Dagskrárliðurinn: „Formannskosning“!

Það var beinlínis lygilegt að fylgjast með viðbrögðunum við framboði Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur til formanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins sem haldinn var um nýliðna helgi. Valdaklíka innan flokksins missti allt niðrum sig við það að sitjandi formaður fékk mótframboð þannig að dagskrárliðurinn „formannskosning“ á landsfundinum varð lýðræðisleg kosning en ekki einbert uppklapp.

Sigríður Ingibjörg þurfti að sitja undir skítkasti alla helgina fyrir þá óskammfeilni að bjóða sig fram á eigin forsendum en ekki á forsendum hofmóðugra flokkseigenda. Það er aumur stjórnmálaflokkur sem ekki getur kosið í helstu embætti án þess að allt fari á annan endann. Kannski ættu þeir sem framboð Sigríðar vakti af dvalanum að horfa í eigin barm í leit að skýringum á fylgishruni flokksins? Í ljósi almennrar þróunar fylgis stjórnmálaflokkanna í skoðanakönnunum undanfarið er morgunljóst að „gamla settið“, jafnt í Samfylkingunni og öðrum flokkum, þekkir ekki sinn vitjunartíma.

Sigríður Ingibjörg bendir á það í yfirlýsingu í morgun að áhrifa framboðs hennar „gætti þegar daginn eftir, þegar nýtt fólk hafi verið valið til ábyrgðarstarfa innan flokksins, margt af því ungt hugsjónafólk með skýrar áherslur og með samþykktum landsfundar á róttækum ályktunum um lífskjör, umhverfisvernd, mannréttindi og frjálslyndi“.

„Landsfundur Samfylkingarinnar varð allt í senn, snarpur, kröftugur og róttækur. Sú heift sem birst hefur vegna framboðs míns er í algjörri andstöðu við þann kraft sem kom fram á landsfundi. Ég kýs að túlka það sem svo að ásakanir áhrifafólks í Samfylkingunni vegna lýðræðislegs framboðs míns hafi verið settar fram í hita leiksins“ , segir Sigríður jafnframt.

Hvað sem segja má um kraft og róttækni ályktana landsfundar Samfylkingarinnar, er ljóst að fólk sem ekki þolir framboð og kosningar til embætta sem „kjósa“ á í, það ætti að finna sér einhvern annan vettvang en stjórnmál til að vasast í. Um það vitnar skýrast staða stjórnmálaflokkanna í skoðanakönnunum.

Vikan

Út er sofinn, orku með

sem eykur blundur fagur.

Ekkert meira gleður geð

en góður mánudagur.

 

Sýni bæði djörfung, dug,

svo dívan nýta megi.

Fátt eitt meira herðir hug

en hvíld á þriðjudegi.

 

Ég kúri, en seilist til kökunnar

í kyrrð, milli svefnsins og vökunnar.

Hve mildur og fagur

er miðvikudagur

um sláttinn, ef nýttur til slökunar.

 

Fluggreind tík og friðsamleg
til fyrirmyndar oft
svo fimmtudegi fagna ég
með fætur upp í loft.

 

 Við grundun boðorðs guð oft sat,
sem gott er fram að draga:
„Eigðu náðugt eftir mat
alla föstudaga“.

 

Ávallt skaltu leita lags
að losna flest við störfin.
Besta lofgjörð laugardags
er lítil vinnuþörfin.

 

Víst má í því fróun fá,
og finna eflast haginn,
að liggja sínu liði á
langan sunnudaginn.

 

Af skurðgreftri

Ég heyrði einu sinni af flokki manna (konur eru líka menn) sem hafði verið ráðinn til þess að grafa skurði, eða rásir, í gegnum mikinn malarkamb svo hægt væri að veita vatni á frjóan, en þurran jarðveg handan kambsins. Til verksins höfðu verkmenn skóflur, ágætar malarskóflur.

Ekki fylgir sögunni hvar á jarðarkringlunni sagan gerðist, en verkið mun hafa verið á vegum hins opinbera þar í landi og um samdist að það teldist fullt dagsverk að grafa 100 metra langan skurð á mánuði, u.þ.b. metersdjúpan og hálfsmetersbreiðan. Halda áfram að lesa

Um þá hegðan að hlaupast undan ábyrgð og láta öðrum eftir að halda uppi samfélagsþjónustu en nýta sér hana að fullu eftir sem áður

Sett á haus með svikafléttum

og í sárum þjóðin lá.

Að laga ruglið, launastéttum,

lagt var herðar á.

Lagt var herðar á.

Lagt var herðar á.

Að laga ruglið, launastéttum,

lagt var herðar á.

 

Virtist allt á réttu róli

rummungunum hjá.

Margur þeirra‘ í skattaskjóli

skildingurinn lá.

Skildingurinn lá.

Skildingurinn lá.

Margur þeirra‘ í skattaskjóli

skildingurinn lá.

 

Nú er Bjarni‘ í nokkrum vanda

nú fer að koma‘ í ljós

hvort tíund innan tryggðabanda

var talin „undir rós“.

Talin „undir rós“.

Talin „undir rós“.

Hvort tíund innan tryggðabanda

var talin „undir rós“.

 

Eyðimerkuróráð

Þrammandi‘ í eyðimörk þrír,

af þorsta er hugur óskýr.

Svo líðanin batni

leita að vatni

en dropinn hjá guði er dýr!

 

Andinn í óráði dalar,
bara ímyndun þorstanum svalar.

Í sturlun þeir ná

stjörnur að sjá

og til þeirra himinninn talar!!!

 

Á kvöldgöngu kærustupar,

hún komin á steypirinn var.

Þau gönguleið breyta

og á gistihús leita

en vertinn þar veitir afsvar:

 

„Þið finnið í fjárhúsi hey.

Bara fyrningar reyndar, OK?“

Þar Jósef á ný

fer að jagast í því

að varla sé María mey:

 

„Ég hef aldrei hold þitt séð bert

og hitt höfum við aldrei gert.

Það er hlálegt að blanda

í þetta heilögum anda!!!

Hvað heldur þú að þú sért?“

 

Af tuðinu María mæddist,

upp í myglaða jötuna læddist

og myrkrið óp klauf.

Hennar meyjarhaft rauf

freslarinn þegar hann fæddist.

 

 

Í þorpinu

Þorparinn þrautgóður var,
á þakkir og hrósið ei spar.
Í orðfæri „linur“:
„Elskan“ og „vinur“,
og kleip svo í kellingarnar.

Konan hjá kunningjum sat
í kaffi, og bauð sér í mat,
til að þefa upp fréttir
og það var nú léttir
ef fásinnu fundið þar gat.

Strákur á þrítugu stóð,
staðarins uppháhalds jóð.
Að spóla í brekkum
á belgvíðum dekkjum
stundaði, miklum af móð.

Stelpan á liðinu lúin
fyrir löngu í huganum flúin.
Þá bar þar að Dana
sem barnaði hana-
og þar með var draumurinn búinn!

Borgarblús

Í borginni lögmaður bjó
sem bergði af stressinu fró.
Keppti við grannann
í græðgi, og vann ´ann.
Frá dýrðinni ungur svo dó.

Frúin er fínasta snobb
sem faðmaði annan, hann Rob.
Hún aðeins fær unað
við allsnægt og munað,
á rándýran kobbidí kobb.

Dóttirin orðin er djörf,
af drykkju um helgar oft stjörf
og af afskiptaleysi
þessu ógissla pleisi
hugsar hún þegjandi þörf.

Sonurinn beinni á braut,
bráðger og sterkur sem naut.
Á kagganum fer um
fullur af sterum,
flottur, en geðið í graut.

 

Saga úr sveitinni

Í afdalakoti bjó kall,
sem kúkaði‘ og hrækti í dall.
Japlandi roðið
og reykjandi moðið
reið hann svo fullur á fjall.

Og kellingin feiknmikið fall
sem forðaðist gesti og spjall.
Í myrkustu krókum
hún muldi úr brókum
í soðningu, saman við gall.

Syni var stillt upp á stall,
samt stundaði ónytjubrall.
Góða fylli í kvefi
fékk hann úr nefi
svo allur varð grár eins og gjall.

Dóttirin iðaði öll
úti um móa og völl.
Í dagbækur skráði
að skemmtun hún þráði,
skagfirska sveiflu og böll.

Árið 2014

Eftir hörmung hafta,

héraðsbresti mesta,

þulu af lygaþvælu,

þéttan reyk af prettum,

veldi tryggt útvaldra

á votri auðlind, brauði,

þreyttir minnimáttar

mola leita’ í holum.

 

Rósir Reykjavíkur

rasísk meðul brasa,

svo kreddufúsir kjósi

kristin teboðslista.

Keflum íhaldsöflin,

aftur finnum kraftinn.

Skipið þjóðar skríði

skár á nýju ári.

 

Stjarneðlisfræðingur naglhreinsar

Í fjölmiðlum hefur undanfarið verið fjallað um erfiðleika fólks frá öðrum löndum að fá menntun sína metna hér á landi. Sögð var saga kvensjúkdómalæknis frá Úkraínu sem fær ekki vinnu við hæfi en starfar sem ófaglærður starfsmaður á leikskóla og eiginmaður hennar samlendur, sem er skurðlæknir að mennt, vinnur í eldhúsi á spítala. Halda áfram að lesa