Af virðisrýrnun

Útgerðin og Mogginn eru sem betur fer óþreytandi í baráttu sinni gegn breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Í frétt á mbl.is kemur fram að HB Grandi hafi tapað 1,5 milljónum evra á fyrri hluta ársins – en á sama tímabili og þessi mikli taprekstur skall á fyrirtækinu eins og brotsjór, jukust tekjur þess um 17 milljónir evra, segir í fréttinni.

Úlfar Þormóðsson tekur þetta til umfjöllunar í pistli á Smugunni og snýr auðvitað út úr öllu saman, eins og þeirra er siður sem ekki skilja hið rétta gangverk atvinnulífsins, og raunar samfélagsins alls.

Þó ég hafi útskrifast úr máladeild, og með falleinkunn í stærðfræði á stúdentsprófi, þá átta ég mig samt vel á því að þegar fyrirtæki eykur tekjur sínar um 17 milljónir á ákveðnu, afmörkuðu tímabili, þá tapar það í raun og veru einni og hálfri milljón. Þetta sjá allir, líka hinir innmúruðu ríkisstjórnarsnatar, þó þeir vilji auðvitað ekki viðurkenna það opinberlega.

Eins og útgerðarfyrirtækið bendir á, og Mogginn kemur samviskusamlega til skila, veldur hækkun á veiðigjaldi þvílíkri virðisrýrnun, að öll formerki fordjarfast, plús verður mínus og tekjuaukning bullandi tap.

Í stað þess að vera með útúrsnúninga og samsæriskenningar, eins og Úlfar í fyrrnefndum pistli, væri nær að taka á málinu af alvöru og festu. Nú verður lag á haustþinginu að gera það. Til þess er engum betur treystandi en þingmönnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, hinum skeleggu varðmönnum lýðræðislegrar, snarprar og málefnalegrar umræðu, framkvæmda í stað langhundafunda: „Athafnir í stað orða“. „Minna mas, meiri framkvæmdir“ (eða var það kannski „flas“).

Einfaldasta leiðin væri að samþykkja viðauka við skattalögin um bætur til útgerðanna vegna þessa. Lögin gætu heitið Lög um virðisrýrnunarbætur, í samræmi við Lög um húsaleigubætur og Lög um barnabætur.

Virðisrýrnunarbæturnar mætti reikna út frá virðisrýrnunarprófum sem endurskoðendur útgerðarfyrirtækjanna myndu sjá um, endan kunnugastir bókhaldinu og ólíklegastir til að klúðra einföldum prósentureikningi. Niðurstöður virðisrýrnunarprófanna yrðu svo birtar í Morgunblaðinu hálfsmánaðarlega og teknar þaðan upp á Fréttablaðinu, á Bylgjunni, Útvarpi Sögu, AMX og þessum helstu hlutlausu fréttamiðlum.

Bæturnar væru uppsöfnuð virðisrýrnun og greiddar út t.d. ársfjórðungslega.

Með þessu móti væri hægt, í gegnum skattkerfið, að hlífa þeim fyrirtækjum landsins sem minnst mega sín, fyrir ofurskattastefnu stjórnvalda. Því allir vita að þó ríkisstjórnin gumi nú af því að hafa haldið hlífiskildi yfir þeim lægst launuðu og þeim þjóðfélagshópum sem eiga undir högg að sækja, þá hafa útgerðarfyrirtækin hingað til verið skilin eftir úti á köldum klaka.

Það er kominn tími til að breyta þessu og koma hér á raunverulegum jöfnuði í fyrirtækjarekstri. Til þess þarf sértækar aðgerðir fyrir útgerðarfyrirtæki – einkanlega stórútgerðir.

Af heimilisstörfum

Dagurinn í gær, sunnudagurinn 26. ágúst, var ágætur. Á meðan konan bograði í berjamó uppi í Grafningi hafði ég það notalegt heima við, þó ég hafi svo sem líka haft ýmislegt fyrir stafni, og sumt af því hægara um að tala en í að komast. Um það vitna margar misheppnaðar vísur. Sannarlega er ekki þrautalaust að kvelja sig gegnum allar bækur – og blöðin, maður lifandi, þarf að segja meira? En svona var dagurinn minn í stórum dráttum – þar til ég fór að gæða mér á berjum!

Framá settist, mig fetti, þvó,
át frókost, þó lýsið skorti.
Blaði fletti, blettinn sló,
bók las, vísur orti.

Kunningi minn gerði athugasemdir við þessa framsetningu, sagði að hann „hefði viljað fá sléttubönd“. Ég lét það auðvitað eftir honum, og raðaði upp sjálfsmynd af mér við heimilisstörfin:

Þjónar, stritar, sjaldan sér
sjálfum hampar maður.
Bónar, skúrar, aldrei er
argur, leiður, staður.

Ekki er samt loku fyrir það skotið að eftirfarandi mynd sé raunsærri en hin fyrri:

Staður, leiður, argur er,
aldrei skúrar, bónar.
Maður hampar sjálfum sér,
sjaldan stritar, þjónar.

Og fyrst ég er byrjaður er best að bæta við öðrum sléttuböndum, svona fyrir svefninn:

Fórnar sopa, þeigi þver
þrekið, veldur sjálfur.
Stjórnar drykkju, fráleitt fer
fullur eða hálfur.

Hálfur eða fullur fer,
fráleitt drykkju stjórnar.
Sjálfur veldur, þrekið þver,
þeigi sopa fórnar.

Gildi fagþekkingar

Ég las á visir.is að „Lilja Mósesdóttir, stofnandi Samstöðu – flokks lýðræðis og velferðar, ætlar ekki að gefa kost á sér í embætti formanns flokksins á landsfundi flokksins í byrjun október…Hún segist ætla að axla þannig ábyrgð á fylgistapi flokksins undanfarna mánuði…Hún verður þó áfram félagsmaður í Samstöðu. Fram að næstu alþingiskosningum ætlar hún að einbeita sér að störfum sínum á þingi [þar] sem hún segist hafa leitast við að nýta fagþekkingu sína…“:

Hagfræðingur, hörð í skapi,
helsta vonin innan þings,
með fagþekkingu í fylgistapi
og forðast hylli almennings.

Af pólitískum væringum

Vangaveltur hafa verið í fjölmiðlum um breytingar á ríkisstjórn. RÚV segir t.d.: „Katrín í stað Oddnýjar-Líklegast þykir að Katrín Júlíusdóttir taki sæti Oddnýjar G. Harðardóttur…“

Jóku reynist blóðug ben,
broddur stingur svoddan.
Kötu skiptir inná, en
Odda leggst á koddann.

Þá var Guðmundur Rúnar Árnason ráðinn verkefnastjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun. DV segist hafa heimildir fyrir því að Össur utanríksiráðherra hafi verið með puttana í málinu og Smugan slær því upp að ráðinn hafi verið „hæfasti Samfylkingarmaðurinn“. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar þvertekur í DV fyrir pólitískan þrýsting:

Hlutlægt farið málið með,
matið faglegt hljómar þanninn:
Össur, jafnan röskur, réð
rétta Samfylkingarmanninn!

Kærleiksheimilið

Ef ég man rétt sagði vitur maður (HKL) eitt sinn eitthvað á þá leið að því ákafar sem sagnfræðingar reyndu að höndla sannleikann, því lengra hyrfu þeir inn í heim skáldskaparins. Þess vegna er sjálfsagt ástæðulaust að taka mikið mark á doktor Guðna Th. Jóhannessyni, sem lét hafa það eftir sér að forsetinn og forsætisráðherra ættu að geta rætt saman á vinsamlegum nótum um hefðir og skyldur handhafa forsetavalds þegar forsetinn yfirgefur landið. En á kærleiksheimili sagnfræðinnar gæti þetta verið einhvernveginn svona:

Núna forsetinn fyr oss
axlar kross: ástandið.
Jóka hossi, svo kærleikskoss
er kveður „posh-ið“ landið.

Að mála skrattann á vegginn

Öllum er í fersku minni áróðursstríð LÍÚ í málgagni sínu, Morgunblaðinu, ásamt auglýsingaherferð í öllum fjölmiðlum landsins, gegn breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu hér á landi. Þó mesta auglýsingabruðlið virðist um garð gengið – í bili a.m.k. – þá er morgunljóst að sú falska einshljóðfærissynfónía hefst aftur um leið og þingið tekur til starfa í haust.

Lygaáróðurinn var sá að ef þær breytingar sem stjórnvöld boðuðu yrðu að veruleika, breytingar sem þó voru orðnar útvatnaðar af undanlátssemi við svokallaða hagsmunaaðila, þá færi hér allt á hausinn og helst var að skilja að ekki yrði framar dregið bein úr sjó við Íslandsstrendur. Reyndar er það merkilega lýsandi fyrir sjálfhverfuna og einkahagsmunahyggjuna hér á landi að einu hagsmunaaðilarnir sem LÍÚmenn koma auga á í þessu máli eru þeir sjálfir. Engum dettur í hug að eigendur auðlindarinnar, þjóðin sjálf, hafi eitthvað um málið að segja eða sé hagsmunaaðili yfirleitt.

Nú er hafið annað áróðursstríð. Ríkisstjórnin hefur boðað að virðisaukaskattur á þjónustu veitingahúsa og gististaða verði hækkaður úr 7%a afsláttarþrepi í almennt skattþrep. Fjármálaráðherra lýsti skattaafslættinum, sem hefur verið veittur frá árinu 2007, réttilega sem ríkisstyrk. Hún hefur hlotið bágt fyrir það, eins og ferðaþjónustan skammist sín alveg ógurlega fyrir að þiggja ríkisstyrki. Ferðaþjónustunni til huggunar má benda henni á að heilu atvinnugreinunum er haldið á floti á ríkisstyrkjum – og ekki er að sjá að nein skömm fylgi því. Að minnsta kosti vilja flestir meira – og sumir telja jafnvel að engum komi það við hvernig með styrkina er farið.

En það er önnur saga. Ferðaþjónustan berst nú um á hæl og hnakka, í anda stórútgerðarmanna, og reynir að telja þjóðinni trú um að öll ferðaþjónusta fari á hausinn, leggist hreinlega af og ferðamenn hætti að sækja landið heim. Megum við á næstunni búast við auglýsingum frá samtökum gistihúsaeigenda, þar sem starfsmenn og gestir verða látnir með dramatískum innslögum lýsa því að þeir muni missa vinnuna og hætta að gista, ef áform ríkisstjórnarinnar verða að veruleika? Svo komi kannski á skjáinn prófessor í sálfræði sem upplýsi þjóðina um afleiðingar þess ef ekkert verði sofið á Íslandi, til eilífðarnóns? Allt vegna ríkisstjórnarinnar, auðvitað.

„Nú á að slátra Gullgæsinni og draga úr ferðamannastraumi til Íslands“, lét hóteleigandi í Keflavík hafa eftir sér. Sami hóteleigandi upplýsir lesendur Víkurfrétta um það að ef hótel- og gistihúsaeigendur hefðu talið sig geta hækkað verð undanfarin ár, þá hefðu þeir gert það, enda ekki veitt af til að bæta afkomuna í „harðærinu“.

Þessar yfirlýsingar eru athygli verðar, ekki síst í því ljósi að umrædd þjónusta mun hafa snarhækkað undanfarin ár, þrátt fyrir stórfelldan virðisaukaafsláttinn frá 2007, ef marka má upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu. Og þrátt fyrir stöðugar verðhækkanir hafa ferðamenn hópast inn á hótelin og gististaðina, sem aldrei fyrr. Og þeir hafa ekki heldur látið neitt stöðva sig, þegar kemur að því að kaupa vörur og aðra þjónustu. Og þeir munu ekki heldur láta það á sig fá þó þjónusta veitingahúsa og gististaða verði færð í almennt virðisaukaskattþrep. Vitið bara til.

Málflutningur af þessu tagi er engum til sóma, hvorki ferðaþjónustunni, útgerðinni, né öðrum „hagsmunahópum“. Trúverðugleiki þeirra gufar hreinlega upp með þessum eilífu heimsendaspám.

Því miður er þetta samt lenskan í opinberri umræðu hér á landi. Að mála skrattann á vegginn.