Spillingarsaga V – Landssímasukkið hið síðara

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023: bls. 299-307).

Elítan í Sjálfstæðisflokknum gjörnýtti sannarlega ríkisfyrirtækið Landssímann til óhæfuverka á markaði. Segja má að frjálshyggjupostularnir hafi ríkisvætt hátæknigeirann og sukkað gróflega með opinbert fé til að koma einkafyrirtæki fyrir kattarnef og hindra samkeppni. Fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar var samið og lagt fram til að drepa Norðurljós og Stöð 2, enda í „óæskilegri eigu“. Þegar sú vegferð (sem væri fullt tilefni til að rekja hér, en einhvers staðar verður að setja mörkin) fór út um þúfur þurfti Davíð að beita öðrum meðulum en löggjafarvaldinu til að drepa samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Elítan hafði fulla stjórn á ríkismiðlunum og nú var Landssímanum beitt eins og hverju öðru stríðstóli gegn hinu voðalega fyrirbæri: „Frjálsri samkeppni“.

Elítan lét ríkisbankana fjármagna Íslandssíma í samkeppni við Landssímann. Á sama tíma var Landssíminn látinn fara hamförum á fjarskiptamarkaði með uppkaupum á fyrirtækjum. Elítan var á öllum póstum, bæði í Íslandssíma og Landssímanum, Páll Kr. Pálsson í Íslandssíma og Þórarinn V. Þórarinsson, fv. forkólfur í samtökum atvinnurekenda (sem klíkan var vel að merkja með fulla stjórn á líka) forstjóri Landssímans um þessar mundir.

Þá kemur aftur til sögunnar sjónvarpsfyrirtækið Skjár einn, sem naut vaxandi vinsælda með „ferskri, íslenskri dagskrárgerð og opinni dagskrá“. Meðal annars var á dagskránni vinsælasti umræðuþátturinn í íslensku sjónvarpi þau misserin, Silfur Egils. Þessar vinsældir og vöxtur fullnægði samt ekki valdaþörf elítunnar, sem vildi allsherjaryfirráð, og byrjaði á því að reka Egil Helgason, sem hefur væntanlega ekki verið nógu talhlýðinn „leigupenni“ fyrir smekk elítunnar.

Á yfirborðinu fóru með Skjá einn ungir sjálfstæðismenn í Kópavogi, Árni Þór Vigfússon og bræðurnir Kristján Ra og Sveinbjörn Kristjánssynir. Enginn utanaðkomandi botnaði í hvaðan þetta sjónvarpsfélag sótti peninga til að standa undir dýrri íslenskri dagskrárgerð.

Síðar (2005), þegar þeir félagar voru dæmdir fyrir stórfelld skattsvik, kom í ljós „hvernig viðskiptanet ungu mannanna úr Kópavogi var samofið viðskiptum Eyþórs Arnalds og aðilum í innsta hring Sjálfstæðisflokksins. Eyþór var stjórnarmaður og viðskiptafélagi dæmdu mannanna í fjölmörgum fyrirtækjum þangað sem vafasamt fé streymdi inn“ (301), og hafði m.a. komið að kaupum á Skjá einum strax árið 1999.

En sem sagt: Hvaðan komu peningarnir sem héldu Skjá einum á floti?

Auðvitað úr vasa einstaklinga úti í bæ, sem notuðu eigin peninga og áhættu til að stunda heiðarleg viðskipti á frjálsum markaði, eins og frjálshyggjufólk er óþreytandi að lýsa hugsjónum sínum?

Nei, hárrétt hjá þér, lesandi góður. Þetta var illa fengið fé, skafið innan úr fyrirtæki í opinberri eigu, peningar í eigu almennings, sem voru hér misnotaðir í þágu elítubræðra, eins og fyrri daginn – og hinn síðari líka. Og, rétt til getið aftur, úr Landssímanum, þar sem aðalgjaldkerinn reyndist bróðir forsvarsmanns Skjás eins og hafði með fölsun bókhaldsins borað aðrennslisgöng fyrir peninga, hundruð milljóna árum saman, inn í Skjá einn, út úr Landssímanum.

Þessi svikamál (bókhaldssvik og skattsvik) voru fyrir dómstólum 2004 og 2005, og það var ekki fyrr en að þeim loknum sem Eyþór færði sig opinberlega yfir í pólitík, tók við sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Árborg fyrir kosningar 2006 (bls. 300-301).

Spillingarsagan fram að Hruni einkennist af yfirráðum fámennrar klíku yfir fjármunum annarra. „Nokkrir aðaleigenda Skjás eins sem einnig tengdust Japis, Íslandsneti, Íslandssíma og fleiri fyrirtækjum voru samábyrgir fyrir viðtöku stolins fjár úr Landssímanum, hvort sem þeir stóðu fyrir fjárdrættinum eða ekki“ (301) og á sama hátt samábyrgir fyrir stuldi úr ríkissjóði með skattsvikum, að sækja stórfé gegnum vafasöm hlutafjárútboð í OZ og Íslandssíma og að sjúga fé út úr ríkisbönkunum, með stórundarlegum samningum og viðskiptavild (eins og rakið var í fyrri pistlum).

„Til að skilja framhaldið í öllum þessum pólitíska ósóma þurfa lesendur að átta sig á að aðalviðskiptavinur Íslandssíma og Skjás eins var Landssími Íslands! Síminn átti grunnnetið, aðaldreifikerfið og seldi báðum aðilum aðgang og þjónustu sem var stór hluti af rekstrarkostnaði fyrirtækjanna. Skjár einn lifði því ekki aðeins á stolnu fé frá Landssímanum, fölskum reikningum og óleyfilega keyptum víxlum. Hann lifði á viðskiptavild Landssímans, frestun á greiðslu reikninga, afsláttum og fyrirgreiðslu og samt var Skár einn í stöðugum og viðvarandi fjármagnsvandræðum“ (301-302).

Eimreiðarelítan var samt ekkert af baki dottin. Mjólkurkýr og gullgæs Stöðvar 2 var enski boltinn, en sýningarrétturinn var boðinn út reglulega. Klíkan á bak við Skjá einn stofnaði félag, kallað „Fjörnir“, sem yfirbauð Stöð 2 og hreppti hnossið. Í fyrstu var það háleynilegt hverjir voru þar að baki en síðar kom í ljós að meðal „fjárfestanna“ var enginn annar en Björgólfur Guðmundsson, sem var sannarlega upp risinn eftir Hafskipshneykslið og fangelsisdóm, eftir áfengisævintýri og bjórverksmiðjurekstur í Rússlandi, og þeir feðgar orðnir moldríkir, sonurinn ríkasti maður Íslands og þó víðar væri leitað (það setti lítinn sem engan blett á „gamla“ hér heima að tapa réttindamáli sem samverkamaður í bjórævintýrinu höfðaði, peningarnir og ríkidæmið heillaði landann meira). Björgólfur eldri var þegar hér er komið sögu búinn að koma sér aftur í mjúkinn hjá Eimreiðarelítunni með því að endurreisa Almenna bókafélagið, sem hafði farið á hausinn í höndum Óla Björns Kárasonar nokkru áður, undir nafninu „Nýja bókafélagið“, sem m.a. dældi út áróðursritum fyrir klíkuna, t.d. eftir Hannes Hólmstein, Björn Bjarnason og Ólaf Teit.

Það er lýsandi fyrir óskammfeilni elítunnar að endurvinna nafnið „Fjörnir“, en það var einmitt nafnið á skólablaði Eimreiðarelítunnar sem Kjartan Gunnarsson gaf út í MR á sínum tíma, og birti m.a. umdeilda grein Geirs H. Haarde um „svarta kynþáttinn“ (302). En hvað um það, Davíð, Kjartan Gunnarsson og Brynjólfur Bjarnason keyptu sem sagt ekki enska boltann í eigin nafni, heldur settu Fjörni á svið til hátíðabrigða og til að búa í leiðinni til ágóða fyrir klíkuna.

Og nú hittir þú enn naglann á höfuðið, lesandi góður: „Kaup Landssímans á Fjörni voru tilkynnt 3. september 2004“ (302) og stuttu síðar var Landssíminn búinn að kaupa ráðandi hlut í Skjá einum. Engar upplýsingar voru gefnar um viðskiptin – Landssíminn var jú hlutafélag og undanþeginn upplýsingalögum. Forstjórinn, Brynjólfur Bjarnason, taldi sér á engan hátt skylt að upplýsa um kaupverð, þrátt fyrir að ríkið ætti 98% hlut í Landssímanum, og handhafi þessa hlutabréfs ríkisins, Geir H. Haarde fjármálaráðherra, taldi að honum bæri engin skylda til að afla þeirra upplýsinga, enda væri þetta hlutafélag. Aðspurður um það hvort hann, sem 98% eigandi hlutafjár, gæti ekki boðað til hluthafafundar til að afla upplýsinga um kaupin, svaraði Geir að Símanum væri ekki heimilt að veita honum upplýsingar umfram aðra hluthafa (305). Hvort var Landssíminn ríkisfyrirtæki eða hlutafélag? Eða hvorugt?

Öllum var auðvitað ljóst að tilgangurinn með þessum snúningum á Landssímanum var pólitísk herför frjálshyggjupostula Eimreiðarelítunnar gegn Norðurljósum og Stöð 2 og meðalið var gerræðisleg „ríkisvæðing“ gegn hinum „frjálsum markaði“.

„Sjónvarpsstöð fjölmiðlaklíku Sjálfstæðisflokksins, Skjár einn, sem áður lifði á stolnu fé frá ríkisfyrirtækinu Landssímanum var keypt af Landssímanum í leynimakki og með yfirhylmingu fjármálaráðherra“ (306), sem er ekta dæmisaga um „að fara vel með fé annarra“, ekki satt?

Hvað um það. Með þessum gjörningi voru öll prinsipp (ef prinsipp skyldi kalla) fjölmiðlafrumvarps Davíðs Oddssonar hrunin til grunna. Takmarkað eignarhald fyrirtækja á fjölmiðlamarkaði var krafan sem sett var fram í frumvarpinu, auðvitað beinlínis til höfuðs Norðurljósum, en ef Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar stjórnaði ráðandi fyrirtækjunum á sama markaði var takmarkað eignarhald ástæðulaust með öllu. Það sér hver maður. Þetta er sem sagt ógeðslegt þjóðfélag, engin prinsipp, engar hugsjónir …

Þegar þessi flétta var um garð gengin, Skjárinn orðinn hluti af Símanum, var þess ekki lengi að bíða að tilgangurinn kæmi í ljós: Brynjólfur Bjarnason og Orri Hauksson ýttu á flot nýjum pólitískum umræðuþætti, sem beint var gegn Silfri Egils, og þáttarstjórnendurnir auðvitað úr réttu klíkunni: Illugi Gunnarsson og Ólafur Teitur Guðnason.

Það sem er þó „skemmtilegast“ fyrir okkur nú á dögum að vita er að Katrín nokkur Jakobsdóttir var meðstjórnandi þáttarins, til að „ljá þáttunum yfirbragð hlutleysis“ (307).

Katrín, núverandi forsætisráðherra, var sem sagt strax árið 2005 „komin í bland við tröllin“ og farin að láta Eimreiðarelítuna nota sig til að ljá elítuspillingunni yfirbragð heiðarleika og hlutleysis, hlutverk sem hún hefur síðan látið nota sig í eins og gólftusku.

Spillingarsaga IV – Landssíminn  spillingarvæddur

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023).

Landssími Íslands, síðar Landssíminn, réði um miðjan 10. áratug 20. aldar yfir miklum auði og þekkingu í skjóli einokunar á símaþjónustu, m.a. ljósleiðaranetinu. Að honum sneri Eimreiðarelítan græðgisglyrnum sínum, eftir stöðugar ófarir við að koma á fót einkarekinni sjónvarpsstöð (Stöð 3), í valdafíkn sinni yfir fjölmiðlun í landinu.

Fyrsta skrefið var að h/f – væða ríkisfyrirtækið til að komast undan upplýsingalögum, opinberu aðhaldi og lýðræðislega nauðsynlegu gegnsæi.  Pósti og síma, sem réð yfir Breiðbandinu, var skipt upp og Landssíminn síðan h/f – væddur 1997. Davíð setti kosningastjóra sinn og fyrrum framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Friðrik Friðriksson, auðvitað yfir fyrirtækið. Spurður um ráðninguna sagði Friðrik efnislega að það kæmi engum við, hann væri að taka við stjórnun einkafyrirtækis. Skipti þá víst engu máli að fjármálaráðherra íslenska ríkisins færi með eina hlutabréfið. Reyndar vildi svo „heppilega“ til að sá var Friðrik Sophusson, og stuttu síðar Geir H. Haarde, sem fyrir tilviljun voru báðir í Sjálfstæðisflokknum. Þetta var einmitt ráðandi viðhorf fram að hruni (og er víst enn). H/f – uð ríkisfyrirtæki kæmu almenningi ekkert við, jafnvel þó ekki væri búið að selja þau á markaði, heldur væru að öllu leyti enn í eigu ríkisins, almennings.

Eimreiðarelítan ætlaði sem sagt að bjóða, í gegn um Breiðbandið, heimilum landsins upp á fjöldann allan af erlendum sjónvarpsstöðvum, nota einokunarríkisfyrirtækið í beina samkeppni við einkafyrirtæki sem þurftu að byggja sjálf á eigin kostnað upp sitt dreifingarkerfi, koma þeim fyrir kattarnef og sitja síðan ein að veislukostunum (sem reyndust vera peningahirslur ríkisbankanna). Segja má að þetta komi ekki á óvart því það var við Jón Ólafsson að etja, manninn sem hélt vöku fyrir Davíð Oddssyni næturnar langar árum saman, og gerir kannski enn.

Frjáls samkeppni er hér í sinni fegurstu mynd!!! Sannkallaðir hugsjónamenn á ferð!!!

Eigendur Frjálsrar fjölmiðlunar kærðu þetta umsvifalaust og málið fór fyrir Útvarpsréttarnefnd, sem hafnaði kærunni. Hverjir skyldu hafa setið í útvarpsréttarnefnd? Jú, rétt til getið lesandi góður: Næstaðal úr Eimreiðarhópnum, Kjartan Gunnarsson, var formaður og myndaði ósigrandi meirihluta í þriggja manna nefnd með Bessý Jóhannesdóttur, sem var þingmaður Sjálfstæðisflokksins um skeið (bls. 221-224).

En það var ekki nóg að hlutafélagavæða Landssímann. Stefnan var að einka(vina)væða hann, koma eina hlutabréfinu úr eigu almennings, búta það eitthvað upp, og í hendur (réttra) einstaklinga, enda fyrirtækið með yfirburðastöðu á símkerfum, gagna- og efnisveitum sem voru að taka yfir hlutverk gervihnattamiðlunar.

Nýja ríkissjónvarpið, Breiðbandið, var undir dyggri stjórn fyrnefnds Friðriks Friðrikssonar, en lenti enn í vandræðum með Jón Ólafsson sem stofnaði Tal hf. og rakaði til sín viðskiptavinum á farsímamarkaði, m.a. með slagorðinu heilaga: „frelsi“, „Tal-frelsi“, sem hefur sviðið. Því lá á að einkavæða Landssímann, ekki seinna en strax. Það gat tafist af ýmsum ástæðum, m.a. vegna landsbyggðarþingmanna sem voru með væl um jafnan aðgang allra landsmanna að neti og síma og óttuðust að einkaaðilar myndu þjónusta illa fámenn og ógróðavænleg svæði.

Nú voru góð ráð dýr, og Halldór Blöndal, samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem hafði með fjarskiptamál að gera, stofnaði nefnd! Þeir eru nefnilega alveg æstir í nefndir og nefndastörf, félagarnir í þeim flokki. Nefndin átti að skoða framtíðarfjarskipti og meðal útvalinna nefndarmanna var Eyþór nokkur Arnalds.

Þetta var vel til fundið því Eyþór var þá starfsmaður hátæknifyrirtækisins OZ, sem komst á flug skömmu fyrir aldamót, í gegnum ævintýralegt hlutabréfabrask, var kjaftað upp í hæstu hæðir með hjálp fjölmiðla, forsætisráðherrans Davíðs Oddssonar og forsetans Ólafs Ragnars. Landsbankinn og fleiri ríkisfyrirtæki keyptu hlutabréf fyrir háar fjárhæðir í OZ, sem engin innistæða var fyrir, fyrirtækið fór aldrei á alþjóðlegan hlutabréfamarkað eins og logið var að þjóðinni að gerast myndi, ef ekki í gær þá í dag. OZ hrundi á hausinn 2003 og skildi eftir sig stórtjón m.a. í Landsbankanum, sem afskrifaði allt saman. Formaður bankaráðs Landsbankans, sem stjórnaði fjárfestingum banka í eigu almennings, hver var hann eiginlega? Jú, rétt til getið, lesandi góður: Næstaðal í Eimreiðarhópnum, Kjartan Gunnarsson.

Þrátt fyrir allt þetta skipbrot OZ gat eigandinn, Skúli Mogensen, haldið eftir fyrirtækjum í útlöndum, sem hann seldi svo seinna með miklum gróða, keypti fyrir hagnaðinn m.a. hlut í banka á Íslandi, MP banka Margeirs Péturssonar elítumeðlims, og stofnaði WOW Air „til að sigra heiminn – aftur“ (259). Allir vita hvernig það ævintýri endaði.

En þetta var útúrdúr. Eyþór Arnalds, innanbúðarmaður í OZ, hátæknifyrirtækis á einkamarkaði, var sem sagt settur í nefnd til að skoða framtíðarfjarskipti, og gera úttekt á Landssímanum fyrir einkavæðingu. Stjórnvöld skipuðu sem sagt innanbúðarmenn einkafyrirtækja í hátæknigeiranum í nefnd til að rannsaka innviði ríkisfyrirtækis á sama markaði áður en það var einkavætt! Einhverjum gæti dottið í hug að þar yrðu til innherjaupplýsingar. En slíkar hugrenningar væru auðvitað bara öfund í garð snillinga.

Hvað gerðist enda í framhaldinu? Jú, rétt til getið, lesandi góður: Eyþór Arnalds stofnaði með félögum sínum símafyrirtækið Íslandssíma. Það var mikil tilviljun að fyrirtækið var stofnað mánuði áður en skýrsla Eyþórs og félaga í rannsóknarnefndinni á Landssímanum átti að birtast. Eyþór vísaði aðspurður hagsmunaárekstrum á bug, enda myndi hann alls ekki starfa hjá nýja fyrirtækinu. Hann var að vísu orðinn forstjóri Íslandssíma skömmu síðar, en það flokkast víst ekki undir að starfa hjá fyrirtæki að vera forstjóri þess, heldur að vera í forstjóraleik.

Um miðjan 2. áratug líðandi aldar var Eyþór svo orðinn formaður stjórnar Þjóðleikhússins, stofnunar sem Eimreiðarelítan vildi ráða yfir í sínu „menningarstríði“, og 2017 formaður starfshóps um ítarlega rannsókn á innri starfsemi RÚV „og tók þá svipaðan snúning; fór og keypti vænan hluta af hlutabréfum í útgáfufélagi Morgunblaðsins sem einmitt stóð í sjónvarps- og útvarpsþáttagerð í samkeppni við RÚV, allt með undarlegu eyjafléttuláni frá stórútgerðarfélaginu Samherja“ (268). Láni sem var svo afskrifað stuttu áður en Eyþór var dubbaður upp í borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins. En þetta er nú „framtíðarmúsík“. Við erum enn stödd við árþúsundamótin.

Haustið 1999 fór Íslandssími formlega í loftið með því að Davíð Oddsson hringdi í félaga sinn í flokknum, Sturlu Böðvarsson, samgönguráðherra. En fyrirtækið var í basli og Orkuveita Reykjavíkur var látin fjármagna ljósleiðaravæðingu í borginni í samkeppni við Landssímann. Tvö fyrirtæki í almannaeigu látin bítast um sama bitann og sóa óhemju af opinberu fé, til þess að einkavinir gætu leikið sér í fyrirtækjarekstri og reynt að efla völd elítunnar á fjarskiptamarkaði. Undirfyrirtæki Íslandssíma, t.d. strik.is, voru í stórvandræðum og fóru á hausinn í stórum gjaldþrotum. Skjár einn var látinn taka á sig hluta af tapinu, annað kom beint úr ríkisbönkunum, m.a. í gegn um samstarfssamning sem gerður var við Landsbankann, sem var þar með orðinn næstum því fjórðungshlutseigandi í Íslandssíma. Búnaðarbankinn átti líka stóran hlut.

Landsbankasamningurinn gerði ráð fyrir margföldu raunverulegu virði Íslandssíma, eins árs gömlu símafyrirtæki sem var ekki enn farið að reka farsímaþjónustu. Íslandssími var þannig í raun gerður að ríkisfyrirtæki bak við tjöldin. Alþingi kom það víst ekkert við. Fjárþörf og rekstraráhætta Íslandssíma var færð yfir á skattborgarana, sem voru auðvitað ekki spurðir um álit á gjörningnum.

„Hlutabréfaútgáfa Íslandssíma snemmsumars 2001 var sú illræmdasta á síðari tímum. Umsjónaraðilar hlutabréfaútgáfu á opinberum hlutabréfamarkaði eiga ekki að vera  stórir hluthafar í viðkomandi fyrirtæki en voru það samt (og eru enn, sbr. einkavæðingu Íslandsbanka 2022), aðstöðumisnotkun og hagsmunaárekstrar voru frekar reglan en undantekningin á valdatíma Eimreiðarelítunnar“ (273).

Það fór því eins og auðvitað var, alveg eins og í OZ hrundu hlutabréf í Íslandssíma eins og spilaborg um leið og þau fóru á markað og viðskipti með þau hófust, enda virðið falsað stórkostlega með fjölmiðlakjaftæði, óheftu fjárstreymi úr Lands- og Búnaðarbönkum, hlutabréfakaupum, lánum á sérkjörum og ómældum þjónustukaupum.

„Í Landsbankanum sat Kjartan Gunnarsson og í Búnaðarbankanum Magnús Gunnarsson“ og saman áttu bankarnir tveir a.m.k. ríflega 30% í Íslandssíma. „Hin margboðaða frjálsa samkeppni á nýja hátæknimarkaðnum reyndist öll á vegum ríkisins, sem keppti við sjálft sig í boði Eimreiðarelítunnar“ (274) í tveimur fyrirtækjum, Landssímanum og Íslandssíma. Báðum auðvitað stjórnað af elítunni.

Það má segja að hin margumtalaða „góða meðferð á fé annarra“ sem hrýtur af munni Sjálfstæðismanna í tíma og ótíma eigi alla vega örugglega ekki við þá sjálfa. Hins vegar má taka undir það með Sjálfstæðismönnum að ríkisrekstur sé til mikillar bölvunar, sé hann í  höndum flokkselítunnar, því þar er sannarlega fólk sem hvorki vill né kann að fara vel með annarra fé, almannafé.

Í ljósi sögunnar af OZ, Landssímanum og Íslandssíma er skiljanlegt að Sjálfstæðismenn í Árborg hafi kallað til sín Eyþór Arnalds til að setjast yfir sjóði sveitarfélagsins. Þeir munu ekki hafa haft yfir að ráða neinum öðrum sem átti sér jafn litríka sögu í því að „fara vel með annarra fé“.

Sagan af spillingunni á fjölmiðla- og hátæknimarkaðnum er bæði löng og flókin, sannarlega ógeðsleg. Hér hefur einungis verið tæpt á nokkrum atriðum og eru lesendur þessara lína hvattir til að kynna sér málið nánar með því að lesa bók Þorvaldar.

Í næsta pistli, og þeim síðasta, verður reynt að ná utan um einkavæðingu ríkisbankanna, helmingaskiptaspillingu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins með Landsbankann og Búnaðarbankann.

Sú saga er engin vögguvísa.

 

Spillingarsaga III – BÚR í Hvalskjaft

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023).

Áður en kemur að Landssíma Íslands, einhverju hroðalegasta dæminu um einkavæðingarspillingu í Íslandssögunni, er gott að skoða upphaf spillvæðingarinnar.

Eitt fyrsta verk Davíðs Oddssonar, eftir að hann tók við embætti Borgarstjóra í Reykjavík 1983, var að hefja einkavæðingarferli Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Ferlið hófst með því að Davíð „rak umsvifalaust tvo framkvæmdastjóra BÚR og réð stórvin sinn og félaga úr Eimreiðarhópnum, Brynjólf Bjarnason, sem framkvæmdastjóra, án auglýsingar. Mann sem aldrei hafði stýrt útgerð en hafði góða reynslu af bókaútgáfu Sjálfstæðisflokksins í Almenna bókafélaginu“ (bls. 103).

Næsta skref var að sameina BÚR og Ísbjörninn, í leynimakki Davíðs og elítunnar, að baki borgarstjórnar og starfsfólks. Fyrst voru þó tveir togarar BÚR seldir á undirverði og peningum dælt úr borgarsjóði inn í fyrirtækið til að hreinsa upp skuldir. Ísbjörninn var fyrirtæki á vonarvöl, í eigu Kolkrabbans og valdamanna í Sjálfstæðisflokknum. Eignir Ísbjarnarins voru gróflega ofmetnar en eignir BÚR gróflega vanmetnar, kvótinn metinn nánast verðlaus við sameininguna, en varð auðvitað verðmætasta eignin þegar nýtt fyrirtæki, Grandi, tók til starfa á grunni BÚR og Ísbjarnarins. 180 manns var sagt upp. Síðar voru 90 endurráðnir.

Opinberlega var því haldið á lofti að selja ætti Granda einstaklingum sem kaupa vildu í „opnu útboði“ svo fyrirtækið yrði í „dreifðu eignarhaldi“ (hafið þið heyrt þennan áður?) í anda „hugsjóna nýfrjálshyggjunnar“.

Raunin varð auðvitað allt önnur. Áður en kom að almennu hlutafjárútboði barst skyndilega „óvænt tilboð“ af himnum ofan, tilboð sem var svo hagstætt að það varð bara að taka því undir eins, svo það rynni ekki úr greipum! Og hverjir skyldu  svo hafa sent inn þetta tilboð sem var of gott til að hægt væri að hafna því?

Jú, rétt til getið, lesandi góður: Fyrirtæki innmúraðra klíkubræðra úr Sjálfstæðisflokknum: Hvalur hf., Venus hf. og Hampiðjan, í samstarfi við Sjóvá, „höfuðvígi Engeyjarættarinnar“.

Verð hlutarins í Granda var svo hagstætt (fyrir kaupendurna, vel að merkja) að borgin fékk sama og ekkert í sinn hlut fyrir BÚR, eitt stærsta útvegsfyrirtæki landsins, en innvígðir „auðmenn í Sjálfstæðisflokknum högnuðust gríðarlega“ (104-105).

Þetta er í stórum dráttum aðferðafræðin við einkavæðingu almannafyrirtækja allar götur síðan: Koma einkavinum fyrir í stjórnunarstöðum, dæla fé í eigu almennings inn í fyrirtækin og selja þau síðan einkavinum (og fjölskyldumeðlimum) á undirverði. Hinir pólitísku vildarvinir ganga svo frá borði með digra sjóði, peninga sem áður voru í eigu almennings. Aðferð sem Eimreiðarelítan lærði m.a. af  Tatcher og Reagan, helstu hershöfðingjum nýfrjálshyggjunnar gegn almannahagsmunum úti í hinum stóra heimi.

Þetta var bara upphafið að þeirri valdasamþjöppun í sjávarútvegi sem framundan var, og unnið var að í langan tíma á bak við tjöldin. Grandi sameinaðist þegar tímar liðu stórútgerð HB á Akranesi og til var orðinn sannkallaður risi.

Á sama tíma og BÚR var einkavædd unnu helmingaskiptaflokkarnir meðfram að einkavæðingu auðlindanna, skref fyrir skref, m.a. með lagabreytingum í helmingaskiptasamráði, til að koma veiðiréttinum á Íslandsmiðum í einkaeigu: Kvótakerfið illræmda.

Spillingarsaga II – að „fara vel með annarra manna fé“

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023).

Í síðasta pistli var rakin árásin á Ríkisútvarpið. Það er fróðlegt að skoða þá umfjöllun í samhengi við viðtal við Auðun Georg Ólafsson í Heimildinni #26 (26. tbl., 1. árg. 20.-26. okt. 2023, bls. 24-28). Þar kemur skýrt fram að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði, auðvitað í samkrulli með Framsóknarflokknum í helmingaskiptaspillingunni, að munstra í fréttastjórastólinn hjá fréttastofu sjónvarpsins einstakling sem ekki var metinn faglega hæfastur, en klíkan taldi að yrði sér leiðitamari en aðrir umsækjendur. Ráðningunni var harðlega mótmælt.

Reyndar hafði starfsfólk áður samþykkt vantraust á útvarpsstjóra Eimreiðarklíkunnar, Markús Örn Antonsson, vegna annarra embættisfærslna hans, svo þessi pólitíska ráðning olli enn meira uppnámi fyrir vikið. Auðun rekur það í viðtalinu að hann hafi ekki verið sá pólitíski dindill sem talið var, en að hann hefði haft skilning á því að ráðningu hans hafi verið mótmælt af starfsfólki, sem krafðist faglegra vinnubragða við mannaráðningar.

Athyglisverðara úr viðtalinu er þó að Auðun upplýsir að fulltrúi valdaelítunnar hefði hringt í hann og hótað honum, þegar þefaðist upp að hann hygðist hætta við að þiggja starfið vegna innanhússmótmæla á fréttastofunni. Hann myndi súpa seyðið af því – m.a. með hindrunum sem lagðar yrðu fyrir hann á vinnumarkaði í framtíðinni. Eftir hroðalegar móttökur á vinnustaðafundi gekk hann samt sem áður út úr Útvarpshúsinu og koma þangað ekki aftur.

Í bókinni er rakið ítarlega hvernig Eimreiðarelítan gerði ítrekaðar tilraunir til að koma á fót eigin fjölmiðlaveldi með útsmognum fléttum, annars vegar yfirtökum á þegar starfandi „fyrirtækjum á markaði“ og hins vegar með stofnun eigin fyrirtækja. Þetta er flókin og löng saga sem m.a. tekur til stríðs við Jón Ólafsson og Jón Ásgeir um yfirráð yfir ráðandi fjölmiðlun, þar sem við sögu koma Íslenska útvarpsfélagið, Stöð 2, Stöð 3, Skjár einnn, Bylgjan, Sýn, Ísfilm, Landssíminn, Íslandssími o.fl. o.fl. o.fl. fyrirtæki, sem flestir eru búnir að gleyma að nokkurn tíma hafi verið til.

Allar þessar tilraunir klíkunnar runnu út í sandinn, allt fór á húrrandi hausinn trekk í trekk, þrátt fyrir að ólgandi stórfljót peninga hafi runnið í þetta sukk af opinberu fé, úr Landssímanum og Landsbankanum, Orkuveitu Reykjavíkur hinum stóru bönkunum og úr fleiri áttum.

Eimreiðarelítan og stjórnmálaarmur hennar, Sjálfstæðisflokkurinn, er nefnilega með sérþekkingu á því, og langa sögu um að nota annarra fé í eigin þágu, að misnota ríkisfyrirtæki og dæla úr þeim peningum í valdabrölti sínu. Þess vegna var það hrollvekjandi að eitt það fyrsta sem haft var eftir nýjum fjármálaráðherra, Þórdísi Kolbrúnu, að hún hygðist leggja áherslu á að „fara vel með peninga annarra“.

Fyrst verkið verður framhald á misnotkun á hlut ríkisins í Íslandsbanka, því sem eftir er, síðan hvert ríkisfyrirtækið af öðru og almannaþjónustustofnanir. Eina leiðin til að stöðva þetta einkasukk helmingaskiptanna er að kjósa spillinguna burt.

Í næsta pistli verður upphaf nútíma spillingarvæðingar, einkavæðing  BÚR, og upphaf auðlindaránsins, rakin í stuttu máli.

Spillingarsaga I – Glæpur skekur ríkisútvarpið (skrifað 15.10.2023)

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar: Eimreiðarelítan – Spillingarsaga  (Steinason ehf. Reykjavík, 2023, bls. 111-116).

Hinn víðfemi forarpyttur Kolkrabbans sem hefur seitlað úr um allt þjóðfélagið, a.m.k. allan lýðveldistímann fram á okkar daga, er illþefjandi. Eimreiðarelítan komst til valda í borginni, og Sjálfstæðisflokknum með kjöri Davíðs Oddssonar upp úr 1980, og hóf þegar gegndarlausa valdasókn á öllum sviðum samfélagsins. En löngu fyrr var hafið „menningarstríð“, með stofnun Almenna bókafélagsins 1955.

Tveimur áratugum síðar, 1974, skrifar Hrafn Gunnlaugsson Matta J, ritstjóra Morgunblaðsins, bréf þar sem hann skorar á MJ að hjálpa sér við að yfirtaka RÚV og fleiri menningarstofnanir, t.d. Þjóðleikhúsið, fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Nefnir hann nokkra heppilega menn í þessa hernaðaráætlun, m.a. Davíð Oddson auðvitað, Baldur Hermannsson og Rúnar Gunnarsson.

Í framhaldinu, 1979, gaf Kjartan Gunnarsson út ritið „Uppreisn frjálshyggjunnar“ þar sem Eimreiðarelítan lýsti „nauðsyn þess að sækja fram til hugmyndafræðilegra valda á öllum sviðum“ (bls. 112) í fjölmiðlum, útgáfu, meningu og skólakerfinu. Þáttur í því voru mccarthyísk skrif Hannesar Hólmsteins um háskólakennara, m.a. Pál Skúlasom heitinn, í tilraun til að bola þeim burt með níðskrifum.

Síðar, „fyrir tilviljun“, var Hrafn Gunnlaugsson kominn í öll sæti, hringinn í kringum borðið. Hann þáði háa styrki úr Kvikmyndasjóði og var á sama tíma í stjórn sjóðsins, naut fordæmalausrar fyrirgreiðslu innan RÚV á meðan hann var þar dagskrárstjóri og framkvæmdastjóri. Hann var framkvæmdastjóri Listahátíðar, stjórnarformaður Kvikmyndasjóðs, Menningarsjóðs útvarpsstöðva, kvikmyndaframleiðenda, framleiddi fjöldann allan af sjónvarpsmyndum og -þáttum fyrir RÚV eftir eigin handriti, seldi stofnuninni sýningarrétti á eigin kvikmyndum í fyrir fram sölu. Hann var skipaður í nefnd til að endurskoða lög um kvikmyndasjóð og settist í stjórn sjóðsins eftir lagabreytingarnar, sótti um styrki og fékk auðvitað úthlutað hærri styrkjum úr sjóðnum en allir aðrir. Hann var í stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva, á sama tíma og hann var dagskrárstjóri RÚV, og afgreiddi þar eigin umsóknir fyrir verkefni sín og elítunnar.

Hrafn lét RÚV að auki kosta eigin myndir eftir smásögum Davíðs: Mynd Hrafns Gunnlaugssonar, kvikmyndagerðarmanns, Opinberun Hannesar, eftir smásögu Davíðs Oddssonar, Glæpur skekur húsnæðisstofnun, lét Hrafn Gunnlaugsson dagskrárstjóri RÚV Ríkisútvarpið kaupa óséða, veitti framleiðslustyrk og frumsýndi á nýársdag 2004.

Sannkallaður snillingur. Svo heldur fólk að nokkrir útrásarvíkingar síðustu árin fyrir Hrun hafi verið einu „djöfulsins snillingarnir“ hér á landi.

Innan við 20 árum eftir bréf Hrafns til Matthíasar var Eimreiðarklíkan komin með öll völd yfir Ríkisútvarpinu. Markús Örn var tvívegis gerður að útvarpsstjóra, og borgarstjóra í millitíðinni. Hrafn sjálfur dagskrár- og framkvæmdastjóri og Baldur Hermannsson dagskrárstjóri í afleysingum fyrir Hrafn, Rúnar Gunnarsson aðstoðarframkvæmdastjóri og síðar framkvæmdastjóri, Hannes Hólmsteinn og Baldur fengu kostun á þætti fyrir pólitíska endurritun sögunnar, Ingvi Hrafn Jónsson var gerður að fréttastjóra, Elín Hrist, góðvinkona Kjartans og þá gift kosningastjóra Davíðs, orðin fréttamaður og síðar fréttastjóri.

Eins og þetta sé ekki nóg, þá var Gísli Marteinn, úr ungliðahreyfingu flokksins og „Hannesaræskunni“, látinn stjórna Kastljósi, eina pólitíska umræðuþættinum í „sjónvarpi allra landsmanna“, og tók m.a. fræg drottningarviðtöl við leiðtogann mikla, Davíð Oddsson.

Og ekki er allt upp talið. Á þessum tíma voru Kjartan Gunnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson formenn útvarpsráðs hvert á fætur öðru, eins konar Lykla-Pétrar að yfirtökunni.

Svo tala íhaldsmenn samtímans um „vinstri slagsíðu“ á fréttastofu RÚV.

Það sem að ofan er rakið er aðeins eitt dæmi af fjölmörgum um hið „maðkaða mjöl“ sem þjóðinni hefur verið boðið til áts síðustu 40-50 árin, á valdaskeiði Davíðs Oddssonar og Eimreiðarelítunnar.

Fleiri dæmi verða rakin hér, svona smám saman.