Áramótakveðja 2025

Koma önnur áramótin,
í andakt tímans vatnaskil.
Af fyrri dögum fyllist nótin.
Flögrar minning baka til.
Grafa nýjan farveg fljótin.
Færist sólin hærra‘ á þil.

 

Áfram hvert nú liggur leiðin?

Lá í fangið válegt nið?

Verður ströng og viðsjál heiðin?

Var á götu lokað hlið?

Klæðist hlýju nakin neyðin?

Náðist göfugt stefnumið?

 

Gott að muna, enn og aftur;

allir lifa misjöfn kjör.

Þannig enginn er víst skaptur,

við öllu hafi lokasvör.

Býr í okkur undrakraftur

ef við saman stýrum för.

 

 

 

 

 

 

Jólakveðja 2025

I

Finnurðu dálítinn dofa?

Einn daginn mun eflust til rofa

ef safnar þú kröftum

gegn kvölum og höftum.

Gott er sjúkum að sofa.                       

 

II

Væntingar eru út vatnaðar

ef verðmiða snúast um fatnaðar.

Að eltast við „drasl“

er innantómt basl.

Bíða má sér til batnaðar.                     

 

III

Erfiði öllum er gott

enda ber það um vott

stefnumið mýlt.

En streðinu illt                                    

að láta í lekan pott.                              

 

IV

Um það er ekki að fárast

að ævigangan mun klárast.

En oft svo til hagar

að eftirsjá nagar.                                                

Fjör er flestum sárast.                         

 

V

Vinátta sterkur er strengur.

Að stuðningi mikill er fengur

ef allt fer í kekki.

Vantar þó ekki

vini þá vel gengur.                               

 

VI

Ef að til efstu stundar

æviveg keikur skundar

þá öruggast er

að hafa augun hjá sér

því hart bíta konungs hundar.             

 

VII

Sést ef brugðið er Bleik!

Ef böðlast er áfram í reyk!

Í augnabliksfuna

þarf alltaf að muna:

Hóf er best í hverjum leik.                    

 

VIII

Hollt er halla að styðja,

hindrun úr götu að ryðja.

Ef þú ert nær

og um það ert fær,

betra er að iðja en biðja.                      

 

IX

Götur ætíð gangið keik,

Glöð og hnuggin, sterk og veik.

Þó að vel sjáist

um það ekki fáist:

Ellin hallar öllum leik.                         

 

X

Oft sýnist bólsturinn blakkastur,

bjargráðaturninn hvað skakkastur,

og straumröstin hærri,

ef stendur of nærri.

Heima er hundurinn frakkastur.

 

XI

Einstök engin tár

eða brostnar þrár

í heimi hér.

Hefur hver

sín að binda sár.                                 

 

XII

Margt er mannanna mein.

Til bóta er brautin þó bein.

Fyrst: Það þarf

að fá í arf

fleira en auðæfi ein.                             

 

XIII

Bratt er á líf að læra.

Það ljós þarf ungum að færa

að ljósmynda kóðann:

Lengi skal góðan

graut á gólfi hræra.                             

 

XIV

Sértu valtur og veill                             

vittu, þinn er ei feill

ofan að detta

heldur örlagagletta,

því fall er fararheill.

 

XV

Ef að þú efast um sinn

axlaðu frekar þín skinn

og harkaðu‘ af þér,

hér ekkert er

fullreynt í fyrsta sinn.

 

XVI

Er höndin við hjarta þitt köld?

Hífðu frá birtunni tjöld

og allt verður gjallra

því ekki er allra

daga komið kvöld.                               

 

XVII

Þó heiminn sé heilmargt að plaga,

með hugsun margt má laga.   

Ég gefið mér gat

mikinn mat

og marga helgidaga.

 

XVIII

Þó einhver á anda þinn skyggi

undir skín ljóminn þinn dyggi.

Í myrkur flýr bull,

og mundu, að gull

skín, þó á skarni liggi.                         

 

XIX

Við eigum vandratað flest

og á vegunum oft hefur hvesst.

Þó einhver ei bogni

fer hér enginn í logni.

Af misjöfnu börn þrífast best.               

 

XX

Ágirndin áfram keyrir.

Fyrir eyðslu flestir meyrir.

En staldrið nú við

vítt markaðshlið.

Græddur er geymdur eyrir.

 

XXI

Fávisku fátt er til varna

og fljótfærnin, bölvuð a‘tarna.

Þannig heimur er gerður

að höfuðið verður                                            

fótum falli að varna.

 

XXII

Gagnast lítt skyr í skeið

eða skrautleg, ljúffeng sneið

ef þarft ekkert geri,                              

þó að mig beri

hugurinn hálfa leið.

                                  

XXIII

Ljóma af lífi stafar

og lítt hefur orðið til tafar.

Oft má svo vera.

Allir þó bera                                        

eitthvert mein til grafar.

                         

XXIV

Vítt hlaupa sumir um vengin,

vonglaðir, réttu með tengin.

Ef opnum skápinn,

sést í skrápinn.

Amalaus er enginn.                             

 

XXV

Eins og úr helju heimt,

úr huga minningu streymt.

Þegar ljósgeislar fara

leitum við svara.

Betra er geymt en gleymt.

 

XXVI

Mannskepnan háir hildi.

Hver eru lífsins gildi

og siðferðisþrá

þegar að sá

heggur er hlífa skyldi?                                     

 

XXVII

Hress og háttvís mér smeygi

í hárauðar buxur, mig teygi

í bolinn minn víða.

Já, best er að kvíða

ekki ókomnum degi.

 

XVIII

Daglegir flokkadrættir,

drýldnir ruddarnir mættir.

Á flestum má finna

að falsi má linna.

Garður er granna sættir.

 

XXIX

Á mál skal af sanngirni sæst.

Síður ef einn lætur hæst.

Stattu við þitt.

Þekktu og hitt

að flótti er falli næst.

 

XXX

Þekkt er af veraldarveirunum

í vísindarannsóknargeirunum

og alþjóð það sér                                 

að asninn, hann er

auðkenndur á eyrunum.

 

XXXI

Hver sá er kökuna sker

fær kipring í augun á sér.

Einnig vill deila

og eiga það heila

því gleymt er þá gleypt er.                    

 

XXXII

Heyrist oft grobb og gjálfur

gumar um sjálfan sig kálfur.

Sá kappi er enginn

sem klippir á strenginn

né gefur sér gæfuna sjálfur.

 

XXXIII

Margir til metorða teygjast,

að Mammoni líka hneigjast.

En samt, allar stundir,

er siðferðið undir.

Sér lætur hygginn segjast.                   

 

XXXIV

Ef einhver rakar öllu’ að sér

ekkert úr býtum annar ber.

Við reisn að lifa,

í lög þarf skrifa:

Jöfnuður góður allur er.

                                                          

XXXV

Ei kennir ef kulnað er tárið

né kembir, ef visnað er hárið.

Að því gáir:

Ekki tjáir

að búa um banasárið.

 

XXXVI

Dæma orðin dulin.

Dýr eru loforð mulin.

Í sann og veru

sárin eru                                                                     

hættulegust hulin.                                                                 

 

XXXVII

Vor mun fylgja vetri,

varlegt fet, svo metri.

Barnið sér

að biðin er

bráðræðinu betri.                                

 

XXXVIII

Að vera góður og glaður

er gæfa, ef laus við blaður.

Stöðugt að æpa,

er orðhengilsræpa.

Hljóður er hygginn maður.

 

XXXIX

Ef blaut og húmskyggð er heiðin

verður háskaleg fantareiðin

ef aldrei er vægt.

Svo farðu þér hægt.

Greiðfær er glötunarleiðin.

 

XXXX

Ekkert liggi í leynum,

leitum, veltum við steinum.

Sannleika tryggjum

er samfélag byggjum.

Fátt segir af einum.                             

 

XXXXI

Andúð upp vilja keyra,

útlenska niður reyra.

Það fólsku lýsir

því löngum fýsir

eyrun illt að heyra.                              

 

XXXXII

Í dóm nú af drengskap ég legg

deilur um keisarans skegg.

En leikur er patt

ef logið er satt.

Blað skilur bakka og egg.

 

XXXXIII                       

Kannski má stinga á kýlin?

Með kennslu leiðrétta stílinn?

Í Grímsnesi, Súdan

sama er skútan

og jöfn eru bræðra býlin.                     

 

XXXXIV

Tíminn strýkur um strengi,
styrkum höndum – og lengi
órar mann síst
það eitt sem er víst:
-Valt er veraldar gengi-

 

XXXXV

Heyrið mig! Höfum við rödd?

Hvar erum við stödd?

Svo er máldaginn gerður

að í manninum verður

aldrei ágirndin södd.                                        

 

XXXXVI

Þó undan framanum fjari

og fram í gráðið ég stari

þá vonin er heit

og í hjarta mér veit

að kemst þótt hægt fari.

 

XXXXVII

Þó aðdráttaraðferðir þróir

og engu í framhaldi sóir,

eignast vilt allt.

Vita þú skalt:

Ekk’ er allt gull sem glóir.

 

XXXXVIII

Margt hefur mannvonskan hrakið

og margur er stunginn í bakið.

En það boðorð ei efað

að betra er sefað

en illt sem upp er vakið.                      

 

XXXXIX

Sjaldan er sannleikur skýrari,

sókn eftir vindi rýrari

en við hækkandi sól

og hátíðleg jól

því dyggð er gulli dýari.

 

L

Fástu því ekki um amann

við auðævin, völdin og framann.

Veittu gæfuríkt skjól

og gleðileg jól

því maður er manns gaman.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

                                                            

AI: „Assumed intelligence“

Birt á Facebook 15.11.2025

Af því ég hangi í flugstöðinni í Skopje og bíð eftir fari til Luton langar mig að segja stutta sögu, frekar en gera ekkert.

Þannig er, eins og fram hefur komið í mínu daglega „fjasi“, að ég hef undanfarna daga verið á ráð- og námstefnu um menntun í fangelsum. Ráðstefnan var metnaðarfull, vel skipulögð og um margt gagnleg, enda sátum við á fundum og pallborðum hvern dag frá 9-17, nema fyrir hádegi einn dag, þegar þeim sem vildu bauðst leiðsögn um miðbæinn í Skopje. Myndir úr þeirri göngu hefi eg birt hér á fjasinu. Halda áfram að lesa

Bjarni á Laugarvatni

„ótrauður baráttumaður fyrir hugsjónum sínum“
 
 
 
Gylfi Þorkelsson
(Skrifað sem lokaverkefni í námskeiðinu „Forystuhlutverk stjórnenda í opinberum rekstri“
við Háskóla Íslands, félagsvísindadeild – Opinber stjórnsýsla, MPA, vor 2010)
 

 

Inngangur                       

Um aldamótin 1900 fór bylgja framfarahugsjóna og bjartsýni um íslenskar byggðir. Sjálfstæðisbaráttan var í fullum gangi og ýmsar tækni- og atvinnuframfarir gáfu fyrirheit um betri tíð. Fólk sem var þá á hátindi ævi sinnar, eða ólst í blóma lífsins upp við þessar hugsjónir, er kallað einu nafni „aldamótakynslóðin“. Í þeim hópi var árið 1900 ellefu ára gamall strákur austan úr Landeyjum, Bjarni Bjarnason, síðar jafnan kenndur við Laugarvatn. Þrátt fyrir föðurmissi á unga aldri, flutninga og kröpp kjör í æsku, komst strákur til manns, sótti sér menntun og tók stóran þátt í baráttunni fyrir bættum hag íslenskrar alþýðu, ekki síst bændafólks, með því að tryggja því aðgang, fyrst að almennri grunnmenntun, en síðar framhaldsmenntun. Halda áfram að lesa

Til Önnu Maríu – 14.08.2024

I

Orð

geta með engu móti

náð

utan um allt

 

II

Engin orð

fá lýst fegurðinni

þegar sólin

skríður upp

á himininn

og speglast

í vatninu heima

 

III

Engin orð

fá lýst fullkomnuninni

í tærri fjallalind

eða bliki

í djúpbláum

augum

 

IV

Engin orð

fá lýst

brumandi

blómknappi

eða brosi

blíðra vara

 

V

Engin orð

fá lýst

fjallasýn

undir heiðum himni

eða hlýjunni

í ástföngnu hjarta

 

VI

Það er gaman

og gott

að vera ungur

og ástfanginn,

leiðast á veg

vitandi

að veröldin

hefur býsnin öll

upp á að bjóða

sem bergja má

endalaust af

með opnum huga,

gjörvri hönd

og hlýju hjarta

 

VII

Þannig ert þú

í pottinn búin

og að þér safnast því

býsnin öll

af heimsins gæðum;

gleði

og góðum stundum

í minningamalinn

 

VIII

Það er gott

og gaman

að vera ástfanginn

og eldast saman,

sitja í innsta hring

og ástvinir

allt um kring

 

IX

„Sól rís,

sól sest“

 

Og þó enginn sé efi

hvort

-aðeins hvenær-

 

fegursta blómið

í beðinu

fölnar og deyr,

 

fagna ber því

 

-hverju sem framtíðin

finna kann upp á-

 

að ferðin hingað

var farsæl

og förunautunum

líklega best

 

Það er þessi dagur í dag

Það er þessi dagur í dag. Og þetta er fertugasti og fyrsti 19. apríllinn okkar!. Þau eru því orðin fjörutíu árin sem við Anna María höfum stigið sporin saman, oftast í góðum takti, þó auðvitað hafi komið fyrir að ég stigi á tærnar á henni, klunninn sem ég er. Ekki þarf að orðlengja það, en gæfan hefur slegist í för, barnalánið er mikið – og vonandi nokkur góð ár eftir til að njóta samvista við hópinn okkar, sem brátt telur 24 fallega og góða einstaklinga.

Af þessu tilefni fékk ég Labba í Mánum til að syngja fyrir mig kvæðisbút sem ég samdi við þekkt lag sem okkur er kært, og tengill er á hér efst á síðunni:

Ástin mín

Lífs míns á vegi
vakir enn minningin,
frá örlagadegi
er dró stóra vinninginn.
Þá óvænt hitti
þig í fyrsta sinn.
Féll í stafi,
starði á þig hugfanginn.
 
Fór af mér glansinn
er góndi í augu þín.
Bauð samt í dansinn,
þú brosandi komst til mín.
Sveifstu um gólfið,
geislandi og hlý.
Meðan lifi
mun ég aldrei gleyma því.
 
Ég varð ástfanginn
það eina sinn.
Hélt um sólina’ og himininn!
Hvergi undur lífsins samt
ennþá skil – þar duga skammt
skilningarvitin.
 
Dásemdir hreinar,
dillandi hláturinn,
tindrandi steinar,
treginn og gráturinn.
Allt sem þú gerir
innst við hjarta grær.
Sífellt betur
sé ég hve þú ert mér kær.

 

 

Tímamót

Eftir langan tíma, sennilega of langan, hef ég ákveðið að hætta sem formaður Körfuknattleiksfélags Selfoss og segja mig frá ábyrgðarstörfum fyrir félagið. Þetta hef ég nýverið tilkynnt félagsmönnum. Ég hef nú verið formaður þess undanfarin 8 ár, samfellt frá 2015, og virkur þátttakandi „ofan, neðan og allt um kring“ frá stofnun þess árið 2005.

En þessi saga teygir sig lengra aftur í tímann, til ársins 1993 þegar ég kom á Selfoss sem nýráðinn þjálfari hjá Körfuknattleiksdeild Umf. Selfoss. Fáum árum seinna tók ég við sem formaður deildarinnar, og gegndi því embætti, jafnframt þjálfun m.fl. og yngri flokka, til 2002, þegar bæjarstjórn Árborgar og sveitarstjórnarpólitíkin kom til.

Þetta eru því orðin 30 ár. Heil þrjátíu ár, eða hálf ævin, sem ég hef lagt líf og sál í uppbyggingu körfubolta á Selfossi. Og þrettán ár helgaðar íþróttinni má telja til viðbótar, allt frá 1980, þegar ég fór að heiman til náms í Reykjavík og byrjaði að æfa og spila með Val í úrvalsdeild, síðan ÍR, Reyni Sandgerði sem spilandi þjálfari, og loks Keflavík, áður en meiðsli enduðu ferilinn í efstu deild og landsliðinu árið 1987.

Við tók þjálfun Laugdæla í 1. deild og síðan Selfoss 1993, sem þá var í 2. deild, en fór upp í 1. deild vorið 1994 og þar hefur karlalið Selfoss verið síðan, að þremur árum undanskildum, þegar félagið lék í Úrvalsdeild, 2008-2010 og aftur 2015-2016.

Grunnurinn var auðvitað lagður mun fyrr, við barnsaldur, þegar körfubolti var „þjóðaríþrótt“ á Laugarvatni og margar ógleymanlegar stundir lifa í minninu úr gamla íþróttasalnum heima við Héraðsskólann, og úr félagsheimilum vítt og breitt um Suðurland, fyrst að fylgjast með eldri bræðrum mínum í liði UMFL og HSK og síðan sem virkur þátttakandi í skólaliðum Héraðsskólans og Menntaskólans, og liði UMFL í HSK-mótinu. Við fengum, nokkrir guttar á fermingaraldri, að stofna C-lið Umf. Laugdæla til að geta verið með í HSK mótinu, sem var mikið ævintýri, og síðan lá leiðin framar í stafrófið.

Sko, þetta átti nú ekki að verða ævisaga! Körfubolti er hins vegar svo fyrirferðarmikill að hann fléttast við líf mitt allar götur frá því ég man eftir mér.

En hvað hefur þá áunnist? „Hvað hefur orðið okkar starf í sexhundruð sumur? Höfum við gengið til góðs ….“?

Auðvitað er allt fólkið efst á blaði. Óteljandi vinir og kunningjar um allt land, þjálfarar, leikmenn, stjórnarfólk, sjálfboðaliðar, dómarar, og síðast en ekki síst velviljaðir forsvarsmenn fyrirtækja.

Það hefur verið meira en að segja það að koma körfubolta, „móður allra íþrótta“, á legg á Selfossi. Það hefur lengst af verið harðdrægt verkefni, í knattspyrnu- og handboltabæ, að ætla sér eitthvað með körfuboltalið, annað en að gutla að gamni sínu frá 21.30-23.00 tvisvar í viku, eins og úthlutaðir æfingatímar í íþróttahúsi bæjarins voru fyrstu árin. Það eru ósambærilegar aðstæður við bæjarfélög þar sem körfubolti er aðal boltagreinin innanhúss, eða jafnvel sú eina marktæka.

Það hjálpaði okkur að á 10. áratug 20. aldar reið yfir heiminn „Jordan-æði“, og smitaði meira að segja nokkra krakka á Selfossi, sem voru upphafið að skipulögðu yngriflokkastarfi með reglulegri þátttöku á opinberum mótum körfuboltasambandsins. „Fyrsta bylgjan“ reis hæst með tveimur Íslandsmeistaratitlum 1985 árgangsins, í 7. flokki drengja árið 1998 og 10. flokki drengja árið 2001, og nokkrum leikmönnum sem voru valdir í yngri landslið og spiluðu landsleiki. Bæði ´84 og ´85 árgangarnir spiluðu á efsta stigi, í A-riðli Íslandsmóts yngri flokka, og ungir menn af Jordan-kynslóðinni, fæddir á árunum kringum 1980, urðu kjarninn í meistaraflokksliðinu. Sá sem náði lengst af þeim var Marvin Valdimarsson sem átti langan og glæsilegan feril í efstu deild, fyrst með Hamri og síðar Stjörnunni. Fleiri mætti nefna, sem glatt hafa félagsmenn með frammistöðu sinni í Iðu og Gjánni, og gert sig gildandi í deildakeppninni hérlendis, en það verður ekki gert hér.

Árið 2005 urðu umskipti í sögu körfuboltans á Selfossi þegar Brynjar Karl Sigurðsson stofnaði körfuboltaakademíu við Fjölbrautaskólann. Umskiptin urðu fyrst og fremst á afrekssviði, og höfðu ekki bara áhrif á körfubolta, heldur umbyltu algerlega öllu afreksstarfi og -hugsun í íþróttahreyfingunni á Selfossi. Stofnað var nýtt íþróttafélag, körfuknattleiksfélag utan ungmennafélagsins, og hefur sú skipan haldist síðan: Körfuknattleiksfélag Selfoss blómstrar sjálfstætt og óháð.

Megináherslan í nýja félaginu, sem fyrstu árin var kennt við FSu, var á akademíuna og afreksstarf, sem var mikilvægt og nauðsynlegt, en minni áhersla var á barna- og unglingastarfið. Því trosnaði þráðurinn á tímabili og félagið saup seyðið af því, þegar leikmenn sem tóku sín fyrstu skref fyrir og upp úr aldamótum fóru smám saman að draga sig í hlé, en engir komu í staðinn.

Síðasta áratuginn eða svo hefur þessu verið kippt í liðinn og nú er mjög stór hópur afar efnilegra leikmanna úr „annarri bylgjunni“ að tínast inn í meistaraflokksliðið, að stærstum hluta f. 2006, „strákarnir hans Kalla“, og óslitinn þráður þaðan niður í leikskólaaldur. Úr þessum hópi hafa bæst við nokkrir landsliðsmenn yngri landsliða, leikmenn aldir upp hjá félaginu.

Félagið stendur því styrkum fótum, bíður eins og efnilegt tryppi að „grípa gangsins flug“. Innra starfið er að stórum hluta komið í fastar og traustar skorður, reksturinn er í jafnvægi réttum megin við núllið, yngriflokkastarfið, mikilvægasta auðlindin, er í öruggum höndum öflugs barna- og unglingaráðs og vel mannaðs þjálfarateymis, akademían aldrei verið eftirsóttari. Góður grunnur hefur verið lagður sem gefur fyrirheit um glæsta framtíð, ef rétt er á spilunum haldið.

Næstu skref eru að styrkja umgjörð um meistaraflokkslið karla og að stofna kvennaráð til að undirbúa og byggja upp kvennalið hjá félaginu. Of fáar stúlkur á unglingsaldri eru virkar en vaxandi fjöldi áhugasamra stelpna í minnibolta sem eru efnilegar íþróttakonur og nauðsynlegt að halda vel utan um þær.

Við þessar aðstæður finnst mér tímabært og rétt að stíga frá borði. Enginn er eilífur í sjálfboðaliðastarfi af þessu tagi, getur ekki verið það og á ekki að vera það. Ég treysti því að nýtt fólk með nýjar áherslur taki við og lyfti félaginu upp á næsta stall (annars er mér að mæta!!!).

Öllum sem blásið hafa í seglin undanfarin 30 ár þakka ég af heilum hug fyrir stuðninginn og samstarfið. Ekki síst fyrirtækjum sem lagt hafa til, sveitarfélaginu og fjölbrautaskólanum. Að ekki sé minnst á konu mína og fjölskyldu, sem hafa þurft að búa við það í 40 ár að skipuleggja frí og viðburði út frá leikjadagskrá og æfingaplani.

Síðasta embættisverkið bíður handan við hornið, að slíta aðalfundi þann 29. mars næstkomandi.

ÁFRAM SELFOSS-KARFA!!!

Takk fyrir mig.

Árið 2021

Árið 2021 er að renna sitt skeið á enda. Eins og hjá öðrum landsmönnum skiptust á skin og skúrir hjá okkur. Við hefðum t.d. gjarnan viljað vera meira á ferðinni, en þegar á allt er litið höfum við undan engu að kvarta. Við komumust þó til Stokkhólms í haustfríinu til að heimsækja litlu fjölskylduna okkar þar, en tengdadóttirin Bryndís Dagmar hóf sérnám sitt í endurhæfingalækningum síðsumars.This image has an empty alt attribute; its file name is Sif-2.jpg Það hefur verið svo að þegar ein fjölskyldan flytur heim, þá fer önnur af landi brott. Myndsímtöl eru svo alveg dásamleg tækni sem bjargar miklu þegar söknuðurinn knýr á.

Þó heilsan hefði mátt vera betri á köflum er næsta víst að aðrir höfðu það verra, minna milli handa og meiri erfiðleika við að stríða. Við hjónin eigum líka því láni að fagna að geta unað hvort við annað heima hjá okkur, að mestu án stríðsátaka, höfum lafað saman í tæp 39 ár og því orðin ágætlega sjóuð hvort í öðru. Við gefum lítið fyrir þá bábilju að það sé einhverskonar frelsisskerðing að njóta friðar á eigin heimili í sóttvarnaskyni, sjálfum okkur og öðrum til heilla.

Það sem stendur upp úr á árinu er að gæfan hefur gengið okkur við hlið og afkomenda okkar, allri fjölskyldunni. Þó ekki hafi allir lokið einhverjum „stóráföngum“ er okkur löngu orðið ljóst aðThis image has an empty alt attribute; its file name is Margrét-3.jpg mesta vegtyllan, alla vega hérna megin grafar, er heilsa og hamingja. Hvor tveggja hafa þær sannarlega verið með okkur öllum í liði.

Nokkra „hápunkta“ má þó nefna hér. Nýtt barnabarn bættist í hópinn, og fékk nafnið Sif, dóttir Ara og Rebekku Rutar. Hún er alveg jafn dásamleg og öll hin 9 barnabörnin okkar. Sveir mér ef hún er ekki fegursta barn sem fæddist á árinu, og ekkert bara „norðan Alpafjalla“. 

Þá bættust tvær stórglæsilegar stúdínur í hópinn, þegar Margrét útskrifaðist frá VÍ í maí og JasmínThis image has an empty alt attribute; its file name is Soffía.jpg frá FÁ núna í desember. Þessar ungu konur eru báðar á grænni grein og amma og afiThis image has an empty alt attribute; its file name is Raggi-2.jpg auðvitað alveg gríðarlega stolt af stóru stelpunum sínum. Þriðja glæsistúlkan í hópi barnabarna, hún Soffía Sif, kláraði grunnskólann og hóf nám í Borgó í haust. Og að lokum lauk Raggi tengdasonur námi í meistaraskólanum og ber nú titilinn Trésmíða- og byggingameistari.

Á næsta ári er von á þriðju stúdínunni, fermingu, og gott ef ekki stórafmæli! Já, já, já. Það er víst ekkert lát á þeim, sem minnir á að sá sem hér ritar náði þeim áfanga að verða sextugur og átti því láni að fagna að njóta dagsins í faðmi fjölskyldunnar. Um meira verður ekki beðið. 

Það sem hefur miður farið á árinu er að mestu takmarkað við hið pólitíska svið. „Æi, er ekki bara best að gera ekki neitt af viti“ lýsir því best. Engar hugsjónir, ekkert frumkvæði, engar umbætur eða nýjungar. Bara haldið áfram á sjálfstýringu á sömu, gömlu spillingarateinunum. Vonarstjarnan Kartín Jakobsdóttir, sem gekk í björg fyrir fjórum árum, lokaði í haust á eftir sér og dansar í myrkrinu með tröllunum – á ekki afturkvæmt að séð verður, því miður. Ekki meira um þá hörmungarsögu alla, nóg að vísa í upplýsandi umfjöllun HÉR og HÉR.

Eins og lofthjúpurinn og náttúran einkennist mannlífið af síauknum öfgum og firringu. Það fyrra auðvitað afleiðing af því síðartalda. Það eru hamfaratímar með gróðureldum, skýstrókum, flóðum, hitabylgjum, drepsóttum, stöðugum stríðsátökum, ofbeldi, einelti og „útilokunarmenningu“. Samfélagsumræðan fer um eins og skýstrókur og skilur eftir sig auðn og eyðileggingu. Hvert fárið af öðru skellur á. Hvað ætli taki við af „blóðmerafárinu“? Það er tímanna tákn að hópur sem berst að eigin sögn gegn ofbeldi og fyrir jafnrétti skuli velja sér nafnið „Öfgar“. Stöðva öfgar ofbeldi? Leiða þær til jafnræðis? 

Nei, fetum aðra slóð. Blásum í glæður hugsjónar um frið, jöfnuð, og manngildi. Höfum hugrekki til að breyta samfélaginu til batnaðar en stöndum ekki kyr með hendur í vösum meðan forréttindalestin brunar hjá.

Megi þjóðin upp af vanans ánauð 

og óráðssvefni vakna.

Hún vaxi upp úr firringu og finni

úr fllækjum sálar rakna.

Árið gefi hamingju og heilsu

og huggi þá er sakna.

 

 

Systa

Systa er dáin. Systa, sem alltaf var. Systa, sem stafaði af ljómi norðan úr landi. Systa, sem með brosi sínu, hlátri og hreinskiptni létti og hreinsaði allt andrúmsloft, hvar sem hún var og kom. Systa var hrein og bein. Systa var skemmtileg.

Védís Bjarnadóttir var yngri systir pabba míns. Heima var hún aldrei kölluð annað en Systa. Hún flutti ung til Húsavíkur með manni sínum, Villa Páls, áður en ég leit dagsins ljós, og fyrirThis image has an empty alt attribute; its file name is Systa.jpg  vikið mótaðist myndin af henni í hillingum fjarlægðar. Hún hringdi oft og kom í heimsóknir „heim í heiðardalinn“ sem hún unni og þær rætur trosnuðu aldrei. 

Systa og Villi. Þau voru eitt og ævinlega nefnd í sömu andránni. Aðrir geta betur sagt frá því hvað þau hafa gert fyrir samfélagið á Húsavík. En það verður alla vega aldrei mælt í neinum þekktum einingum.

Systa náði níræðisaldri, og tveimur mánuðum betur. Hún átti gæfuríka ævi. Hjónin bæði íþróttakennarar og störfuðu samhent að uppeldis og félagsmálum í bænum sínum, og raunar langt út fyrir bæjarmörkin. Börnin þeirra þrjú, frændsystkin mín, hafa öll fylgt fordæmi foreldra sinna og látið gott af sér leiða, öll kennarar sem hafa látið til sín taka, ekki bara í skólastofunni heldur í margvíslegum störfum hringinn í kringum landið – og vítt og breitt um heiminn. 

Mér er það minnisstætt þegar ég fékk 12-13 ára að fara eitt vorið með föður mínum í hrossadómaferð um Norðurland fyrir eitthvert stórmótið. Komið var til Húsavíkur og gist hjá Systu og Villa. Þar var auðvitað ekki í kot vísað hvað líkamlegar þarfir snerti. En ofar í minninu er hin hliðin, andlega næringin. Það var ekki lognmollan í kringum Systu en umhyggjan samt alltumlykjandi. Og Villi gantaðist með, á lágstemmdari hátt, brosandi út í annað með blik í augum. Okkur feðgum var vitaskuld boðið í hesthúsið og í reiðtúr á gæðingunum. Hesthúsin þá í túni í miðjum bænum. Það stafar ljóma af þessari heimsókn í minningunni.

Þegar landsmót UMFÍ var haldið á Húsavík 1987 var ég þar keppandi og við hjónin slógum upp tjaldi á keppnissvæðinu, með tvö ung börn. Um nóttina skall á þoka með vætu og kulda við frostmark. Og fyrr en varði vorum við komin inn á gafl hjá Systu og Villa. Ekki voru tjaldhælar aftur reknir í jörðu í þeirri ferð. Það er svo önnur saga að morguninn eftir var komin himinblíða, og stóð alla mótsdagana svo sem öllum er eftirminnilegt. 

Fyrir fáum árum ók ég hópi ferðamanna hringinn og komið var við í hvalaskoðun á Húsavík. Ég nýtti tímann á meðan til að kíkja til Systu og Villa. Þá var eitthvað farið að minnka þrekið hjá frænku, eftir áfall. Villi hins vegar á fullum snúningi, og er enn, kominn yfir nírætt. Það voru fagnaðarfundir og móttökurnar yndislegar eins og ævinlega. Margt var spjallað í eldhúsinu yfir kaffibolla og rjúkandi pönnukökum. Dýrmæt stund.

Systa var hlý og umhyggjusöm. En hún var líka opin og hreinskilin. Hún lét engan eiga neitt hjá sér og hikaði ekki við að „kúska fúinn kvist“ ef hún taldi þörf á því. Hún var sannkölluð kjarnakona. Blessuð sé minning Systu frænku.

Ég læt fljóta hér með kvæði sem ég orti til Systu á áttræðisafmæli hennar og mér finnst viðeigandi.

Haustdagar á Húsavík

Védís Bjarnadóttir áttræð

 

 

Haustið er komið á Húsavík

og við sjónhring

hafa Kinnarfjöllin klæðst

sinni köflóttu flík.

 

Við fjörðinn er grátt í rót

og fölnað bjarkarblað

en von um margan dýrðardag

áður vetur leggst að.

 

Golan sem í vor

kom sunnan yfir heiðar,

bæði hlý og glettin,

nostrar margt og nýtur skjóls

í litlum, þéttum lundi.

 

Eðli sunnangolu samkvæmt

aumt má ekkert sjá,

að morgni jafnan aftur andar

yl í hélað strá.

 

Getur líka tekið sprettinn,

feykt til grein

og kúskað fúinn kvist.

 

Sveipar jörð við sólarlag,

sátt við gengin spor,

þegar hafflöt hefur strokið,

faðmað kæran fjörustein

og kysst.