Lifað með landi og sjó

This image has an empty alt attribute; its file name is Jon-Hj.-883x1024.jpg

Eins og nafnið bendir til, „Lifað með landi og sjó“, er bók Jóns Hjartarsonar óður til náttúrunnar. Hún fjallar um heimahaga höfundarins, Strandir æskunnar og fullorðinsár „milli sanda“. Ljóðin einkennast af næmri tilfinningu fyrir undrum náttúrunnar og umhyggju fyrir

„sögunni,

menningunni,

tungunni

og landinu.

 

Vættir

lands og þjóðar,

varðveita

fjöreggið,

augastein þjóðar,

og gæta þess

að það brotni ekki.“

(14)

 

Það er samhengi í öllu lífi jarðar en auðfundið á lestrinum að endalok nálgast:

 

„Ef ræturnar rofna

fýkur umhyggjan

út í veður og vind.“

(48)

 

„Einn morgunn

stendur amma

á miðju gólfi

og virðir fyrir sér

auðan stólinn.“

(42)

 

Jón er hápólitískur í sínum kveðskap. Þar er undirliggjandi kvíði fyrir framtíðinni og yfirvofandi endalokum:

 

„Bergbúinn

stendur vaktina,

undir svörtu hamrastálinu,

brúnaþungur

og langþreyttur

á daufingjahætti

landans.“

(25)

 

„Manneskjurnar

skríða í holur sínar,

bíða af sér storminn.

 

Of seint að iðrast.“

(23)

 

En þrátt fyrir váboðana, sem alls staðar eru sýnilegir í náttúrunni, er von, því vorvindurinn

 

„afísar mýrina

kveikir líf

í veikburða frjóöngum

stararinnar

á nýju vori.“

 
Þetta er fyrsta ljóðabók Jóns, sem skrifað hefur nokkrar bækur, flestar sögulegar. „Lifað með landi og sjó“ endurspeglar næman skilning á stóra samhengi lífs á Jörðinni, sem allt sprettur af sömu rótinni: Náttúran, sagan, menningin, landið.

 

 

 

Sannkallað gúmelaði

Bergsveinn Birgisson og Þormóður Torfason fylgdu mér í gegn um jólahátíðina. Það verður að segjast að þeir voru góðir fylgdarmenn. Bergsveinn skrifar góðan texta og saga Þormóðar er forvitnileg, svo ekki sé meira sagt. Þormóður mun hafa verið nánast þagaður í hel af seinni tíma mönnum, sem héldu á móti Árna Magnússyni vel og skilmerkilega á lofti.

Ekki eru til ítarlegar heimildir um alla þætti í sögu Þormóðar og leyfir Bergsveinn sér að skálda í eyðurnar, m.a. samtöl og líklega atburðarás þegar þannig stendur á. Þeim innleggjum sínum gerir höfundur skilmerkilega grein fyrir.

Hvað sem öðru líður eru heimildir nægar til að halda því fram að Þormóður var frumkvöðull í handritarannsóknum og söfnun. Hann er nefndur í framhjáhlaupi í bókmenntasögu, sem hálfgerður svikari við málstaðinn, sennilega af því hann vann fyrir erlent konungsvald, sem ekki var upp á pallborðið á tímum þjóðernisrómantíkur.

En þetta er sem sagt sannkallað gúmelaði.

Áramótakveðja

Áramótakveðja 2022-2023
 
Nú er liðið enn eitt ár,
alltaf fortíð lengist.
Lífið að mér dregur dár,
að draumum stöðugt þrengist,
þó mínar helstu heillaþrár
hafi eftir gengist.
Brestir, dáðir, bros og tár
í brjósti og huga tengist
svo að verði sálin klár
er svarið yfir dengist.
 
Að þægindunum þýfð er slóð,   
þröngt að gæðum hliðið.
Klærnar sýnir klíkustóð
í kvótavafning riðið.
Frá mér áfram heyrist hljóð
úr horni, er lít um sviðið.
Óska að verði ártíð góð,
ærlegt stefnumiðið
og vakni af blundi þessi þjóð.
Ég þakka fyrir liðið.

Jólakveðja 2022

 

Tekið hefur vetur völd,

vill, án refja, píningsgjöld.

Leggur yfir landið skjöld,

lúkan bláhvít, nístingsköld,

og blóðgar dagsins birtuspjöld

bak við hnausþykk rökkurtjöld.

 

En máninn feiminn fer á stjá,

fullur efa hvort hann má

heiminn nokkuð horfa á?

Hikar við, svo opnar brá,

glennir upp sinn gula skjá,

geislum baðar land og sjá.

 

Myrkrið smýgur inn um allt,

anda breytir snöggt í gjalt.

Heimsins lánið vagar valt,

varðar auðs er handtak kalt.

Ef þér, maður, flest er falt

fyrir aur, þá hinkra skalt.

 

Enn er von, því lítið ljós

logar yfir hal og drós,

tákn um mannkyns „draum í dós“.

Dýrt er orðið. Hvað með hrós?

Í þröngum dal, við ysta ós

umhygð vökvar lífsins rós.

 

Fyrir vini vermum ból,

veitum græðgi hvergi skjól.

Í litríkan og léttan kjól

landið klæðum, dal og hól.

Á himni núna hækkar sól,

höldum gleði og friðar jól.

 

 

Breytingar á skipulagsheildum

Skipulagsheild er hugtak úr stjórnsýslufræðum og vísar í grófum dráttum til hóps/samfélags fólks sem vinnur saman að markmiði/markmiðum. Skipulagsheildir eru t.d. lítil og stór fyrirtæki, íþróttafélög, verkalýðsfélög, stjórnmálaflokkar, sveitarfélög, Alþingi o.s.frv.

Í skipulagsheildum er hannað einhverskonar hírarkí, stjórnkerfi, sem getur verið mismunandi „flatt“ eða „lóðrétt“. Lýðræðislegar skipulagsheildir kjósa sér forystu, stjórn og leiðtoga í almennum kosningum meðal félagsmanna.

Skipulagsheildir með flatan strúktúr geta verið óskilvirkari, þar koma fleiri að ákvörðunum, sem er oft tímafrekara, enda er það þekktur frasi að „lýðræðið þvælist fyrir“.

Lóðrétt skipulag reiðir sig á fámennari yfirstjórn, ýktasta dæmið er einræði, þar sem allar ákvarðanir leka niður skipuritið frá einum einstaklingi á toppnum.

Skipulagsheildir eru ekki eyland. Þær starfa í síbreytilegu samfélagi. Þess vegna þurfa þær að vera „lifandi“. Skipulagsheild sem höggvin er í stein er „dæmd til að deyja“. Því geta verið fullkomlega málefnalegar og eðlilegar ástæður fyrir því að breyta skipulagsheildum. Það væri í raun ómálefnalegt að skoða ekki reglulega hvort ástæða sé til að breyta markmiðum og stjórnkerfi skipulagsheilda. Skipulagsheildum sem ekki þjóna á sem bestan hátt umbjóðendum sínum er nauðsynlegt að breyta.

Breytingar á skipulagsheildum geta, því miður, líka verið fullkomlega ómálefnalegar og gegn hagsmunum umbjóðendanna, gerðar eingöngu til að þjóna hagsmunum yfirstjórnar og/eða leiðtoga, eða öðrum annarlegum hagsmunum.

Sem dæmi um nýlegar og umdeildar breytingar á skipulagsheildum er uppstokkun á stjórnarráðinu, fjölgun ráðuneyta og tilfærsla verkefna milli þeirra. Þessar breytingar eru alfarið „lóðbeint niður á við“, þ.e.a.s. það eru forystumenn stjórnmálaflokka í ríkisstjórn sem ákveða þær einhliða. Hvorki starfsfólk stjórnarráðsins né umbjóðendur stjórnmálaleiðtoganna, kjósendur, voru spurðir álits. Umdeilt hefur verið hvort þessar breytingar þjóni fyrst og fremst umbjóðendunum, bæti þjónustu við almenning, eða metnaði stjórnmálamanna til að þjóna eigin lund og útdeila bitlingum til síns fólks. Þær kosta mörg hundruð milljónir og það eru ekki þeir sem tóku ákvörðunina sem borga brúsann, heldur almenningur, sem hafði ekkert um málið að segja.

Fleiri slíkar umdeildar breytingar á skipulagsheildum má nefna; færsla höfuðstöðva Fiskistofu til Sauðárkróks, færsla Landmælinga Íslands til Akraness. Þessar breytingar höfðu gríðarleg áhrif á fólkið sem þar vann, jafngilti uppsögn stórs hóps sérfræðinga og skrifstofufólks: Annað hvort flytur þú að heiman eða leitar þér að annarri vinnu. Ákvörðunin var tekin efst í hírarkíinu og þeir sem undirskipaðir voru skyldu hlýða. Málefnalegu rökin fyrir þessum breytingum voru „að færa opinber störf út á land“ en ekkert raunverulegt samráð við starfsfólkið viðhaft, enda vandséð hverju það hefði skilað: „take it or leave it“. „Samráðið“ snerist því í rauninni aðeins um það hvort starfsmenn vildu flytja með stofnuninni eða ekki.

Endalaust væri hægt að tína til dæmi um breytingar á skipulagsheildum, bæði vel heppnaðar og misheppnaðar.

Nú hefur nýlega lýðkjörinn meirihluti stjórnar verkalýðsfélgs ákveðið að breyta skipulagi á skrifstofu félagsins. Málefnalegu rökin fyrir breytingunum, sem boðaðar voru fyrir stjórnarkosningar eru, skv. því sem fram hefur komið í fjölmiðlum, m.a. aukið gagnsæi í launakjörum, t.d. afnám ógagnsærra fríðinda einstakra starfsmanna, jöfnun launabils milli hæstu og lægstu launa, breytingar á starfslýsingum og verkefnum starfa til að bæta þjónustu við félagsmenn. Hinn nýkjörni meirihluti stjórnar boðar aðrar áherslur en viðhafðar hafa verið um langt árabil og til þess að ná þeim markmiðum þurfi að breyta skipulaginu.

Það er í sjálfu sér málefnalegt sjónarmið. Starfsfólk er kjarasamningsbundið og breytingar á störfum og kjörum eru óheimilar, nema samkomulag náist um þær við viðkomandi starfsmann. Vinnustaðurinn er fjölmennur og af fyrri reynslu virðist útséð um að slíkt samkomulag náist, a.m.k. við hluta starfsmannanna, og einnig ljóst að sú leið myndi taka langan tíma. Því var gripið til þess ráðs að segja upp öllu starfsfólki og auglýsa endurskilgreind störf laus til umsóknar. Með þessu átti einnig að tryggja jafnræði, að allir sætu við sama borð.

Þetta er auðvitað umdeilt.

Vegna þess að það er algengara en ekki í íslensku spillingarsamfélagi að grípa til aðgerða af þessu tagi, að boða skipulagsbreytingar, segja upp starfsfólki eða að leggja niður störf, jafnvel að loka heilu stofnununum, til að losna við „óþægindi“ fyrir stjórnendur og pólitíkusa við gæslu sérhagsmuna, sjá margir engan annan tilgang stjórnar Eflingar með hópuppsögn á skrifstofu félagsins en að losa sig við óþægilega starfsmenn og ráða aðra þægilegri í staðinn. Þetta er það landslag sem helmingaskiptaflokkarnir hafa mótað allan lýðveldistímann, og lengur, og því er mörgu fólki vorkunn að líta svo á; það hvorki þekkir né skilur annan tilgang. Þess vegna grípur það til fordæminga og gífuryrða, jafnvel svo grófra að líkja formanni félagsins við einn mesta morðhund mannkynssögunnar.

Spyrja má: Á hluti starfsfólks á vinnustaðnum að hafa það vald að koma í veg fyrir að lýðræðislega kjörin stjórn nái markmiðum sínum um breytingar á skipulagi til að bæta þjónustu við félagsmenn?

Það mun ekki koma í ljós fyrr en breytingarnar eru um garð gengnar, stjórnsýslan farin að virka nokkurn veginn snuðrulaust, og allir búnir að gleyma málinu, hvort ákvörðun þriggja einstaklinga efst í hírarkíinu um 700 milljóna króna álögur á herðar almennings til að umbylta stjórnarráðinu sé málefnaleg; hvort hún leiði til betri og skilvirkari þjónustu við almenning, eða hvort hún var einungis til að þjóna lund formanns Framsóknarflokksins, við samsuðu stjórnarsáttmálans, um fleiri ráðherrastóla og bitlinga fyrir sitt fólk, í skiptum fyrir eitthvað annað fyrir hina formennina.

Á sama hátt verður ekki úr því skorið hvort skipulagsbreytingar á skrifstofu Eflingar eru málefnalegar og leiði til aukins gagnsæis og skilvirkni, og betri þjónustu við félagsmenn, eða einungis til þess fallnar að losa formann og meirihluta stjórnar við óþægilega starfsmenn, fyrr en breytingarnar eru um garð gengnar og reynsla komin á nýja skipulagið.

Það er augljóst að Sólveig Anna Jónsdóttir hefur verið ódeig baráttukona fyrir réttindum fátæks og jaðarsetts láglaunafólks og náð miklu betri árangri í kjarasamningum fyrir sitt fólk en aðrir verkalýðsleiðtogar hafa gert um langa hríð. Það er líka augljóst að hún leggur meiri áherslu á í starfi sínu að berjast fyrir bættum kjörum félagsfólks en að strjúka starfsfólki á skrifstofunni um kviðinn.

Sú stefna er umdeild og mörgum liði mikið betur ef þessu væri öfugt farið; að formaðurinn legði meiri áhersla á að loftræstingin á skrifstofunni væri færð til betri vegar og stofuhiti þar ávallt notalegur, en skipti sér minna af því að „kellingarnar í umönnunarstörfunum“ þurfi að hlaupa stöðugt hraðar til að bjarga næstu máltíð fyrir börnin sín, eins og þær hafa gert afskiptalitlar um aldir.

Vegna einbeittrar og árangursríkrar baráttu Sólveigar Önnu og hennar fólks við auðvaldið fyrir bættum kjörum láglaunafólks ætla ég að láta hana njóta vafans um tilgang skipulagsbreytinga á skrifstofu Eflingar. Þar til annað kemur í ljós.

Nokkrar hestavísur

Fer í bítið ferskur út,

flest eg hlýt að megna!

Mér frá ýtir morgunsút

að moka skít og gegna.

 

………………………………………………….

 

Syngur blærinn sæll við kinn,

sólin nærir, bjarta.

Legg við kæra ljúflinginn,

logi skær í hjarta.

 

………………………………………………….

 

Vorið seiðir þýðar þrár,

þerrur breiðir hlýjar.

Sporið greiðir kátur klár,

kannar leiðir nýjar.

 

………………………………………………….

 

Þyl ég blíða þakkargjörð,

þá til prýði bestur

er fram líður yfir jörð

undurþýður hestur.

 

………………………………………………….

 

Af mélum freiðir, augu ör,

andann seiðir þorið.

Dunar heiðin, funar fjör,

fákar greiða sporið.

 

………………………………………………….

 

Ör við léttan leikur taum,

lífs mér glettu vekur.

Sporin þéttir gangs við glaum,

góðan sprettinn tekur.

 

………………………………………………….

 

Lífs- á vorin vekur þrá,

og von á forarslettu,

að finna þorið flugi á

fáks í spori léttu.

 

………………………………………………….

 

Ferðir inn til fjalla spinn

frjáls í sinni.

Í hjarta finn ég fögnuðinn

er fáknum brynni.

 

………………………………………………….

 

Ei við skrautið sómdi sér

á snúrubrautarmóti.

Mýrar flaut, og fótasver

fyrir laut ei grjóti.

 

………………………………………………….

 

Þegar árum fjölgar, flest

færi skár að nýta.

Hærugrár, enn heillar mest

að heyra klárinn bíta.

 

 

Hrútur eða graðhestur?

Eiríkur Jónsson bað nokkra menn að svara því í bundnu máli hvort þeir vildu heldur vera hrútur eða graðhestur, ef þeir endurfæddust. Svo birti hann herlegheitin á síðunni Hestar og reiðmenn. Mitt svar var svona:

Játa það að glaður geng

með graðhestinn í maganum

og blómarós með reynslu fleng-

ríði mér í haganum.

 

Kjartan í Haga botnaður

Kjartan bóndi í Haga laumar að mér fyrripörtum þegar við bræður og frændur komum þar í hrossaragi. Ég skulda honum nú tvo botna og set þessa upp í skuldina:

Kjartan:

Heldur var ég höggvagjarn,

hníflum títt að ota,

Ég:

sálin köld og hrjúf sem hjarn,

hæf til engra nota.

 

Kjartan:

Bjarni hestum einkum ann,

á honum sést þó skína

Ég:

að hann meira meta kann

Möggu, konu sína.

 

 

Árið 2021

Árið 2021 er að renna sitt skeið á enda. Eins og hjá öðrum landsmönnum skiptust á skin og skúrir hjá okkur. Við hefðum t.d. gjarnan viljað vera meira á ferðinni, en þegar á allt er litið höfum við undan engu að kvarta. Við komumust þó til Stokkhólms í haustfríinu til að heimsækja litlu fjölskylduna okkar þar, en tengdadóttirin Bryndís Dagmar hóf sérnám sitt í endurhæfingalækningum síðsumars.This image has an empty alt attribute; its file name is Sif-2.jpg Það hefur verið svo að þegar ein fjölskyldan flytur heim, þá fer önnur af landi brott. Myndsímtöl eru svo alveg dásamleg tækni sem bjargar miklu þegar söknuðurinn knýr á.

Þó heilsan hefði mátt vera betri á köflum er næsta víst að aðrir höfðu það verra, minna milli handa og meiri erfiðleika við að stríða. Við hjónin eigum líka því láni að fagna að geta unað hvort við annað heima hjá okkur, að mestu án stríðsátaka, höfum lafað saman í tæp 39 ár og því orðin ágætlega sjóuð hvort í öðru. Við gefum lítið fyrir þá bábilju að það sé einhverskonar frelsisskerðing að njóta friðar á eigin heimili í sóttvarnaskyni, sjálfum okkur og öðrum til heilla.

Það sem stendur upp úr á árinu er að gæfan hefur gengið okkur við hlið og afkomenda okkar, allri fjölskyldunni. Þó ekki hafi allir lokið einhverjum „stóráföngum“ er okkur löngu orðið ljóst aðThis image has an empty alt attribute; its file name is Margrét-3.jpg mesta vegtyllan, alla vega hérna megin grafar, er heilsa og hamingja. Hvor tveggja hafa þær sannarlega verið með okkur öllum í liði.

Nokkra „hápunkta“ má þó nefna hér. Nýtt barnabarn bættist í hópinn, og fékk nafnið Sif, dóttir Ara og Rebekku Rutar. Hún er alveg jafn dásamleg og öll hin 9 barnabörnin okkar. Sveir mér ef hún er ekki fegursta barn sem fæddist á árinu, og ekkert bara „norðan Alpafjalla“. 

Þá bættust tvær stórglæsilegar stúdínur í hópinn, þegar Margrét útskrifaðist frá VÍ í maí og JasmínThis image has an empty alt attribute; its file name is Soffía.jpg frá FÁ núna í desember. Þessar ungu konur eru báðar á grænni grein og amma og afiThis image has an empty alt attribute; its file name is Raggi-2.jpg auðvitað alveg gríðarlega stolt af stóru stelpunum sínum. Þriðja glæsistúlkan í hópi barnabarna, hún Soffía Sif, kláraði grunnskólann og hóf nám í Borgó í haust. Og að lokum lauk Raggi tengdasonur námi í meistaraskólanum og ber nú titilinn Trésmíða- og byggingameistari.

Á næsta ári er von á þriðju stúdínunni, fermingu, og gott ef ekki stórafmæli! Já, já, já. Það er víst ekkert lát á þeim, sem minnir á að sá sem hér ritar náði þeim áfanga að verða sextugur og átti því láni að fagna að njóta dagsins í faðmi fjölskyldunnar. Um meira verður ekki beðið. 

Það sem hefur miður farið á árinu er að mestu takmarkað við hið pólitíska svið. „Æi, er ekki bara best að gera ekki neitt af viti“ lýsir því best. Engar hugsjónir, ekkert frumkvæði, engar umbætur eða nýjungar. Bara haldið áfram á sjálfstýringu á sömu, gömlu spillingarateinunum. Vonarstjarnan Kartín Jakobsdóttir, sem gekk í björg fyrir fjórum árum, lokaði í haust á eftir sér og dansar í myrkrinu með tröllunum – á ekki afturkvæmt að séð verður, því miður. Ekki meira um þá hörmungarsögu alla, nóg að vísa í upplýsandi umfjöllun HÉR og HÉR.

Eins og lofthjúpurinn og náttúran einkennist mannlífið af síauknum öfgum og firringu. Það fyrra auðvitað afleiðing af því síðartalda. Það eru hamfaratímar með gróðureldum, skýstrókum, flóðum, hitabylgjum, drepsóttum, stöðugum stríðsátökum, ofbeldi, einelti og „útilokunarmenningu“. Samfélagsumræðan fer um eins og skýstrókur og skilur eftir sig auðn og eyðileggingu. Hvert fárið af öðru skellur á. Hvað ætli taki við af „blóðmerafárinu“? Það er tímanna tákn að hópur sem berst að eigin sögn gegn ofbeldi og fyrir jafnrétti skuli velja sér nafnið „Öfgar“. Stöðva öfgar ofbeldi? Leiða þær til jafnræðis? 

Nei, fetum aðra slóð. Blásum í glæður hugsjónar um frið, jöfnuð, og manngildi. Höfum hugrekki til að breyta samfélaginu til batnaðar en stöndum ekki kyr með hendur í vösum meðan forréttindalestin brunar hjá.

Megi þjóðin upp af vanans ánauð 

og óráðssvefni vakna.

Hún vaxi upp úr firringu og finni

úr fllækjum sálar rakna.

Árið gefi hamingju og heilsu

og huggi þá er sakna.

 

 

Tekið á hús

Áfram tíminn æðir þrátt,

árið næstum liðið

og andinn leitar ósjálfrátt

yfir gengið sviðið.

 

Í muna feta minn á veg

margar góðar stundir:

Hamingjuna hitti ég

er hesti reið um grundir.

 

Fylla mælinn kviku- korn,

kalla þessi undur

á að fljótt við hesthúshorn

hefjist næsti fundur.

 

Gríp þá tauma, múl og mél,

mylsnu brauðs í poka,

stytti leið um mó og mel,

má nú annað doka.

 

Aðeins þarf að hóa hátt,

í hagann taka miðið,

þá góðir vinir birtast brátt

og bíða mín við hliðið.

 

Hára, yfir færast frið

finn, og tengslin náin,

við taktinn er þeir taka við

að tyggja grænu stráin.

 

Næstu daga njóta má,

við nostur finna léttinn:

Járna, kemba, fiðring fá

og fara skeifnasprettinn.

 

„Jæja þá, í þetta sinn“,

þétt við hálsa bía. 

Það töfrar fram, að taka inn,

tilfinningu hlýja.