisflokkurinn stjórnar og hefur gert lengur en elstu menn muna, standast enga skoðun.
Það ættu þeir sem bergmála áróðurinn að hafa í huga.
 
Gæti verið mynd af texti
 

Halda áfram að lesa