Sproti

Meðfylgjandi mynd sendi Hreinn bróðir af Sprota sínum, syni Spátu (dóttur Galdurs og Spár) og Þórodds. Þarna er folinn á frumstigi tamningar og leynir sér ekki mýktin í spori og glæsileikinn í framgöngu. Sendi honum eina vísu:

Prúður gengur folinn frjáls
fögrum litnum skartar.
Með vind í faxi vefur háls,
vonir kveikir bjartar.

Í krapasulli

Magnús Halldórsson, hestamaður og hagyrðingur á Hvolsvelli, sendi mér meðfylgjandi mynd af sér á Stuðli sínum með fyrirsöginni: Gamall maður á ágætum hesti. Sagðist hafa verið á útreiðum í krapasulli, sem þó væri óvanaleg færð á þeim slóðum.Magnús og Stuðull í flugtaki

Ég sendi honum þessa vísu til baka:

Í krapasulli karlinn gamli
keyrir ljóðastaf.
Flugtak nálgast, helst að hamli
að hettan fýkur af.

Magnús svaraði um hæl:

Hæðum andans helst ég næ,
huga minn þá næri.
Ef ljóðstafina letrað fæ,
á listilegu færi.

Félagshegðun í dýraríkinu

Ég gerði mér ferð á laugardaginn í hrossarag. Ætlunin var að taka á hús eitt hross, leirljósa meri stjörnótta, ágætt hross á besta aldri, sem er geld þetta árið. Einnig stefndi ég að því að taka elstu klárana mína þrjá og færa þá á betri haga. Með mér í för var Jasmín, dótturdóttir á 13. ári sem er útsett fyrir hestabakteríunni – og dvaldi hjá ömmu og afa á Selfossi yfir helgina. Og hundtíkin Þula var aftur í skotti, gríðarlega spennt.

Við komum á staðinn og köllum í klárana, sem koma „med det samme“, þiggja brauðbita og múl, og elta viljugir upp á kerru. Þeir eru allir í gullfallegu standi. Þá er að færa sig í næsta hólf, þar sem eru nokkur hross í heyi, m.a. sú leirljósa og fylfull hryssa jarpnösótt, við Þóroddi, hvorki meira né minna. Einnig eru þar tveir klárar sem ég hef nýlega tekið á gjöf og ein þrjú hross önnur, í annarra eigu.

Við Jasmín veifum brauðpokanum og allt hópast í kringum okkur. Ljósbrá, sú leirljósa, lætur leggja við sig án vandræða og teyma upp á kerru viðstöðulaust. Allt er þetta nú alveg yndislegt!

En Galdurssynirnir og albræðurnir Freyr og Þeyr, tiltölulega nýkomnir í hópinn, halda sig í óeðlilegri fjarlægð. Af hverju koma þeir ekki í brauðið? Við röltum af stað til þeirra með plastpokann á lofti og þeir átta sig strax, reisa háls og sperra eyru. En koma ekki á móti okkur. Þegar við erum komin vel hálfa leið til þeirra, gerist það óvænta að þeir hörfa á brott, sveiflandi tagli. Ég botna ekkert í þessu!

En svo átta ég mig. Kemur ekki kvikindi brúnt á fullum spretti fram úr okkur, með hausinn teygðan fram og eyrun límd aftur og hjólar í blessaða klárana mína! Það er alveg eins og þetta illfygli hafi nýlega verið hrakið úr Seðlabankanum, svo illskeytt er það. Hefur auðvitað varið, bæði með kjafti og hófum, helstu gæðin – heyrúlluna – til einkanota fyrir sína nánustu klíku, og lagt á sig langa spretti til að bíta aðra og berja frá, halda þeim tryggilega „utangarðs“.

Ég sé að engra annarra kosta er völ en að forða reiðhestunum mínum úr þessu mötuneyti, en þarf fyrst að fara eina ferð með fulla kerruna. Þegar við Jasmín komum aftur þarf að hrekja þann brúna í örugga fjarlægð áður en klárarnir stillast, svo hægt sé að leggja við þá. Þar sem ég teymi þá í áttina að kerrunni, kemur þá ekki meinhornið einn ganginn enn á fullum spretti! Hvílík heift og langrækni!

Og ég ákveð að forða þeirri fylfullu burtu líka. Þó hún sé í náðinni í augnablikinu er aldrei að vita hvað gerist þegar hún kastar og ég kæri mig ekki um að eiga það á hættu að láta slasa eða drepa fyrir mér folaldið, þegar þar að kemur.

Ólafur Ragnar kippir í liðinn

Ekki varð ég jafn sannspár um stórlyndi forsetans og ég hefði kosið. Þegar til kom var þetta allt saman ein leikflétta og farsi – sjónarspil af verstu gerð, eins og fjölmargir höfðu bent á, og maður vissi svo sem undir niðri, þó vonin um eitthvað stórmannlegra hefði vissulega blundað þar líka. Og nú vonar Ólafur Ragnar að…

„þjóðin muni sýna því skilning þegar stöðugleiki hefur skapast í stjórnskipan landsins og stjórnarfari og staða okkar í samfélagi þjóðanna hefur skýrst ákveði ég að hverfa til annarra verkefna áður en kjörtímabilið er á enda“.

Úrslitin eru sem sagt ráðin. Það er búið að kjósa manninn einu sinni enn. Þá þarf heldur ekkert að vera að henda peningum í rándýrar kosningar, sem er óneitanlega jákvætt á þessum síðustu og verstu tímum.

En það er önnur saga. Áhugaverðari sögu má lesa út úr tilvitnuninni hér að ofan:

1) Stjórnskipan landsins verður óstöðug ef Ólafur Ragnar er ekki forseti. Hann kippir þessu í liðinn og hættir svo. Enginn annar núlifandi Íslendingur er fær um þetta.

2) Stjórnarfar á Íslandi verður óstöðugt áfram ef Ólafur Ragnar er ekki forseti. Hann kippir þessu í liðinn og stígur svo til hliðar. Enginn annar núlifandi Íslendingur er fær um þetta.

3) Staða Íslands í samfélagi þjóðanna verður óviss og óskýr ef Ólafur Ragnar er ekki forseti. Hann kippir þessu í liðinn á næstu 2-3 árum en snýr sér svo að því að bjarga öðrum brýnum vandamálum heimsbyggðarinnar. Af nógu er víst að taka.

Svona lítur Ólafur Ragnar Grímsson á málin. Hroki? Nei, nei. Þetta sjá nú allir, ekki satt?

Ólafur Ragnar er búinn að sitja í embætti forseta Íslands í tæp 16 ár. Á þeim tíma hefur honum verið einkar lagið að skapa sundrung og óvissu um stjórnskipan og stjórnarfar og staða Íslands hefur sennilega aldrei verið óskýrari í samfélagi þjóðanna, eða meira efast um íslenskt þjóðfélag frá stofnun lýðveldisins en einmitt um þessar mundir. Nú ætlar hann að kippa þessu í liðinn á hálfu kjörtímabili eða svo. Þá er óhætt að boða til forsetakosninga á ný og hleypa að einhverju meðalmenninu, enda allur vandi leystur og engin verkefni eftir til að sinna, nema helst að veifa lýðnum af svölunum. Þetta ætlar hann að leggja á sig, bara fyrir okkur – af því við höfum grátbeðið hann um það, með bænaskjölum þegar ekki vildi betur til.

En af hverju var hann ekki löngu búinn að þessu öllu saman? Það á ég bágt með að skilja.