Jólakveðja 2022

 

Tekið hefur vetur völd,

vill, án refja, píningsgjöld.

Leggur yfir landið skjöld,

lúkan bláhvít, nístingsköld,

og blóðgar dagsins birtuspjöld

bak við hnausþykk rökkurtjöld.

 

En máninn feiminn fer á stjá,

fullur efa hvort hann má

heiminn nokkuð horfa á?

Hikar við, svo opnar brá,

glennir upp sinn gula skjá,

geislum baðar land og sjá.

 

Myrkrið smýgur inn um allt,

anda breytir snöggt í gjalt.

Heimsins lánið vagar valt,

varðar auðs er handtak kalt.

Ef þér, maður, flest er falt

fyrir aur, þá hinkra skalt.

 

Enn er von, því lítið ljós

logar yfir hal og drós,

tákn um mannkyns „draum í dós“.

Dýrt er orðið. Hvað með hrós?

Í þröngum dal, við ysta ós

umhygð vökvar lífsins rós.

 

Fyrir vini vermum ból,

veitum græðgi hvergi skjól.

Í litríkan og léttan kjól

landið klæðum, dal og hól.

Á himni núna hækkar sól,

höldum gleði og friðar jól.