Hagvöxtur á hæpnum grunni

Samráðsvettvangur forsætisráðuneytisins um leiðir til þess að auka hagsæld Íslendinga fram til ársins 2030 var settur á laggirnar í janúar á þessu ári og hefur nú skilað tillögum sínum. Samkvæmt frétt í Fréttatímanum frá 9. maí sl. miða tillögurnar við þau „metnaðarfullu markmið að meðalhagvöxtur nemi 3,5% á ári“ á þessu tímabili og við það muni Ísland færast „upp í 4. sæti í samanburði OECD ríkja hvað varðar verga landsframleiðslu á mann“ í stað þess að verma 15. sæti listans að óbreyttu, „í félagsskap þjóða eins og Grikkja, Ítala, Pólverja og Ungverja“.

Og auðvitað viljum við ekki vera í slíkum tossabekk!

Sjálfsagt er margt gáfulegt í þessari skýrslu og sjálfsagt er rétt að kynna sér hana í þaula, enda fjallar hún um „flesta þætti atvinnu- og efnahagslífsins“, en að svo stöddu hef ég bara við að styðjast frásögn Fréttatímans og umræðuþátt í sjónvarpinu. Og í þessum heimildum er einmitt sjónum beint að umfjöllun skýrslunnar um menntakerfið, sem vel að merkja er sérstakt áhugamál mitt og starfsvettvangur.

Ekki kemur á óvart að niðurstaðan sé að skólakerfið þurfi „róttækan uppskurð“ eins og segir í fyrirsögn Fréttatímans. Þegar það er haft í huga að „samráðsvettvangurinn er skipaður helstu stjórnmálaleiðtogum og forsvarsmönnum atvinnulífsins“ kemur heldur ekki á óvart hvað talið er þurfa að skera upp og hvernig það skuli gert.

Rétt er að minna á að meginmarkið hópsins var að finna leiðir til að ná fyrrnefndum meðalhagvexti næstu tæp 20 ár.

Þetta er ekki fyrsta skýrslan á Íslandi um menntakerfið. Hver skýrslan á fætur annarri, nánast árlega eða oftar síðustu áratugi, hefur verið unnin „af ábyrgð og festu“, að sögn til að finna leiðir til árangursríkara skólastarfs. Við höfum komið illa út úr árangurssamanburði í PISA könnunum, við höfum komið illa út úr OECD samanburði um brottfall úr framhaldsskólum og við komum illa út úr samanburði á rekstrarkostnaði grunnskóla. Til allrar hamingju á þetta síðasttalda þó hvorki við framhalds- og háskólana okkar, sem eru víst tiltölulega ódýrir!

Megináhyggjuefnið vegna framhaldsskólakerfisins hefur löngum verið brottfallið. Samráðsvettvangur stjórnmálaleiðtoga og atvinnulífsfrömuða hefur nú fundið í einni aðgerð lausn á brottfallsvandanum og leið til að auka hagvöxtinn. Skv. umfjöllun Fréttatímans felst lausnin í því „að stytta nám í grunnskóla og framhaldsskóla um samtals tvö ár og draga þannig að miklu leyti úr miklu brottfalli íslenskra framhaldsskólanema“. Við það myndi „landsframleiðsla aukast um 3-5%“. Svo er líka talið ráð að fækka skólum verulega og stækka þá.

Nú verður að hafa þann fyrirvara á að þetta er túlkun blaðamanns Fréttatímans á efni skýrslunnar, en hvort sem ofangreint orsakasamhengi er frá honum komið eða skýrsluhöfundum þá lýsir það alla vega algjörum skorti á ályktunarhæfni. Það er óskiljanlegt að nokkrum manni, „þeim er vitandi er vits“, detti það í hug í alvöru að stytting skólagöngu um tvö ár leiði til minnkandi brottfalls. Eða að birta slíkt í skýrslu sem væntanlega á að taka alvarlega í þjóðfélagsumræðu?

Vonandi sjá allir að hagvaxtarmarkmið samráðsvettvangsins á sviði menntamála eru á hæpnum grunni, svo ekki sé meira sagt. Og vonandi eru aðrar tillögur í skýrslunni ekki sama marki brenndar.

Aðrar niðurstöður skýrslunnar varðandi skólakerfið eru gamalkunnur söngur: auka kennsluskyldu, fjölga í bekkjum, sameina og stækka skóla („óhagkvæmar einingar“ heitir það á máli hagvaxtarfræðinganna).

Á sama tíma og forsætisráðuneytið hendir peningum í skýrslugerð af þessu tagi eru engir peningar tiltækir til þess að innleiða nýjustu framhaldsskólalögin, sem þó eiga að vera að fullu komin í gagnið árið 2015.

Og hverjar skyldu þá vera helstu áherslurnar í nýju lögunum? Hvernig skólakerfi er það sem stjórnmálaleiðtogarnir eru tiltölulega nýbúnir að samþykkja á Alþingi að íslensk börn og ungmenni skuli ganga í gegnum? Er það skólakerfi sem byggir á stærðarhagkvæmni, á „hagkvæmum einingum“ reiknilíkananna? Á einsleitni og fjöldaframleiðslu hagkvæmra atvinnulífseininga úr holdi og blóði?

Nei. Svoleiðis skólakerfi stendur ekki til, lögum samkvæmt, að byggja upp hér á landi.

Grunntónninn í núgildandi lögum um öll skólastigin, leik-, grunn-, og framhaldsskóla, er mannréttindi, lýðræði, -þarfir, réttindi og áhugasvið einstaklingsins-, nauðsynlegur sveigjanleiki til að undirbúa nemendur fyrir síbreytilegan heim. Grunntónninn í lögunum er mannúðlegur; að bera virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins, að efla hvern og einn svo honum geti liðið vel í eigin skinni.

Og er ekki skóli án aðgreiningar opinber stefna? Hvernig samræmist skóli án aðgreiningar stækkun skóla og fjölgun nemenda í bekkjardeildum?

Til að ná markmiðum laga þarf að auka sérfræðiaðstoð í skólunum svo hægt sé að taka vandamál, sem eru ærin, föstum tökum strax í upphafi. Eina færa leiðin til að auka kennsluskyldu íslenskra kennara byggist einmitt á þessu. Ráða inn í skólana skrifstofufólk og sérfræðinga á ýmsum sviðum og losa kennarana um leið við fjöldamörg verkefni sem þeim er nú ætlað að sinna meðfram kennslunni. Þeir yrðu manna fegnastir. Ekki hafa þeir beðið um öll „aukaverkin“ sem laumað hefur verið á borðin þeirra smám saman í gegn um tíðina og taka orðið allt of mikla orku frá sjálfri kennslunni. Þeir hafa hins vegar tekið við verkefnunum, að mestu möglunarlaust, af inngróinni samviskusemi og skyldurækni.

Þó margháttuð þróun hafi orðið á skólastarfi undanfarin 30 ár (tölvuvæðing, verkefnamiðað nám, fjarnám, „spegluð kennsla“, einstaklingsmiðað nám og svo frv.), þá er víða og á ýmsan hátt hægt að „skera upp“ í skólastarfi. Kennarar eru almennt tilbúnir til að taka þátt í alvöruvinnu við að bæta skólastarf.

En þessar hugmyndir, sem nú hefur verið kastað fram einu sinni enn, miða ekki að því að bæta skólastarf og efla fjölþætta menntun sem gagnast muni við lausn ófyrirséðra verkefna í þjóðfélagi framtíðarinnar. Þær miða einungis að því að spara peninga í skólakerfinu.

Best færi á því að þessi skýrsla færi sem hljóðlegast í ruslið.

 

 

 

 

 

 

Blessað brottfallið!

Aðalforsíðufréttin í Fréttablaðinu þann 30. apríl sl. fjallaði um brottfall nemenda úr framhaldsskólum. Það má vel kalla það fagnaðarefni að þetta málefni skuli vera mikilvægasta fréttaefnið þann daginn – ekki er menntamálum yfirleitt gert hátt undir höfði í íslensku pressunni. Því má einnig fagna sérstaklega að fréttin er nokkuð vönduð en ekki  jafn grátlega yfirborðskennd og allt of mörg fréttin, leiðarinn eða umfjöllun almennt er um þennan mikilvæga málaflokk.

Blaðið skoðaði ástæður þess að nemendur hættu í námi í þremur framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Samviskusamlega er því haldið til haga í fréttinni að brottfall sé mun hærra hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og yfir meðaltali í OECD-ríkjum.

Nemendur þessara þriggja skóla gefa upp margar ástæður fyrir brotthvarfi sínu. Þeir nefna oft, skv. Fréttablaðinu,  áhugaleysi, námserfiðleika, líkamleg veikindi og flutning yfir í annan skóla. Í um 10% tilvika nefna þeir fjárhagserfiðleika og um 9% þeirra sem hættu námi í miðju kafi segja ástæðuna vera kvíða, þunglyndi og andleg veikindi. Ef brottfallið er um 30%, eins og fram kemur í fréttinni, þá hættu um 8500 nemendur námi af þeim 28 þúsund sem skráðir voru í framhaldsskóla árið 2011. Af þessum 8500 hættu um 19%, eða um 1600 nemendur, vegna fjárskorts eða andlegra erfiðleika.

Ekkert þarf að fjölyrða um það að „fyrri námsárangur hafi mikið forspárgildi“ fyrir gengi framhaldsskólanemenda. Það segir sig sjálft að nemendum sem gengur vel í grunnskóla muni líka, ef ekkert sérstakt kemur upp á, ganga vel í framhaldsskóla – og háskóla ef út í það er farið. Á sama hátt er við búið að nemendur sem eiga í erfiðleikum í grunnskóla muni áfram glíma við erfiðleika eftir að því skólastigi er lokið. Skiptir þá engu hver ástæðan er; almennir námserfiðleikar, sértækir námserfiðleikar, hegðunarerfiðleikar, fjölskylduvandi, fíkn, sjúkdómar.

Stór hluti af þessu vandamáli er sá að í mörgum tilvikum er ekki tekið á málum af fullri festu og einurð við upphaf skólagöngunnar, heldur sættir þjóðfélagið sig við það að börn sem eiga við vanda að stríða séu látin veltast áfram í gegnum skólakerfið, án þess að viðunandi bót sé ráðin á. Skólunum er gjarnan kennt um – kennurum og skólastjórnendum.

Svo koma börnin upp í framhaldsskólana og „allt er böl sem fyrr“. Þá eiga framhaldsskólarnir skyndilega að kveikja á perunni, „koma til móts við áhuga, getu og færni hvers nemanda með fjölbreyttu námsframboði, kennsluháttum, námsmati, bla, bla, bla…“, eins og þetta sé ekki allt saman þegar viðhaft, meira og minna, á öllum skólastigum? Rótina að áhugaleysi nemenda er ekki að finna í skorti á „nýbreytni í skólastarfi“, hvort sem er í leikskólum, grunnskólum eða framhaldsskólum. Þær rætur liggja dýpra í samfélaginu. Langflestum kennurum er nefnilega ljós vandinn, og ábyrgð sín, og gera það sem þeir geta til að þjónusta nemendur sína sem best, við erfiðar aðstæður.

Ef marka má upplýsingarnar á forsíðu Fréttablaðsins, sem koma ágætlega heim og saman við þann veruleika sem kennarar standa frammi fyrir í störfum sínum, þá er hinn mikli brottfallsvandi íslenskra framhaldsskólanemenda ekki fyrst og fremst skólapólitískur. Hann er hinsvegar bæði félagslegur, heilbrigðispólitískur og efnahagslegur.

Það þarf annars vegar að stórbæta heilbrigðiskerfið, sérstaklega geðheilbrigðisþjónustuna, og hinsvegar að tryggja íslenskri æsku þær aðstæður að þurfa ekki að stunda vinnu í stórum stíl meðfram námi til að framfleyta sér, til að von sé um bættan námsárangur og minna brottfall. Á að viðurkenna þá framvindu að meðalnemandi geti lokið framhaldssskólanámi á „eðlilegum tíma“ í aukastarfi með fullri vinnu annars staðar? Eru það eðlilegar námskröfur?

Ef þjóðfélagið sættir sig við það að framhaldsskólanemendur vinni jafn mikið og þeir gera, þá verðum við að gjöra svo vel að sætta okkur við það um leið að margir nemendur séu lengur en viðmiðunartíma að ljúka prófum, margir „taki sér frí frá námi“ og aðrir hætti. Ef þjóðfélagið sættir sig við það, án þess að bregðast umsvifalaust við af fullri alvöru, að fjöldi barna og ungmenna eigi við svo mikið þunglyndi og geðræn vandamál að stríða að það hamli þeim stórkostlega í námi, þá verðum við að gjöra svo vel að sætta okkur við mikið brottfall og erfiðleika í skólakerfinu.

Ef við viljum bjóða upp á jafn opið og sveigjanlegt skólakerfi og raunin er, þar sem allir nemendur eiga rétt á því að velja sína leið og breyta um stefnu þegar þeim býður svo við að horfa, í stað þess að draga þá í dilka fyrir lífstíð eftir námsárangri við 10 eða 12 ára aldur  – þá verðum við líka að sætta okkur við það að brottfallið fari yfir meðaltöl OECD. Og hvað gerir það til? Eða eru mannréttindin sem felast í sveigjanleikanum einskis virði?

Leiðin að bættu skólastarfi, hvort sem er í grunnskólum eða framhaldsskólum, er ekki sú sem stjórnmálamenn hafa troðið lengi undanfarið – að reyna að breyta vinnutímaskilgreiningum og aldursafslætti í kjarasamningum kennara svo hægt sé að láta þá kenna lengur og meira innan dagvinnumarka – eða að stytta nám til stúdentsprófs. Slíkar aðgerðir munu hvorki bæta skólastarf né minnka brottfall, eins og margur einfeldningurinn hefur haldið fram.

Fleiri nemendur með fleiri „vandamál“ í fleiri bekkjum í fleiri kennslustundum í stundatöflu eldri kennara er ekki lausnin. Sjáum við fyrir okkur löggur að djöflast í slagsmálum á götunni fram undir sjötugt? Eða að hjúkkur á sjötugsaldri séu píndar til að ganga sambærilegar vaktir og þær gerðu um þrítugt?

Eitt af því mikilvægasta fyrir skólastarfið er það sem nefnt var hér að ofan: bæta þjónustuna og taka á vandamálunum strax í upphafi af meiri festu. Heilbrigðiskerfið má t.d. bæta umtalsvert með því að bjóða upp á aukna þjónustu í skólunum. Þar sárvantar sérmenntað fólk af ýmsu tagi: sálfræðinga, geðlækna, sérfræðinga í almennum og sértækum námsröskunum o.s.frv. Þetta kostar aukið fé, öfugt við töfralausnir pólitíkusanna sem allar miða fyrst og fremst að því að minnka kostnaðinn við skólakerfið – og munu um leið rústa því endanlega.

Þarna stendur hnífurinn í kúnni.

 

In memoriam – gljúfur fullt af drullu

Ein af mínum allra sterkustu upplifunum á ríflega hálfrar aldar ævi er ferð á hestum um öræfin norðan Vatnajökuls, einmitt á þeim tíma sem framkvæmdir við Kárahnjúkastíflu voru að hefjast. Ég var leiðsögumaður fyrir hópi útlendinga á vegum Íshesta, en óskoraður ferðarforingi var Jón Þór, bóndi á Glúmsstöðum í Fljótsdal. Um þetta ferðalag hefi ég ort kvæði, sem birtist í ljóðabókinni Guðað á gluggann frá 2006.

Lagt var upp nærri Skriðuklaustri og riðið upp á Fljótsdalsheiði, í slóð Eyvindar, sem segir frá í Hrafnkelssögu, að Eyvindarfjöllum þar sem náttað var. Þá um Eyvindarskarð og niður í Hrafnkelsdal að Aðalbóli. Á þriðja degi var stefnan tekin á snarbrattar hlíðar dalsins, um fjöll og hálsa að Hafrahvammagljúfrum. Þaðan sem leið liggur um Desjarárdal meðfram Kárahnjúkum og suður Vesturöræfi að Sauðárkofa. Dýrðlegur staður og sumarnóttin ógleymanleg. Kofinn liggur nú í ómælisdjúpi, sjálfsagt líka á bólakafi í aur og leðju. Frá Sauðá var snúið til austurs; áfangastaðurinn Snæfellsskáli.

Fimmta dagleiðin lá suðurfyrir Snæfell, um Þjófagil ef mig misminnir ekki örnefnin, og fram á Eyjabakka. Hreindýrahjörð brokkaði í hæfilegri fjarlægð, útsýn yfir Eyjabakka er einhver sú fegursta sem hægt er að hugsa sér. Síðasta hluta ferðarinnar fylgdum við Jökulsá niður í Fljótsdal, með sinni ægifögru fossaröð, og enduðum á upphafspunkti ferðalagsins. Á þessu ferðalagi kom ég m.a. bæði í Sauðárkrók og að Laugarási!

Því rifja ég þetta upp að við hjónin nýttum verkalýðsdaginn til þess að renna „suður“, vestur yfir Hellisheiði, til þess að sjá mynd Ómars Ragnarssonar, In memoriam, án spurningarmerkis. Það var ánægjulegt og viðeigandi að Ómar kom í Bíó Paradís í eigin persónu og fylgdi mynd sinni úr hlaði af alkunnum eldmóði.

Starf Ómars verður aldrei metið til fjár. Myndirnar sem hann hefur tekið af hinni drekktu náttúru eru fegurstu eftirmæli sem hugsast getur og ekki þarf að orðlengja um áhrifamátt þeirra. Það sem mér þótti þó áhrifamest var niðurlag heimildamyndarinnar. Þar voru sýndar sumar afleiðingar virkjunarframkvæmdanna. Blindandi leirmökkur í lofti í sunnangjólu, ljót rofsár í þykkum jarðveginum þegar lægst er í Hálslóni og gljúfrið neðan við Kirkjufoss sem er orðið nánast fullt af framburði, yfir eitt hundrað metra þykkri uppfyllingu, jökulleir og fínsandi. Enda fer fossinn á bólakaf þegar vatnsstaðan er hæst í lóninu. Það er ekkert annað en lygilegt hve mikil jökuleðja hefur safnast fyrir á ekki lengri tíma en þessum 10 árum sem liðin eru.

Út frá þessu síðastnefnda eru leiddar að því líkur í myndinni að raunverulegur „líftími“ virkjunarinnar verði mun styttri en opinberar áætlanir kveða á um – að lónið fyllist af drullu á miklu skemmri tíma.

Ekki er ég sá reiknimeistari í framburði að geta lagt á þetta sjálfstætt, vísindalegt mat – en myndirnar af smekkfullu „fyrrverandi“ djúpu gljúfri voru óhuggulegar, sannast sagna.