Greinasafn fyrir flokkinn: Úr dagbókinni
Áramótakveðja 2024
Við gnægtir alls er vært að vera til.
Var vöggugjöfin happakerti’ og -spil?
Þau sem fengu öruggt skjól og yl
af sér geta staðið hríðarbyl.
Í norðri loks á himni hækkar sól,
þar haldin eru gleði’ og friðarjól.
En þó er víða helstríð heims um ból,
herja fantar, með sín vígatól.
Þegar slær að þræsingur og él,
þankagangur lokast inni’ í skel,
þá er alltaf gott að gera vel,
gleðja aðra, sýna vinarþel.
Ef allir vildu þerra tregatár,
tætt og rifin græða innri sár,
lífsins ganga yrði ‘ferð til fjár’
og friðar nyti mannkyn hvert eitt ár.
Jólakveðja 2024
Blasa við hörmungar heiminum í.
Hvenær gefum við illskunni frí?
Hvað er fallegra’ en friður á jörð?
Hví forðast mannkynið sáttagjörð?
Þurfum við þrautum að valda?
Um kúgun og ójöfnuð vitum við vel,
um vonleysi, fátæktar lokuðu skel.
Þó þrotlaust um ævi sé stritað við starf,
stöðugt allsnöktum keisurum þarf
blóðug gjöldin að gjalda.
„Meðaltalskaupmáttur mikill“, er sagt,
og í moðsuðu’ um jöfnuð útaf því lagt
en lítið það dugar um mánaðamót
ef matbjörg er þrotin, engin sést bót,
og herðir að krumlan hin kalda.
Sá aðeins telst maður sem ætíð er hress
á yfirsnúningi, dæmdur til þess
að fljóta viljalaus meginstraumi’ með,
á móti að róa er ekki vel séð,
í móinn ei vinsælt að malda.
Að berjast í nauðum við heiminn er hart,
því hamingju kjósum, að útlit sé bjart.
Á mennina kökunni misjafnt er skipt
og mörg þykka sneiðin með rjóma er typpt,
en enginn þarf á því að halda!
Þó „allt sé í heiminum hverfult“ og valt
við hér saman dveljum, þrátt fyrir allt,
svo kynþátta milli byggjum nú brú
og biðjum að kærleikur, von og trú
lifi um aldir alda.
Til Önnu Maríu – 14.08.2024
I
Orð
geta með engu móti
náð
utan um allt
II
Engin orð
fá lýst fegurðinni
þegar sólin
skríður upp
á himininn
og speglast
í vatninu heima
III
Engin orð
fá lýst fullkomnuninni
í tærri fjallalind
eða bliki
í djúpbláum
augum
IV
Engin orð
fá lýst
brumandi
blómknappi
eða brosi
blíðra vara
V
Engin orð
fá lýst
fjallasýn
undir heiðum himni
eða hlýjunni
í ástföngnu hjarta
VI
Það er gaman
og gott
að vera ungur
og ástfanginn,
leiðast á veg
vitandi
að veröldin
hefur býsnin öll
upp á að bjóða
sem bergja má
endalaust af
með opnum huga,
gjörvri hönd
og hlýju hjarta
VII
Þannig ert þú
í pottinn búin
og að þér safnast því
býsnin öll
af heimsins gæðum;
gleði
og góðum stundum
í minningamalinn
VIII
Það er gott
og gaman
að vera ástfanginn
og eldast saman,
sitja í innsta hring
og ástvinir
allt um kring
IX
„Sól rís,
sól sest“
Og þó enginn sé efi
hvort
-aðeins hvenær-
fegursta blómið
í beðinu
fölnar og deyr,
fagna ber því
-hverju sem framtíðin
finna kann upp á-
að ferðin hingað
var farsæl
og förunautunum
líklega best
Úr dagbókinni 2023
Hér er safn vísna og kvæða ortum árið 2023 undir hefðbundnum bragarháttum (með örfáum undantekningum). Safnið telur um 300 vísur og erindi og fjölbreytt sýnishorn bragarhátta; dróttkvæði, limrur, ýmsa rímnahætti auk óskilgreindra hátta.
Áramótakveðja ’23 – ’24
Vélabrögð af verstu sort í veröldinni
vekja núna sorg í sinni,
sé ei von að þessu linni.
Áralöng er óöldin í Úkraínu.
Þrælahald, við þurft og pínu.
Þjóðarmorð í Palestínu.
Starað. Tekin staða gegnt og steyttir hnúar.
Hvergi skilningsbilið brúar
barnamorð, í nafni trúar.
Skinhelgin er skelfileg í skertum heimi.
Sem sig á asnaeyrum teymi
yfirvöld, og siðum gleymi.
Er þá bara ekkert fyrir oss til ráða?
Horfa upp á aðra smáða?
Undan líta? Hunsa þjáða?
Stórt er spurt! En stöndum upp, og staðföst munum:
Þessu líku aldrei unum!
Hið eina svar við spurningunum.
Heimsins lýður hamingju og heilsu njóti.
Mitt nýársheit: Að mæla móti
meinsemdum, þó skammir hljóti.
Jólakveðja 2023
Þó láti glatt, um greiðan veg í skjól,
þín gengin spor
er ferðalagið engum aðeins sól
og eilíft vor
en mörgum tamt að tefja lítið við,
að týna sér í fjöldans raddaklið.
Er unum sæl við stundarglys og glaum
við gleymum því
að ljósi, sem þarf að eins lágan straum,
ei lifir í;
því heimsins gæðum gjarnan rangt er skipt
svo gleði, von og lífi fólk er svipt.
Ég finn í hjarta sorg og sinnuskort,
já, sáran sting,
þó gæfan hafi margan óðinn ort
mig allt um kring.
Er borin von að trúin flytji fjöll,
að flærð sé eytt, í kærleik lifum öll?
(Lag: Lýs, milda ljós: Charles Henry Purday / Matthías Jochumsson)
Úr dagbókinni 2022
Hér er saman komið safn tækifæriskveðskapar á árinu 2022. Safnið er alveg óritskoðað og í því eru u.þ.b. 210 vísur af ýmsu tagi, misjafnar að gæðum, en vonandi einhverjar birtingarhæfar.
03.01.22
Endi stakan enn mér hjá
utan hrakin vega,
innra kvakar eftirsjá
alveg svakalega.
Hér er saman komið safn tækifæriskveðskapar á árinu 2022. Safnið er alveg óritskoðað og í því eru u.þ.b. 210 vísur af ýmsu tagi, misjafnar að gæðum, en vonandi einhverjar birtingarhæfar.
03.01.22
Endi stakan enn mér hjá
utan hrakin vega,
innra kvakar eftirsjá
alveg svakalega.
Áramótakveðja
Áramótakveðja 2022-2023
Nú er liðið enn eitt ár,
alltaf fortíð lengist.
Lífið að mér dregur dár,
að draumum stöðugt þrengist,
þó mínar helstu heillaþrár
hafi eftir gengist.
Brestir, dáðir, bros og tár
í brjósti og huga tengist
svo að verði sálin klár
er svarið yfir dengist.
Að þægindunum þýfð er slóð,
þröngt að gæðum hliðið.
Klærnar sýnir klíkustóð
í kvótavafning riðið.
Frá mér áfram heyrist hljóð
úr horni, er lít um sviðið.
Óska að verði ártíð góð,
ærlegt stefnumiðið
og vakni af blundi þessi þjóð.
Ég þakka fyrir liðið.
Jólakveðja 2022
Tekið hefur vetur völd,
vill, án refja, píningsgjöld.
Leggur yfir landið skjöld,
lúkan bláhvít, nístingsköld,
og blóðgar dagsins birtuspjöld
bak við hnausþykk rökkurtjöld.
En máninn feiminn fer á stjá,
fullur efa hvort hann má
heiminn nokkuð horfa á?
Hikar við, svo opnar brá,
glennir upp sinn gula skjá,
geislum baðar land og sjá.
Myrkrið smýgur inn um allt,
anda breytir snöggt í gjalt.
Heimsins lánið vagar valt,
varðar auðs er handtak kalt.
Ef þér, maður, flest er falt
fyrir aur, þá hinkra skalt.
Enn er von, því lítið ljós
logar yfir hal og drós,
tákn um mannkyns „draum í dós“.
Dýrt er orðið. Hvað með hrós?
Í þröngum dal, við ysta ós
umhygð vökvar lífsins rós.
Fyrir vini vermum ból,
veitum græðgi hvergi skjól.
Í litríkan og léttan kjól
landið klæðum, dal og hól.
Á himni núna hækkar sól,
höldum gleði og friðar jól.