Gamlar hestavísur

Rakst á gamlar vísur sem ég orti um strákana mína og hestana þeirra. Myndirnar sem fylgja eru teknar á Landsmóti hestamanna í Reykjavík árið 2000, af Ragnari á Létti, í B-úrslitum í unglingaflokki, og af Ara á Þokka, fimm vetra gömlum, í keppni í barnaflokki. Léttir var glæsihestur, undan Gjálp, hinni landsfrægu kappreiðameri sem vann marga glæsta sigra á sínum tíma, og Galdri frá Laugarvatni. Hann  fór til Svíþjóðar og er þar með úr sögunni, blessaður. Þokki er undan Hlé frá Þóroddsstöðum, reiðhesti Margrétar hrossabónda þar, og Iðu frá Þorbergsstöðum, mikill uppáhaldshestur og snillingur sem þjónar enn heimilisfólki með miklum sóma, orðinn 17 vetra.

Ragnar og Léttir

Ragnar og Léttir

Töltið settur tifar nett,
taktur réttur undir.
Ragnar Létti langan sprett
leggur sléttar grundir.

 

 

Ari og Þokki

Á tölti hrokkinn liðar lokk,Ari.Þokki
léttast stokkið hefur.
Ara Þokki, fremst í flokk,
flugabrokkið gefur.

Sproti

Meðfylgjandi mynd sendi Hreinn bróðir af Sprota sínum, syni Spátu (dóttur Galdurs og Spár) og Þórodds. Þarna er folinn á frumstigi tamningar og leynir sér ekki mýktin í spori og glæsileikinn í framgöngu. Sendi honum eina vísu:

Prúður gengur folinn frjáls
fögrum litnum skartar.
Með vind í faxi vefur háls,
vonir kveikir bjartar.

Í krapasulli

Magnús Halldórsson, hestamaður og hagyrðingur á Hvolsvelli, sendi mér meðfylgjandi mynd af sér á Stuðli sínum með fyrirsöginni: Gamall maður á ágætum hesti. Sagðist hafa verið á útreiðum í krapasulli, sem þó væri óvanaleg færð á þeim slóðum.Magnús og Stuðull í flugtaki

Ég sendi honum þessa vísu til baka:

Í krapasulli karlinn gamli
keyrir ljóðastaf.
Flugtak nálgast, helst að hamli
að hettan fýkur af.

Magnús svaraði um hæl:

Hæðum andans helst ég næ,
huga minn þá næri.
Ef ljóðstafina letrað fæ,
á listilegu færi.

Félagshegðun í dýraríkinu

Ég gerði mér ferð á laugardaginn í hrossarag. Ætlunin var að taka á hús eitt hross, leirljósa meri stjörnótta, ágætt hross á besta aldri, sem er geld þetta árið. Einnig stefndi ég að því að taka elstu klárana mína þrjá og færa þá á betri haga. Með mér í för var Jasmín, dótturdóttir á 13. ári sem er útsett fyrir hestabakteríunni – og dvaldi hjá ömmu og afa á Selfossi yfir helgina. Og hundtíkin Þula var aftur í skotti, gríðarlega spennt.

Við komum á staðinn og köllum í klárana, sem koma „med det samme“, þiggja brauðbita og múl, og elta viljugir upp á kerru. Þeir eru allir í gullfallegu standi. Þá er að færa sig í næsta hólf, þar sem eru nokkur hross í heyi, m.a. sú leirljósa og fylfull hryssa jarpnösótt, við Þóroddi, hvorki meira né minna. Einnig eru þar tveir klárar sem ég hef nýlega tekið á gjöf og ein þrjú hross önnur, í annarra eigu.

Við Jasmín veifum brauðpokanum og allt hópast í kringum okkur. Ljósbrá, sú leirljósa, lætur leggja við sig án vandræða og teyma upp á kerru viðstöðulaust. Allt er þetta nú alveg yndislegt!

En Galdurssynirnir og albræðurnir Freyr og Þeyr, tiltölulega nýkomnir í hópinn, halda sig í óeðlilegri fjarlægð. Af hverju koma þeir ekki í brauðið? Við röltum af stað til þeirra með plastpokann á lofti og þeir átta sig strax, reisa háls og sperra eyru. En koma ekki á móti okkur. Þegar við erum komin vel hálfa leið til þeirra, gerist það óvænta að þeir hörfa á brott, sveiflandi tagli. Ég botna ekkert í þessu!

En svo átta ég mig. Kemur ekki kvikindi brúnt á fullum spretti fram úr okkur, með hausinn teygðan fram og eyrun límd aftur og hjólar í blessaða klárana mína! Það er alveg eins og þetta illfygli hafi nýlega verið hrakið úr Seðlabankanum, svo illskeytt er það. Hefur auðvitað varið, bæði með kjafti og hófum, helstu gæðin – heyrúlluna – til einkanota fyrir sína nánustu klíku, og lagt á sig langa spretti til að bíta aðra og berja frá, halda þeim tryggilega „utangarðs“.

Ég sé að engra annarra kosta er völ en að forða reiðhestunum mínum úr þessu mötuneyti, en þarf fyrst að fara eina ferð með fulla kerruna. Þegar við Jasmín komum aftur þarf að hrekja þann brúna í örugga fjarlægð áður en klárarnir stillast, svo hægt sé að leggja við þá. Þar sem ég teymi þá í áttina að kerrunni, kemur þá ekki meinhornið einn ganginn enn á fullum spretti! Hvílík heift og langrækni!

Og ég ákveð að forða þeirri fylfullu burtu líka. Þó hún sé í náðinni í augnablikinu er aldrei að vita hvað gerist þegar hún kastar og ég kæri mig ekki um að eiga það á hættu að láta slasa eða drepa fyrir mér folaldið, þegar þar að kemur.

Að vaða elginn

Ég þurfti heldur betur að vaða elginn seinnipartinn í dag. Fór eftir vinnu að líta á blessaða klárana mína (sem stilla sér upp á myndinni hér að ofan). Aðeins var farið að rökkva og ekki mjög víðsýnt fyrir bragðið, en þegar sá yfir beitarhólfið blasti við ófögur sjón: Allt á floti! Árfarvegurinn bakkafullur af snjó og í leysingunum flæddi áin um allt – eins og úthaf yfir að líta (þó ekki láti hún mikið yfir sér hér á myndinni)! Og þeir hímdu uppi á skurðsruðningi, blessaðir kallarnir. Ekki var annað að gera en bruna heim aftur og sækja beisli og brauðmola.

Og svo var að vaða elginn – stígvélin týnd frá því í Kjalferðinni í sumar. Freyr (sá jarptvístjörnótti)  kom á móti mér þegar ég var kominn yfir hafið og upp á ruðninginn, þáði bæði brauðmolann og mélin með þökkum. Ekki þurfti að beisla fleiri, því Þokki (sá moldótti) áttaði sig strax og fetaði sig af stað í áttina upp að hliði. Það var hálfgert torleiði, hált á ruðningunum og á milli þeirra bunaði vatnselgur upp á miðjan legg  – ofan á svelli. En Þokki hélt ótrauður áfram og hinir í humátt á eftir. Við Freyr rákum svo lestina. Allir komumst við svo votir í lappirnar upp að hliði, en þá var seinni hlutinn eftir, að komast upp á veg og yfir á þurrt land í hólfi handan vegar.

Ég beislaði alla fimm og teymdi af stað. Flughált á slóðanum upp að brú en þetta hafðist. Handan brúar fossaði vatnið yfir vegarslóðann á 10 metra breiðum kafla. Spurning hvort við gætum fótað okkur í straumnum, á þessari líka glæru? Fetaði mig út í og fann fljótlega að sem betur fer var ísinn aðeins farinn að digna undan vatnsflaumnum og því ekki eins hált og ætla mátti. Allt gekk því vel og fyrr en varði vorum við komnir upp á bílveginn. Hliðið að hólfinu þar rétt handan og öllum því borgið.

Mikið óskaplega skynjar maður það vel við aðstæður sem þessar hve yfirburðagáfuð og traust skepna þetta er, íslenski hesturinn. Og þakklætið skein úr hreinlyndum augunum þegar ég kvaddi þessa ferðafélaga mína og bestu vini.