Hálfsannleikur oftast er…

Tilvitnun

Þorlákur Helgason skrifaði fyrir svona hálfum mánuði í blað sitt, Selfoss – Suðurland, fréttaskýringu um stöðu Árborgar. Þar leitaðist hann við að skýra sveiflur í fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Hann benti á þær staðreyndir að á árunum 2002 til 2010 hafi skuldir vissulega aukist, en að augljósar skýringar á því væri að finna í gríðarlegum framkvæmdum og uppbyggingu. Að sama skapi væri núna hægt að lækka skuldir með auknum tekjum og samdrætti í framkvæmdum og uppbyggingu. Formúlan væri svona:

Miklar framkvæmdir og uppbygging = Auknar skuldir.

Takmarkaðar framkvæmdir og uppbygging = Möguleg skuldalækkun

 

Ástæðna fyrir þessari umfjöllun Þorláks er einkum að leita í framhlaupi tímans: Nú líður að sveitarstjórnarkosningum og nauðsynlegt er, að mati hans, að leiðrétta þá einhliða framsetningu á fjárhag og rekstri sveitarfélagsins sem núverandi meirihluti bæjarstjórnar hefur stundað.

Höfuðpaur núverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks hefur skýrt sveiflur í fjárhagsstöðunni þannig að bæjarstjórnir áranna 2002-2010 hafi safnað skuldum en undir stjórn hans sjálfs hafi skuldir lækkað. Og þessa framsetningu hefur hann komist upp með, gagnrýnislítið. Formúla höfuðpaursins er svohljóðandi:

Bæjarstjórnarmeirihlutar 2002-2010 = Skuldaaukning

Bæjarstjórnarmeirihluti 2010-2014 = Skuldalækkun.

 

Fyrir sitt leyti er það rétt að skuldir fóru vaxandi 2002-2010 en hafa lækkað nokkuð frá 2010. En framsetning af þessu tagi er ekkert annað en blekkingarleikur. Nýjasta dæmið má lesa í Selfoss – Suðurlandi í dag.

Það sem máli skiptir er einmitt það sem Þorlákur Helgason reyndi að benda á í fyrra tölublaði (hann heldur svo áfram að klappa þann stein í því nýja) að skuldaaukning áranna 2002-2010 er ekki afleiðing þess að tekin hafi verið lán og peningunum hent út um gluggann. Peningunum sem teknir voru að láni var vel varið. Þeim var varið til uppbyggingar á skólum, leikskólum, íþróttamannvirkjum, fráveitumannvirkjum, vatnsveitumannvirkjum og almenningssamgöngum, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er ekki glatað fé, heldur liggja sameiginlegir fjármunir íbúa sveitarfélagsins í varanlegum eignum, í þeim grunnstoðum sem nauðsynlegar eru til að þrifist geti gott samfélag.

Og sveitarfélagið tók algerum stakkaskiptum á árunum 2002-2010. Hér er nú nánast allt til alls. Þannig var það ekki vorið 2002. Íbúarnir munu njóta þess til framtíðar að hér var öllum aðstæðum fjölskyldna umbylt til að þær mættu blómstra. Þetta átak kostaði verulega skuldasöfnun en núverandi bæjarstjórn nýtur góðs af uppbyggingunni og getur sem betur fer slakað mikið á framkvæmdahraðanum, horft á síauknar skatttekjurnar renna í kassann og notað þær til þess að greiða niður skuldirnar, í stað þess að velta vöngum yfir því t.d. hversu hratt mögulegt væri með nokkru móti að auka framboð á leik- og grunnskólaplássum til að fylgja íbúafjölguninni. 

Á tímum sem nú, þegar íbúafjöldinn stendur nánast í stað og nauðsynleg þjónustumannvirki sinna þörfinni í stórum dráttum, væri ábyrgðarleysi að greiða ekki niður skuldir, það er í raun sjálfgefin ráðstöfun. Á uppgangstímunum 2002-2008, þegar íbúafjölgunin var um 30% og nauðsynleg þjónustumannvriki önnuðu ekki eftirspurninni nándar nærri, hefði verið ábyrgðarleysi að leysa ekki úr vandanum og fara í þá stórkostlegu uppbyggingu sem við blasir nú. Það kostaði tímabundna skuldaaukningu (jafnvel þó ekki hefði að auki komið til efnahagshrun og margfrægur „forsendubrestur“). Vonandi næst að lækka verulega skuldastabbann áður en næsta íbúafjölgunarhrina skellur á.

En það sem eftir stendur er að útskýringar höfuðpaurs Sjálfstæðismanna í Árborg á sveiflum í fjárhag sveitarfélagsins eru ekki nema hálf sagan, og tæplega það. Og allir vita það víst að…

„hálfsannleikur oftast er

óhrekjandi lygi.“

 

Austurleitarvísur

Fjallferð Austurleitar á Grímsnesafrétti

 

Austurleitin enn skal halda inn til fjalla,

um birkihlíðar, bratta stalla,

bunulæki, gil og hjalla.

 

Hófasláttinn herða má við háar brúnir

Hrossadals, í friðinn flúnir

fjallmenn, samt við öllu búnir.

 

Kætir geð að komast inn úr Klukkuskarði.

Um hvað rætt þó engan varði,

og eitthvað lækki pelans kvarði.

 

Leiðin síðan liggur norður Langadalinn.

Faðma allan fjallasalinn.

Fegurst þessi afrétt talin.

 

Undir kvöldið lenda Kerlingar við kofa.

Jafnan farið seint að sofa

og sungið eins og raddbönd lofa.

 

Kamarinn í Kerlingu er kúnst að nýta:

Þú berar úti bossann hvíta

og bakkar inn, til þess að skíta.

 

Aftur sama aðferð þegar út er farið;

á hækjum sér, með höfuð marið

og helgidæmið allt óvarið.

 

Héðan fjallmenn hálfan ríða hring um Breiðinn.

Kargaþýfð og löng er leiðin.

Já, lystug verður blóðmörssneiðin.

 

Fyrst skeiðið renna, skála undir Skriðuhnjúki.

Flæðir þaðan mosinn mjúki,

móðir jörð sem þakin dúki.

 

Höfuð ber og herðar yfir, Hlöðufellið.

Það augum kastar, ansi brellið,

yfir hraun og jökulsvellið.

 

Á feti ríður flokkurinn á Fífilvelli.

Tign er yfir Tjaldafelli

sem tekur undir smalans gelli.

 

Ei lokka Skersli. Lengra sér til Lambahlíða.

Þangað ekki þarf að ríða

þó að sjáist „kindur“ víða.

 

Skyggnst er um af Sköflungi og Skjaldbreið líka.

Spariklæðum fjöllin flíka.

Fegurð sem á enga líka.

 

En skelfing líkjast skítahraukum Skefilfjöllin!

Eins og hafi hægt sér tröllin

á harðaspretti suður völlinn.

 

Teygist líka töluvert úr Tindaskaga

enda tröllin oft að plaga

iðrakveisur, forðum daga.

 

Hrafnabjargahálsinn þykir hörmung sveitar

sem blá af kulda bráðum neitar

að bíða komu Vesturleitar.

 

Öræfanna úti brátt er ævintýri.

Kveður fjallaheimur hýri

er heilsar smölum Kringumýri.

 

Að lokum þarf að lóna suður Lyngdalsheiði.

Jafnan ber þar vel í veiði,

vænir dilkar á því skeiði.

 

Rökkurvökur, rómur hás og rassinn sári!

Þokkalegur, þessi fjári,

en þeginn vel á hverju ári.

 

Þó að smalar þvældir gerist, þverri kraftur,

í skinni brennur brátt hver kjaftur

og bíður þess að fara aftur.

 

Birtist áður í Hvatarblaðinu, málgagni Umf. Hvatar í Grímsnesi, sept. 2013

 

 

Himneskt haust?

Sumarið hefur verið heldur vætusamt, svo jafnvel sækir leiði að besta fólki. Undanfarnir septemberdagar hafa hins vegar verið með ágætum, og þá eru vonirnar fljótar að glæðast:

Sumar bauð það súran kost
að seint úr hug mun líða.
Náði hingað næturfrost.
Nú er sól og blíða.

Það er ei við leiða laust
af langri sumars vætu
en fáum við kannski himneskt haust
með hita og sólarglætu?

Íslandsmótið í menntun

Margir átta sig á því að menntun er lykill að farsæld, þó vitaskuld megi finna ágæt dæmi um að menn komist vel af án langrar skólagöngu. Ég hygg að allir stjórnmálaflokkar hafi það t.d. á stefnuskrá sinni með einhverjum hætti að „hækka menntunarstig“, enda sé það forsenda fyrir nýjum tækifærum, nýjum störfum, nýjum og auknum útflutningstekjum – já, hagvexti framtíðar. Halda áfram að lesa

Hlauptu, krakki, hlauptu!

Nú er hafið enn eitt áhlaupið að styttingu náms til stúdentsprófs. Menntamálaráðherra hefur í fjölmiðlum sagt að öll rök hnígi að þessu, því í öðrum löndum sé námstíminn ári styttri en hérlendis. Öðrum rökum virðist ekki til að dreifa. Fleiri hafa tekið undir þetta og jafnvel haldið því fram að vegna þessa séu ungmenni á Íslandi „þrepi á eftir“. Aðrir, t.d. Anna María Gunnarsdóttir og Jón Páll Haraldsson hér í Fréttablaðinu, hafa reynt að dýpka umræðuna og bent á að taka verði með í reikninginn margvíslegan aðstöðumun milli Íslands og annarra landa þegar farið er í jafn flókinn samanburð.

Þau áform að stytta framhaldsskólann hafa lengi verið á teikniborðinu og því hefur jafnvel verið haldið blákalt fram að styttingin sé vænleg leið til þess að draga úr brottfalli og bæta skólastarf, sem skili litlum árangri miðað við fjárframlög.

Gott og vel. Lengi má bæta skólastarf og ekki skal dregið úr nauðsyn þess að vera sífellt á tánum hvað það varðar. En margt gott má segja um framhaldsskólakerfið, enda hafa löggjafinn og ráðuneytisfólk, og pedagógar á þeirra vegum, undanfarin a.m.k. 40 ár setið í svitabaði við að kreista fram leiðir til að koma betur til móts við áhuga, þarfir og getu nemenda, fjölga námsleiðum og auka sveigjanleika kerfisins, svo allir gætu fundið sér eitthvað við hæfi. M.a. eru fjölbrautaskólarnir skilgetið afkvæmi þessarar viðleitni, sem og öll löggjöf frá 1970. Þrátt fyrir þetta þrjóskast langflest íslensk ungmenni enn við og innrita sig á bóknámsbrautir til stúdentsprófs.

En þetta var útúrdúr. Stytting framhaldsskólans mun, ein og sér, hvorki bæta skólastarf né draga úr brottfalli. Það sorglega við þetta allt sama er hve innilega hugmyndasnauð umræðan er. Nemendur sem fá 8,0 eða hærra í meðaleinkunn á grunnskólaprófi munu vissulega ljúka stúdentsprófi vandræðalaust á þremur árum. Brottfallsvandinn herjar ekki á þá og stytting námstíma mun lítil áhrif hafa á námsárangur þeirra eða framtíðarplön. Þeir munu bara leysa sín mál, hér eftir sem hingað til, þrátt fyrir skólakerfið. Það hafa þeir lengi sýnt í áfangaskólunum, byrjað á framhaldsskólanámi á grunnskólaaldri og lokið svo stúdentsprófi á mettíma.

Styttingaráformin munu hins vegar uppfylla ríkulega hið dulda markmið, sem ekki virðist mega ræða upphátt: að spara peninga. Vel að merkja: nokkur undanfarin ár hafa verið sparaðir a.m.k. 12 milljarðar í framhaldsskólakerfinu, sem er víst orðið ódýrara hér en víða annars staðar. Hver er þá vandinn?

Öll nálgun menntamálaráðherrans að skólamálum er þess eðlis að hann líti á menntun sem keppnisíþrótt. Haldin eru „héraðsmót“ víða um land sem jafnframt eru úrtökumót fyrir „landsmót“ á þjóðarleikvanginum. U.þ.b. 95% hvers árgangs skráir sig til keppni, langflestir í hlaupagreinar og hingað til hafa allir sem komast í mark átt þess kost að keppa á landsmótinu.

En nú ákveður sem sagt mótsstjórinn að herða tímamörkin í 10 sekúndur, enda hlaupa margir í útlöndum svo hratt. „Öll rök“ hníga sem sagt að þessari breytingu. Þessi ákvörðun breytir að vísu engu fyrir hina fáu fótfráustu, þá sem eru skráðir í 100 metrana. En hvað um „keppendur“ í 200 metrum, maraþoni, 50 km. göngu eða grindahlaupi? Mun þetta leiða til betri árangurs og minna brottfalls meðal þeirra? Þvert á móti munu enn fleiri detta og meiða sig, hverfa á brott á sjúkrabörum án þess að eiga afturkvæmt, eða þurfa að setjast á hnjaskvagninn og fá aðhlynningu við hliðarlínuna áður en þeir geta haldið áfram, auðvitað langt frá tímamarkinu, undir stöðugum köllum úr stúkunni: „Hlauptu, krakki, haluptu!“ Hundraðmetrahlaupararnir eru löngu komnir í sturtu.

Það sem íslensk ungmenni eiga heimtingu á frá menntamálaráðherra eru ekki illa dulbúnar sparnaðarhugmyndir, heldur hugmyndir um það hvernig til stendur að koma til móts við lang- og grindahlauparana, þá sem hentar illa að hlaupa bara nógu hratt, en gætu jafnvel fundið sig í köstum eða stökkum. Hugmyndir um það hvernig má sannfæra afrenndan kúluvarpara til að skrá sig sjálfviljugan í kúluvarp en ekki 3000 m. hindrunarhlaup, sem hann þarf að ljúka á 10 sek.

Slíkar hugmyndir gætu dregið úr brottfalli og bætt skólastarf – og mættu gjarnan vera forgangsmál nýskipaðs menntamálaráðherra. 

Greinin birtist á visir.is 17. september 2013